Pólitískum áherslum og markmiðum tímabilsins 2025–2030 er lýst í samstarfsáætluninni á sviði orkumála. Í norrænu samstarfi á sviði orkumála verður sjónum einkum beint að afhendingaröryggi orku, samstarfi um raforkumarkað, styrkingu á stöðu Norðurlanda í tengslum við orkuskipti og nýsköpun, auk alþjóðlegs samstarfs.
Samstarfsáætlunin gengur út frá því markmiði Norrænu ráðherranefndarinnar að stuðla að framtíðarsýninni um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Allar ráðherranefndir Norrænu ráðherranefndarinnar vinna að því að gera framtíðarsýnina að veruleika samkvæmt þremur stefnumarkandi áherslum: græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.
Norðurlandaráð, borgarasamfélagið og aðrir viðeigandi aðilar komu að gerð samstarfsáætlunarinnar. Einkum tók norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin þátt í gerð hennar og norræna sjálfbærninefndin veitti álit sitt á efni hennar. Þá kveiktu aðilar orkumarkaðarins hugmyndir að innihaldi samstarfsáætlunarinnar á hinni árlegu ráðstefnu norræna raforkumarkaðarins 2023.
Samstarfsáætlunin er stjórntæki fyrir alla starfsemi ráðherranefndarinnar um orkumál. Unnar verða tvær sjálfstæðar starfsáætlanir fyrir tímabilin 2025–2027 og 2028–2030 sem munu tengja saman pólitískar áherslur og markmið samstarfsáætlunarinnar og þær aðgerðir sem fagsviðið hyggst hrinda í framkvæmd.
Ráðherranefndin samþykkti samstarfsáætlunina hinn 3. október 2024 og gildir hún til 31. desember 2030.