Fara í innihald

Markmið 2: Styrkja stöðu Norðurlanda fyrir orkuskipti og nýsköpun

Þegar kemur að nýsköpun og nýrri tækni vegna orkuskipta búa norrænu löndin saman yfir þeirri rannsóknar- og nýsköpunargetu sem nauðsynleg er til þess að Norðurlönd geti verið í fararbroddi í þróun nýrrar tækni.
ulf_grünbaum-biogas_facility-7622.jpg

Undirmarkmið 2.1: Ná styrkri stöðu í allri virðiskeðjunni fyrir nýja tækni. Undir þetta fellur samstarf um vetni og aðra nýja orkugjafa (þ. á m. innviði), föngun, nýtingu og bindingu koldíoxíðs og orkugeymslu.

Ekki er hægt að rafvæða alla orkunotkun og því er vinnan í tengslum við vetni, ammoníak, rafmetanól aðrar gerðir rafeldsneytis mikilvæg. Aukið norrænt samstarf um þessa nýju tækni á að stuðla að sjálfbærri umskiptingu í þeim atvinnugreinum sem erfitt er eða óhagkvæmt að rafvæða með beinum hætti, svo sem stál- og efnavöruiðnað og þungaflutninga að hluta, og þannig draga úr þörfinni á innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Að auki á samstarfið að stuðla að því að auka tækifæri norræns atvinnulífs á að vera í fararbroddi í þessari þróun og leggja sitt af mörkum til hnattrænna umskipta.  Um þessar mundir er vetni í brennidepli í norrænu orkumálasamstarfi en til lengri tíma litið má útvíkka samstarfið í auknum mæli til annarra orkugjafa.  

Undirmarkmið 2.2: Markvissara samstarf um bættar aðgerðir í þágu orkunýtni.

Skilvirk nýting orkunnar hefur átt sinn þátt í því að byggja upp vel starfhæf orkukerfi norrænu landanna og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig skiptir orkunýtni máli varðandi samkeppnishæfni atvinnulífsins. Í samstarfi um orkunýtni er áhersla lögð á verkefni sem styðja við viðleitni landanna til þess að bæta orkunýtni með tæknilegum breytingum og breyttri hegðun jafnt almennings sem fyrirtækja. Undir þetta falla sameiginlegar aðgerðir á sviðum á borð við orkumerkingar og visthönnun, sem og hringrásarhagkerfi og nýtingu umframvarma.