Fara í innihald

Markmið 2: Norðurlönd skulu stuðla að góðri líkamlegri og andlegri heilsu, velferð og lífsgæðum fyrir alla 

Á Norðurlöndum eiga allir að geta lifað góðu og sjálfstæðu lífi sem tryggir góða líkamlega og andlega heilsu einstaklingsins. Með því að stuðla að líkamlegri og andlegri heilsu erum við sterkari sem svæði; færri koma til með að þurfa á heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda og fleiri geta tekið virkan þátt í að tryggja gott samfélag. Þess vegna verðum við að leggja áherslu á snemmbærar, fyrirbyggjandi og heilsueflandi aðgerðir fyrir hópa sem eru á jaðri samfélagsins, til dæmis vegna fötlunar. Endurhæfingar og þjálfunarúrræði, t.d. hjálpartæki, þurfa að vera sjálfsagður hluti forvarnarstarfs og heilsueflandi vinnu.
plattform-youth_clinics-10488.jpg

Undirmarkmið 2.1: Öllum skal bjóðast snemmbær, fyrirbyggjandi, heilsueflandi, endurhæfandi og viðeigandi úrræði til að minnka misskiptingu í heilbrigðismálum. 

Hluti Norðurlandabúa verður fyrir miklum áhrifum af alvarlegum líkamlegum og andlegum sjúkdómum sem eru afleiðingar óheilbrigðra lifnaðarhátta, verulegrar ofþyngdar, kyrrsetu og skaðlegrar misnotkunar á áfengi, nikótínvörum og eiturlyfjum. Meðhöndlun þessara sjúkdóma er kostnaðarsöm fyrir bæði samfélagið og einstaklinga. Þess vegna þarf að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir óheilbrigða lifnaðarhætti, auka aðgengi að snemmbærum meðferðarúrræðum með sérstakri áherslu á börn og ungmenni og efla lýðheilsu almennt.  Til að tryggja jafnan aðgang að meðferð og vinna forvarnir gegn sjúkdómum þarf einnig að auka þekkingu á jafnrétti í heilbrigðismálum.

Undirmarkmið 2.2: Enginn ætti að vera varnarlaus gagnvart andlegum veikindum eða einsemd 

Margir hópar í samfélaginu eru í hættu gagnvart geðrænum vandamálum, t.d. fólk í slæmri félagslegri stöðu, eldra fólk, fólk sem býr við fötlun, hinsegin fólk og hópar innflytjenda. Sífellt fleiri ungmenni á Norðurlöndum segjast finna fyrir vanlíðan, einsemd og tilfinningu um almenna vanmáttarkennd. Snemmbærar aðgerðir geta átt þátt í því að ná til ungs fólks sem er í hættu á að lenda utan menntakerfisins og vinnumarkaðarins vegna andlegra veikinda. Við þurfum að skoða upplifun íbúa norrænu landanna af einmanaleika. Í þessu starfi er einnig nauðsynlegt að leggja sérstaka áherslu á forvarnaraðgerðir gegn sjálfsvígum.

Undirmarkmið 2.3: Enginn ætti að verða fyrir andlegu eða líkamlegu ofbeldi eða kúgun 

Ofbeldi í nánum samböndum, sérstaklega af hálfu karla gegn konum, er því miður enn stórt vandamál á Norðurlöndum. Allir þurfa að geta fundið fyrir öryggi heima hjá sér og í nánu sambandi. Mikilvægt er að uppræta ofbeldi snemma og vinna að því að fórnarlömb fái þá hjálp og stuðning sem þau þurfa. Samtímis þarf að vinna með fyrirbyggjandi og endurhæfandi hætti svo að færri beiti ofbeldi. Miðla þarf þekkingu á forvörnum og árangursríkum aðgerðum gegn þessu vandamáli um norrænu löndin öll og fylgjast þarf náið með þróuninni.