Fara í innihald

Markmið 1: Velferðarkerfi Norðurlanda skulu vera sjálfbær, af miklum gæðum, örugg fyrir notendur jafnt sem starfsfólk og aðgengileg öllum

Til að Norðurlönd verði sjálfbærasta, samkeppnishæfasta og félagslega sjálfbærasta svæði heims þarf að styrkja norrænu velferðarkerfin enn frekar og búa þau undir þá framtíð sem við stöndum frammi fyrir. Öflug velferðarkerfi með jafnan og réttlátan aðgang fyrir alla munu stuðla að því að fleiri geti framfleytt sér og tekið virkan þátt í samfélaginu – sem og öflugra og réttlátara samfélagi með bættri líkamlegri og andlegri heilsu. Engu að síður þarf að aðlaga velferðarkerfin að lýðfræðilegri þróun og skipuleggja þau þannig að meðferðir og aðgerðir verði árangursríkar, sjálfbærar og tryggar til framtíðar. Til að tryggja megi heilbrigðiskerfi framtíðarinnar verðum við að bregðast við ógnum á borð við sýklalyfjaónæmi, tryggja aðgengi að lyfjum, efla heilbrigðisviðbúnað og auka afhendingaröryggi.
elisabeth_edén-elderly_care-5246.jpg

Undirmarkmið 1.1: Velferðarkerfi Norðurlanda skulu vera skilvirk, aðgengileg, nálæg, örugg fyrir bæði sjúkinga og heilbrigðisstarfsfólk og byggð á forvörnum og eflingu með notandann í miðpunkti. 

Aðeins með jöfnum aðgangi að heilbrigðis- og félagsþjónustu – snemma í ferlinu og þegar þörfin verður til – og með náinni þverfaglegri samræmingu og samstarfi innan félags- og heilbrigðiskerfa getum við minnkað ójöfnuð, aukið samstöðu og atvinnuþátttöku og skapað félagslega sjálfbært svæði. Til að geta gripið fyrr inn í og boðið öllum stuðning þarf samþætta, einfalda og skilvirka velferðarþjónustu sem og endurmat á meðferðarúrræðum og -framboði.

Undirmarkmið 1.2: Velferðarkerfi Norðurlanda þurfa að vera nægilega vel mönnuð og rekin af hæfu starfsfólki.  

Við verðum að tryggja nægilegan fjölda starfsfólks í félags- og heilbrigðisþjónustu, að vinnuumhverfi þess sé gott, vinnuaðferðir þess skilvirkar og þekkingargrunnur við hæfi. Velferðartækni og aukið norrænt þekkingarsamstarf geta verið hluti af lausninni. Um leið getur stafrænt aðgengi og aðrar sveigjanlegar fjarskiptalausnir leitt til betra og aukins framboðs til íbúa í dreifbýli og gert íbúa Norðurlanda að kleift að þiggja þjónustu þvert á landamæri.

Undirmarkmið 1.3: Norðurlönd eiga að búa við sameiginlegan viðbúnað á sviði heilbrigðismála, viðnámsþrótt og traustar og sjálfbærar afhendingarkeðjur.  

Staða öryggimála er grafalvarleg. Við verðum að vera búin undir heilbrigðisvanda og -hamfarir framtíðarinnar. Betri og samræmdari viðbúnaður í krísum og bein tól fyrir norrænt samstarf um heilbrigðisviðbúnað geta verið hluti af lausninni. Auka þarf getu félags- og heilbrigðiskerfa til að bregðast við aðstæðum þar sem fjöldi fólks slasast. Samþætta þarf lýðheilsusjónarmið og líkamlegan og andlegan stuðning inn í heilbrigðisviðbúnaðinn. 

Undirmarkmið 1.4: Minnka þarf notkun sýklalyfja og auka vitund um afleiðingar ofnotkunar þeirra.  

Halda þarf áfram baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi út frá sjónarmiðum Einnar heilsu (e. One Health) þar sem litið er á samverkan heilsu manna og dýra, matvæla og umhverfis. Forvarnarstarf til að koma í veg fyrir sýkingar og smitleiðir getur dregið úr þörf á sýklalyfjameðferðum. Til að að geta rekið nútímaleg heilbrigðiskerfi og hægt á þróun ónæmra sýkla þurfum við aðgengi að miklu úrvali sýklalyfja og auka vitund um afleiðingar ofnotkunar þeirra. Í samstarfinu þarf framvegis að leggja áherslu á bætt aðgengi að skilvirkum sýklalyfjum í löndunum. Norðurlönd þurfa að stuðla að aukinni alþjóðlegri þátttöku í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.

Undirmarkmið 1.5: Efla þarf vinnuna að því að auka aðgengi að lyfjum. 

Markaðir norrænu landanna eru hver fyrir sig tiltölulega smáir, sem skapar áskoranir fyrir lyfjakaup og þar með meðhöndlun m.a. sýkinga og sjaldgæfra og flókinna sjúkdóma. Aukið norrænt samstarf um lyfjainnkaup ætti að bæta aðgengið fyrir markaði okkar. Miðlun þekkingar á nýjum meðferðaraðferðum er einnig mikilvægur liður í því að gera góð meðferðarúrræði aðgengileg sjúklingum á Norðurlöndum.