Fara í innihald

Bakgrunnur

Norræna velferðarlíkanið er almennt líkan og meginstoð þess er ókeypis og jafn aðgangur allra. Allir íbúar Norðurlanda eiga að hafa tækifæri til að lifa góðu og heilbrigðu lífi og geta fengið góða hjálp þegar þeir þurfa á að halda. Norðurlönd sem svæði standa hins vegar frammi fyrir ýmsum áskorunum sem krefjast þess að ráðherranefndin um félags- og heilbrigðismál vinni markvisst og með metnaðarfullum hætti.

Mæta kerfislægum áskorunum fyrir norræna velferðarkerfið

Skortur á vinnuafli, lýðfræðileg þróun og aukin þörf á flóknum meðferðarúrræðum krefjast betri vinnuaðferða þar sem starfskraftar og hæfni nýtast með sem skilvirkustum hætti. Stafrænar lausnir og velferðartæknilausnir, snemmbærari og markvissari fyrirbyggjandi og uppbyggilegar aðgerðir sem og öflugt samstarf þvert á faggreinar, hæfnisvið og landsvæði geta stuðlað að nýjum og betri meðferðum. Einnig er þörf á samnorrænni sýn á það hvernig við ráðum, höldum í og endurmenntum í sífellu vinnuafl með árangursríkum hætti. Einnig þarf að leggja áherslu á aukið samstarf og stuðning við virkt borgarasamfélag.

Auka inngildingu, hreyfanleika og jöfn tækifæri fyrir alla

Við þurfum að standa vörð um og þróa Norðurlönd sem svæði með jöfnum tækifærum og réttindum allra, mikilli atvinnuþátttöku, hraustum efnahag, miklu trausti og öflugum velferðar- og heilbrigðiskerfum. Þess vegna þurfum við að halda áfram að vinna að því að stuðla að jöfnum tækifærum og koma í veg fyrir að fólk sitji eftir vegna félagshagfræðilegra aðstæðna, takmarkaðra möguleika á strjálbýlum svæðum og framboðs innan félagsmála- og heilbrigðiskerfisins, sem getur verið flókið og óaðgengilegt fyrir einstaklinga sem leita sér hjálpar. Um leið þurfum við að vinna að því að minnka misskiptingu í heilbrigðismálum. Þess vegna þarf að setja lýðheilsupólitískt og heilsueflandi starf í forgang og efla það til að skapa forsendur fyrir góðri og jafnri heilsu á Norðurlöndum.

Efla viðnámsþrótt og sjálfbærni fyrir trygga velferð

Við þurfum að vinna að þróttmiklum og sjálfbærum Norðurlöndum. Norðurlöndum sem eru sveigjanleg og undirbúin fyrir samfélagsleg og alþjóðleg vandamál, rétt eins og þau sem við höfum staðið frammi fyrir á undanförnum árum. Til dæmis stuðlar loftlagvandinn einnig að heilbrigðisvanda og mun verða ein af áskorunum heilbrigðis- og umönnunargeirans um ókomna tíð. Stuðla þarf að umskiptum yfir í sjálfbær félags- og heilbrigðskerfi sem losa lítið og eru aðlöguð að loftslagsbreytingum. Norrænu löndin þurfa einnig vegna versnandi aðstæðna í heiminum að vera tilbúin til að auka viðbúnað. Norðurlönd þurfa að búa yfir öflugum og sjálfbærum heilbrigðisviðbúnaði og afhendingaröryggi. Norðurlönd þurfa í sameiningu að bregðast við sýklalyfjaónæmi sem er ein stærsta ógn við lýðheilsu og möguleika þess að geta í framtíðinni meðhöndlað sýkingar og nýtt meðferðarúrræði samtímans.  Norðurlönd eiga að vera svæði þar sem allir finna fyrir öryggi – bæði líkamlegu og félagslegu, og þar sem fleiri geta lagt sitt af mörkum. Þegar við á þarf að taka tillit til nærliggjandi svæða og annars alþjóðlegs samstarfs.
Með hliðsjón af þessu telur Norræn ráðherranefnd félags- og heilbrigðismála eftirfarandi þrjár tegundir aðgerða sérstaklega viðeigandi fyrir framkvæmd samstarfsáætlunarinnar:
  • Fyrirbyggjandi, uppbyggilegar og tímanlegar aðgerðir
  • Stafvæðing og nýsköpun
  • Samstarf og þátttaka borgarasamfélagsins
Til að mæta núverandi áskorunum á sviði félags- og heilbrigðismála hefur ráðherranefndin um félags- og heilbrigðismál komist að samkomulagi um að samnorrænar aðgerðir á tímabilinu 2025–2030 skuli stuðla að eftirfarandi markmiðum og undirmarkmiðum.