Árið 2019 samþykktu norrænu forsætisráðherrarnir Framtíðarsýn okkar um að Norðurlönd verði árið 2030 orðið sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Eftirfylgni með vinnunni að framtíðarsýninni frá árinu 2023 sýnir meðal annars að við erum komin langt í átt að félagslega sjálfbæru svæði sem einkennist af góðri heilsu, mikilli atvinnuþátttöku, miklu trausti og lágri glæpatíðni.
Þó eru enn ýmsar áskoranir sem bregðast þarf við svo að Norðurlönd nái markmiði sínu. Félags- og heilbrigðismál skipta máli þegar takast skal þá við þessar áskoranir og nýta ný tækifæri.
Heimurinn hefur breyst síðan framtíðarsýnin var samþykkt. Við höfum upplifað stærsta heimsfaraldur samtímans, stríð er hafið í Evrópu, verðbólga hefur aukist á Norðurlöndum og sérstaklega hefur matar- og orkuverð hækkað þannig að það hefur áhrif á daglegt líf íbúa landanna. Samtímis einkennist lýðfræðileg þróun af vaxandi íbúafjölda með hækkandi meðalaldri.
Afleiðing þessa er að á Norðurlöndum er nú hætta á að þessar alþjóðlegu breytingar bitni sérstaklega illa á einstökum hópum.
Hækkandi meðalaldur mun í auknum mæli verða áskorun fyrir heilbrigðis- og velferðarkerfin er fleiri þurfa á stuðningi að halda um leið og fækkun verður á vinnuafli og hlutfall ungs fólks minnkar. Sérstaklega strjálbýl svæði eru og munu áfram verða fyrir miklum áhrifum.
Álagið á heilbrigðis- og velferðarkerfin samhliða aukinni verðbólgu skapa hættu á auknum félagslegum og heilbrigðislegum ójöfnuði á Norðurlöndum. Þörf er á auknum aðgerðum til að tryggja að allir hafi jafnan aðgang að velferðarkerfinu og jöfn tækifæri til að lifa heilbrigðu og góðu lífi.
Þetta eru aðeins nokkrar hinna almennu áskorana á sviði heilbrigðis- og félagsmála sem norræn samfélög standa frammi fyrir. En sem betur fer stöndum við einnig frammi fyrir ýmsum mögulegum lausnum, sér í lagi ef við vinnum náið saman.
Með norrænu samstarfsáætluninni um félags- og heilbrigðismál er því brugðist við þessum áskorunum og er það markmið okkar að hinar væntanlegu þriggja ára starfsáætlanir beini sjónum markvisst að aðgerðum sem geta átt þátt því í að leysa þessar áskoranir og minnka umfang þeirra.
Góða skemmtun við lesturinn!