Fara í innihald

Pólitískar áherslur  

Modell_IS2.jpg


Áskoranir og tækifæri á sviði atvinnulífs

Hinar miklu áskoranir í málefnum atvinnulífsins til ársins 2030 eru nátengdar ýmsum hnattrænum og samfélagslegum áskorunum.

Loftslagsmarkmið og umhverfissjónarmið

Tryggja verður græn umskipti og hraða þeim ef takast á að ná loftslagsmarkmiðum. Mikilvægar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum krefjast nýrrar nálgunar í nýsköpun en hún mun geta greitt fyrir þeirri hröðu tækniþróun sem er drifkraftur grænna og stafrænna umskipta og hagvaxtar á Norðurlöndum. Norrænar lausnir og þekking geta stuðlað að því að dregið verði úr losun á Norðurlöndum og aðstoðað önnur lönd við að taka á loftslagsvandanum. Gagnger umskipti gera ýmsar nýjar kröfur til atvinnulífsins. Með því að efla samstarf um nýstárlegar, grænar og sjálfbærar lausnir en einnig auka samþættingu á svæðinu geta Norðurlöndin tryggt samkeppnisfærni norrænna fyrirtækja til að skapa hagvöxt og arðbær störf sem viðhalda lífskjörum á svæðinu. Hluti samstarfsins verður að taka á sameiginlegum veikleikum og styrkja um leið stöðu Norðurlanda sem leiðandi græns svæðis.

Hnattræn samkeppni og hröð tækniþróun

Norræn fyrirtæki verða í auknum mæli fyrir hnattrænni samkeppni. Það á ekki síst við um grænar lausnir sem eru eftirsóttar um allan heim en einnig stafræna þróun sem hefur í för með sér að vörur og þjónusta verða æ óháðari landamærum og samgöngum. Stafvæðing er einn helsti þátturinn í tækniþróun og á það við þvert á öll svið. Stafræn tækni hefur þegar haft umbreytandi áhrif á hagkerfi og atvinnulíf Norðurlanda, bæði í einkageiranum og þeim opinbera. Hröð þróun gervigreindar og sjálfvirknivæðing eru dæmi um þetta. Þessi þróun mun krefjast mikillar aðlögunarhæfni af hálfu atvinnulífsins sem verður að vinna markvisst með notkun og þróun stafrænna lausna.      

Landfræðipólitískar áskoranir

Landfræðipólitískar áskoranir eru orðnar mjög áberandi hvað varðar málefni atvinnulífsins og pólitískar og efnahagslegar afleiðingar þeirra eru greinilegar. Afleiðingarnar birtast meðal annars í aukinni verðbólgu og efnahagslegum samdrætti. Landfræðipólitísk óvissa veldur því að hnattrænar aðfangakeðjur verða viðkvæmar og bitnar það á framboði á mikilvægum hráefnum. Fyrir vikið þarf að auka skipulag innan svæðisins og athyglin beinist að sjálfsögðu að aðgangi Norðurlanda að mikilvægum auðlindum, aðfangakeðjum og færni til að mynda og viðhalda nýjum og grænum virðiskeðjum sem skapa ný tækifæri fyrir atvinnulífið og gefa kost á hagvexti. Nýr landfræðipólitískur veruleiki felur í sér sérstakar áskoranir fyrir Norðurlönd sem eru háð opnum alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum. Sú staða hefur breyst vegna landfræðipólitískrar spennu, vaxandi viðskiptahafta og ríkisstyrkjaaðgerða sem geta skekkt samkeppnisstöðuna. Norðurlöndin geta tekið höndum saman um að nýta sameiginlegar styrkleikastöður og taka á berskjöldun norrænna fyrirtækja.

Lýðfræðilegar og samfélagslegar breytingar

Norðurlönd standa frammi fyrir umbreytandi lýðfræðilegum og samfélagslegum breytingum sem valda stöðugt vaxandi álagi á norræn velferðar- og heilbrigðiskerfi. Árið 2040 verða 5,6 milljónir Norðurlandabúa komnar yfir sjötugt.
Helsengren, M.B. et al. (2022). Business Case for sharing of Nordic health data. EY, Vista Analyse AS og Rosaldo OY on behalf of Nordic innovation. Norræna nýsköpunarmiðstöðin
Æ hærra hlutfall eldri borgara auk fjölgunar ólæknandi sjúkdóma og lífsstílssjúkdóma eru meðal helstu áskorana velferðarsamfélaganna. Samfélagsbreytingar munu hafa áhrif á atvinnulífið en einnig viðskiptaumhverfið. Áskoranirnar undirstrika um leið mikil sóknarfæri á Norðurlöndum fyrir nýsköpun og hagvöxt á sviðum lífvísinda, heilbrigðis og velferðar. Norræn heilbrigðis- og velferðarkerfi eru meðal þeirra öflugustu í heimi og svæðið er leiðandi á sviði notkunar á nýskapandi, stafrænum og opnum heilbrigðislausnum.
op.cit. p. 14.
Samstarf einkageira og opinbera geira atvinnulífsins, notkun og miðlun gagna ásamt samvirkni kerfa og staðla eru helstu forsendur þess að hægt sé að raungera einstök tækifæri fyrir nýsköpun og hagvöxt á sviði heilbrigðis og velferðar á Norðurlöndum.

Norrænn virðisauki í forgangsmálum samstarfsáætlunarinnar

Norrænn virðisauki er mikilvægt viðmið þegar meta á mikilvægi og skilvirkni norræns samstarfs.
Norrænn virðisauki er sá sem skapast af aðgerðum sem koma til viðbótar við virði sem hefði skapast í löndunum sjálfum. Norrænn virðisauki getur meðal annars falist í aðgerðum sem skapa tengsl, draga úr hindrunum og sundrung, safna saman auðlindum og færni, raungera ónýtt tækifæri og skapa samlegðaráhrif.
European Commission (2011). The added value of the EU budget. Commission Staff Working Paper. SEC (2011) 867 final. 2-4.
Norrænt samstarf um atvinnustefnu á að skapa skýran virðisauka fyrir löndin og fylla út starf þeirra í löndunum og á ESB-stigi. Til að skapa meiri virðisauka norræns samstarfs verða löndin að veðja á aukinn skilning og samstarf á sviðum þar sem styrkleikastöður landanna bæta hver aðra enn betur upp í virðiskeðjum og vistkerfum þvert á landamæri og svið. Norðurlöndin búa yfir sameiginlegum verðmætagrunni og öflugu atvinnulífi sem veitir góð skilyrði til að koma á fót sterkum klösum og sjálfbærum og öruggum virðiskeðjum sem stuðla að norrænum virðisauka. Norrænt samstarf getur gefið kost á hraðari umskiptum þar sem tekist er á við sameiginlegar áskoranir með sameiginlegum aðgerðum.
Til að skapa meiri virðisauka norræns samstarfs verða löndin að veðja á aukinn skilning og samstarf á sviðum þar sem styrkleikastöður landanna bæta hver aðra enn betur upp í virðiskeðjum og vistkerfum þvert á landamæri og svið.

Þverlægt samstarf

Samstarfsáætlun um atvinnustefnu og markmið hennar hafa snertifleti við ýmsa málaflokka sem að hluta til eru fyrir utan ábyrgð samstarfssviðsins. Þetta birtist meðal annars í þeim áskorunum sem norrænt atvinnulíf stendur frammi fyrir en er einnig mikilvægt fyrir vaxtargetu atvinnulífsins. Meðal annars má nefna aðgang að færni, notkun nýrrar tækni og stafvæðingu, notkun gagna og heilbrigðis- og velferðarlausnir. MR-Vækst/N (Ráðherranefndin um sjálfbæran hagvöxt/atvinnustefnu) mun með markvissum hætti leita eftir samstarfi við aðrar ráðherranefndir þar sem þverlægt samstarf getur lagt eitthvað til markmiða Framtíðarsýnar okkar 2030 og samstarfsáætlunarinnar.

Meginmarkmið og undirmarkmið

Ráðherranefndin um atvinnustefnu hefur samþykkt meginmarkmið og undirmarkmið starfsins á árunum 2025–2030. Pólitísk forgangsmál setja rammann um aðgerðir í málaflokknum í norrænu samstarfi. Þetta þýðir að markmiðin eru grundvöllur þeirra verkefna sem ráðist verður í á sviðinu.