Samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um sjálfbæran hagvöxt (MR-Vækst) fjallar um pólitísk forgangsmál og markmið samstarfsins á sviði atvinnustefnu, þar með talin bygginga- og húsnæðismál, á árunum 2025–2030.
Norðurlönd eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030. Þetta er kjarninn í framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, Framtíðarsýn okkar 2030, sem forsætisráðherrar landanna samþykktu í ágúst 2019. Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika mun ný samstarfsáætlun um atvinnustefnu 2025–2030 byggjast á hinum þremur stefnumarkandi áherslusviðum Framtíðarsýnar okkar 2023 en þau eru græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.
Norðurlöndin hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Loftslagsmarkmiðin munu leiða til einhverra stærstu umskipta sem orðið hafa á okkar tímum. Aukinn hraði grænna umskipta og þróun grænna lausna munu ráða úrslitum um að Norðurlöndin nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Græn umskipti atvinnulífsins krefjast þess að norræn fyrirtæki hafi getu og hæfni til að endurnýja sig og keppa á heimsmörkuðum þar sem efnahagslegar og landfræðipólitískar aðstæður eru ófyrirsjáanlegar. Á sama tíma eiga miklar lýðfræðilegar og samfélagslegar breytingar sér stað. Þar leynast helstu áskoranir sem liggja til grundvallar þeim meginmarkmiðum og undirmarkmiðum sem sett eru í samstarfsáætluninni um atvinnustefnu 2025–2030.
Norðurlandaráð, borgarasamfélagið og aðrir viðeigandi aðilar komu að gerð samstarfsáætlunarinnar. Til að ná breiðri samstöðu um samstarfsáætlun sem hefur breiða skírskotun hafa Norðurlandaráð og norræna samstarfsnetið Nordic Civ fengið tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum um samstarfstímabilið 2025–2030. Áætlunin hefur einnig verið send í opinbert samráðsferli á Norden.org til að tryggja að tekið sé tillit til annarra sjónarmið en ofangreindra aðila.
Samstarfsáætlunin er stjórntæki í samstarfi á vegum ráðherranefndarinnar um atvinnustefnu. Samstarfsáætlunin var samþykkt af Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæran hagvöxt (MR-VÆKST) hinn 4. október og mun hún gilda til 31.desember 2030.
Samstarfsáætlunin byggist á því verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar að raungera þá framtíðarsýn að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir 2030.
Samstarfsáætlunin um atvinnustefnu hefur mikilvæga þverlæga snertifleti við aðra málaflokka, einkum varðandi græn og stafræn umskipti. Þverlægt samstarf er mikilvægt til að takast á við þverlæg vandamál, nýta samlegðaráhrif og auka slagkraftinn við framkvæmd markmiða áætlunarinnar.