Öll starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar miðast við Framtíðarsýnina 2030 um að Norðurlönd skuli verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Löndin halda fast í markmið framtíðarsýnarinnar á tímum þar sem breytt landfræðipólitísk staða skapar nýjar áskoranir. Hröð tækniþróun felur í sér auknar kröfur til atvinnulífsins en felur jafnfram í sér tækifæri fyrir nýsköpun og grænan hagvöxt.
Skilyrði landanna til að mæta krítískum áskorunum breytast í sífellu en öllu máli skiptir að norrænt atvinnulíf viðhaldi getu sinni til að breytast og auka samkeppnishæfni sína. Það krefst stöðugrar endurnýjunar þar sem öflugt og markvisst samstarf um norrænar lausnir gegnir mikilvægu hlutverki.
Norrænu löndin eru í farabroddi á mörgum sviðum nýsköpunar, tækniþróunar og sjálfbærra lausna. Það færir okkur mikilvægt forskot en til að hraða grænum og stafrænum umskiptum þurfa löndin að efla samstarf sitt svo þau geti nýtt stöðu sína til að skapa traustar virðiskeðjur og nýstárleg hagkerfi þvert á landamæri.
Á grundvelli sameiginlegra gilda eru norrænu löndin í góðri stöðu til að efla stöðu fyrirtækja sinna og hraða nýsköpun og alþjóðavæðingu atvinnulífs á Norðurlöndum. Í því liggur hið norræna notagildi. Saman erum við sterkari.