Fara í innihald

Markmið 1: Hraða verður grænum og stafrænum umskiptum

magnus_liam_karlsson-higher_education-4226.jpg

Undirmarkmið 1.1: Aukið samstarf um að efla þróun, framleiðslu, skölun og útflutning grænna lausna.

Samstarf um að hraða grænum og stafrænum umskiptum getur falist í aðgerðum sem hafa það markmið að skapa nýja þekkingu og leggja fram tillögur að því hvernig löndin geta þróað, undirbúið og metið aðgerðir í atvinnulífinu og þróað áfram norrænar styrkleikastöður. Enn fremur að miðla góðum dæmum og reynslu, tilraunaverkefni og greiningar sem stuðla að bættum kjörum og aukinni samkeppnisfærni norræns atvinnulífs. Notkun stafrænna lausna, samstarf um netöryggi og önnur vandamál tengd stafvæðingu má fjalla um á vegum MR-N og í samstarfi við aðrar ráðherranefndir (til dæmis MR-Digital) þegar það á við. 

Undirmarkmið 1.2: Aukin áhersla á að skapa aðgang að fjármögnun nýstárlegra og grænna lausna.

Aðgangur að fjármögnun er mikilvægt málefni fyrir norrænt atvinnulíf, ekki síst við þróun nýstárlegra og grænna lausna. Beina má sjónum að tilteknum vaxtarstigum, allt frá sprotafyrirtækjum til skölunar, og að tilteknum sviðum. Norrænt samstarf um aðgang að fjármögnun á að byggjast á greiningu á göllum markaðarins og vel skilgreindum sviðum þar sem norrænar aðgerðir geta komið til viðbótar við aðgerðir/tæki landanna og alþjóðlega. Beina má sjónum að því að greina hindranir hagvaxtar og að sviðum þar sem norrænt samstarf getur stuðlað að jákvæðri þróun. Einnig getur verið um að ræða markvisst norrænt samstarf um fjármögnun þróunar og nýsköpunar, til dæmis áætlanir/tæki hjá ESB/EES.