Fara í innihald

Markmið 3: Norðurlönd og Eystrasaltsríkin mynda svæði sem er öruggt, inngildandi og styður við manneskjumiðuð stafræn umskipti til að tryggja viðnámsþolin samfélög

Netöryggi er mikilvæg forsenda stafrænnar þróunar. Viðhald og endurbætur á öryggi stafrænna innviða okkar og þjónustu er orðið órjúfanlegur þáttur í viðnámsþrótti samfélagsins og borgaralegum vörnum. Samstarf um miðlun upplýsinga og reynslu til að tryggja áreiðanlega stafræna innviði, auk nauðsynlegrar hæfni og getu til að bera kennsl á og takast á við netatvik eða -árásir, mun stuðla að viðnámsþoli í upplýsingastjórnun og stafrænu öryggi. Almenn færni í upplýsinga- og fjarskiptatækni auk stafrænnar hæfni eru óaðskiljanlegur þáttur af heildaröryggi á netinu en einnig nauðsynlegt til að taka þátt í stafrænu hagkerfi og hinu daglega lífi í stafvæddum samfélögum okkar. Öll löndin á svæðinu standa frammi fyrir svipuðum áskorunum við að tryggja að enginn verði eftir í hinum stafrænu umskiptum og mikið virði getur legið í samstarfi um þekkingarmiðlun og að finna bestu starfsvenjur og hagkvæmustu lausnir. Samstarf milli landa og samstarf þvert á landamæri verður lykillinn að svæðisbundinni samfellu, að deila bestu starfsvenjum sín á milli og að betrumbæta hvernig við nálgumst stefnumörkun.
sofia_sabel-innovation-9716.jpg

Undirmarkmið 3.1: Tekist er á við hina stafrænu gjá og stafræn hæfni og stafræn dómgreind aukin

Hin öru stafrænu umskipti samfélaganna fela í sér hættu á að tilteknir samfélagshópar eða fólk sem býr við tilteknar aðstæður verði út undan. Miðlun þekkingar og stefnumótandi aðgerðir varðandi stafræna inngildingu eru mikilvægt skref til að koma í veg fyrir þessa þróun. Stöðug áhrif stafrænna fjölmiðla og stafrænna samfélagsvettvanga hafa undirstrikað þörfina á að íbúarnir búi yfir stafrænni dómgreind og almennri getu á sviði netöryggis, þróun sem undirstrikar enn frekar notkun nýrrar tækni. Að stuðla að samstarfi, samtali og þekkingarmiðlun milli notenda og stefnumótunaraðila og á milli hins opinbera og einkageirans, þvert á landamæri verður áfram mikilvægt svo að fólk geti tekið virkan þátt í stafrænu og lýðræðislegu samfélagi og komandi breytingum á samsetningu vinnuafls.

Undirmarkmið 3.2: Aukið samstarf á sviði netöryggis og upplýsingaöryggis

Eftir því sem stafvæðingu samfélaga okkar vindur fram verða netógnir og öryggisógnir sífellt vaxandi áhyggjuefni bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Skortur á hæfu starfsfólki á sviði almennrar upplýsinga- og fjarskiptatækni, netöryggis og upplýsingaöryggis er ekki aðeins áskorun fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin heldur fyrir heiminn allan. Svæðisbundið samstarf um bestu starfsvenjur, þekkingarskipti og samstarf um stefnumótun og innviði verður mikilvægt til að tryggja örugg stafræn umskipti og viðhalda trausti í hinu stafræna samfélagi.

Undirmarkmið 3.3: Áreiðanleg, örugg, ábyrg og sjálfbær notkun tækni, þar á meðal gervigreindar

Enginn vafi leikur á því að ný tækni nýtist til að bæta líf fólks og aðstoða við lausn nokkurra af brýnustu áskorunum okkar tíma en í henni felst jafnframt áhætta. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin eru í fararbroddi í stafvæðingu í Evrópu, byggja á sterkum sameiginlegum gildum og búa yfir vel menntuðum og hæfum íbúum og geta þannig haft áhrif á og verið fyrirmynd í notkun tækninnar og hvernig hægt er að stjórna áhættu tengdri henni. MR-DIGITAL er vettvangur fyrir samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.