Í samstarfsáætlun MR-DIGITAL er fjallað um pólitískar áherslur og markmið fyrir tímabilið 2025 til 2030.
Framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar er að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta í heimi fyrir árið 2030. Til að sú framtíðarsýn geti orðið að veruleika munu sértækar samstarfsáætlanir fyrir hvert fagsvið stýra starfi allra ráðherranefndanna á árunum 2025–2030 sem byggjast á þremur pólitískum áherslum framtíðarsýnarinnar: græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.
Samstarfið um stafvæðingu í MR-DIGITAL nær ekki aðeins til Norðurlanda heldur einnig Eystrasaltsríkjanna. Samfélög okkar byggja á lýðræði, jafnrétti, mannauði og samfélagslegri ábyrgð. Við verðum að tryggja að stafræn umbreyting fylgi þessum meginreglum nú og í framtíðinni. Stafvæðing og tækninýjungar eru stórir drifkraftar í þróun bæði einkageirans og hins opinbera sem og lykilþáttur í grænum umskiptum. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin eru eitt þeirra svæða sem lengst hafa komist í stafvæðingu á heimsvísu og eru því í einstakri stöðu til að leiða stafræna þróun – svæðisbundið og á alþjóðavettvangi. Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna innan MR-DIGITAL einkennist af sameiginlegum tækifærum og áskorunum, við að búa í haginn fyrir inngildandi og örugg stafræn umskipti, efla samkeppnishæfni og grænan hagvöxt auk þess að auka frjálsa för og samþættingu á svæðinu með öruggri og skilvirkri stafrænni þjónustu yfir landamæri fyrir fólk, fyrirtæki og yfirvöld.
Norðurlandaráð, borgarasamfélagið, atvinnulíf og aðrir hagsmunaaðilar hafa tekið þátt í þróun þessarar samstarfsáætlunar. Áætlunin var samþykkt af Norrænu ráðherranefndinni um stafvæðingu hinn 20. september 2024 og gildir hún frá 1. janúar 2025 til 31. desember 2030.
Stafræn þróun er þverfagleg í eðli sínu. Til að markmið þessarar samstarfsáætlunar geti orðið að veruleika er þörf á þverfaglegu samstarfi. Með samstarfi við önnur fagsvið í norræna samstarfinu, svo sem svið umhverfis- og loftslagsmála, hagvaxtar, orkumála, heilbrigðismála, menntunar og rannsókna, náttúruauðlinda, menningar og stjórnsýsluhindrana má tryggja að hægt verði að finna samlegðaráhrif og takast á við sameiginleg verkefni og um leið ná fram sem umfangsmestum áhrifum sem felast í því að gera metnaðarfull markmið framtíðarsýnarinnar 2030 að veruleika.