Fara í innihald

Markmið 2: Öruggt, tengt og samþætt svæði Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna

Samtengdir, öruggir og traustir stafrænir innviðir sem eru samvirkir þvert á landamæri á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum eru hornsteinn og drifkraftur í því markmiði að verða samþættasta svæði heims. Þroskastig notkunar stafrænna lausna á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum er nú þegar hátt, sem rekja má til mikils framboðs og notkunar á stafrænni þjónustu, færni og internetaðgangs í hverju landi. Þessi þroski ásamt gagnkvæmu trausti og samskonar hugarfari innan svæðisins gerir okkur kleift að njóta ávaxta fjölþjóðasamstarfs og gera Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin að stafrænt samtengdasta svæðið á heimsvísu. Til að ná því markmiði er þörf á sameiginlegu átaki til að styrkja enn frekar stafræna innviði yfir landamæri, ásamt því að efla sameiginlega hagsmuni Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.
jens_lindström-digital_care-9206.jpg
Rekstrarsamhæfi og samræmt regluverk stuðla að samþættingu og samkeppnishæfni. Samstarf um þróun og framkvæmd nýrra og núverandi reglugerða ESB verður sífellt mikilvægara. Samstarf um staðla til að auðvelda miðlun gagna yfir landamæri mun auka stafrænt og gagnamiðað samspil milli viðkomandi hagsmunaaðila á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjumanna, bæði í opinbera geiranum og einkageiranum.

Undirmarkmið 2.1: Sameiginlegur vettvangur stafrænnar þjónustu yfir landamæri á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum

Þetta felur í sér að skilgreina sameiginlegar forsendur fyrir opinbera aðila og einkaaðila til að geta boðið stafræna þjónustu sína yfir landamæri, samræma þá vinnu, hrinda í framkvæmd og hafa áhrif á viðeigandi þróun á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Þetta felur í sér samstarf um meginþætti stafrænna grunninnviða, svo sem rekstrarsamhæfð stafræn auðkenni, ramma fyrir miðlun gagna og veitingu lykilþjónustu til að styðja við frjálsa för á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum. Til að ná raunverulegum árangri skipta samræming og samstarf ábyrgðaraðila helstu þjónustusviða miklu máli. Þetta krefst einnig samfellds og aukins samstarfs hvað varðar innleiðingu á ESB-reglugerðum á svæðinu.

Undirmarkmið 2.2: Stafrænt örugg, skilvirk og inngildandi þjónusta hins opinbera

Traust og örugg stafræn þjónusta, verndun einkalífs notenda og fullvissa að persónuupplýsingar séu geymdar og unnar á öruggan og áreiðanlegan hátt, þannig að allir hafi betri stjórn á eigin gögnum, skiptir sköpum til viðhalda trausti á stafrænni þjónustu, sem aftur er grundvöllur stafrænnar umskipta. Hins vegar getur aukið öryggi stafrænnar þjónustu dregið úr aðgengi að henni ef ekki er vel að gáð. Örugg hönnun verður að kallast á við nothæfi og inngildandi hönnun.

Undirmarkmið 2.3: Aukin samræming verkefna tengdum stafrænum innviðum

Að tala einum rómi og hafa þannig áhrif á evrópsk og alþjóðleg málefni sem tengjast stafrænum grunnvirkjum yfir landamæri með því að nýta og styrkja núverandi samstarf á þessu sviði. Þessu mætti ná fram með því að tengja saman og samræma ýmiss konar verkefni og vinnu sérfræðinga á sviði stafrænna innviða, ásamt því að tengja forgangsverkefni í hverju landi við markmið og undirmarkmið MR-DIGITAL. Þetta gæti t.d. falist í því að leiða saman ábyrgðaraðila lykilsviða í hverju landi og mynda vettvang þvert á landamæri til að festa í sessi og styrkja málefni sem tengjast stafrænum innviðum, með það að markmiði að stuðla að auknum tengjanleika og frjálsri för á svæðinu.
Samstarf getur falist í því að efla samstarfsnet á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum, auðvelda samskipti og tæknilegar umræður um framfarir 5G-tækninnar og aðra stafræna innviði, auk þess að og koma auga á áskoranir og nýja þróun sem skiptir máli fyrir regluverk Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Undirmarkmið 2.4: Aukin gagnamiðlun og endurnýting gagna

Nátengt hinum undirmarkmiðum og byggt á fyrirliggjandi verkefnum: að vinna að aukinni samnýtingu og endurnotum gagna þvert á landamæri á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum. Þetta er hægt að gera með því að byggja upp sameiginlegan skilning, skapa og miðla þekkingu og samræma lykilramma með sameiginlegu átaki til að samræma og hafa áhrif á sambærilega þróun á alþjóðavettvangi og með því að leitast við að tengja þau við stjórnsýsluleg, tæknileg og merkingarfræðileg atriði í hverju landi.