Tækifæri og lausnir á vandamálum á málefnasviði FJLS 2025–2030
Helstu áherslur á málefnasviði FJLS á næstu árum eru eftirfarandi: að ýta undir áframhaldandi græn umskipti í átt til sjálfbærra matvælakerfa sem fela í sér öruggt framboð á heilnæmum og sjálfbærum matvælum fyrir vaxandi íbúafjölda Norðurlanda, öruggt, heilsusamlegt og sjálfbært mataræði, sterkar tegundir og ræktunarefni, dýravelferð og heilbrigð dýr og jurtir. Grundvallarforsenda þessa er að auka samkeppnishæfni innan framleiðslukeðja FJLS með sjálfbærri stýringu og nýtingu auðlinda sem byggist á þekkingu, ásamt framleiðslu og vinnslu endurnýjanlegs hráefnis. Efla verður viðnámsþrótt innan atvinnugreina FJLS í löndunum og á svæðinu og stuðla þannig að öruggu fæðuframboði.
Þörf er á norrænu samstarfi til þess að finna lausnir og nauðsynlegar leiðir til þess að uppfylla þessi markmið. Almennt er fæðuöryggi gott á Norðurlöndum en veðuröfgar, veikleikar í afhendingarkeðjum, mengun og útbreiðsla framandi og hugsanlega skaðlegra tegunda eru allt dæmi um mögulegar áskoranir. Aukin samkeppnishæfni atvinnugreina lífhagkerfisins er forsenda fyrir bættu fæðuframboði en skuldbindingar um að draga úr losun, standa vörð um líffræðilega fjölbreytni og auka sjálfbærni í stýringu náttúruauðlinda geta haft áhrif á hana. Grænu umskiptin geta einnig skapað áskoranir varðandi framleiðslumarkmið innan landbúnaðar, skógræktar, fiskveiða, fiskeldis og hreindýraræktar. Meðal annars geta vaknað spurningar um landnotkun þegar land- og hafsvæði eru nýtt með sífellt margbreytilegri hætti. Það skapar aukna samkeppni um svæðin.
Nýjar hugmyndir, nýsköpun og fjárveitingar til áhrifameiri verkefna geta stuðlað að lausnum sem bæði ýta undir samkeppnishæfa framleiðslu og annan samfélagslegan ávinning um leið og hægt er að uppfylla markmið í umhverfis- og loftslagsmálum. Margar þessara lausna eru þverfaglegar og teygja sig yfir landamæri sem þýðir að mismunandi áætlanir og markmið hafa áhrif á skipulagningu aðgerða. Því er mjög mikilvægt að viðhalda pólitískri samstöðu um vinnuna að heimsmarkmiðunum, einkum þar sem enn eru til staðar alvarleg úrlausnarefni þegar kemur að því að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram til ársins 2030.
Yfirlýsing forsætisráðherranna um sjálfbært sjávarhagkerfi og græn umskipti ber vott um þann áhrifamátt sem pólitísk samstaða getur haft fyrir norrænt samstarf. Markmið yfirlýsingarinnar fela í sér að ráðist verði í sameiginlegar rannsóknaraðgerðir, þekkingarmiðlun verði aukin, sem og norræn þátttaka í alþjóðlegum verkefnum og samstarfsferlum í tengslum við sjálfbæra nýtingu hafsins. Þessi markmið hafa verið fest í sessi með ýmsum haftengdum verkefnum og samstarfsáætlun MR-FJLS 2025–2030 mun áfram taka mið af þeim.
Ljóst er að þarfirnar innan málefnasviðs FJLS eru margþættar og oft umfram það fjármagn sem til reiðu er fyrir jafnt innlendar sem samnorrænar aðgerðir á sviðinu. Svæðasamstarf er því skynsamlegt til þess að hámarka gagnsemi innlendra aðgerða út frá norrænu sjónarhorni ásamt því að skapa betri forsendur fyrir samlegðaráhrifum og þekkingarmiðlun á svæðinu. Aukið samstarf á milli stjórnvalda og norrænna sérfræðinga ýtir undir miðlun reynslu, nýsköpun og sameiginlegar rannsóknir sem skila aukinni norrænni nytsemi. Samvinna á milli ráðherranefndanna og samnorrænna stofnana gerir sameiginlegar aðgerðir mögulegar þvert á málefnasvið með góðri tengingu við samnorrænt rannsóknar- og nýsköpunarstarf. Nýta má samstarfsnet og -kerfi innan FJLS fyrir verkefni þar sem byggður er upp viðbúnaður og geta til að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru á málefnasviðinu. Einnig fá norrænu löndin í gegnum norrænt samstarf tækifæri til þess að tala einni röddu á alþjóðavettvangi þar sem skynsamlegt er að kynna sameiginlega norræna nálgun á alþjóðleg mál.
Annar þáttur sem felur í sér bæði áskoranir og tækifæri á málefnasviði FJLS er aukin stafræn væðing og þróun á sviði gervigreindar. Þetta verður skoðað betur í norrænu samstarfi meðal annars með það fyrir augum að ná betri árangri í greiningu og prófun á matvælum, auka upplýsingagjöf til neytenda og bæta upplýsingamiðlun sem styrkir sameiginlegan viðbúnað vegna sjúkdóma sem smitast á milli dýra og manna og dýrafarsótta í norrænum lífhagkerfum, svo og skráningu og kortlagningu margþættra hagsmuna varðandi fiskveiðar, fiskeldi, skógrækt og landbúnað. Hagur væri af því að stjórnvöld í löndunum ynnu saman að greiningu þeirra áskorana sem upp kunna að koma vegna stafrænnar væðingar til þess að skapa grundvöll fyrir samnorrænar aðgerðir í tengslum við viðbúnað vegna tölvuöryggis og annarra stafrænna ógna á sviðinu. Aukin stafræn væðing er jafnframt mikilvæg með tilliti til bestunar á framleiðslu innan grænu og bláu atvinnugreinanna þar sem hún dregur úr auðlindatapi og notkun eiturefna og sýklalyfja, eykur hæfniþróun og eflir þekkingu.