Fara í innihald

Pólitískar áherslur

Málefnasvið FJLS – stutt yfirlit

Vinnan að sjálfbærum matvælakerfum og öruggu framboði heilnæmra matvæla er mikilvæg í öllum norrænu löndunum. Megnið af landbúnaðarlandi á Norðurlöndum er notað til þess að rækta gras í fóður, korn og aðrar nytjaplöntur. Norrænu löndin hafa um margra áratuga skeið átt í samstarfi varðandi erfðaauðlindir í landbúnaði og skógrækt og með stofnun Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, NordGen, var mörkuð sameiginleg stefna um stýringu erfðaauðlinda á Norðurlöndum. Hreindýrarækt er stunduð í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Sums staðar teygir hreindýrabúskapur sig jafnframt yfir landamærin á milli Noregs og Svíþjóðar. Framleiðsla mjólkur- og kjötafurða er mikilvæg í öllum löndunum og er Danmörk í sérflokki með sína umfangsmiklu svínarækt. Fiskveiðar og fiskeldi hafa mesta þýðingu fyrir Noreg, Danmörku, Ísland, Færeyjar og Grænland en Finnland og Svíþjóð eru stærstu framleiðendur timburs og annarra skógarafurða í norrænni skógrækt. Atvinnugreinarnar sem falla undir málefnasvið FJLS hafa gengið og ganga enn stöðugt í gegnum breytingar og aðgerðir til þess að auka skilvirkni, ekki síst til þess að tryggja áframhaldandi fjárhagslega arðbærni við síbreytilegar aðstæður.

Tækifæri og lausnir á vandamálum á málefnasviði FJLS 2025–2030

Helstu áherslur á málefnasviði FJLS á næstu árum eru eftirfarandi: að ýta undir áframhaldandi græn umskipti í átt til sjálfbærra matvælakerfa sem fela í sér öruggt framboð á heilnæmum og sjálfbærum matvælum fyrir vaxandi íbúafjölda Norðurlanda, öruggt, heilsusamlegt og sjálfbært mataræði, sterkar tegundir og ræktunarefni, dýravelferð og heilbrigð dýr og jurtir. Grundvallarforsenda þessa er að auka samkeppnishæfni innan framleiðslukeðja FJLS með sjálfbærri stýringu og nýtingu auðlinda sem byggist á þekkingu, ásamt framleiðslu og vinnslu endurnýjanlegs hráefnis. Efla verður viðnámsþrótt innan atvinnugreina FJLS í löndunum og á svæðinu og stuðla þannig að öruggu fæðuframboði. 
Þörf er á norrænu samstarfi til þess að finna lausnir og nauðsynlegar leiðir til þess að uppfylla þessi markmið. Almennt er fæðuöryggi gott á Norðurlöndum en veðuröfgar, veikleikar í afhendingarkeðjum, mengun og útbreiðsla framandi og hugsanlega skaðlegra tegunda eru allt dæmi um mögulegar áskoranir. Aukin samkeppnishæfni atvinnugreina lífhagkerfisins er forsenda fyrir bættu fæðuframboði en skuldbindingar um að draga úr losun, standa vörð um líffræðilega fjölbreytni og auka sjálfbærni í stýringu náttúruauðlinda geta haft áhrif á hana. Grænu umskiptin geta einnig skapað áskoranir varðandi framleiðslumarkmið innan landbúnaðar, skógræktar, fiskveiða, fiskeldis og hreindýraræktar. Meðal annars geta vaknað spurningar um landnotkun þegar land- og hafsvæði eru nýtt með sífellt margbreytilegri hætti. Það skapar aukna samkeppni um svæðin.
Nýjar hugmyndir, nýsköpun og fjárveitingar til áhrifameiri verkefna geta stuðlað að lausnum sem bæði ýta undir samkeppnishæfa framleiðslu og annan samfélagslegan ávinning um leið og hægt er að uppfylla markmið í umhverfis- og loftslagsmálum. Margar þessara lausna eru þverfaglegar og teygja sig yfir landamæri sem þýðir að mismunandi áætlanir og markmið hafa áhrif á skipulagningu aðgerða. Því er mjög mikilvægt að viðhalda pólitískri samstöðu um vinnuna að heimsmarkmiðunum, einkum þar sem enn eru til staðar alvarleg úrlausnarefni þegar kemur að því að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram til ársins 2030.
Yfirlýsing forsætisráðherranna um sjálfbært sjávarhagkerfi og græn umskipti ber vott um þann áhrifamátt sem pólitísk samstaða getur haft fyrir norrænt samstarf.  Markmið yfirlýsingarinnar fela í sér að ráðist verði í sameiginlegar rannsóknaraðgerðir, þekkingarmiðlun verði aukin, sem og norræn þátttaka í alþjóðlegum verkefnum og samstarfsferlum í tengslum við sjálfbæra nýtingu hafsins. Þessi markmið hafa verið fest í sessi með ýmsum haftengdum verkefnum og samstarfsáætlun MR-FJLS 2025–2030 mun áfram taka mið af þeim.
Ljóst er að þarfirnar innan málefnasviðs FJLS eru margþættar og oft umfram það fjármagn sem til reiðu er fyrir jafnt innlendar sem samnorrænar aðgerðir á sviðinu. Svæðasamstarf er því skynsamlegt til þess að hámarka gagnsemi innlendra aðgerða út frá norrænu sjónarhorni ásamt því að skapa betri forsendur fyrir samlegðaráhrifum og þekkingarmiðlun á svæðinu. Aukið samstarf á milli stjórnvalda og norrænna sérfræðinga ýtir undir miðlun reynslu, nýsköpun og sameiginlegar rannsóknir sem skila aukinni norrænni nytsemi. Samvinna á milli ráðherranefndanna og samnorrænna stofnana gerir sameiginlegar aðgerðir mögulegar þvert á málefnasvið með góðri tengingu við samnorrænt rannsóknar- og nýsköpunarstarf. Nýta má samstarfsnet og -kerfi innan FJLS fyrir verkefni þar sem byggður er upp viðbúnaður og geta til að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru á málefnasviðinu. Einnig fá norrænu löndin í gegnum norrænt samstarf tækifæri til þess að tala einni röddu á alþjóðavettvangi þar sem skynsamlegt er að kynna sameiginlega norræna nálgun á alþjóðleg mál.
Annar þáttur sem felur í sér bæði áskoranir og tækifæri á málefnasviði FJLS er aukin stafræn væðing og þróun á sviði gervigreindar. Þetta verður skoðað betur í norrænu samstarfi meðal annars með það fyrir augum að ná betri árangri í greiningu og prófun á matvælum, auka upplýsingagjöf til neytenda og bæta upplýsingamiðlun sem styrkir sameiginlegan viðbúnað vegna sjúkdóma sem smitast á milli dýra og manna og dýrafarsótta í norrænum lífhagkerfum, svo og skráningu og kortlagningu margþættra hagsmuna varðandi fiskveiðar, fiskeldi, skógrækt og landbúnað. Hagur væri af því að stjórnvöld í löndunum ynnu saman að greiningu þeirra áskorana sem upp kunna að koma vegna stafrænnar væðingar til þess að skapa grundvöll fyrir samnorrænar aðgerðir í tengslum við viðbúnað vegna tölvuöryggis og annarra stafrænna ógna á sviðinu. Aukin stafræn væðing er jafnframt mikilvæg með tilliti til bestunar á framleiðslu innan grænu og bláu atvinnugreinanna þar sem hún dregur úr auðlindatapi og notkun eiturefna og sýklalyfja, eykur hæfniþróun og eflir þekkingu.
Grænu umskiptin fyrir sjálfbæra nýtingu auðlinda skipta höfuðmáli fyrir það hvernig við á Norðurlöndum framleiðum mat og stjórnum náttúrauðlindum okkar, ekki síst með framtíðarkynslóðir í huga.

Grænu umskiptin

Sjálfbær stýring og nýting náttúruauðlinda verður æ flóknari og því þarf að auka við þekkingu til þess að efla loftslagsaðlögun og takmarka loftslags- og umhverfishrif ásamt því að tryggja samkeppnishæfa framleiðslu fyrir vaxandi íbúafjölda Norðurlanda ásamt því að efla velferð og líffræðilega fjölbreytni. Mikil þörf er því á auknum sameiginlegum aðgerðum á sviði rannsókna, nýsköpunar og hæfniþróunar með miklum möguleika á norrænum virðisauka. Sjálfbær matvælakerfi og virðiskeðjur innan málefnasviðs FJLS krefjast samkeppnishæfrar framleiðslu, aðgengis að endurnýjanlegum orkuauðlindum og sjálfbærrar stýringar varðandi líffræðilega fjölbreytni. Um leið verður að viðhalda sama háa stigi fæðuöryggis og verið hefur með fleiri lausnum og nýjungum á sviði sjálfbærrar og heilnæmrar neyslu. Sjálfbær og heilnæm neysla kallar á lausnir og nýjungar sem auka viðnámsþrótt og samkeppnishæfni í hráefnis- og ræktunarkeðjum framtíðarinnar um leið og hætta á neikvæðum loftslags- og umhverfisáhrifum kerfanna er takmörkuð.
Sjálfbær matvælaframleiðsla er háð áframhaldandi góðu heilbrigði dýra, fiska og plantna á Norðurlöndum sem skapar forsendur fyrir góðri dýravelferð, lítilli lyfja og eiturefnanotkun og öruggari matvælum. Þessi svið tengjast jafnframt umhverfi og heilbrigði í gegnum „One Health“-nálgunina.  Forsendur sjálfbærrar og heilnæmrar matvælaneyslu eru fæðuöryggi og heilnæm matvæli sem innihalda næringu í samræmi við niðurstöður rannsóknanna sem norrænar næringarráðleggingar eru byggðar á og miðast við matvæli sem góð náttúruleg og menningarleg skilyrði eru til þess að framleiða á Norðurlöndum. Hún krefst þess einnig að við drögum úr matarsóun, bætum nýtingu auðlinda frá uppruna til neyslu og byggjum upp betra matvælaumhverfi. Framleiðsla á nýju grænu prótíni og prótíni úr sjó skapar ásamt hliðarafurðum í lífhagkerfinu tækifæri á aukinni staðbundinni framleiðslu á bæði fóðri og matvælum. Þessu fylgja þó auknar kröfur um fæðuöryggi og greiningargetu en á því sviði býr norrænt samstarf yfir reyndum kerfum og langri reynslu af sameiginlegum aðgerðum. Sjálfbærri og heilnæmri matvælaneyslu fylgir einnig aukin áhersla á líffræðilega og erfðafræðilega fjölbreytni, auðlindir og erfðafræðilega sérþekkingu. Í gegnum norrænu erfðaauðlindastofnunina, NordGen, hefur norrænt samstarf einstakt tækifæri til þess að styðja við sjálfbæra neyslu og framleiðslu með þróun heilnæmra og viðnámsþolinna nytjaplantna sem til dæmis þola breytt loftslag. NordGen varðveitir einnig og hvetur til notkunar húsdýrategunda sem ekki eru mikið notaðar í atvinnuskyni með ólíka eiginleika sem til lengri tíma eru sjálfbærar og eftirsóknarverðar til þess að tryggja aðgengi að heppilegu ræktunarefni í framtíðinni.
Grænu umskiptin kalla á að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis sem hefur í för með sér aukna þörf á öðrum og endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við líforku, vindorku og sólarorku. Byggingar- og framkvæmdaaðferðum sem byggjast á stáli, áli og steypu fylgir umtalsverð notkun jarðefnaeldsneytis. Það þýðir að norrænn lífiðnaður, kannski fyrst og fremst skógrækt en einnig úrgangur frá matvælaframleiðslu, verður að vera hluti af orkuframboðinu með öðrum hætti en áður og að nota ber grænar vörur og timbur í auknum mæli við byggingar og framkvæmdir. Góð hefð er fyrir rannsóknar- og þekkingarsamstarfi á milli norrænu landanna á sviði skógræktar og timburvinnslu.
Norrænu löndin þurfa að vinna saman að því að finna framtíðarlausnir fyrir græn umskipti í landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, fiskeldi og matvælaframleiðslu, sem og til framkvæmdar Parísarsáttmálans og Kunming-Montreal rammans.

Aukin samkeppnishæfni

Líta ber á grænu umskiptin sem tækifæri fyrir málefnasvið FJLS til þess að leggja sitt af mörkum til efnahagslegrar verðmætasköpunar í formi framleiðslu á vörum og þjónustu frá atvinnugreinum FJLS sem jafnframt stuðla að loftslagsaðlögun og geta eflt líffræðilega fjölbreytni. Aukin samkeppnishæfni og arðbær framleiðsla innan virðiskeðja skógræktar, landbúnaðar, fiskveiða og fiskeldis skapa mikilvægar efnahagslegar forsendur til þess að styðja við þessi umskipti. Norræn átök í tengslum við matarmenningu og matargerð á borð við Ný norræn matvæli stuðla að auknum áhuga og þekkingu á norrænni matarmenningu ásamt því að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni í norrænu löndunum.
Leitast ætti eftir nýsköpunarlausnum þar sem áherslan er á efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbærni í nánu samstarfi við aðila frá atvinnulífinu, stjórnvöldum, borgarasamfélaginu og vísindasamfélaginu til þess að efla samkeppnishæfni í virðiskeðjum skógræktar, landbúnaðar, fiskveiða og fiskeldis. Ef virðiskeðjur FJLS mæta þörfum framtíðarinnar á vörum og þjónustu getur ný verðmætasköpun þróast. Um leið fylgja sjálfbærniviðmiðum nýjar kröfur um reglufylgd og skýrslugjöf fyrir fyrirtæki. Aðgengi að réttri og vandaðri tölfræði og gögnum getur átt þátt í því að auka samkeppnishæfni á jafnt innlendum sem alþjóðlegum mörkuðum. 
Skortur á rétt menntuðu starfsfólki og lítil nýliðun í atvinnugreinum FJLS er vandamál í landbúnaði, fiskveiðum og fiskeldi og öðrum hlutum matvælakeðjunnar. Atvinnugreinarnar reiða sig á erlent vinnuafl sem getur með tímanum gert þær viðkvæmar og leitt til þess að þekking tapist. Sá skortur á dýralæknum sem nú þegar er alvarlegur í nokkrum norrænum löndum og búist er við því að verði áfram til meðallangs og lengri tíma veldur erfiðleikum í dýrabúskap og -velferð. Sameiginlegar áherslur til þess að auka samkeppnishæfni og efla félagslega sjálfbærni innan atvinnugreina FJLS á Norðurlöndum felast í því að þróa tækifæri á vinnumarkaði, styrkja stöðu og tekjumöguleika, vinna gegn mögulegum stjórnsýsluhindrunum og efla hlutverk ungs fólks í matvælakerfunum.
Sjálfbær matvælakerfi og virðiskeðjur innan málefnasviðs FJLS krefjast samkeppnishæfrar framleiðslu, aðgengis að endurnýjanlegum orkuauðlindum og sjálfbærrar stýringar varðandi líffræðilega fjölbreytni.

Aukinn viðnámsþróttur

Stríð, versnandi staða heimsmála undanfarin ár, veðuröfgar og væntanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga og breytt skilyrði í vistkerfum ásamt áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á samfélagið sýna þau áhrif sem ytri og innri atburðir og stundum samverkandi krísur geta haft á Norðurlönd. Áframhaldandi þróun lífhagkerfisins getur verið hluti af vinnunni að viðbúnaðarmálum og gæti dregið úr veikleikum og eflt getuna til að halda upp fæðuöryggi með aukinni getu til þess að framleiða vörur úr auðlindum lífhagkerfisins vörur á Norðurlöndum.
Í kjölfar loftslagsbreytinga er þörf á að afla og miðla meiri þekkingu um áhrifin á lífhagkerfið. Hætta er á að veðuröfgar, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og mengun ógni áfram framleiðsluauðlindum jafnt á heimsvísu sem á Norðurlöndum með kostnaðarsömum og oft ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Stríðið í Úkraínu og hátt orku- og áburðarverð í kjölfar þess og áhrif heimsfaraldursins á framleiðsluskilyrði, samfélagslega innviði og heilsu fólks sýna mikilvægi þess að efla viðbúnað á svæðinu. Að auka félagslegan, efnahagslegan og umhverfislegan viðnámsþrótt gagnvart núverandi og komandi krísum, þ.e.a.s. tryggja til framtíðar framleiðsluauðlindir og fæðuframboð gagnvart því sem nefna má fjölþáttakrísur, mun verða hluti af vinnu landanna að viðbúnaðarmálum og þar getur svæðasamstarf auðveldað vinnuna. Í þessari vinnu má draga dýrmætan lærdóm af þeim veikleikum sem heimsfaraldurinn leiddi í ljós.
Í gegnum norrænt samstarf er hægt að styrkja viðbúnaðarferla landanna með miðlun reynslu, samstarfsnetum, sameiginlegum aðgerðum og áætlunum. Þar sem loftslagsbreytingar, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og aðrar krísur hafa áhrif á nærumhverfi okkar þurfum við að vinna með nágrannalöndum og deila þekkingu í tengslum við afkomuöryggi og loftslagsaðlögun í atvinnugreinum FJLS. Þátttaka Norðurlanda í alþjóðlegum verkefnum stuðlar enn frekar að auknum viðbúnaði og viðnámsþrótti á svæðinu gagnvart krísum samtímans og framtíðarinnar.

Sjónarmið þvert á fagsvið

Pólitískar áherslur í starfsemi MR-FJLS miða að því að efla framtíðarsýn Norðurlanda fyrir árið 2030 og stefnumarkandi áherslurnar um græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Við vinnuna að öllum markmiðum og undirmarkmiðum verður markvisst tekið tillit til hinna þverlægu sjónarmiða um börn og ungmenni, jafnrétti og sjálfbæra þróun. Í starfsáætlunum MR-FJLS fyrir tímabilin 2025–2027 og 2028–2030 verða þau útfærð nánar.
MR-FJLS hefur tekið ákvörðun um markmið og undirmarkmið með starfinu á tímabilinu 2025–2030. Hinar pólitísku áherslur vísa veginn í starfsemi á málefnasviðinu í norrænu samstarfi. Það þýðir að á þessum markmiðum skuli byggja aðgerðir sem skila þeim árangri og stuðla að því að ná fram þeim breytingum sem stefnt er að.