Í samstarfsáætlun MR-FJLS er pólitískum áherslum og markmiðum fyrir tímabilið 2025–2030 lýst.
Norrænt samstarf innan MR-FJLS nær til fiskveiða og fiskeldis, landbúnaðar, matvælaframleiðslu og skógræktar auk hreindýranytja. Oft er þetta kallað norræna lífhagkerfið en hugtakið vísar til hagkerfis og samfélagsþróunar sem byggist á lífrænum auðlindum. Í öllum norrænu löndunum er lífhagkerfið mikilvægt og skiptir sköpum fyrir strjálbýl svæði og uppbyggingu heilbrigðra og viðnámsþolinna samfélaga með samkeppnishæfum fyrirtækjum.
Álag hefur verið á atvinnugreinunum innan MR-FJLS, meðal annars vegna loftslagsbreytinga, heimsfaraldurs kórónuveiru, óstöðugra afhendingarkeðja og nú síðast geópólitískra áskorana sem meðal annars má rekja til árásar Rússa á Úkraínu. Norrænu löndin þurfa að vinna saman að því að finna framtíðarlausnir fyrir græn umskipti í landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, fiskeldi og matvælaframleiðslu, sem og til framkvæmdar Parísarsáttmálans og Kunming-Montreal rammans. Saman þurfa löndin jafnframt að finna jafnvægi á milli auðlindanýtingar, náttúruverndar og annarra hagsmuna á landi og í sjó. Þörf er á samvinnu á milli svæða með aðkomu fræðaheimsins og atvinnulífsins. Á tímabilinu 2025–2030 verða þrjú markmið leiðarstefið í norrænu samstarfi: 1) öflugri græn umskipti, 2) aukin samkeppnishæfni, og 3) aukinn viðnámsþrótt.
Við gerð samstarfsáætlunarinnar var samráð haft við Norðurlandaráð, borgarasamfélagið og aðra viðkomandi aðila. Í september 2023 komu Norðurlandaráð og Nordic Civ, samstarfsnet frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum, með ábendingar varðandi pólitískar áherslur 2025–2030. Tekið var tillit til þeirra við undirbúning á fyrstu drögum og var þeim miðlað til allra aðila innan MR-FJLS. Frekara samráð átti sér stað í október 2023 með fulltrúum einkageirans og borgarasamfélagsins sem tilnefndir voru af aðildarlöndunum varðandi málefnasvið FJLS.
Samstarfsáætlunin er stýrandi í starfsemi MR-FJLS. MR-FJLS samþykkti samstarfsáætlunina þann 19. júní 2024 og gildir hún til 31. desember 2030.
Samstarfsáætlunin tekur mið af því hlutverki Norrænu ráðherranefndarinnar að leggja sitt af mörkum til þess að uppfylla framtíðarsýn okkar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Allar ráðherranefndir Norrænu ráðherranefndarinnar vinna að því að uppfylla framtíðarsýnina hvað varðar hinar þrjár stefnumarkandi áherslur.