Fara í innihald

Markmið 2: Aukin samkeppnishæfni með sjálfbærri stýringu og nýtingu auðlinda

Þetta markmið stuðlar að framgangi allra þriggja stefnumarkandi áherslusviðanna; grænna Norðurlanda þar sem áhersla er á sjálfbæra starfsemi fyrirtækja og hringrásarlausnir í samræmi við grænu umskiptin, samkeppnishæfra Norðurlanda með aðgerð sem miðar að því að auka virði þess að efla samkeppnishæfni í atvinnugreinum innan FJLS á Norðurlöndum, og félagslega sjálfbærra Norðurlanda í gegnum undirmarkmið um aukið vinnuafl og eflingu starfstækifæra innan atvinnugreina FJLS.
helena_wahlman-agriculture-3082.jpg

Undirmarkmið 2.1: Samvinna hins opinbera og einkageirans í þágu nýsköpunar og samkeppnishæfni

Stuðningur við að komið verði á fót frekari samstarfsmöguleikum fyrir stjórnvöld, fræðasamfélagið, borgarasamfélagið og fyrirtæki sem starfa á málefnasviði FJLS. Eflt samstarf um næringarmiðaðar rannsóknir fyrir málefnasvið FJLS með virkri nýtingu stofnana á borð við NordForsk og Nordic Innovation þar sem sérstök áhersla er lögð á að nýta samlegðarmöguleika á milli útboða á Norðurlöndum og í ESB. Leitast eftir samstarfi um nýsköpun, uppbyggingu þekkingar og tilraunaverkefni um sjálfbærar hringrásarlausnir og nýjar lífhagkerfisafurðir úr virðiskeðjum FJLS sem auka samkeppnishæfni og efnahagslegan virðisauka.

Undirmarkmið 2.2: Tölfræði og gögn um sjálfbæra fyrirtækjaþróun innan norræna lífhagkerfisins

Stuðningur til þróunar norræns tölfræðigagnagrunns til að halda til haga mikilvægum upplýsingum fyrir atvinnulífið, stjórnvöld og fræðasamfélagið á málefnasviði FJLS. Leitast eftir samstarfi við aðrar ráðherranefndir sem fjalla um stjórnsýsluhindranir, vinnuafl, stafræna væðingu, menntun, hæfniþróun og hagvöxt til þess að afla vandaðra talnagagna og þverfaglegra gagna sem ýta undir efnahagslega verðmætasköpun og styrkja sjálfbærni og samkeppnishæfni.

Undirmarkmið 2.3: Starfstækifæri og aukið vinnuafl innan atvinnugreina FJLS

Stuðningur til verkefna sem vinna gegn kerfislægum hindrunum, ýta undir jafnrétti og skapa betri skilyrði fyrir yngra og fjölbreyttara vinnuafl. Slík verkefni geta einnig stuðlað að byggðaþróun, fjölgað starfstækifærum innan FJLS, eflt félagslega sjálfbærni, aukið samkeppnishæfni og aukið viðnámsþrótt fæðuframboðs. Ýtt verður undir samstarf á milli menntastofnana og hæfniþróunar á Norðurlöndum og á milli fyrirtækja og menntastofnana til að efla aðdráttarafl málefnasviða FJLS.