Áskoranir norrænu landanna á sviði efnahags- og fjármálastefnu eru nátengdar þeim skipulagslegu breytingum í efnahagsmálum sem Norðurlönd standa frammi fyrir á næstu árum. Hagkerfi norrænu landanna eru lítil og útflutningsmiðuð og því hefur alþjóðleg þróun í efnahagsmálum, ekki síst í ESB-löndunum, mikil áhrif á þau.
Norrænu löndin hafa sett sér háleit markmið í loftslagsmálum. Eigi þau að nást þarf að hraða hinum grænu umskiptum þvert á norræn hagkerfi og samfélög. Það er forgangsverkefni að tryggja stöðugleika í efnahagslegri umgjörð á Norðurlöndum og alþjóðlega sem getur með skilvirkum hætti og í samræmi við sjálfbær ríkisfjármál flýtt fyrir hagkvæmum grænum og atvinnuskapandi umskiptum. Það krefst þess að hagkerfi og vinnumarkaðir séu reiðubúin að takast á hendur umskipti og að efnahagsstefnan, með fjármálastefnuna sem lykilúrræði, flýti fyrir loftslagsvænum aðgerðum og styðji við grænar lausnir og stuðli að því að tryggja skilvirka ráðstöfun einkafjármagns og fjárfestinga. Jafnframt er mikilvægt að tryggja að grænu umskiptin fari fram með þeim hætti að þau styðji við norræna vinnumarkaðslíkanið og stuðli að félagslegri samstöðu, lágmarki atvinnuleysi og efnahagslegan ójöfnuð og skapi öllum íbúum á Norðurlöndum tækifæri.
Norrænu löndin standa frammi fyrir miklum skipulagslegum breytingum á næstu árum sem bæði munu fylgja ný tækifæri og áskoranir. Lýðfræðilegar breytingar á borð við hækkandi meðalaldur íbúa og tilhneigingu til þess að vinna minna eru afleiðingar aukinnar velferðar í norrænu löndunum. Slíkar breytingar hafa í för með sér aukið álag á ríkisfjármálin í norrænu löndunum og kalla á endurskoðun og aðgerðir sem ýta undir aukna atvinnuþátttöku og virkni og styrkja Norðurlönd sem samþætt svæði. Að auki á sér stað hröð tækniþróun, meðal annars á sviði gervigreindar, sem bæði hefur í för með sér ný tækifæri og nýjar ógnir. Norrænt samstarf á sviði efnahags- og fjármálastefnu getur átt þátt í að styðja við sameiginlegar lausnir og stefnur sem styrkja viðnámsþrótt norrænu landanna og efla hagvaxtarmöguleika á Norðurlöndum til langs tíma með sjálfbærum hætti.