Fara í innihald

Markmið 1: Grænu umskiptin á Norðurlöndum skulu eiga sér stað með kostnaðarhagkvæmum og félagslega réttlátum hætti

Græn Norðurlönd

Eigi loftslagsmarkmiðin að nást verður að hraða hinum grænu umskiptum í norrænum hagkerfum og samfélögum. Mikilvægt er að umskiptin eigi sér stað með eins hagkvæmum hætti og hægt er þannig að umgjörð efnahagsstefnunnar stuðli að því að ýta undir skilvirka ráðstöfun auðlinda, heilbrigð og stöðug efnahagsleg skilyrði fyrir grænar fjárfestingar, atvinnugreinar og vinnustaði og þannig að aðgerðir til þess að draga úr losun séu kostnaðarhagkvæmar og stuðli að félagslega réttlátum grænum umskiptum. MR-Finans mun styðja við miðlun reynslu, þekkingar og lausna á milli Norðurlanda sem auðvelda þetta ásamt því að miðla norrænni reynslu og lausnum á alþjóðavettvangi.
Nordregio_ArthurCammelbeeck_0706_0253_1.jpg

Undirmarkmið 1.1: Efla þekkingu um og árangursríka notkun á efnahagslegum stýritækjum til þess að styðja við græn umskipti

MR-Finans mun styðja og efla lausnir sem byggjast á þekkingu og norrænt samstarf um árangursríka notkun og innleiðingu efnahagslegra stýritækja til þess að styðja við og flýta fyrir grænu umskiptunum í norrænu löndunum.

Undirmarkmið 1.2: Styðja við sam­þættingu loftslags­sjónarmiða við þjóðhagfræðilegar stefnur og líkön á Norðurlöndum og alþjóðavísu til þess að ná fram kost­naðar­hagkvæmum grænum umskiptum

Norrænu löndin eru framarlega þegar kemur að því að flétta loftslagssjónarmið við þjóðhagfræðileg líkön. MR-Finans mun stuðla að því að efla hagnýtt norrænt samstarf og þekkingarmiðlun og styðja við alþjóðlegt hlutverk og forystu Norðurlanda á þessu sviði.

Undirmarkmið 1.3: Samstarf um að efla efnahagsstefnu í norrænu löndunum sem tryggir inngildandi græn umskipti og efnahagsþróun  

Grænu umskiptin í norrænum hagkerfum eiga að eiga sér stað með félagslega réttlátum hætti sem styður við norræna vinnumarkaðslíkanið og stuðlar að félagslegri samstöðu, lágmarkar atvinnuleysi og efnahagslegan ójöfnuð og skapar öllum íbúum á Norðurlöndum tækifæri. MR-Finans mun efla miðlun reynslu á milli norrænu landanna og stefnumótun sem getur stutt við inngildandi efnahagsþróun í norrænu löndunum með tilliti til grænna og stafrænna umskipta.