Fara í innihald

Inngangur

Í samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um efnahags- og fjármálastefnu, MR-Finans, er pólitískum áherslum og markmiðum fyrir tímabilið 2025–2030 lýst.
Á tímabilinu 2025–2030 verður áherslan í norrænu samstarfi á sviði efnahags- og fjármála á að styðja við stefnumörkun og lausnir sem stuðla að hagkvæmum og félagslega réttlátum grænum umskiptum á Norðurlöndum. Einnig verður lögð áhersla á samstarf og stefnumótun sem styrkir samkeppnishæfni og viðnámsþol norrænu hagkerfanna, eykur hagvaxtarmöguleika til lengri tíma og eflir frjálsa för og samþættingu þvert á norræn landamæri.
Norðurlandaráð, borgarasamfélagið og aðrir viðeigandi aðilar komu að gerð samstarfsáætlunarinnar. Ráðherranefndinni hafa borist ábendingar um efni samstarfsáætlunarinnar frá norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni.
Samstarfsáætlunin er leiðandi í allri starfsemi undir ráðherranefndinni um efnahags- og fjármálastefnu. MR-Finans samþykkti samstarfsáætlunina hinn 4. júní 2024 í Stokkhólmi og gildir hún til 31. desember 2030.
Samstarfsáætlunin tekur mið af því markmiði Norrænu ráðherranefndarinnar að leggja sitt af mörkum til þess að uppfylla framtíðarsýnina um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Allar ráðherranefndir Norrænu ráðherranefndarinnar vinna að því að uppfylla framtíðarsýnina með hinum þremur stefnumarkandi áherslum.
36447.jpg
Öll starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á að stuðla að því að gera að veruleika framtíðarsýn okkar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Samstarfsáætlunin lýsir því hvernig fagsviðið ætlar að vinna með stefnumarkandi áherslurnar þrjár.