Áskoranir
Norðurlönd samanstanda af miklum land- og hafsvæðum, frá heimskautasvæðum í norðri til hlýrri svæða í suðri. Þar eru að finna skóga, fjöll, eldfjöll, sléttur, landbúnaðarland, eyjar, smásamfélög og bæi og borgir. Hafsvæðin ná yfir Eystrasaltið í suðaustri, Norðursjó, Noregshaf, Norðaustur-Atlantshaf og Grænlandshaf í vestri og Norður-Íshaf í norðri.
Athafnir mannsins hafa neikvæð umhverfisáhrif á vistkerfi á landi og í sjó. Ofauðgun, súrnun sjávar, eiturefni, úrgangur (þ.m.t. plast), ofveiði og ágengar framandi tegundir eru allt alvarleg vandamál. Áhrif loftslagsbreytinganna og bætast við það álag sem þegar er á vistkerfunum. Loftslagsbreytingarnar eru hraðari norðan við heimskautabaug en annars staðar á jörðinni og hefur meðalhitastig á norðurskautssvæðinu hækkað fjórfalt á við það sem gerist á suðlægari slóðum síðustu áratugina sem hefur í för með sér bráðnun sífrera og minnkandi íshellu.
Geópólitískar aðstæður hafa breyst á Norðurlöndum og í nágrenni þeirra. Ný staða er komin upp í öryggismálum, skautun færist sífellt í aukana og loftslagsbreytingar eru áskorun fyrir okkur. Það verður því æ þýðingarmeira að leita eftir samstarfi við önnur lönd og efla viðbúnað frá mörgum hliðum. Umhverfis- og loftslagssvið getur meðal annars tekið þátt með því að vernda og byggja upp viðnámsþolin samfélög út frá umhverfis- og loftslagssjónarhorni.
Norrænu löndin standa sig nokkuð vel þegar kemur að hinum 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun en standa þó, líkt og margar iðnvæddar þjóðir, enn frammi fyrir áskorunum varðandi loftslagsmál, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, mengun og allt of mikla auðlindanotkun. Áskoranirnar felast meðal annars í því að uppfylla hin metnaðarfullu markmið um kolefnishlutleysi fyrir tímabilið 2035-2050, að innleiða Kunming-Montréal-rammann um líffræðilega fjölbreytni undir samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) og hinn nýja ramma um efnavörur ásamt því að draga úr auðlindanotkun. Vistspor norrænu landanna er með þeim stærstu í heiminum og þörf er á því að minnka það mikið, bæði til þess að draga úr ágangi á auðlindir jarðar en einnig til þess að sýna að hægt sé að lifa innan þolmarka jarðarinnar og um leið viðhalda háu velsældarstigi. Helstu og stærstu áskoranirnar á sviði umhverfis- og loftslagsmála hafa því bæði norræna og alþjóðlega hlið með tilliti til ESB og alþjóðasamfélagsins.
Áskoranir norrænu landanna, og þar af leiðandi einnig tækifæri þeirra, koma að miklu leyti heim og saman við það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nefnt „þríþætta vá“, þ.e. áskoranir sem tengjast loftslagsmálum, líffræðilegri fjölbreytni og mengun. Í norrænu samhengi tengjum við mengum meðal annars við hina miklu auðlindanotkun okkar. Meðal annars getur þar verið um að ræða neyslu okkar á vörum sem innihalda plast, skaðlega málma og hættulegar efnavörur.