Fara í innihald

Pólitískar áherslur

Norrænt samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála

Norðurlönd hafa um langt skeið haft með sér samstarf um umhverfis- og loftslagsmál. Norræn samvinna er í stöðugri þróun og er henni ætlað að styðja við græn umskipti á Norðurlöndum. Aðgerðirnar eiga að vera stefnumiðaðar og miða að því að skapa norrænan virðisauka og notagildi fyrir lönd, fyrirtæki og almenning. Í norrænu notagildi felst að löndin ná oft betri árangri vinni þau saman en ef þau starfa hvert út af fyrir sig. Það getur átt við um samstarf að alþjóðamálum eða sameiginlegt átak til að fást við sérstök norræn viðfangsefni, svo sem áhrif af loftslagsbreytingum eða að finna leiðir til þess að finna að sjálfbærari neyslu á Norðurlöndum til lengri tíma. Auk ráðherrasamstarfs fer umhverfis- og loftslagssamstarfið fram á milli stjórnvalda, í fræðasamfélaginu, atvinnulífinu og borgarasamfélaginu. Fyrir mörgum er tengslanet norrænna kollega bæði mikilvægt og sjálfsagt og skilar beinum árangri. Miklu máli skiptir að samstarfið beinist einnig að því með hvaða hætti tekist er á við loftslags- og umhverfisáskoranir á norrænum jaðarsvæðum og litlum samfélögum. Innan fagsviðsins er einnig að finna dæmi um sjálfstætt samstarf á borð við norræna umhverfismerkið Svaninn, Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Áskoranir

Norðurlönd samanstanda af miklum land- og hafsvæðum, frá heimskautasvæðum í norðri til hlýrri svæða í suðri. Þar eru að finna skóga, fjöll, eldfjöll, sléttur, landbúnaðarland, eyjar, smásamfélög og bæi og borgir.  Hafsvæðin ná yfir Eystrasaltið í suðaustri, Norðursjó, Noregshaf, Norðaustur-Atlantshaf og Grænlandshaf í vestri og Norður-Íshaf í norðri.
Athafnir mannsins hafa neikvæð umhverfisáhrif á vistkerfi á landi og í sjó. Ofauðgun, súrnun sjávar, eiturefni, úrgangur (þ.m.t. plast), ofveiði og ágengar framandi tegundir eru allt alvarleg vandamál. Áhrif loftslagsbreytinganna og bætast við það álag sem þegar er á vistkerfunum. Loftslagsbreytingarnar eru hraðari norðan við heimskautabaug en annars staðar á jörðinni og hefur meðalhitastig á norðurskautssvæðinu hækkað fjórfalt á við það sem gerist á suðlægari slóðum síðustu áratugina sem hefur í för með sér bráðnun sífrera og minnkandi íshellu. 
Geópólitískar aðstæður hafa breyst á Norðurlöndum og í nágrenni þeirra. Ný staða er komin upp í öryggismálum, skautun færist sífellt í aukana og loftslagsbreytingar eru áskorun fyrir okkur. Það verður því æ þýðingarmeira að leita eftir samstarfi við önnur lönd og efla viðbúnað frá mörgum hliðum. Umhverfis- og loftslagssvið getur meðal annars tekið þátt með því að vernda og byggja upp viðnámsþolin samfélög út frá umhverfis- og loftslagssjónarhorni.
Norrænu löndin standa sig nokkuð vel þegar kemur að hinum 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun en standa þó, líkt og margar iðnvæddar þjóðir, enn frammi fyrir áskorunum varðandi loftslagsmál, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, mengun og allt of mikla auðlindanotkun.  Áskoranirnar felast meðal annars í því að uppfylla hin metnaðarfullu markmið um kolefnishlutleysi fyrir tímabilið 2035-2050, að innleiða Kunming-Montréal-rammann um líffræðilega fjölbreytni  undir samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) og hinn nýja ramma um efnavörur ásamt því að draga úr auðlindanotkun.  Vistspor norrænu landanna er með þeim stærstu í heiminum og þörf er á því að minnka það mikið, bæði til þess að draga úr ágangi á auðlindir jarðar en einnig til þess að sýna að hægt sé að lifa innan þolmarka jarðarinnar og um leið viðhalda háu velsældarstigi. Helstu og stærstu áskoranirnar á sviði umhverfis- og loftslagsmála hafa því bæði norræna og alþjóðlega hlið með tilliti til ESB og alþjóðasamfélagsins.
Áskoranir norrænu landanna, og þar af leiðandi einnig tækifæri þeirra, koma að miklu leyti heim og saman við það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nefnt „þríþætta vá“, þ.e. áskoranir sem tengjast loftslagsmálum, líffræðilegri fjölbreytni og mengun. Í norrænu samhengi tengjum við mengum meðal annars við hina miklu auðlindanotkun okkar. Meðal annars getur þar verið um að ræða neyslu okkar á vörum sem innihalda plast, skaðlega málma og hættulegar efnavörur.
Norrænu löndin standa, líkt og margar iðnvæddar þjóðir, enn frammi fyrir áskorunum varðandi loftslagsmál, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, mengun og allt of mikla auðlindanotkun.

Tækifæri

Á hinn bóginn hafa norrænu löndin jafnframt sérstakar forsendur og tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum til lausnar stórra umhverfis- og loftslagsáskorana. Menntunarstig íbúa er hátt og mikill skilningur er á því að þörf sé á grænum umskiptum, einkum hjá yngri kynslóðinni. Umhverfi okkar, bæði náttúru- og menningarlandslag, ýtir undir sameiginlega sjálfsmynd og félagstilfinningu, lífsgæði og heilbrigði. Það er jafnframt undirstaða margra helstu atvinnugreina í norrænu löndunum. Standa þarf vörð um náttúru- og menningarlandslag til þess að það verði eftir sem áður öflugt og hafi einnig jákvæð áhrif á félagslega og efnahagslega sjálfbærni.
Við erum framarlega í stafrænni væðingu og samfélög okkar einkennast af miklum samskiptum. Hér eru framúrskarandi háskólar og þekkingarstofnanir þar sem stundaðar eru rannsóknir og nýsköpun.  Þróun gervigreindar og annarrar brautryðjandi notkunar á stafrænni tækni verður sífellt hraðari. Við eigum okkur hefð um að stefnumörkun ráðist af þekkingu og höfum reynslu af því að afla í sameiningu þekkingar sem gagnast í alþjóðlegum ferlum. Þá eru ákvarðanaferlar hér tiltölulega gagnsæir, stuttir og hnökralausir og við höfum grænar hugveitur og ekki síst fjölda alþjóðlegra fyrirtækja sem eru í fararbroddi í grænu umskiptunum.
Standa þarf vörð um náttúru- og menningarlandslag til þess að það verði eftir sem áður öflugt og hafi einnig jákvæð áhrif á félagslega og efnahagslega sjálfbærni.

Áherslur í samstarfsáætluninni

Áskoranir á sviði loftslagsmála, líffræðilegrar fjölbreytni og mengunar hafa áhrif hver á aðra og eru innbyrðis tengdar. Þess vegna er sjónum í samstarfsáætluninni einnig beint að samlegðaráhrifum og þverlægum sjónarhornum þegar leitað er lausna á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Bæði á þetta við um þessi þrjú svið en einnig í tengslum við önnur fagsvið innan samstarfs Norrænu ráðherranefndarinnar. Til þess að nauðsynleg umskipti geti átt sér stað þurfa áherslur allra fagsviða og ólíkra hluta samfélagsins að vera í takt. Gera þarf tengsl umhverfislegrar, félagslegrar og efnahagslegrar sjálfbærni enn sýnilegri. Með því að vera í fararbroddi og setja okkur háleit markmið í umhverfis- og loftslagsmálum eflum við samkeppnishæfni okkar og sköpum ný græn störf.
Alþjóðleg og landsbundin stjórntæki á borð við skatta, fjárstuðning, umhverfislöggjöf og stuðning við rannsóknir og nýsköpun gegna lykilhlutverki þegar kemur að lausn flókinna samfélagslegra úrlausnarefna og því að ná settum markmiðum í umhverfismálum. Séu stjórntæki útfærð með réttum hætti hafa þau áhrif á hegðun einstaklinga og fyrirtækja og skapa hvata fyrir þau til þess að breyta venjum sínum svo þau hafi minni umhverfisáhrif. Slíkar breytingar geta verið kostnaðarsamar fyrir suma og mikilvægt er að einnig séu útfærð stjórntæki til þess að skipta gæðum samfélagsins og bæta þeim það upp sem verr koma út úr umskiptum yfir í grænna hagkerfi. Með lausnum sem eru kostnaðarhagkvæmar, stuðla að aukinni samkeppnishæfni, eru markaðslegar og um leið sveigjanlegar með tilliti til leiða til þess að ná markmiðum, er hægt að ná aukinni sátt um breytingar. Jafnframt eiga norrænu löndin áfram að færa sér í nyt samstarf og upplýsingamiðlun í tengslum við mál sem varða stefnuinnleiðingu og val á stjórntækjum.
Með því að vera í fararbroddi og setja okkur háleit markmið í umhverfis- og loftslagsmálum eflum við samkeppnishæfni okkar og sköpum ný græn störf.
Mikilvægur útgangspunktur samstarfsáætlunarinnar er að efla samskipti á milli stjórnmálanna og atvinnulífsins, borgarasamfélagsins og fræðasamfélagsins. Í því felst einnig að tengja staðbundna, landsbundna, svæðisbundna og alþjóðlega aðila og sjónarmið inn í vinnuna. Ef við eigum að leysa þau flóknu úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir þurfa allir samfélagshópar að geta haft áhrif. Frumbyggjar, sjónarhorn barna og ungmenna og jafnrétti eru þættir sem skipta miklu máli fyrir norrænt samstarfi um umhverfis- og loftslagsmál. Að auki er mikilvægt að taka tillit til sérstöðu norrænna samfélaga, til dæmis með samvinnu um auðlindastýringu og miðlun á reynslu á milli smárra samfélega á Norðurlöndum. Norræn smásamfélög búa oft við sérstök skilyrði og áskoranir samanborið við norrænu löndin almennt. Taka ber tillit til þessa í norrænu samstarfi og vinnunni að því að uppfylla markmiðin.
Ræða þarf, útfæra og kynna hvernig gott líf, þar sem ekki er gengið á þolmörk jarðarinnar, getur litið út. Skilgreining okkar á háu velsældarstigi þarf að breytast og mun að öllum líkindum gera það. Umhverfis- og loftslagssvið þarf að bæta sig í því að kynna hvernig velsæld getur falist í aðgengi að lifandi náttúru, hreinu hafi, hreinu lofti, samfélagi sem laust er við skaðlegar efnavörur og mengun, trausti á milli fólks og öryggi þegar kemur að áhrifum breytts loftslags.
Þá á samstarfið eftir sem áður að einkennast af miklum metnaði og forystu, ekki síst í tengslum við Evrópusambandið og annars staðar á alþjóðlegum vettvangi. Um leið þurfum við að sýna hvernig við getum staðið við alþjóðlegar skuldbindingar okkar svæðisbundið og staðbundið. Mikið norrænt notagildi á að vera í því sem löndin sjálf og aðrir aðilar gera og í þeim norrænu samstarfsnetum og hæfni sem þegar er til staðar eða hægt er að byggja upp.
Á grundvelli þessa hefur Norræna ráðherranefndin um umhverfis- og loftslagsmál ákveðið markmið og undirmarkmið tímabilsins 2025–2030. Hinar pólitísku áherslur er byggðar á framangreindri greiningu ásamt mati á því hvernig sem mestu norrænu notagildi verði náð, til dæmis með samstarfi á svæðinu, innan Evrópusambandsins og alþjóðlega.
Mikilvægur útgangspunktur samstarfsáætlunarinnar er að efla samskipti á milli stjórnmálanna og atvinnulífsins, borgarasamfélagsins og fræðasamfélagsins.

Markmið og undirmarkmið

Umhverfis- og loftslagssvið hefur unnið markvisst að því að fella hinar þrjár stoðir sjálfbærni inn í þessa samstarfsáætlun. Aðal- og undirmarkmið okkar eru útfærð þannig að þau stuðli ekki aðeins að grænum Norðurlöndum heldur einnig að samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.