Norrænu löndin lifa enn ekki innan þolmarka jarðarinnar og þurfa að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með skilvirkri og hringrásarmiðaðri auðlindanotkun. Almennt séð eru norræn fyrirtæki mjög samkeppnishæf innan Evrópusambandsins og á heimsvísu, meðal annars vegna þess að hér eru miklar umhverfislegar kröfur gerðar, fyrirtæki eru virk og almenningur meðvitaður. Mikilvægt er að Norðurlönd vinni áfram að því að efla metnað atvinnulífsins í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál. Þannig styrkjum við bæði samkeppnishæfni, velferð og umhverfið. Við munum áfram róa saman í átt til hringrásarhagkerfis með því að koma í veg fyrir notkun hættulegra efna, leggja til aðgerðir sem minnka úrgang, hafa áhrif á vörustefnu og taka þátt í þróun nýrra fjármögnunarlausna og viðskiptalíkana sem byggjast á hringrásarhugsun. Valfrjáls tæki á borð við vottaðar umhverfismerkingar skipta miklu máli og geta vísað veginn fyrir neytendur og fyrirtæki sem vilja vera í fararbroddi. Í norræna umhverfismerkinu Svaninum eiga Norðurlönd öflugt, þekkt og rótgróið tæki sem stuðlað getur að því að flýta fyrir umskiptunum.
Við munum vinna áfram saman og byggja á því sem við höfum þegar gert til þess að draga úr skaðlegum áhrifum af efnavörum og mengun fyrir fólk og umhverfi. Við munum vinna með almenningi og fyrirtækjum í tengslum við breytta hegðun, löggjöf, staðla, eftirlit, þekkingu, nýsköpun og fræðslu. Það verður eftir sem áður forgangsmál í norrænu samstarfi að berjast gegn plastmengun jafnt heima fyrir, á Norðurlöndum og á heimsvísu. Umhverfisglæpir, til dæmis ólögleg meðhöndlun úrgangs, er svið þar sem líklegt er efla þurfi samstarfið í framtíðinni.