Fara í innihald

Markmið 3: Norrænu löndin hafa minnkað vistspor sitt í gegnum hringrásar­hagkerfi og leggja sitt af mörkum til þess að draga úr mengun og hættulegum efnavörum í heiminum og heima fyrir

Norrænu löndin lifa enn ekki innan þolmarka jarðarinnar og þurfa að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með skilvirkri og hringrásarmiðaðri auðlindanotkun. Almennt séð eru norræn fyrirtæki mjög samkeppnishæf innan Evrópusambandsins og á heimsvísu, meðal annars vegna þess að hér eru miklar umhverfislegar kröfur gerðar, fyrirtæki eru virk og almenningur meðvitaður. Mikilvægt er að Norðurlönd vinni áfram að því að efla metnað atvinnulífsins í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál. Þannig styrkjum við bæði samkeppnishæfni, velferð og umhverfið. Við munum áfram róa saman í átt til hringrásarhagkerfis með því að koma í veg fyrir notkun hættulegra efna, leggja til aðgerðir sem minnka úrgang, hafa áhrif á vörustefnu og taka þátt í þróun nýrra fjármögnunarlausna og viðskiptalíkana sem byggjast á hringrásarhugsun. Valfrjáls tæki á borð við vottaðar umhverfismerkingar skipta miklu máli og geta vísað veginn fyrir neytendur og fyrirtæki sem vilja vera í fararbroddi. Í norræna umhverfismerkinu Svaninum eiga Norðurlönd öflugt, þekkt og rótgróið tæki sem stuðlað getur að því að flýta fyrir umskiptunum.
Við munum vinna áfram saman og byggja á því sem við höfum þegar gert til þess að draga úr skaðlegum áhrifum af efnavörum og mengun fyrir fólk og umhverfi. Við munum vinna með almenningi og fyrirtækjum í tengslum við breytta hegðun, löggjöf, staðla, eftirlit, þekkingu, nýsköpun og fræðslu. Það verður eftir sem áður forgangsmál í norrænu samstarfi að berjast gegn plastmengun jafnt heima fyrir, á Norðurlöndum og á heimsvísu. Umhverfisglæpir, til dæmis ólögleg meðhöndlun úrgangs, er svið þar sem líklegt er efla þurfi samstarfið í framtíðinni.
mål 3.jpg

Undirmarkmið 3.1: Í viðræðum komum við að samningaborðinu með mikinn metnað og hrindum markvisst í framkvæmd alþjóðlegum samningum, m.a. í tengslum við efnavörur, úrgang, mengun og plast.

Í alþjóðlegum ferlum á norrænt samstarf að vera leiðandi afl. Við munum halda áfram á þeirri braut sem vörðuð hefur verið, t.d. varðandi alþjóðlega ramma um efnavörur og úrgang í hafinu og viðræður um alþjóðasamning um plastmengun. Samstarfið mun áfram stuðla markvisst að þróun og framkvæmd ESB-verkefna, til að mynda varðandi vörulöggjöf og aðgerðir til að draga úr úrgangi. Vekja ber athygli á samstarfi okkar í tengslum við mengun og auðlindanýtni til þess að það nýtist við framkvæmd alþjóðlegra samninga og ferla.

Undirmarkmið 3.2: Við styðjum við hringrásarlausnir sem fá fyrirtæki til þess að hanna og framleiða með auðlindanýtni að leiðarljósi og almenning til þess að neyta með sjálfbærum hætti.

Hringrásarhagkerfi stuðlar að því að takmarka nýtingu náttúruauðlinda og hefur þannig jákvæð áhrif á náttúruna. Umskiptin yfir í hringrásarhagkerfi fela í sér breytingar þegar kemur að hönnun, framleiðslu, vali á framleiðsluaðferðum og neyslumynstri. Það krefst jafnframt hvata sem ýta undir viðskiptalíkön sem stuðla til dæmis að langri endingu, endurnýtingu og endurvinnslu og skilvirkri fræðslu og upplýsingagjöf.  Draga verður úr efnahagslegum og reglugerðartengdum hindrunum til þess að viðskiptalíkön sem byggjast á hringrásarhugsun geti keppt við hefðbundin línuleg viðskiptalíkön á jafnréttisgrundvelli.  
Norrænt samstarf mun styðja við þróun nýskapandi lausna og samstarfs sem teygir sig yfir landamæri þar sem samnorrænn markaður getur til dæmis gert endurnýtingu og endurvinnslu kleifa, ekki síst í byggingariðnaði. Mikilvæg stjórntæki eru meðal annars opinber innkaup, umhverfismerkingar, efnahagslegir hvatar, fræðsla, visthönnun og framleiðendaábyrgð. Úrgangur frá byggingariðnaði og niðurrifi, plast, vefnaðarvara, sjaldgæf hráefni og hættulegur úrgangur eru þættir sem njóta sérstaks forgangs.

Undirmarkmið 3.3: Við drögum úr þeirri hættu sem fólki og umhverfi stafar af efnavörum með því að fasa út hættuleg efni, afla nýrrar þekkingar og upplýsa mikilvæga markhópa.

Forsenda hringrásarhagkerfis eru eiturefnalausar hringrásir. Á Norðurlöndum er löng hefð fyrir árangursríku samstarfi á sviði efnavara. Norrænt samstarf mun því halda áfram vinnunni að því að koma í veg fyrir að vörur innihaldi hættuleg efni og tryggja að skaðleg efni komi ekki fyrir í hringrásarhagkerfinu. Við munum styðja við framleiðslu á afurðum og vörum sem hannaðar eru með þeim hætti að þær séu öruggar og sjálfbærar. Við munum halda samstarfinu áfram og þróa það frekar, meðal annars með því að leggja áherslu á að draga úr notkun hættulegra efna, vinna saman að framfylgd ESB-löggjafar, eftirliti og hættumati ásamt því að miðla reynslu af aðferðum og gögnum frá eftirliti, meðal annars í tengslum við heilsu manna. Einnig verður sjónum norræns samstarfs beint að málum sem varða efni og efnavöru sem lúta allri löggjöf sem við á, svo sem efnavörulöggjöf en einnig löggjöf í tengslum við loft- og vatnsgæði, efni í matvöru og sýklalyfjaónæmi.

Undirmarkmið 3.4: Við tökum þátt í því að sýna hvernig íbúar á Norðurlöndum geta lifað umhverfislega, félagslega og efnahagslega sjálfbæru lífi innan þolmarka jarðarinnar.

Íbúar á Norðurlöndum vilja leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Umhverfis- og loftslagssvið mun halda á lofti og kynna verðmæti á borð við aðgengi að þróttmiklu náttúru- og menningarlandslagi, hreint haf, samfélag sem laust er við hættuleg efni og mengun og öryggi þrátt fyrir áhrif loftslagsbreytinga. Um leið munum við sýna hvernig sérhver einstaklingur og fyrirtæki geta tekið sjálfbærar ákvarðanir með hagsmuni loftslagsins og umhverfisins að leiðarljósi.