Á tímum loftslagsbreytinga og geópólitískra áskorana skiptir norræn samvinna máli fyrir sameiginlega velferð og viðnámsþrótt landanna okkar. Með því að standa saman verðum við öruggari og öflugri og með því að skara fram úr getum við stuðlað að þróun umhverfis- og loftslagsmála innan svæðisins sem á heimsvísu.
Samstarfsáætlunin fyrir árin 2025–2030 tekur mið af hinni þríþættu ógn sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint. Í samstarfsáætluninni er lögð áhersla á loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og mengun sem og hringrásarhagkerfið og þannig er henni ætlað efla norrænt samstarf þar sem norrænt notagildi er fyrir hendi. Norðurlönd skulu áfram vera leiðandi við hin grænu umskipti og samkeppnishæft og félagslega sjálfbært svæði í alþjóðlegu tilliti. Loftslags- og umhverfismál eru alþjóðleg málefni og því eiga Norðurlönd einnig að vera sterk og skýr rödd til að stuðla að árangursríkum lausnum í alþjóðlegum samningaviðræðum um umhverfismál og loftslagsmál.
Í samstarfsáætluninni fyrir 2025–2030 er fjallað um áskoranir en einnig um þau tækifæri sem geta átt þátt í því að leysa úr þeim. Þessar áskoranir eru m.a. þær loftslagsbreytingar sem verða sífellt hraðari, aukin hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og neikvæð áhrif á mannfólk og umhverfi af völdum hættulegra efna. Með metnaðarfullri og skilvirkri stefnu á sviði umhverfis- og loftslagsmála og í samvinnu við lykilaðila í atvinnulífinu jafnt sem borgarasamfélaginu eru norrænu löndin í góðri stöðu til að bregðast við þessum áskorunum og stuðla að hringrásarhagkerfinu. Um leið er samstarfinu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar ætlað að stuðla að hagvexti og auknu samkeppnishæfi. Til að ná því fram verðum við sjálf að vera betri í að vinna saman á milli ólíkra fagsviða innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Þannig getum við skapað góð skilyrði til þeirra umbreytinga sem við viljum stuðla að bæði innan Norðurlanda og á heimsvísu.
Með þessari samstarfsáætlun hlökkum við til öflugs samstarfs á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem bæði stuðlar að því að við náum þeirri sameiginlegu framtíðarsýn okkar að verða samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030 og því að norrænu löndin verði öflug og djörf rödd í umhverfis- og loftslagsmálum á alþjóðavettvangi.