Samstarfsáætlunin tekur mið af því verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar að leggja sitt af mörkum til þess að uppfylla framtíðarsýnina um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Á öllum fagsviðum Norrænu ráðherranefndarinnar er unnið að hinum þremur stefnumarkandi áherslum til þess að uppfylla framtíðarsýnina, þ.e. grænum, félagslega sjálfbærum og samkeppnishæfum Norðurlöndum. Í þessari samstarfsáætlun hafa markmið umhverfis- og loftslagssviðs verið færð undir Græn Norðurlönd en við höfum á meðvitaðan hátt valið að útfæra markmiðin með þeim hætti að þau hafi jafnframt jákvæð áhrif á félagslega sjálfbærni og samkeppnishæfni. Með því að útvíkka nálgun fagsviðanna getum við uppfyllt alla þrjá þætti framtíðarsýnarinnar.
Í samstarfsáætluninni er áhersla lögð á áskoranir og tækifæri sem tengjast því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nefnt þríþætta vá, þ.e. loftslagsvá, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og mengun. Þessar þrjár hnattrænu vár hafa hver áhrif á aðra og tengjast innbyrðis og því verður að taka á þeim sameiginlega á kerfisbundinn hátt. Í samstarfsáætluninni er að finna sjónarmið og lausnir, sem bæði miðast sérstaklega við svið umhverfis- og loftslagsmála og ganga þvert á málefnasvið, með áherslu á jafnt norrænt sem alþjóðlegt notagildi. Áætlunin er byggð á hinu góða samstarfi landanna á sviði umhverfis- og loftslagsmála og undirstrikar metnað okkar til þess að leggja áfram okkar af mörkum til alþjóðlegra ferla.
Samstarfsáætlun þessi er stýrandi skjal í starfsemi ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál. Ráðherranefndin um umhverfis- og loftslagsmál samþykkti samstarfsáætlunina þann 6. september 2024 og gildir hún til 31. desember 2030. Hún var unnin af norrænu löndunum og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar með aðkomu og innleggi frá Norðurlandaráði, borgarasamfélaginu og öðrum viðkomandi aðilum.