Fara í innihald

Markmið 2: Norðurlönd hafa snúið við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni með því að efla og þróa samstarf við aðila úr atvinnulífinu, borgara­samfélaginu og fræða­samfélaginu

Íbúar Norðurlanda hafa mikið og gott aðgengi að náttúrunni og einstakt viðhorf til útivistar og menningarlandslags. Til þess að vernda líffræðilega fjölbreytni jafnt á Norðurlöndum sem í heiminum þarf að setja aukinn kraft í vinnuna og málið í meiri forgang. Allir aðilar, svo sem lönd, íbúar, frumbyggjar, fræðasamfélagið og fyrirtæki, þurfa að vinna saman til þess að finna og þróa lausnir sem snúa hnignun líffræðilegrar fjölbreytni við.
carl-johan_utsi-hiking-5682.jpg

Undirmarkmið 2.1: Við leggjum okkar af mörkum til metnaðarfullrar framkvæmdar Kunming-Montréal-samningsins og styðjum við þróun vinnu annarra landa, meðal annars með því að sýna hvernig unnt er að vernda líffræðilega fjölbreytni í samspili við félagslega og efnahagslega þróun.

Í gegnum norrænt samstarf aukast möguleikar okkar á því að hafa áhrif á og hraða vinnunni við að snúa við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni innan ESB og á heimsvísu. Við ætlum meðal annars að vinna að því að ná upp þróttmiklum vistkerfum og kynna hvernig hægt er að gera það í samspili við félagslega og efnahagslega þróun. Sérstök áhersla verður lögð á verndun vistkerfa, endurreisn náttúrugerða og að berjast gegn ágengum tegundum.

Undirmarkmið 2.2: Við eflum aðgerðir til þess að vernda, stýra og nýta hafsvæði Norðurlanda með umhverfislega, líffræðilega og efnahagslega sjálfbærum hætti.

Norðurlönd munu halda áfram að þróa samstarfið í tengslum við hafið. Á meðal mikilvægra mála þar sem þörf er á norrænu samstarfi eru alþjóðlegar viðræður og ferlar, varðveisla og endurheimt á náttúru hafsins við breyttar aðstæður í hafinu, þróun þekkingar, umhverfis- og loftslagseftirlit, sjálfbært blátt hagkerfi og vistkerfismiðuð skipulagning og stýring. Ofauðgun, súrnun sjávar, eiturefni, úrgangur (þar á meðal plast), breytingar á hitastigi og ágengar framandi tegundir eru áskoranir þar sem samstarf og skipti á upplýsingum eru grundvallarforsenda jákvæðrar þróunar. Sjálfbærar fiskveiðar eru ekki aðeins forsenda þess að viðhalda fjölbreytni vistkerfisins heldur einnig fyrir tækifærum komandi kynslóða til þess að nýta fiskistofnana. 

Undirmarkmið 2.3: Við verndum og þróum norrænt náttúru- og menningarlandslag með sjálfbærri landnotkun, vistkerfismiðuðu byggðaskipulagi og samvinnu við atvinnulífið, borgarasamfélagið og fræðasamfélagið.

Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni kemur æ betur í ljós á Norðurlöndum og heiminum öllum, á sama tíma og hnignun hennar eykst.  Náttúra, menningarlandslag og útivist stuðla að félagslegri sjálfbærni og lífsgæðum. Við þurfum að vinna áfram með það hvernig við nálgumst skipulag, hvernig við notum land okkar og vatn og hvernig við varðveitum og þróum hið einstaka menningarlandslag okkar. Til þess að þetta takist ætlum við að þróa áfram samstarfið við atvinnulífið, fjármálageirann, borgarasamfélagið, samfélög frumbyggja, fræðasamfélagið auk norrænna sveitarfélaga og svæða.

Undirmarkmið 2.4: Við styðjum náttúrumiðaðar og aðrar nýskapandi lausnir til þess að mæta áskorunum í tengslum við líffræðilega fjölbreytni, loftslagsmál og mengun.

Áskoranir þær sem heimurinn stendur frammi fyrir í tengslum við loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og mengun tengjast innbyrðis og því ber að nálgast þær sameiginlega. Norrænt samstarf hefur lagt sitt af mörkum til aukinnar þekkingar á og reynslu af þeim tækifærum sem felast í því að nota náttúrumiðaðar lausnir. Við munum áfram styðja við og efla náttúrumiðaðar og aðrar nýskapandi lausnir í tengslum við þessar áskoranir. Jafnframt munum við nýta þekkingu og reynslu í reynd.