Fara í innihald

Markmið 1: Norðurlönd eru í fararbroddi í umskiptum í átt til kolefnis­hlutleysis og loftslagsþols og vinna að metnaðarfullri uppfyllingu langtímamark­miða Parísar­samningsins

Norðurlönd eru og verða áfram í fararbroddi í loftslagsumskiptunum. Allir aðilar samfélagsins eiga að leggja sitt af mörgum og hafa tækifæri til þess að taka þátt í umskiptunum og enginn á að vera út undan. Norðurlönd ætla að sýna að hægt sé að lifa innan þolmarka jarðarinnar og um leið halda uppi háu velsældarstigi. Við beitum okkur fyrir því að þróa og nýta betur samlegðaráhrif í vinnunni að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, vernda líffræðilega fjölbreytni og draga úr mengun. Við vekjum athygli á mikilvægum norrænum atvinnugreinum og horfum jafnt til áskorana sem tækifæra. Með norrænu samstarfi aukum við möguleikana á því að hafa áhrif á og flýta fyrir vinnunni að kolefnishlutleysi, loftslagsþoli og hreinu lofti innan ESB og hnattrænt um leið og við færum okkur í nyt góða reynslu umheimsins. Norrænu löndin geta lagt sitt af mörkum með traustum vísindalegum grunni á sviði loftgæða og loftslagsmála og hafa því einstakt tækifæri til þess að hafa áhrif á gang mála á alþjóðavísu.
ulf_lundin-enjoying_nature-5310 (1).jpg

Undirmarkmið 1.1: Við beitum okkur fyrir auknum alþjóðlegum metnaði á sviði loftgæða og loftslagsmála og styðjum við vinnu annarra landa á sviðinu.

Við þróun og framkvæmd umhverfis- og loftslagsstarfs Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna mun norrænt samstarf koma að borðinu með mikinn metnað. Markmiðið felur í sér samstarf um nýja þekkingu, stefnumótun og uppfyllingu markmiði og ákvæða. Líkt og við á um önnur lönd sem iðnvæddust snemma hvílir sú ábyrgð á norrænu löndunum að leggja sitt af mörkum til loftslagsvinnu annarra landa og stuðla að réttlátum umskiptum. Þetta er hægt að gera með því að leggja fram lausnir sem sýna að hægt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en viðhalda um leið háu velsældarstigi ásamt því að leggja til þekkingu og hæfni í viðræðum og við fleiri tækifæri. Við ætlum að nýta okkur og vekja athygli á samlegðaráhrifum á sviði loftgæða og loftslagsmála. Jafnframt ætlum við að virða þær ólíku aðstæður sem jarðarbúar lifa við ásamt því að nýta okkur þekkingu og lausnir frá öðrum heimshlutum.

Undirmarkmið 1.2: Við greiðum fyrir orkuskiptum í samgöngum með virku samstarfi á landi, sjó og í lofti.

Umskipti yfir í alveg jarðefnaeldsneytislausar samgöngur munu krefjast margs konar aðgerða og breyttrar hegðunar.  Við þurfum að halda áfram að þróa tækni og auðvelda íbúum og fyrirtækjum á Norðurlöndum að velja sjálfbæra samgöngumáta. Norrænu löndin munu meðal annars eiga samstarf á sviði flugsamgangna og siglinga, þungaflutninga á landi, sem og innviða vegna sjálfbærra orkugjafa og orkuskipta bílaflotans. Norrænu löndin munu skiptast á upplýsingum og vinna saman að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá siglingum og flugumferð á heimsvísu. Græn og sjálfbær umskipti í samgöngugeiranum eru markmiðið til þess að draga úr losun, loftmengun og hávaða.

Undirmarkmið 1.3: Við eflum samstarfið innan losunarfrekra greina til þess að ýta undir ummyndandi og sjálfbærar lausnir.

Þörf er á grænum umskiptum í losunarfrekum greinum. Losun koldíoxíðs og metans hefur bæði áhrif á loftslagið og loftgæði. Losun ammóníaks og köfnunarefnis getur valdið skaða á bæði heilsu manna og náttúrunni. Norrænt samstarf mun styðja við umskipti í nokkrum lykilgreinum, svo sem orkuiðnaði, iðnaði, matvælaframleiðslu, landbúnaði og skógrækt, fiskveiðum, byggingariðnaði og borgarþróun. Norðurlönd standa frammi fyrir miklum áskorunum en jafnframt tækifærum þar sem við þurfum að auka framleiðslu á orku án jarðefnaeldsneytis svo um munar til þess að mæta þörfum framtíðarinnar. Við ætlum að styðja við nýja tækni og uppbyggingu innviða til þess að fanga, nota og binda koldíoxíð (CCUS). Einnig skal styðja við lausnir sem byggjast á náttúrulegri upptöku. Ein leið til þess að ná neikvæðri losun koldíoxíðs felst í skiljun og bindingu koldíoxíðs af lífrænum uppruna (BECCS). Jafnframt ber að vinna, nota og endurvinna með ábyrgum hætti hráefni í formi málma og steinefna sem þörf er á vegna hinna grænu umskipta. Við munum vinna að því að skapa rétt skilyrði til þróunar fyrir norrænar lausnir, samstarfsnet, fyrirtæki og þekkingarstofnanir, svo sem með skýrari regluverki og skýrslugjöf.

Undirmarkmið 1.4: Við eflum loftslagsþol okkar sem hluta af viðnámsþrótti samfélaga okkar.

Veðuröfgar sem leitt geta til flóða, þurrka og öflugra óveðra verðar sífellt algengari, líka á Norðurlöndum. Afleiðingar hækkandi hitastigs eru meðal annars þiðnun sífrera og minnkun ísbreiðunnar. Að auki má teljast líklegt að áhrif loftslagsbreytinga í öðrum heimshlutum hafi áhrif á samfélög okkar. Áhrif af því tagi sem teygja sig yfir landamæri eru til dæmis fólksflutningar og áhrif á viðskipti og afhendingarkeðjur, fjármálakerfi og innviði. Norrænt samstarf mun styðja við stefnumörkun og aðgerðir í þágu loftslagsaðlögunar í samræmi við önnur samfélagsleg markmið og með tilliti til heildarviðnámsþols samfélagsins. Við ætlum að þróa og miðla þekkingu um aðferðir og verklag sem getur bætt og aukið skilvirkni í vinnunni að ýmsum þáttum loftslagsaðlögunar, til að mynda loftslagshættu sem teygir sig yfir landamæri og traust kerfi til eftirfylgni. Að auki ætlar norrænt samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála að vekja athygli á úrlausnarefnum og styðja við lausnir sem samþætta loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og mengun. Það getur einnig falist í því að afla þekkingar og greina hvernig útfæra beri vatnsframboð og aðra nauðsynlega samfélagsþjónustu svo hún verði eins öflug og hægt er. Landsbundið, svæðisbundið og staðbundið samstarf gegnir lykilhlutverki og ber að styðja við það.