Þörf er á grænum umskiptum í losunarfrekum greinum. Losun koldíoxíðs og metans hefur bæði áhrif á loftslagið og loftgæði. Losun ammóníaks og köfnunarefnis getur valdið skaða á bæði heilsu manna og náttúrunni. Norrænt samstarf mun styðja við umskipti í nokkrum lykilgreinum, svo sem orkuiðnaði, iðnaði, matvælaframleiðslu, landbúnaði og skógrækt, fiskveiðum, byggingariðnaði og borgarþróun. Norðurlönd standa frammi fyrir miklum áskorunum en jafnframt tækifærum þar sem við þurfum að auka framleiðslu á orku án jarðefnaeldsneytis svo um munar til þess að mæta þörfum framtíðarinnar. Við ætlum að styðja við nýja tækni og uppbyggingu innviða til þess að fanga, nota og binda koldíoxíð (CCUS). Einnig skal styðja við lausnir sem byggjast á náttúrulegri upptöku. Ein leið til þess að ná neikvæðri losun koldíoxíðs felst í skiljun og bindingu koldíoxíðs af lífrænum uppruna (BECCS). Jafnframt ber að vinna, nota og endurvinna með ábyrgum hætti hráefni í formi málma og steinefna sem þörf er á vegna hinna grænu umskipta. Við munum vinna að því að skapa rétt skilyrði til þróunar fyrir norrænar lausnir, samstarfsnet, fyrirtæki og þekkingarstofnanir, svo sem með skýrari regluverki og skýrslugjöf.