Fara í innihald

Samkeppnishæf Norðurlönd

Sem svæði tilheyra Norðurlönd þeim stærstu í heimi. Samkeppnishæfni okkar á alþjóðavísu er ekki aðeins mikilvæg fyrir þróun atvinnulífsins, heldur einnig til að tryggja hagsæld til framtíðar. Einn megintilgangur norræns samstarfs er að tryggja betri færni og skapa bestu mögulegu aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki til að starfa þvert á landamæri.
Ef löndin okkar eiga að geta tekið þátt í alþjóðlegri samkeppni, þurfum við jafngild hágæða menntakerfi með skýra tengingu við þá færni sem krafist er á vinnumarkaði, ekki síst á sviðum náttúruvísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði. Því mun STEM-menntun (Science, Technology, Engineering and Mathematics) verða áberandi þema í samstarfi um menntun og rannsóknir undir formennsku Svía, sem og mikilvægi norrænna rannsóknainnviða og þverfaglegra rannsókna á sviði norðurskautsmála, heilbrigðismála og velferðarmála.
Tryggja þarf frekari aðgang að nýskapandi málmum og öðrum jarðefnum sem er forsenda fyrir grænum umskiptum og eflir samkeppnishæfni iðnaðarins og viðbúnaðargetu Norðurlanda. Jarðefni og málmar hafa orðið sífellt mikilvægari í takt við rafvæðingu samfélaganna. Mögulegt aðgengi norrænu ríkjanna að þeim ýmsu málmum sem notaðir eru í nýrri tækni er einstakt á heimsvísu. Það á líka við um getuna til að vinna þessa málma á sjálfbæran hátt og þá ríku hefð að standa vörð um sjálfbærni og mannréttindi. Formennska Svía mun því leggja áherslu á áframhaldandi vinnu á þessu sviði í samstarfi við norrænu nýsköpunarstofnunina Nordic Innovation.
Þróun norræns lífhagkerfis og sjálfbærra matvælakerfa er stefnumótandi og felur í sér mikinn virðisauka fyrir norrænt samstarf. Sterkari matvælakeðja, framleiðsla og frekari vinnsla lífrænna hráefna skapa betri skilyrði fyrir fleiri störfum, aukinn viðnámsþrótt og aukinn sjálfbæran hagvöxt sem verður til að efla Norðurlönd í heild. Áskoranirnar í vinnunni við sjálfbærni eru að mestu hnattrænar, en lausnirnar eru fyrst og fremst staðbundnar. Á formennskuári Svía verður lögð áhersla á nauðsyn þess að uppfæra áætlunina um norræna lífhagkerfið. Fæðu- og drykkjarvatnsöryggi verður sett í fókus svo að unnt sé að eiga samtal um lærdóm og hvað skilar árangri og hvernig við á Norðurlöndum getum þróað samstarfið í viðbúnaðarmálum.
Mismunandi byggingarreglugerðir innan Norðurlandanna gera fyrirtækjum sem starfa í einu landi erfitt fyrir að veita þjónustu þvert á landamæri. Aukið samstarf á sviði regluverks og þróunar stuðlar að því að draga úr stjórnsýsluhindrunum á svæðinu og auka samkeppnishæfni norræns markaðar. Formennska Svíþjóðar vill því efla samstarfið enn frekar með auknu samráði þar sem við á um innleiðingu nýrra og breyttra ESB-reglna.
Sú háþróaða stafræna væðing sem orðin er á sviði er varðar hæfni og aðgengi að netinu á Norðurlöndum og Eystrasaltssvæðinu veitir samkeppnisforskot með miklum möguleikum. Aukin notkun gagna, nýrrar tækni og 5G er nauðsynleg til að nýta tækifærin sem felast í stafrænni væðingu í einkageiranum sem og í heilbrigðis- og félagsþjónustu, jafnframt því sem stuðlað er að grænni, stafrænni umbreytingu.
Traustir stafrænir innviðir eru líka afar mikilvægir í skilvirku samfélagi. Norrænu löndin eru háð alþjóðlegum sæstrengjum til að halda samskiptum við umheiminn og einnig til að tryggja rafræn samskipti í löndunum. Heimspólitískar aðstæður hafa aukið mikilvægi alþjóðlegra samskipta fyrir norræna samstarfið, ESB og á alþjóðavettvangi. Norðurlönd liggja vel við siglingaleiðum þvert um Norðurskaut og hafa góða möguleika á að tengja Norðurlönd og ESB við umheiminn. Á formennskuári Svíþjóðar verður lögð áhersla á þörfina á norrænni samstöðu og samvinnu til að stuðla að áframhaldandi aðgerðum sem miða að því að tryggja umfremd í samskiptaleiðum.
Á formennskuárinu mun Svíþjóð einnig fylgja eftir vinnunni við að draga úr stafrænni útilokun hvað varðar rafræna auðkenningu. Þá verður í framhaldinu, í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, hugað að kerfi fyrir norrænu og evrópska stafrænu auðkennisveskin, sem er forsenda öruggrar vottunar á einkunnum og búsetuskráningu og því um líku. 
Hagnýting hinnar öru tækniþróunar og hinna umfangsmiklu stafrænu umskipta í samfélaginu er lykilatriði fyrir samkeppnishæfni okkar. En þeim fylgja líka áskoranir. Hafa verður í huga þau miklu áhrif, og þar með ábyrgð, sem stóru tæknifyrirtækin hafa í þessari þróun. Formennska Svía mun því halda áfram að leiða saman viðkomandi aðila til umræðna um efnislega og stafræna innviði og hvernig við stöndum vörð um trygga, örugga og opna lýðræðislega umræðu.
Sú ákvörðun að hafa sameiginlegan norrænan sýningarskála á heimssýningunni í Osaka (Expo 2025) veitir einstakt tækifæri til að kynna nýskapandi og samkeppnishæf Norðurlönd, sjálfbærar norrænar lausnir og norræn gildi. Á árinu verður aukinn kraftur settur í undirbúning spennandi sýningarskála sem stuðlar að áhrifaríkri kynningu á norrænu löndunum.
Á formennskuárinu verður Nordic Economic Policy Review (NEPR) mikilvægur vettvangur samráðs og mótunar á  norrænni sýn á sameiginlegar áskoranir í stefnumótun. Einkum verður lögð áhersla á efnahagsmál á tímum þjóðhagslegrar óvissu.
Competitive Nordic Region - colour.svg
Samkeppnishæfni okkar á alþjóðavísu er ekki aðeins mikilvæg fyrir þróun atvinnulífsins, heldur einnig til að tryggja hagsæld til framtíðar.