Fara í innihald

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Til þess að Norðurlönd geti orðið sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi þarf upplifun einstaklinga og fyrirtækja að vera sú að einfalt sé að flytja sig á milli landanna.
Félagslega sjálfbært samfélag felur einnig í sér að borgararnir séu öruggir og að  mótstaða gegn alvarlegum glæpum af ýmsum toga sé sterk. Formennska Svía mun því beina augum sérstaklega að samstarfi og miðlun þekkingar og reynslu milli norrænu landanna af skipulagðri glæpastarfsemi, bóta- og tryggingasvikum, ofbeldisfullri öfgahyggju og hryðjuverkum og jafnframt flutningi á fullnustu refsinga. Þetta getur t.d. falið í sér málefni er varða spillingu og annan ólöglegan þrýsting aðila og hópa innan skipulagðrar glæpastarfsemi, mansal og forvarnir gegn glæpum sem miða að því að koma í veg fyrir að börn og ungmenni verði dregin inn í gengjaglæpi.
Með því að deila innsýn og reynslu um hvernig koma megi í veg fyrir og bregðast við alvarlegum glæpum af þessu tagi getur þessi vinna þróast útfrá bestu mögulegu þekkingu. Eitt dæmi er ólögleg meðhöndlun úrgangs, þar sem mikill efnahagslegur ávinningur liggur að baki ásamt lítilli hættu á að hún uppgötvist. Lagt er til að fram fari samanburðarrannsókn á forsendum til að koma í veg fyrir og berjast gegn ólöglegri úrgangslosun á Norðurlöndum.
Til að stuðla að sjálfbæru samfélagi á Norðurlöndum er einnig þörf á sambærilegum rannsókna- og menntakerfum, sameiginlegum vinnumarkaði, þróttmiklu menningarlífi, áherslu á tungumálaþekkingu og virkni og þátttöku ungs fólks. Borgarasamfélagið er lykilafl í félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.
Auk þess munu Svíar leggja áherslu á aðgerðir sem stuðla að jafnrétti allra íbúa Norðurlanda til góðrar heilsu, til dæmis með þátttöku í íþrótta- og félagslífi, opinberum frístundakortum, ávísun á líkamsþjálfun og aðgerðir til að ráðast gegn og koma í veg fyrir einmanaleika og einangrun. Haldin verður ráðstefna um málið.
Með hækkandi aldri íbúanna og brottflutningi af svæðum um öll Norðurlönd fela stafræn þróun og fjarlausnir í sér nýja möguleika í norræna velferðarlíkaninu. Málefni á borð við stafræna útilokun, aðgengi og þátttöku í hinni stafrænu umbreytingu eru sameiginlegar áskoranir alls staðar á Norðurlöndum sem við þurfum að takast á við í sameiningu.
Sænska formennskan mun vekja athygli á aðgerðum á sviði fjartengdrar heilbrigðis- og félagsþjónustu. Svíþjóð mun einnig vinna að því að styrkja norrænt samstarf um viðbúnað í heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Sýklalyfjaónæmi er alþjóðlegt lýðheilsuvandamál sem vex á ógnvænlegum hraða. Formennska Svía munu vinna að því að efla samstarf á Norðurlöndum á þessu sviði. Ráðstefna verður haldin til að fylgja eftir niðurstöðum vinnunnar um sýklalyfjaónæmi undir formennsku Svía í ESB árið 2023.
Á sviði vinnumarkaðsmála verður lögð áhersla á framboð á færni og símenntun kvenna og karla. Markmiðið er að ná betur utan um málaflokkinn í því skyni að auka þekkingu og tryggja aðgengi allra að grænum störfum og menntunartækifærum. Annað forgangsverkefni er efnahagslegt jafnrétti og aðgerðir til að vinna gegn kyngreindum vinnumarkaði.
Í norrænu samstarfi um aðlögunarmál verður lögð áhersla á að koma á vinnumarkaði þar sem ljósi verður varpað á norræna þekkingu um viðurkenningu og mat á erlendri færni, stafrænum tækifærum og hvernig barneignir kvenna og karla af erlendum uppruna hafa áhrif á framgang þeirra á vinnumarkaði.
Samstarf um rannsóknir, menntun og tungumál er mikilvægt tæki til að takast á við innlendar og alþjóðlegar áskoranir. Starfstíma DIS-samstarfsnetsins um lýðræði, inngildingu og samstöðu lýkur á formennskuárinu og í tengslum við það verður skipulögð ráðstefna um lýðræði í skólum, með áherslu á gyðingahatur. Formennskuríkið mun einnig beita sér fyrir því að reynslu sé miðlað um hvernig við þróum og styrkjum hágæða menntakerfi sem byggt er á jafnrétti og inngildingu. Niðurstöður PISA-könnunarinnar í stærðfræði og námsárangri verða skoðaðar útfrá norrænu sjónarhorni á formennskuárinu.
Formennska Svía hyggst enn fremur standa að sameiginlegum aðgerðum mennta- og menningargeiranssem miða að því að treysta Norðurlönd sem lestrarsvæði. Vinnan við endurskoðun yfirlýsingarinnar um norræna tungumálastefnu er á lokastigi og stefnt er að því að ný norræn tungumálayfirlýsing líti dagsins ljós á formennskuárinu.
Menning er einn af hornsteinum þess sem tengir norrænu löndin saman. Inngildandi norrænt menningarlíf eflir lýðræði, margbreytileika og lífsgæði. Norrænu ríkin og menningarsamstarf þeirra hefur staðið frammi fyrir sömu áskorununum vegna heimsfaraldurs og alvarlegrar stöðu í öryggismálum á undanförnum árum. Formennskuríkið Svíþjóð hyggst því leggja sitt af mörkum til umræðu og miðlunar reynslu um viðbúnað í menningar- og fjölmiðlageiranum, t.d. að því er varðar möguleikana á því að efla verndun menningararfleifðar á krepputímum eða í stríði.
Norræna ráðherranefndin hefur lengi átt samstarf við Eystrasaltsríkin. Miklir möguleikar felast í aukinni samvinnu meðal annars á sviði menntunar og rannsókna, menningar, viðbúnaðar í heilbrigðisgeira, lyfjasamstarfs, samnýtingar heilbrigðisgagna og stafrænnar þróunar yfirvalda almennt, þekkingastarfs um hækkandi aldurssamsetningu og heilabilun, sjálfbærni almannatrygginga og starfsemi hagskýrslunefnda, netöryggis og vinnutengdra afbrota. Á formennskuári Svía verða möguleikarnir á öflugra samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna kannaðir nánar.
Norðurlönd verða að tryggja betur framleiðslu bóluefnis sem hluta af almannavörnum. Undir formennsku Svíþjóðar verður haldið áfram að finna árangursríkustu leiðina fyrir norrænt samstarf um þróun og framleiðslu bóluefna á grundvelli kortlagningar sem fór fram á getu og möguleikum Norðurlanda á þessu sviði. 
Hvað varðar jafnréttismál og málefni hinsegin fólks verður lögð áhersla á norrænt starf gegn heiðurstengdu ofbeldi og kúgun. Stefnumótandi markmið til langs tíma er að efla og þróa hið norræna starf, meðal annars með aukinni þekkingu á því hvernig norrænu ríkin og sjálfstjórnarsvæðin nálgast sæmdartengt ofbeldi og kúgun, þar á meðal hvað varðar hinsegin fólk.
Undir formennsku Svía mun hin norræna rödd gegn vaxandi andstöðu við jafnréttismál og réttindi hinsegin fólks halda áfram að vera áberandi á alþjóðlegum vettvangi.
Socially sustainable Nordic region - colour.svg
Félagslega sjálfbært samfélag felur einnig í sér að borgararnir séu öruggir og að  mótstaða gegn alvarlegum glæpum af ýmsum toga sé sterk.