Fara í innihald

Samþætt Norðurlönd án stjórnsýslu­hindrana

Það þarf að vera einfalt að búa, stunda nám og vinnu og reka fyrirtæki alls staðar á Norðurlöndum og þvert á landamærin. Norrænn vinnumarkaður er á margan hátt velsamþættur og vandræðalaust er fyrir marga að sækja vinnu yfir landamæri. Engu að síður liggja Norðurlönd undir evrópsku meðaltali hvað varðar fjölda fólks sem sækir vinnu yfir landamæri. Ef við eigum í sameiningu að ná markmiðum okkar og nýta þá möguleika sem felast í fullkomlega samþættu svæði, þurfum við að auka taktinn í vinnunni við að hrinda stjórnsýsluhindrunum úr vegi, ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem heimsfaraldurinn olli og afleiðinga hans.
Á árinu 2024 mun formennskan því fylgja þessu eftir í viðkomandi ráðherranefndum og í Stjórnsýslu­hindranaráðinu. Umboð Stjórnsýslu­hindranaráðsins rennur út á árinu og þegar gengið hefur verið frá nýju umboði mun formennskan eiga frumkvæði að því að gera starf þess skilvirkara og efla samstarf þess við viðkomandi hagsmunaaðila, m.a. með skýrari tengingu við Norrænu ráðherranefndina og ríkisstjórnir landanna.
Yfirvöld á Norðurlöndum verða jafnframt hvött til að huga að lausnum á öllum þeim sviðum sem greiða fyrir samþættingu Norðurlanda. Setja þarf í forgang þau málefni sem skipta miklu fyrir möguleika einstaklinga til að lifa og starfa án hindrana vegna landamæra, t.d. möguleika á að eiga stafræn samskipti við yfirlönd í öðrum löndum en búsetulandinu. Í því skyni að auðvelda ákvarðanatöku mun formennskan leggja áherslu á að unnin verði talnagögn er varða byggðamál við landamæri.
Samþætt Norðurlönd, þar sem auðvelt er að búa, vinna og sækja menntun yfir landamæri, var meginstefna þegar samkomulagið um sameiginlegan norrænan vinnumarkað var undirritað hinn 22. maí 1954. Á formennskuári Svía verður 70 ára sögu sameiginlegs norræns vinnumarkaðar minnst. Áhersla verður lögð á það sem sameiginlegur vinnumarkaður hefur skilað Norðurlöndum, en ekki síður allt það sem þróa þarf frekar til að tryggja aukinn hreyfanleika vinnuafls yfir landamæri og til að takast á við sameiginlegar áskoranir eins og hæfnisskort og hæfnissamsvörun.
Hlutverk opinberra vinnumiðlana á hinum sameiginlega vinnumarkaði hefur breyst. Þar sem nú er unnið að umbótum opinberra vinnumiðlana í nokkrum norrænu landanna og vegna þess að stafræn þróun hefur í för með sér nýjar leiðir til miðlunar verður einnig lögð áhersla á að skiptast á upplýsingum um reynsluna af umbótastarfi og mögulegu samstarfi í breyttu skipulagi, einkum varðandi málefni sem tengjast framboði á hæfu vinnuafli.
Ikon_7_farve.png
Það þarf að vera einfalt að búa, stunda nám og vinnu og reka fyrirtæki alls staðar á Norðurlöndum og þvert á landamærin.