Fara í innihald

Græn Norðurlönd

Loftslagsbreytingarnar eru ein af stærstu áskorunum okkar tíma, en umskiptin yfir í kolefnishlutlaust hringrásarhagkerfi skapa einnig tækifæri ef við stjórnum og nýtum náttúruauðlindir okkar vel. Norðurlönd verða áfram fyrirmynd í samkeppnishæfri og nýsköpunardrifinni umbreytingu bæði heima og með því að kynna norrænar grænar lausnir um allan heim. Samstarf og miðlun reynslu innan norræns atvinnulífs, á staðbundnum og innlendum vettvangi um aðferðir og tæki, geta stutt aðgerðir til að draga úr losun og við framkvæmd loftslagsráðstafana og jafnframt eflt sameiginlega samkeppnishæfi okkar.
Loftslags- og umhverfismál eru alþjóðleg málefni og því eiga Norðurlönd að halda áfram að tala sterkri og skýrri röddu fyrir árangursríkum lausnum í alþjóðlegum samningaviðræðum um umhverfismál og loftslagsmál. Árið 2024 verður samþykktur nýr alþjóðlegur samningur um plastmengun og Norðurlönd gegna þar forystuhlutverki. Áhersla verður lögð á aukið norrænt samstarf innan ramma nýs regluverks um líffræðilega fjölbreytni og samstarf um náttúrumiðaðar lausnir og forvarnir auk baráttu gegn útbreiðslu ágengra tegunda á Norðurlöndum. Auk þess hafa norrænu löndin um árabil átt farsælt samstarf um að draga úr þeirri hættu sem steðjar að mönnum og umhverfinu af völdum kemískra efna á Norðurlöndum, innan ESB og á alþjóðavettvangi, og verður athygli vakin á því.
Umskipti í samgöngumálum eru mikilvæg fyrir samkeppnishæf Norðurlönd og til að löndin geti náð markmiðum sínum í loftslags- og umhverfismálum. Því verður áfram lögð áhersla á hagræðingu, rafvæðingu og stafræn umskipti í samgöngum á formennskuárinu. Í Fredrikstad-yfirlýsingunni frá nóvember 2022 skuldbundu norrænu samgönguráðherrarnir sig til þess að efla samstarf um nýsköpun á sviði tæknilausna sem hafa litla eða enga losun í för með sér. Í samræmi við þetta mun sænska formennskan m.a. beita sér fyrir því að gerðar verði norrænar rannsóknir á skilyrðum fyrir skilvirkri innleiðingu á rafknúnum ökutækjum svo að þau verði órjúfanlegur hluti raforkudreifikerfisins á Norðurlöndum og hvernig Norðurlönd geti stuðlað að sjálfbærum landflutningum til og frá höfnum í því skyni að styðja við þróun grænna siglingaleiða. Þá verður sjónum beint að niðurstöðum verkefna framtíðarsýnarinnar um að flýta fyrir rafvæðingu og sjálfbærum vöruflutningum á Norðurlöndum.
Byggðaþróun í dreifbýli, við strendur og í borgum er mikilvæg fyrir þróun fyrirtækja og samkeppnishæfni sem og fyrir lífsgæði fólks. Samfélagsþróun síðustu ára hefur leitt til örra breytinga á efnahagslegum, lýðfræðilegum og félagslegum aðstæðum. Nýjar aðgerðir á sviði iðnaðar sem knúnar eru af grænum umskiptum hafa í för með sér bæði tækifæri og áskoranir sem hafa áhrif á allt samfélagið og umhverfið. Mikilvægir þættir eru meðal annars samræming og skipulag innviða, húsnæðisbygginga og framboðs á færni, sem og viðskiptalíf og aðgangur að opinberri þjónustu, heilsugæslu, umönnun og menningu. Með aukinni miðlun reynslu þróum við norræn samfélög til félagslegrar og umverfislegrar sjálfbærni.
Aukin raforkuframleiðsla sem er óháð jarðefnaeldsneyti er nauðsynleg þeirri umfangsmiklu rafvæðingu sem er meginþáttur í hinum grænum umskiptum. Á Norðurlöndum er unnið að því að koma á nýrri jarðefnalausri raforkuframleiðslu í formi vindorku, sólarorku og kjarnorku til lands og sjávar. Það er mikilvægt að við nýtum og finnum lausnir sem hafa samverkan á sameiginlegum hagsmunasviðum. Norræna samstarfið á raforkumarkaði er einstakt í heiminum. Fyrir utan að raforkusamstarfið er eitt samþættasta svæðisbundna samstarf heims eru Norðurlöndin einnig í forystu á heimvísu þegar kemur að sjálfbærri orku og loftslagsvænum lausnum. Engu að síður er þörf á því að þróa norrænan raforkumarkað enn fremur, bæði til að draga úr lofslagsáhrifum og til að Evrópa verði síður háð rússneskri jarðefnaorku. Þetta er forgangsmál og verður sérstök áhersla lögð á það undir formennsku Svía.
Til að ná fram framtíðarsýninni um græn Norðurlönd er nauðsynlegt að halda áfram að stuðla að sjálfbærri og samkeppnishæfri nýtingu náttúruauðlinda og erfðaauðlinda. Þróun lífgrundaðs iðnaðar og framleiðsla í sjávarútvegi og lagareldi, landbúnaði, matvælaðiðnaði og skógrækt skiptir sköpum fyrir græn umskipti, atvinnuöryggi, fæðuöryggi og viðbúnað, sem og opin svæði og aðlaðandi sveitir. Til að þessi umskipti geti orðið á Norðurlöndum er mikilvægt að atvinnugreinar sem byggja á lífríkinu haldi takti í öru nýsköpunarstarfi sínu. Til að viðhalda þeirri nýsköpun á Norðurlöndum mun starfið snúast í auknum mæli um framkvæmdaverkefni sem snúast um þekkingaraukandi aðgerðir en taka um leið mið af hefðbundnum vinnsluaðferðum í landbúnaði, skógrækt og fiskvinnslu. Á formennskuárinu verður haldið áfram að þróa þverlægar aðgerðir. Áfram verður lögð áhersla á loftslag, kolefnisgeymslu og arðbæra og samkeppnishæfa framleiðslu í landbúnaði til langs tíma. Í samstarfi um fiskveiðar verður aukin áhersla lögð á sjálfbæra vinnslu á sjávarfangi og að greina jákvæð samlegðaráhrif í sambúð lagareldis og annarra hagsmunaaðila í málefnum sjávar. Á sviði skóga eru málefni er varða viðnámsþrótt, viðbúnað, landnýtingu, loftslagsbreytingar og stafræna þróun ofarlega á baugi.
Green Nordic Region - colour.svg
Norðurlönd verða áfram fyrirmynd í samkeppnishæfri og nýsköpunardrifinni umbreytingu bæði heima og með því að kynna norrænar grænar lausnir um allan heim.