Fara í innihald

Öruggari, grænni og frjálsari Norðurlönd

Ávarp forsætisráðherra og samstarfsráðherra

Grimmdarleg og ólögleg árás Rússlands í Úkraínu hefur í för með sér að staða öryggismála á Norðurlöndum og í Evrópu er nú alvarlegri en hún hefur verið um langa hríð. Samstarf okkar og sameiginlegar varnir okkar fyrir lýðræði og rétti allra til að lifa við frið og frelsi eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr.
Löndin okkar deila sömu grundvallargildum, traustri lýðræðishefð og eiga sameiginlega sögu. Á grundvelli þessa höfum við þróað leiðir ekki aðeins til að geta mætt í sameiningu kreppu í öryggismálum og áskorunum heldur líka til að geta fylkt okkur um málefni á borð við loftslags- og umhverfismál, orkumál, baráttu gegn glæpastarfsemi, almannavarnir og margt annað. Svíþjóð tekur nú við formennskunni með þá sannfæringu að náið norrænt samstarf sé grundvallaratriði fyrir sameginlega velferð og viðnámsþrótt landanna okkar. Það er með samstöðu sem við verðum sterkari og tryggari.
Framtíðarsýnin um að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi árið 2030 mun verða leiðarstef fyrir sænsku formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni. Við munum halda áfram að stuðla að því að Norðurlönd verði leiðandi í hinum grænu umskiptum og verði alþjóðlega samkeppnishæft og félagslega sjálfbært svæði í samræmi við þau stefnumarkandi forgangsatriði sem við höfum sameinast um.
Norræna samstarfið er vaxtardrífandi. Við erum á margan hátt eitt samkeppnishæfasta svæði heims. Staðreyndin er sú að sameinuð eru Norðurlönd tólfta stærsta hagkerfi heims og gætu átt aðild að G20. Innan okkar vébanda eru leiðandi fyrirtæki á heimsvísu á sviði iðnaðar, grænnar tækni, hreyfanleika, stafrænnar væðingar og rannsókna og þróunar. Við getum verið stolt af mörgu. En um leið er efnahagsstyrkur okkar ekki náttúrulögmál. Við verðum að halda áfram að auðvelda fyrirtækjum og fólki að geta starfað þvert á landamæri.
Undir formennsku Svíþjóðar munum við skoða sérstaklega aðgerðir til aukins hreyfanleika yfir landamæri og samþættingu. Þessu tengt munum við vekja athygli á því að sameiginlegur norrænn vinnumarkaður hefur síðustu 70 árin þjónað löndunum okkar vel og átt þátt í sameiginlegri velferð okkar.
Á árinu mun Svíþjóð einnig leiða óformlegt norrænt og norrænt-baltneskt samstarfi á sviði utanríkis- og öryggismála. Innan ramma þess munum við halda áfram að veita Úkraínu traustan stuðning og mun frelsisbaráttan þar halda áfram að vera forgangsatriði. Sem frjáls lýðræðisríki er það skylda okkar að styðja þau ríki sem berjast fyrir sama rétti, sem á endanum snýst um að verja rétt okkar sjálfra.
Við hlökkum til samstarfsins á árinu 2024!
forord kopier.jpg
Forsætisráðherra, Ulf Kristersson og samstarfsráðherra, Jessika Roswall.