Sjálfbær þróun: Á Norðurlöndum og á heimsvísu

Sjálfbær þróun felur í sér möguleika mannkyns til að þróast innan þeirra marka sem jörðin getur þolað. Með sjálfbærri þróun er ekki aðeins átt við umhverfislega sjálfbærni heldur einnig félagslega og efnahagslega sjálfbærni. Heimsmarkmið SÞ til 2030 er aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að leiða til umskipta í átt að sjálfbæru samfélagi. Þessi markmið ættu að vera leiðarstef í alþjóðastarfi norrænu ríkjanna.
Norðurlönd vilja verða sjálfbærasta svæði heims. Við búum yfir þeim tilföngum, þekkingu og tækni sem þarf til að vísa leiðina í hinum grænu umskiptum á sjálfbæran hátt innan raunsærra tímamarka og með skynsömum lausnum. Við eigum að standa saman á alþjóðavettvangi og stýra umræðum og aðgerðum til að skapa markmið á heimsvísu til að stöðva loftlagsbreytingar og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Eftir því sem loftslagsbreytingar aukast verða verða áskoranir fyrir samfélag, efnahag og umhverfi sífellt stærri. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á fæðuöflun, vatnsveitu og orkuöryggi, eykur samkeppni um náttúruauðlindir, skort á lifibrauði, náttúruhamfarir og fólksflótta. Það eru þau fátækustu sem verst verða úti en velferðarkerfi og efnahagur Norðurlanda verða einnig fyrir áhrifum.
Norðurlandaráð vill þess vegna:
  • Vinna að því að Norðurlöndin taki sameiginlega forystu í vinnunni að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðum fyrir árið 2030 innan Sameinuðu þjóðanna.
  • Að Norðurlönd efli samstarf sitt um framfylgd Parísarsamkomulagsins, samnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni og væntanlegan samning SÞ um plast.
  • Vinna að því að Norðurlöndin tali einni röddu um fátækt og ójöfnuð í heiminum með því að eiga í nánara samstarfi um þróunarmál og aðstoð, þar á meðal aðstoð við enduruppbyggingu Úkraínu.
  • Að bestu starfshættir á Norðurlöndum komi öðrum til góða og að við séum virk og leitandi til að læra af öðrum.
  • Að Norðurlönd vinni að grænum umskiptum með sjálfbærum hætti og hraði þróun hreinnar og endurnýjanlegrar orku til að vinna gegn loftslagsbreytingum og auka afhendingaröryggi.
  • Að norrænum sérkennum verði haldið á lofti í alþjóðlegum viðræðum, svo sem skógarvinnslu og sjávarútvegi og vinnu gegn sýklalyfjaónæmi.
  • Veita norðurslóðum sérstaka athygli og sjá til þess að heimurinn sé meðvitaður um viðkvæma stöðu þeirra gagnvart loftslagsbreytingum.
  • Eiga nánar viðræður við Evrópuþingið um orku- og loftlagsstefnu ESB og krefjast beinna og sjálfbærra lausna.
Fara í innihald