Inngangur

Miklar breytingar eru að eiga sér stað í heiminum. Norðurlöndin eru ekki óháð gangi mála í heiminum heldur hafa heimsmálin þvert á móti mikil áhrif á þau. Alþjóðleg viðfangsefni á borð við loftslagsbreytingar og heimsfaraldra hafa bein áhrif á stöðu norrænu landanna í alþjóðlegu samhengi. Átök stórveldanna hafa nú stigmagnast yfir langt tímabil. Ólögleg innrás Rússlands inn í Úkraínu árið 2022 setti heimsskipan sem byggist á reglum, virðingu fyrir alþjóðasamningum og trausti og sameiginlegum leikreglum í uppnám. Einræðisstjórnir og þjóðernissinnaðar stjórnir á borð við Rússlandi, og því miður í sífellt fleiri löndum, hafa gert alþjóðasamskiptin ófyrirsjáanlegri og óstöðugri. Alþjóðlegt samstarf um að ráðast gegn sameiginlegum ógnum hefur liðið fyrir þessa nýju öryggisógn. Skilyrði fyrir hnattræna þróun og vinnuna við að ná markmiðum um sjálfbæra þróun hafa versnað. Atriði á borð við loftslagsbreytingar og eftirlit með og fækkun gjöreyðingarvopna skipta engu að síður jafn miklu máli og áður.
Norðurlöndin eru mikilvægt svæði í landfræðipólitísku tillti. Miklar innbyrðis tengingar eru á milli þróun mála á Eystrasaltssvæðinu, norðurslóðum og Norður-Atlantshafi. Norðurlöndin hafa lengi unnið í þágu heimsskipanar sem byggist á reglum, unnið að því að efla alþjóðasamtök, stuðlað að lýðræðisþróun og sjálfsákvörðunarrétti fólks og barist fyrir mannréttindum. Þetta starf er jafn mikilvægt nú og áður og er kjarninn í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum.
Markmið Norðurlandaráðs er að vera þekktur og virtur aðili á alþjóðavettvangi sem byggir starfsemi sína á sameiginlegum gildum, velferð borgaranna og öryggi svæðisins. Í framtíðinni þurfa Norðurlönd að vera samþættasta svæði heims sem getur unnið saman og brugðist við alþjóðlegum áskorunum sem ein heild. Þegar Norðurlöndin starfa saman verður mögulegt að ná árangri á hagkvæmari hátt en löndin gætu gert hvert fyrir sig. Nú erum við á Norðurlöndum ef til vill sameinaðri en nokkru sinni fyrr og ríkisborgarar landa okkar kalla eftir auknu norrænu samstarfi. Eftirspurn eftir norrænum lausnum fer sífellt vaxandi og við höfum allt að vinna af því að koma í enn meiri mæli fram sem ein heild á alþjóðlegum vettvangi. Í alþjóðlegu samstarfi okkar þurfum við að miðla reynslu okkar af norræna líkaninu og svæðisbundnu samstarfi og læra af öðrum. Við þurfum að halda áfram að standa vörð um lýðræðisleg gildi, frið og mannréttindi, og þurfum að efla tengsl við þá bandamenn okkar sem halda sömu gildum á lofti til að skapa öruggari, sjálfbærari, réttlátari og lýðræðislegri heim.
Fara í innihald