Öryggi á Norðurlöndum og í nærumhverfi þeirra

Innrás Rússa í Úkraínu olli grundvallarbreytingu á öryggisjafnvæginu í Evrópu.  Vegna umsvifa Rússa og verri stöðu öryggismála í Evrópu hafa Finnland og Svíþjóð sótt um inngöngu í NATO. Möguleg NATO-aðild Finnlands og Svíþjóðar skapar nýja stöðu og nýja möguleika fyrir norrænt samstarf á sviði varnar- og öryggismála.
Fjölþáttaógnir, netárásir, falsfréttir og áhrifaaðgerðir eru alvarleg og vaxandi ógn á Norðurlöndum og öllum heiminum. Sem afar stafræn, opin og lýðræðisleg samfélög eru Norðurlöndin sérstaklega viðkvæm fyrir þessum ógnum.
Kórónuveirufaraldurinn sýndi að þörf er á auknu norrænu samstarfi í viðbúnaðarmálum. Norðurlandaráð lýsti í áætlun sinni um samfélagsöryggi (2019) eftir röð ólíkra aðgerða til að bæta norrænt samtarf um samfélagsöryggi. Til að stuðla að öryggi á Norðurlöndum þarf góð samskipti milli aðilanna á svæðinu. Norræna líkanið er einnig grundvöllur samfélagsöryggis. Til að tryggja það gegnir stöðugur efnahagur mikilvægu hlutverki.
Norðurlandaráð vill þess vegna:
  • Vera lifandi vettvangur fyrir þingumræður um varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi/heildarvarnir á Norðurlöndum. Við þurfum að vinna að því að byggja upp sérþekkingu um varnar- og öryggismál og læra af reynslu alþjóðlegra samstarfsaðila okkar.
  • Efla hlutverk þjóðþinganna í norrænu samstarfi um varnarmál, meðal annars með árlegum pallborðsumræðum með NORDEFCO.
  • Standa fyrir umræðum um hlutverk Norðurlanda og stöðu þeirra í varnarbandalaginu NATO með áherslu á friðarstillandi hlutverk þeirra og mannréttindastarf.
  • Að öryggi Eystrasaltssvæðisins, norðurslóða og Norður-Atlantshafs verði sett ofarlega á dagskrá í alþjóðlegu samstarfi og í viðræðum við Eystrasaltsþingið og aðra samstarfsaðila.
  • Standa vörð um norðurslóðir og Norður-Atlantshafið sem svæði þar sem lítil spenna ríkir í öryggismálum, stuðla að því að samstarf um norðurslóðir haldi áfram að vera uppbyggilegt og standa vörð um réttindi frumbyggja.
  • Að Norðurlöndin efli samstarf sitt um utanríkis-, varnar- og öryggismál, þar á meðal um almannavarnir sem stuðla að almannaöryggi. Norrænt samstarf í varnarmálum ógnar engum, en stuðlar að stöðugleika og öryggi á svæðinu.
  • Að ríkisstjórnirnar á Norðurlöndum meti hvort endurskoða þurfi Helsingforssamninginn svo að hann taki mið af stöðu utanríkis- og öryggismála í dag.
  • Að Norðurlöndin efli samstarf sitt um samfélagsöryggi, heildarvarnir og viðkvæma innviði.
  • Að Norðurlöndin vinni saman með skilvirkum hætti í öllum alþjóðlegum stofnunum og séu tilbúin til að leggja sitt af mörkum til hættustjórnunar þegar þörf krefur.
  • Vinna að því að Norðurlöndin færi samstarfið um hreina og endurnýjanlega orku og orkuöryggi upp á annað stig og kanni hvernig halda má áfram að samþætta og auka norrænt orkuöryggi og almennan viðbúnað.
  • Vinna að því að norræn stefna um netöryggi verði tekin upp.
  • Að Norðurlönd nýti í auknum mæli tækifærin sem felast í að markaðssetja Norðurlönd sem eina heild á alþjóðavísu. Ekki ríkir nægileg vitneskja um kosti norræns samtarfs á alþjóðavettvangi og samnorrænu kynningarstarfi meðal norrænu ríkisstjórnanna.
  • Að ríkisstjórnirnar á Norðurlöndum meti hvort þörf sé á því að Norræna ráðherranefndin styðji í auknum mæli samstarf norrænu landanna um utanríkis- og varnarmál, samfélagsöryggi, viðbúnað og heildarvarnir, til dæmis með rannsóknum og öðrum leiðum.
Fara í innihald