5. Fyrirkomulag samstarfsins

5.1 Ráðherranefnd dómsmálaráðherra og embættismannanefndin

Dómsmálaráðherrarnir (MR-JUST) bera meginábyrgð á samstarfinu. Á árlegum fundi sínum fjalla ráðherrarnir um pólitísk mál sem eru ofarlega á baugi og varða hagsmuni Norðurlanda með það fyrir augum að innleiða norrænt samstarf á nýjum réttarsviðum eða leita sameiginlegra norrænna lausna.
Norræna embættismannanefndin um dómsmálasamstarf (EK-JUST) er skipuð háttsettum embættismönnum sem fara með dóms- og löggjafarmál í dómsmálaráðuneytum á Norðurlöndum. Nefndin undirbýr árlega fundi ráðherranna og fylgir þeim eftir. Nefndin á enn fremur frumkvæði að nýjum verkefnum. Á embættismannanefndarfundum skiptast löndin á upplýsingum um nýja löggjöf, réttarvenjur og önnur lögfræðileg málefni sem eru ofarlega á baugi.
Dómsmálaráðherrarnir eða embættismannanefndin geta þá tekið ákvörðun um að skipa fasta eða tímabundna vinnuhópa á tilteknum sviðum. Embættismannanefndin veitir slíkum vinnuhópum umboð og ákveður hugsanlega fjárveitingu til þeirra.
Embættismannanefndin hefur jafnframt samstarf við aðrar embættismannanefndir Norrænu ráðherranefndarinnar.

5.2 Formennska

Verðandi formennskuland kynnir, eigi síðar en á þriðja fundi embættismannanefndarinnar árið áður en formennskutímabilið hefst, bráðabirgðaáætlanir sínar um aðgerðir og frumkvæði á sviði dómsmála á formennskutímabilinu í því skyni að efna til umræðna um þær í embættismannanefndinni.
Verðandi formennskuland kynnir um leið áformuð verkefni, námsstefnur, úttektir og þess háttar auk fjárhagsramma þar að lútandi.

5.3 Fjárhagsáætlun

Á fyrsta fundi ársins í embættismannanefndinni er fjárhagsáætlun næsta almanaksárs rædd, þar á meðal markmið með þeim aðgerðum sem óskað er eftir að settar verði í forgang.
Embættismannanefndinni ber að ljúka umfjöllun sinni um fjárhagsáætlunina í tæka tíð þannig að niðurstaðan berist framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar áður en hafin er vinna að tillögum um heildarfjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar.

5.4 Ráðstöfun verkefnastyrkja

Dómsmálaráðherrunum eða embættismannanefnd þeirra er heimilt innan árlegs fjárhagsramma að styrkja ráðstefnur, námstefnur, rannsóknir o.fl. sem þykja mikilvæg fyrir dómsmálasviðið.
Embættismannanefndin fer eftir gildandi reglum um ráðstöfun fjármuna til verkefna af fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar.
Eftir skil umsókna er heimilt að styrkja verkefni utanaðkomandi aðila að því tilskildu að kröfum um „norrænt notagildi“ sé fullnægt.
Til viðbótar við þetta hefur embættismannanefndin ákveðið að taka frá fé fyrir starfsemi innan ramma kringum samstarfið við Eistland, Lettland og Litáen, sjá lið 5.6.
Ákvæði í almennum skilmálum verkefnasamninga Norrænu ráðherranefndarinnar gilda um ráðstöfun framlaga til verkefna á sviði dómsmálasamstarfsins.
Skýrslugjöf um niðurstöður og árangur verkefna fer eftir skipulagi ráðherranefndarinnar um stöðuskýrslur. Enn fremur eru þeir sem þiggja styrki af sviðinu til verkefna og annarrar starfsemi beðnir um að skila stuttri frásögn um niðurstöður og árangur af starfi þeirra.
Að því marki sem við á eru niðurstöðurnar lagðar fyrir dómsmálaráðherrana á árlegum fundi þeirra.

5.5 Samráð við Norðurlandaráð

Norrænu dómsmálaráðherrarnir leitast eftir samráði við Norðurlandaráð um sameiginleg málefni, meðal annars við undirbúning og endurskoðun á samstarfsáætluninni.

5.6 Samstarf við Eystrasaltsríkin

Norrænu dómsmálaráðherrarnir eiga að minnsta kosti annað hvert ár fund með dómsmálaráðherrum Eistlands, Lettlands og Litáens. Samráðshópur embættismanna (Nordic Baltic Contact Group) hefur verið skipaður sem heldur fundi eftir því sem þörf krefur, en að lágmarki einu sinni á ári, og hefur sitt eigið starfsumboð. Formennskan flyst milli landa en skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar annast skrifstofustörfin.
Samstarfið byggist á þeim skilningi að náið svæðasamstarf sé mikilvægt í ESB og gagnvart þriðju löndum.

5.7 Annað dómsmálasamstarf á Norðurlöndum

Þrír starfshópar norrænna embættismanna starfa á samstarfssviðinu um dómsmál, einn að sifjaréttarlegum málefnum annar að refsiréttarlegum málefnum og sá þriðji að málefnum mansals.
Starfshóparnir geta sótt um framlög frá EK-JUST til að halda fundi og þeir gefa skýrslur um fundina þegar við á.
Auk norræns samstarfs í Norrænu ráðherranefndinni fer reglulega fram hagnýtt samstarf á öðrum vettvangi dómsmálasviðsins.

5.8 Samþætting stefnumiða

Norræna ráðherranefndin hefur ákveðið að samþætta jafnréttissjónarmið, tillit til réttinda barna og ungmenna og sjálfbærniviðmið allri starfsemi sinni. Af því leiðir meðal annars að hafa ber þessi atriði til hliðsjónar við mat á umsóknum um verkefnastyrki.

5.8.1 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 og sjálfbærniviðmið

Að því marki sem við á og það skapar virðisauka leitast sviðið eftir að öll verkefni og frumkvöðlastarf sem það styrkir miði að því að náð verði einhverju af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030, þar með talið 16. markmiðinu um frið, réttlæti og skilvirkar stofnanir þar sem öllum er tryggður jafn aðgangur að réttarkerfinu.

5.8.2 Jafnréttissjónarmið

Á mörgum þeirra málefnasviða sem dómsmálasvið leggur áherslu á innan ramma samstarfsáætlunarinnar eru jafnréttissjónarmið skýr. Nefna má dæmi um vinnu sviðsins í tengslum við baráttu gegn kynferðisbrotum og mansali. Þá eru jafnréttissjónarmið einnig mikilvægur þáttur í sifjaréttarlegum málefnum sem undir sviðið heyra.

5.8.3 Réttindi barna og ungmenna

Tillit til réttinda barna og ungmenna tengist bæði málefnum sem hafa með baráttu gegn brotastarfsemi og forvarnir gegn glæpum að gera, svo sem kynferðisofbeldi á netinu. Jafnframt er það hluti af sifjaréttarlegum málefnum þar sem tillit til þarfa barnsins skiptir höfuðmáli.
Go to content