1. Formáli

Með samstarfinu á sviði dómsmála er keppt að því að uppfylla markmið forsætisráðherra norrænu landanna þess efnis að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030 (Framtíðarsýn okkar 2030).
Löggjafarsamstarfið á að stuðla að sameiginlegum grundvallarreglum í löggjöf norrænu landanna í samhljómi við almenn norræn gildi. Samstarfið er einnig mikilvægur liður í evrópsku löggjafarsamstarfi og við innleiðingu ESB/EES-gerða og annarra alþjóðlegra skuldbindinga.
Í samstarfinu er sérstök áhersla lögð á að styðja við lýðræði og réttaröryggi, samræmi í norrænni réttarframkvæmd og norrænt notagildi ásamt því að fyrirbyggja brotastarfsemi. Samstarfið leggur einkum sitt af mörkum til þess stefnumarkandi áherslusviðs er varðar félagslega sjálfbær Norðurlönd í Framtíðarsýn okkar 2030 en einnig til áherslusviðsins er varðar samkeppnishæf Norðurlönd.

Markmiðin 12

GRÆN NORÐURLÖND. Saman ætlum við að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélögum okkar og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi.
Á árunum 2021–2024 mun Norræna ráðherranefndin:
1. efla rannsóknir, þróun og framgang lausna sem stuðla að kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum, t.a.m. í samgöngum, byggingum, matvælum og orkumálum;
2. eiga þátt í að tryggja líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu lands og sjávar á Norðurlöndum;
3. efla hringrásar- og lífhagkerfi, sjálfbæra og samkeppnishæfa framleiðslu, sjálfbær matvælakerfi og auðlindanýtnar og óeitraðar hringrásir á Norðurlöndum;
4. auðvelda norrænum neytendum og gera það eftirsóknarvert að velja hollar, vistvænar og loftslagsvænar vörur með sameiginlegum aðgerðum um sjálfbæra neyslu;
5. stuðla að jákvæðri þróun í alþjóðasamstarfi um umhverfis- og loftslagsmál, t.a.m. með því að liðka fyrir norrænum grænum lausnum víðar um heim.
SAMKEPPNISHÆF NORÐURLÖND. Saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum sem byggist á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.
Á árunum 2021–2024 mun Norræna ráðherranefndin:
6. styðja þekkingu og nýsköpun og auðvelda fyrirtækjum á öllum Norðurlöndum að nýta til fulls þá þróunarmöguleika sem felast í grænum, tæknilegum og stafrænum umskiptum og hinu vaxandi lífhagkerfi;
7. þróa færni og öfluga vinnumarkaði sem standast kröfur grænna umskipta og stafrænnar þróunar og sem styðja frjálsa för á Norðurlöndum;
8. nýta stafræn umskipti og menntun til að færa Norðurlöndin nær hvert öðru.
FÉLAGSLEGA SJÁLFBÆR NORÐURLÖND. Saman ætlum við að stuðla að samfelldu inngildandi svæði þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.
Á árunum 2021–2024 mun Norræna ráðherranefndin:
9. stuðla að gæðum, jafnræði og öryggi í heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla;
10. beita sér fyrir því að allur almenningur á Norðurlöndum taki þátt í grænum umskiptum og stafrænni þróun, nýta sóknarfæri umskiptanna og vinna gegn því að umskiptin auki ójöfnuð í samfélaginu;
11. veita borgaralegu samfélagi á Norðurlöndum, einkum börnum og ungu fólki, sterkari rödd og aðild að norrænu samstarfi, einnig að auka þekkingu þeirra á tungumálum og menningu frændþjóðanna;
12. viðhalda trausti og samheldni á Norðurlöndum, sameiginlegum gildum og norrænu samfélagi með áherslu á menningu, lýðræði, jafnrétti, inngildingu, jafnræði og tjáningarfrelsi.
VISION IS liggende.png
VISION IS liggende.png
Go to content