3. Áherslusvið

Í samstarfi á dómsmálasviði er áhersla lögð á þrjú stefnumarkandi áherslusvið: „Að tryggja réttaröryggi“, „Samræmi réttarframkvæmdar á Norðurlöndum og norrænt notagildi“ og „Forvarnir gegn glæpum“. Innan ramma þessara áherslusviða stuðlar dómsmálasviðið að uppfyllingu áherslusviðanna „Samkeppnishæf Norðurlönd“ og „Félagslega sjálfbær Norðurlönd“ sem eru hluti af Framtíðarsýn okkar 2030 fyrir Norrænu ráðherranefndina.

3.1 Samkeppnishæf Norðurlönd

3.1.1 Samræmi réttarframkvæmdar og norrænt notagildi

Vinna dómsmálasviðsins í þágu samræmingar réttarframkvæmdar á Norðurlöndum og norræns notagildis stuðlar að því að viðhalda frjálsri för og vinna gegn og komast hjá því að til verði stjórnsýsluhindranir vegna mismunandi löggjafar landanna. Þessi vinna fellur undir markmið 7 í framkvæmdaáætluninni um Framtíðarsýn okkar 2030.
Helsingforssamningurinn miðar að innbyrðis samræmingu á sviði dómsmála. Í því felst ekki endilega að löggjöfin verði að vera nákvæmlega eins. Einsleitni norrænnar réttarframkvæmdar felst einnig í því að samhæfa skipulag og sameiginlegar réttarreglur í lögunum. Þörfin á samstarfi um dómsmál, umfang þess og eðli er mismunandi eftir réttarsviðum.
Í Helsingforssamningnum er kveðið á um samstarf á sviði dómsmála með svofelldum hætti:
4. gr.
Samningsaðilar skulu halda áfram löggjafarsamstarfi í því skyni að ná sem mestu samræmi á sviði einkamálaréttar. 
5. gr.
Samningsaðilum ber að leitast við að samræma reglur um afbrot og lögfylgjur þeirra. Hafi afbrot verið framið í einhverju Norðurlandanna ber að keppa að því að rannsókn, málshöfðun og dómur geti einnig farið fram, svo sem framast er unnt, í einhverju hinna.             
Mikilvægt markmið dómsmálasamstarfsins er að löggjöf landanna og aðrar reglur séu að efni og formi aðgengilegar almenningi og enn fremur að einstaklingar og fyrirtæki geti fært sig um set innan Norðurlanda án óþarfa stjórnsýsluhindrana. Sú skylda hvílir á löndunum að forðast sem kostur er að ný löggjöf leiði til nýrra stjórnsýsluhindrana. Svo að dæmi sé tekið ber alveg sérstaklega að leita eftir samræmingu á innleiðingu ESB/EES-reglna og annarra alþjóðlegra skuldbindinga í þeim tilgangi að girða fyrir tilurð nýrra stjórnsýsluhindrana.
Þegar við á ber löndunum að haga lagasmíð þannig að upplýsinga sé aflað um sambærilega löggjöf annars staðar á Norðurlöndum og henni gerð skil í greinargerð með lagafrumvarpinu en þannig eykst þekking á norrænum lögum sem er forsenda einsleitni á réttarsviði.

3.2 Félagslega sjálfbær Norðurlönd

3.2.1 Að tryggja réttaröryggi

Norrænu samstarfi á dómsmálasviði er ætlað að tryggja lýðræðislega ákvarðanatöku í löndunum og standa vörð um réttaröryggi einstaklinga og fyrirtækja. Með því má viðhalda trausti, samheldni og sameiginlegum gildum á Norðurlöndum. Þessi vinna fellur undir markmið 12 í framkvæmdaáætlun um Framtíðarsýn okkar 2030.
Innan ramma þessara stefnumarkandi áherslusviða leggur dómsmálasviðið áherslu á að standa vörð um réttaröryggi einstaklinga og fyrirtækja, m.a. í tengslum við stafvæðingu hins opinbera.
Á tímabilinu 2021–2024 stendur dómsmálasviðið að þverlægu verkefni í samstarfi við ráðherranefndina MR-Digital þar sem réttaröryggi einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum verður kannað með tilliti til stafvæðingar hins opinbera.    

3.2.2 Forvarnir gegn glæpum

Glæpir og hryðjuverk skapa óöryggi og óeiningu í samfélaginu. Vinna dómsmálasviðsins að forvörnum gegn glæpum er því mikilvægur liður í norrænu starfi við að efla traust, samheldni og sameiginleg gildi á Norðurlöndum sem fjallað er um í markmiði 12 í framkvæmdaáætlun um Framtíðarsýn okkar 2030.
Norrænu löndin standa að miklu leyti andspænis sömu áskorunum á sviði forvarna gegn afbrotum og hryðjuverkjum sem eru ósjaldan þess eðlis að snerta fleiri lönd en eitt. Sama á við um varnir gegn mansali, kynferðisbrotum á netinu og öðrum kynferðisglæpum.
Náið norrænt samstarf hefur því mikla þýðingu fyrir bolmagn landanna til að takast á við þessar áskoranir í framtíðinni.
Er meðal annars um að ræða norrænt lögreglusamstarf en einnig miðlun þekkingar um laganýmæli og fjármögnun rannsókna um málefni samstarfssviðsins.
Samstarfið á að bæta tengsl og samskipti norrænu landanna og stuðla að því að efla hæfni þeirra á viðkomandi sviðum. Nefna má margra ára baráttu sviðsins gegn kynferðisofbeldi gegn börnum sem raunhæft dæmi um þetta.

3.2.3 Samræmi réttarframkvæmdar og norrænt notagildi

Vinna dómsmálasviðs í þágu samræmingar réttarframkvæmdar á Norðurlöndum og norræns notagildi, eins og lýst er í lið 3.1, stuðlar einnig að því að skapa félagslega sjálfbær Norðurlönd og uppfylla markmið 12 í framkvæmdaáætlun um Framtíðarsýn okkar 2030, m.a. á sviði sifjaréttar.
Go to content