2. Inngangur

2.1 Almennt um samstarf á sviði dómsmála

Samstarfið er byggt á meginreglum Helsingforssamningsins og framtíðarsýn forsætisráðherranna um norrænt samstarf.
Við dómsmálasamstarfið njóta forgangs mál sem hafa norrænt notagildi. Þetta felur í sér að áhersla er lögð á sameiginlegar eða sambærilegar norrænar aðgerðir og lausnir, svo sem rannsóknir, sem skila betri árangri en hliðstæðar aðgerðir í hverju landi um sig. Áhersla er einnig lögð á aukna samkeppnishæfni Norðurlanda og bætt tengsl og samskipti landanna.
Í samstarfinu er sérstök áhersla lögð á grundvallarforsendur þess að viðhalda lýðræði, trausti og samheldni á Norðurlöndum.
Glæpir virða ekki landamæri, hvorki í raunheimum né á netinu. Brotastarfsemi sem teygir anga sína yfir landamæri er sameiginlegt úrlausnarefni norrænu landanna. Aukið norrænt lögreglusamstarf til að hindra og berjast gegn slíkri brotastarfsemi er því forgangsmál í norrænu samstarfi á sviði dómsmála.
Öfgahyggja og ofbeldisfullt ofstæki er einnig úrlausnarefni fyrir norrænu löndin í sameiningu og getur verið ógn við lýðræði og samstöðu á Norðurlöndum. Löndin vinna saman að því á sviði dómsmála að skapa aukna þekkingu til að geta barist gegn og hindrað þetta.
Stafvæðing getur bætt aðgengi og aukið skilvirkni innan opinberrar stjórnsýslu og dómstólanna. Þessi þróun er ekki síst mikilvæg séu þær takmarkanir sem innleiddar voru í norrænu löndunum í kórónuveirufaraldrinum hafðar í huga. Stafvæðing hins opinbera er þó ekki vandalaus með hliðsjón af réttaröryggi einstaklinga og fyrirtækja. Mikilvægt er að norrænu löndin miðli sín á milli þekkingu á þessu sviði ásamt því að horfa til landa utan Norðurlanda, svo sem Eystrasaltsríkjanna.
Mismunandi löggjöf norrænu landanna sem snertir fjölskyldur og atvinnulíf hefur áhrif á frjálsa för innan Norðurlanda. Viðleitnin á dómsmálasviðinu til að samræma löggjöf á Norðurlöndum, m.a. í tengslum við innleiðingu lagagerða ESB/EES, hefur mikið að segja um afnám stjórnsýsluhindrana.
Enn fremur leggur samstarfið á sviði dómsmála sitt af mörkum til þess að efla starf gegn mismunun og standa vörð um grundvallarréttindi, þar á meðal jafnrétti kynjanna, réttindi barna og ungmenna, réttindi fatlaðs fólks með og LGBTQI+ fólks.

2.2 Samstarfssvið

Dómsmálasviðið hefur með höndum samstarf um málefni sem víðast hvar á Norðurlöndum heyra undir dómsmálaráðuneytin.
Á dómsmálasviði er unnið að málefnum opinbers réttar eðlis, svo sem á sviði refsiréttar og réttarfars, dómstólakerfisins, forvarna gegn afbrotum og hryðjuverkum, verndar brotaþola og lögreglusamstarfs auk álitamála um hælisveitingu, innflutning fólks, mismunun, grundvallarréttindi og mannréttindi. Nefna má fleiri svið opinbers réttar sem samstarfið um dómsmál tekur til svo sem stjórnsýslurétt, upplýsingarétt almennings og löggjöfina um vernd persónuupplýsinga.
Á dómsmálasviði er einnig unnið að málefnum einkaréttarlegs eðlis svo sem á sviði sifjaréttar, fjármuna- og samningaréttar og neytendaréttar.

2.3 Gildistími samstarfsáætlunarinnar

Norræna ráðherranefndin um dómsmál samþykkti þessa samstarfsáætlun hinn 10. janúar 2019 en gildistími hennar var í fyrstu 2019–2022. Gildistíminn var svo framlengdur í 2023–2024. Eftir 2024 verður samstarfsáætlunin byggð á framkvæmdaáætlun um Framtíðarsýn okkar 2030 fyrir Norrænu ráðherranefndina sem mun gilda eftir 2024.
Go to content