Go to content

SUMMARY

Norræn nálgun á lýðræðislega umræðu á tímum samfélagsmiðla: Tilmæli frá norrænu hugveitunni um tækni og lýðræði

Samfélagsmiðlar stórra tæknifyrirtækja, á borð við Facebook, YouTube, Instagram, TikTok og Twitter, eru orðnir órjúfanlegur hluti af lýðræðislegu samfélagi og samfélagsumræðu. Þeir gera fólki kleift að eiga samskipti út fyrir landsteinana, styðja við tilurð nýrra samfélagshópa og eru vinsæl uppspretta upplýsinga. Þrátt fyrir að samfélagsmiðlar hafi margar jákvæðar hliðar - geta þeir og algóritmar þeirra, líka haft neikvæð og skaðleg áhrif á lýðræði og lýðræðislega umræðu.
Hatursorðræða á netinu getur leitt til þess að tilteknir hópar í samfélaginu haldi sig til hlés í opinberri umræðu. Þá getur dreifing rangra upplýsinga og upplýsingaóreiða haft neikvæð og villandi áhrif á lýðræðislega umræðu og ýtt undir skautun (pólaríseringu) í samfélaginu. Eftirlit með efni á nýjum miðlum er lítið sem ekkert á minni málsvæðum, svo sem á Norðurlöndunum, og því er brýnt að bregða ljósi á þessar áskoranir, sérstaklega þeim sem snúa að viðkvæmum hópum á borð við börn og ungmenni. Þar sem tæknifyrirtækin hafa verið treg til að veita opinberum aðilum upplýsingar hafa flestar upplýsingar um starfsemi þeirra og vinnubrögð litið dagsins ljós fyrir tilstilli uppljóstrara úr röðum fyrrverandi starfsmanna þeirra.
Framtíðarsýn okkar fyrir Norðurlöndin er að þau verði samþætt tækni- og lýðræðissvæði, þar sem almenningur tekur virkan þátt í opinni og upplýstri samfélagsumræðu á ólíkum sviðum til hagsbóta fyrir íbúa, og þar sem lýðræðislegum innviðum er veitt virkt aðhald í þeim tilgangi að auka viðnámsþrótt almennings á Norðurlöndunum gagnvart neikvæðum áhrifum nýrrar tækni. Norðurlöndin byggja á sameiginlegum gildum, menningu og lýðræðishefð sem skapar tækifæri til að bregðast sameiginlega við lýðræðislegum áskorunum í stafrænum heimi.
Digitalisering.png

Framtíðarsýn fyrir lýðræðislega umræðu á tímum samfélagsmiðla

Við viljum að Norðurlöndin haldi áfram að vera vettvangur heilbrigðrar og virkrar lýðræðislegrar umræðu. Í því skyni setjum við fram eftirfarandi framtíðarsýn:
1. Við viljum að Norðurlöndin verði samþætt tækni- og lýðræðissvæði
2. Við viljum að íbúar Norðurlandanna búi yfir stafrænni hæfni sem aukið getur farsæld þeirra
3. Við viljum að Norðurlöndin hafi aðgang að fjölbreyttum og áreiðanlegum stafrænum miðlum
4. Við viljum að á Norðurlöndunum fari fram opnar og upplýstar opinberar umræður
5. Við viljum að Norðurlöndin veiti starfsemi stórra tæknifyrirtækja virkt aðhald, byggt á viðeigandi upplýsingum og þekkingu

Ráðleggingar fyrir lýðræðislega umræðu á tímum samfélagsmiðla

Saman ættu Norðurlöndin að vera drifkraftur öflugri og gagnsærri nálgunar gagnvart því hvernig við leyfum stóru tæknifyrirtækjunum að hafa áhrif á samfélög og lýðræðisvettvang á Norðurlöndum, í Evrópu og á heimsvísu. Norræna hugveitan um tækni og lýðræði leggur til eftirfarandi samnorrænar tillögur til að verja og styrkja lýðræðislega umræðu á tímum samfélagsmiðla:
Við mælum með því að ríkisstjórnir Norðurlandanna komi á fót norrænni miðstöð fyrir tækni og lýðræði til að styðja við framfylgd evrópskrar tæknilöggjafar.
Við mælum með því að Norðurlöndin standi vörð um velferð og öryggi barna og ungmenna á netinu og ýti undir aukna þátttöku íbúanna í þeim efnum.
Við mælum með því að Norðurlöndin komi sér upp miðstöð á netinu þar sem þekkingu um stafrænt læsi er miðlað og kennurum veittur stuðningur.
Við mælum með því að Norðurlöndin þrói og prófi áætlanir til að styðja við fólk sem vill þróa netsamfélög þar sem lýðræðisleg umræða á sér stað.
Við mælum með því að Norðurlönd stuðli að nýsköpun og innleiðingu á tækni sem stuðlar að opinni opinberri umræðu á stafrænum vettvangi og skapar mótvægi við og val um annað en stóru samfélagsmiðlana.
Við mælum með því að norrænir ríkisfjölmiðlar fái góðan stuðning til að efla stafræna þróun, þróa efni fyrir stafræna miðla og  vettvang fyrir lýðræðislega umræðu á netinu.
Við mælum með því að Norðurlöndin efli stuðning við óháðar rannsóknastofnanir sem búa yfir sérþekkingu til að vinna gegn röngum og villandi upplýsingum.
Við mælum með því að Norðurlöndin knýi á um betra eftirlit með efni innan viðkomandi landa sem og um aukið gagnsæi í framkvæmd þess til að tryggja gagnsætt og vandað eftirlit á Norðurlöndunum.
Við mælum með því að Norðurlöndin setji á fót til bráðabirgða norrænan starfshóp til að kanna mótvægisaðgerðir gegn þeirri hættu sem lýðræðinu stafar af röngum og villandi upplýsingum sem byggja á gervigreindartækni.
Við mælum með því að Norðurlöndin stuðli að aðgangi sjálfstæðra rannsóknaraðila að gögnum og algóritmum samfélagsmiðla með því að koma á fót skrifstofu sem styður við aðgang norrænna aðila að gögnum samfélagsmiðla og leiðbeinir þeim í umsóknarferlum.
Við mælum með því að Norræna ráðherranefndin um menningarmál láti vinna skýrslu annað hvert ár um stöðu stöðu lýðræðis í norrænu ríkjunum sem hægt verði að nota sem grunn að upplýstri opinberri umræðu um hvernig er hægt að efla samfélög okkar og lýðræðislega umræðu á stafrænni öld.

Billede1.jpg

Um norrænu hugveituna um tækni og lýðræði

Árið 2021 ákvað Norræna ráðherranefndin um menningarmál að koma á fót norrænu hugveitunni um tækni og lýðræði til að fjalla um aukin áhrif samfélagsmiðla og stóru tæknifyrirtækjanna á lýðræðislega umræðu á Norðurlöndum og til að mæla fyrir hugsanlegum pólitískum aðgerðum til að verja og styrkja norrænt stafrænt lýðræði.
Hugveitan var skipuð í maí 2022 og í henni sitja 13 fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum, menningarmálaráðuneyti Danmerkur veitti aðstoð og lagði fram starfskrafta við gerð skýrslunnar :
  • Tobias Bornakke (formaður), Danmörku
  • Anja Bechmann, Danmörku
  • Bente Kalsnes, Noregi
  • Carl Heath, Svíþjóð
  • Elfa Ýr Gylfadóttir, Íslandi
  • Fredrik Granlund, Álandseyjum
  • Hanna Haaslahti, Finnlandi
  • Jákup Brúsá, Færeyjum
  • Martin Holmberg, Svíþjóð
  • Minna Aslama Horowitz, Finnlandi
  • Signe Ravn-Højgaard, Grænlandi
  • Sumaya Jirde Ali, Noregi
  • Þorgeir Ólafsson, Íslandi

"Stóra spurningin er ekki lengur hvort við þurfum meira lýðræðislegt eftirlit með tæknifyrirtækjunum. Spurningin er hvernig og hversu hratt við komum á slíku eftirliti.“

Tobias Bornakke, formaður