Go to content

Friður og öryggi á norðurslóðum

Með orðunum „friður og öryggi“ í yfirskrift formennskuáætlunarinnar er átt við þörfina á að tryggja öryggi Norðurlanda og bandalagsþjóða þeirra á norðurslóðum en jafnframt nauðsyn þess að draga úr spennu á svæðinu og leggja aukna áherslu á friðsamlegar lausnir. Þörf er á nýrri framtíðarsýn í öryggismálum á norðurslóðum. Með orðinu „öryggi“ er þó einnig átt við aðra þætti sem tengjast velferð og framtíð Norðurlanda og sérstaklega íbúa á norðurslóðum.
Eftir lok kalda stríðsins hefur tekist góð samvinna um mörg úrlausnarefni tengd norðurslóðum milli ríkja og þjóðarbrota sem teljast til þessa svæðis. Vegna örra breytinga á ýmsum sviðum standa þau nú frammi fyrir erfiðum verkefnum en jafnframt miklum tækifærum.
Ný staða er komin upp í öllum samskiptum Norðurlanda og annarra lýðræðisríkja við Rússland eftir allsherjarinnrásina í Úkraínu í febrúar 2022. Það á einnig við um málefni norðurslóða. Samstarf vestrænna ríkja við Rússland um áskoranir sem tengjast þessu svæði hefur að mestu leyti stöðvast. Finna þarf nýjan farveg fyrir samráð um málefni norðurslóða og þar geta Norðurlönd leikið lykilhlutverk ef þau taka höndum saman.
Norðurslóðir hafa verið og eru enn matarkista samfélaganna. Tryggja þarf að svo verði áfram með sjálfbærri nýtingu auðlinda. Á norðurslóðum þarf að hafa meira fyrir því að tryggja fjölbreytni í fæðu, nýbreytni í ræktun og öflun aðfanga almennt en á þéttbýlli svæðum.
Staða jaðar- og minnihlutahópa getur verið erfið í fámennum og strjálbýlum sam­félögum þar sem stuðningsnet er oft ekki til staðar, til dæmis í formi félagasam­taka. Þetta á meðal annars við um hinsegin fólk en einnig öryrkja og langveikt fólk. Leita þarf leiða til að styðja þessa hópa og efla samstarf þvert á landamæri.
Lífsskilyrði íbúa á norðurslóðum eru víða ólík því sem gerist sunnar á Norðurlöndum og í Evrópu. Vegna veðurfars, strjálbýlis, takmarkaðra fjarskiptainnviða og erfiðra samgangna er oft erfitt að tryggja viðunandi þjónustustig í heilbrigðis- og velferðarkerfinu og annarri opinberri þjónustu. Sjá þarf til þess að íbúar norðurslóða hafi sama aðgang að velferðarþjónustu og aðrir Norðurlandabúar og jafnræði þarf að ríkja í samskiptum og samstarfi norður- og suðurhluta Norðurlanda.
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs samþykkti í mars 2023 að skipa vinnuhóp til að skoða þörfina á að endurskoða Helsingforssamninginn. Hver sem niðurstaða Norðurlandaráðs, ríkisstjórna Norðurlanda og þjóðþinga landanna verður að lokum getur þetta ferli orðið tilefni og tækifæri til að ræða og fara yfir mörg mikilvæg málefni sem snerta Norðurlönd og norrænt samstarf. Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði verður því lögð sérstök áhersla á þetta starf.

Friður og öryggi

Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 er „Norðurlönd – afl til friðar”. Á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði verður þessari áherslu fram haldið en sérstaklega verður sjónum beint að friði og öryggi á norðurslóðum.
Rætur norræns samstarfs, sem að miklu leyti má rekja má til 19. aldar, liggja að miklu leyti í tilraunum norrænu þjóðanna til að standa saman um að verjast ágangi herskárra stórvelda. Löndin hafa oft haft ólíkar áherslur í utanríkisstefnu sinni en engu að síður hafa þau um langt skeið haft með sér gott og árangursríkt samstarf. Norðurlönd hafa lagt áherslu á að styrkja alþjóðastofnanir, einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og að efla og standa vörð um alþjóðalög og -sáttmála frekar en að treysta á umfangsmikinn vígbúnað til að tryggja öryggi sitt. Rík hefð er fyrir því að norrænu ríkin miðli málum í deilum annarra þjóða og styðji gildi á borð við sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða og vernd mannréttinda með ráðum og dáð.
Ný staða er komin upp nú þegar í það stefnir að öll norrænu ríkin fái aðild að Atlantshafsbandalaginu. Árið 2024 eru liðin 75 ár frá stofnun Atlantshafsbandalagsins. Það getur orðið tilefni umræðu um samstarf, hlutverk og stöðu Norðurlanda innan bandalagsins með virkri þátttöku Norðurlandaráðs. Leita þarf leiða til að tryggja og efla samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum með það að leiðarljósi að stuðla að friði og öryggi til framtíðar. Einn þáttur í þeirri viðleitni getur verið að uppfæra Helsingforssamninginn þannig að hann taki einnig til þessa málefnasviðs.
Málefni Úkraínu og nálægra landa, til dæmis Eystrasaltsríkjanna, sem helst er ógnað af útþenslustefnu rússneskra stjórnvalda hafa verið í brennidepli umræðu um varnar- og öryggismál í Norðurlandaráði frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Eystrasaltsríkin eiga margt sameiginlegt með Norðurlöndum og í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði verður nánu samstarfi Norðurlandaráðs við Eystrasaltsþingið haldið áfram, ekki síst í því skyni að styðja baráttu Úkraínumanna og stjórnarandstöðu í Belarús og Rússlandi.
Áhrifa aukinnar spennu í samskiptum Vesturlanda við Rússland gætir þó víðar, meðal annars á norðurslóðum.  Samstarf við Rússa á vettvangi Norðurskautsráðsins, Barentsráðsins, Eystrasaltsráðsins og Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins hefur ýmist dregist verulega saman eða stöðvast með öllu.
Norðurlönd hafa lagt áherslu á það að norðurslóðir séu og eigi að vera lágspennusvæði þegar kemur að hernaði. Til þess að svo geti verið þarf að vinna að friði og friðsamlegum lausnum.
Endurskoða þarf öll samskipti við Rússland um málefni norðurslóða. Norðurlönd geta leikið lykilhlutverk í því starfi, einkum ef þau vinna saman á grundvelli sameiginlegra gilda og áherslna. Norðurskautsráðið hefur um langt skeið verið og verður áfram mikilvægasti vettvangur samvinnu um málefni norðurslóða. Aðildarríki ráðsins hafa gert með sér þrjá mikilvæga samninga sem verið hafa grundvöllur samstarfsins: samning um leit og björgun á norðurslóðum, samning um viðbrögð við olíumengun í norðurhöfum og samning um vísindasamstarf á norðurslóðum. Vinna þarf áfram að þeim markmiðum sem tilgreind eru í samningunum.
Norræn ríki verða í formennsku í Norðurskautsráðinu fram til ársins 2029  sem gefur tækifæri á að samræma og samhæfa stefnu og markmið um málefni norðurslóða. Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði verður leitað leiða til þess að efla samstarf Norðurlanda á vettvangi Norðurskautsráðsins.
Fæðuöryggi og aðfangaöryggi almennt er mikið hagsmunamál íbúa norðurslóða. Fæðuöryggi var eitt af áherslumálunum í starfi Vestnorræna ráðsins árið 2023 og formennska Íslands í Norðurlandaráði mun fylgja því starfi eftir.

Staða norðursins í norrænu samstarfi

Nyrstu og vestustu hlutar Norðurlanda hafa sögulega verið jaðarsvæði sem lotið hafa valdi sterkari afla að sunnan og austan. Margt er ólíkt í menningu og lífsháttum íbúa norðurslóða, til dæmis Sama og Grænlendinga, og þeirra sem sunnar búa á Norðurlöndum. Þjóðir norðurslóða hafa um langt skeið unnið að því að marka sér sjálfstæðari stöðu. Finnar hafa þurft að færa miklar fórnir til að öðlast fullt sjálfstæði frá stórveldinu í austri sem nú herjar á Úkraínu, Ísland hóf sína vegferð til sjálfstæðis á 19. öld og lauk henni með stofnun lýðveldis árið 1944 og færeysk og grænlensk stjórnvöld hafa smám saman tekið við stjórn málaflokka sem áður voru á ábyrgð Dana.
Sterkari staða Álendinga, Færeyinga og Grænlendinga hefur verið jákvæður og mikilvægur þáttur í þróun norræns samstarfs síðustu áratuga. Stórt skref var stigið með samþykkt svonefnds Álandseyjaskjals árið 2007 en umræðan hefur haldið áfram og mikilvægt er að þessi lönd taki þátt í öllum ákvörðunum sem þau varða á jafnræðisgrundvelli.   
Norrænt samstarf á sér rætur í Skandinavismanum, samstarfi og sameiningarhugmyndum Norðmanna, Svía og Dana á 19. öld. Í því samhengi var sjálfgefið að skandinavísku tungumálin þrjú, sænska, danska og norska, væru ráðandi. Þetta fyrirkomulag hélst þegar skandinavíska samstarfið varð norrænt með þátttöku Finna og Íslendinga í störfum Norræna þingmannasambandsins á fyrri hluta 20. aldar og með stofnun Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar á síðari hluta aldarinnar.
Að ósk Finna og Íslendinga og í góðri samvinnu við hin aðildarríkin hefur staða finnsku og íslensku í norrænu samstarfi eflst undanfarin ár og áratugi. Þó er langt frá því að staða þátttakenda með finnsku og íslensku að móðurmáli sé jöfn á við þá sem hafa sænsku, norsku eða dönsku sem móðurmál. Þetta má merkja á fundum Norðurlandaráðs en einnig í öðru samstarfi, til dæmis á vettvangi Norðurlandaráðs æskunnar.
Krafa um að jafnframt sé tekið tillit til fleiri þjóðtungna Norðurlanda í samstarfinu hefur orðið háværari á síðustu árum. Á Grænlandi, Íslandi, Finnlandi og í Færeyjum hefur kunnáttu í skandinavískum málum hrakað um langt skeið en samtímis hefur enskukunnátta aukist. Útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram. Að óbreyttu má því búast við að aðstöðumunur til þátttöku í samstarfinu á grundvelli tungumálakunnáttu aukist. Eitt af því sem skoða má í því samhengi er hvort framfarir í máltækni af ýmsu tagi geti orðið til að draga úr þessum vanda.
Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði verður leitað leiða til að draga úr ójafnvægi milli þátttakenda í norrænu samstarfi þannig að allir geti, eftir því sem unnt er, nýtt sér sitt móðurmál til samskipta. Þetta má til dæmis gera í tengslum við hugsanlega endurskoðun á Helsingforssamningnum. Einnig verður sérstaklega horft til þess að jafna aðstöðu fulltrúa í Norðurlandaráði æskunnar.

Mannréttindi og lýðræði

Innrás Rússa í Úkraínu hefur skerpt á skilum milli frjálslyndra lýðræðisríkja annars vegar og alræðisríkja hins vegar, þar sem réttindi og staða íbúa er háð duttlungum og eiginhagsmunum valdastéttar. Lýðræðisríki í Evrópu og víðar hafa vaknað til vitundar um mikilvægi þess að standa vörð um grundvallargildi sín.
Virðing fyrir réttindum jaðar- og minnihlutahópa er að jafnaði mest í ríkjum þar sem lýðræði stendur traustum fótum og þar sem mannréttindi, jafnrétti og gildi réttarríkisins eru almennt í heiðri höfð. Með jaðar- og minnihlutahópum er hér átt við hinsegin fólk, innflytjendur og þjóðernis-, tungumála-, og trúarminnihlutahópa, en jafnframt öryrkja og langveikt fólk.
Á síðustu árum hefur orðið bakslag í lýðræðisþróun og málefnum ýmissa jaðar- og minnihlutahópa víða um heim. Í nafni öfgastefnu og í krafti ólýðræðislegra stjórnarhátta hafa réttindi tiltekinna hópa verið skert, oft þeirra sem veikasta stöðu hafa fyrir. Jafnframt hefur verið sótt að jafnrétti og sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Þessarar tilhneigingar hefur gætt á Norðurlöndum en sem betur fer í minna mæli en víðast annars staðar.
Fyrr á tímum sótti hinsegin fólk og aðrir af jaðarsvæðum Norðurlanda, sem skáru sig úr fjöldanum á einhvern hátt, til þéttbýlissvæða í suðri. Þar var hægt að hverfa í fjöldann eða leita stuðnings annarra einstaklinga í sömu stöðu og komast undan eða verjast fordómum meirihlutasamfélagsins. Löngum hafa öryrkjar og langveikt fólk einnig þurft að leita til þéttbýlis fjarri heimilum sínum til að fá þá þjónustu sem er þeim nauðsynleg, með mikilli fyrirhöfn og kostnaði.
Skilningur á mikilvægi fjölbreytilegrar flóru mannlífsins og á ólíkum aðstæðum fólks hefur aukist í norrænum samfélögum og löggjöf hefur þróast í samræmi við það. Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði verður lögð áhersla á að efla samstarf Norðurlanda um málefni tengd jafnrétti og jaðar- og minnihlutahópum, sérstaklega á strjálbýlli jaðarsvæðum. Samstarf verður haft við samtök og talsmenn þessara hópa á formennskuárinu. 
Norðurlönd hafa vakið athygli á heimsvísu fyrir þau framfaraskref sem hafa verið stigin til að efla kynjajafnrétti og stöðu hinsegin fólks. Norðurlandaráð þarf að mæla fyrir þessum réttindum og öðrum gildum sem tengjast lýðræði og mannréttindum á alþjóðavettvangi. Stuðla þarf að því að Norðurlöndin taki höndum saman um að verja þau. Endurskoðun Helsingforssamningsins gæti verið tækifæri til að skilgreina og koma á framfæri áherslum Norðurlandaráðs á þessu sviði.

Upplýsingaóreiða og fjölmiðlar

Eitt helsta verkfærið sem alræðisríki og bandamenn þeirra hafa beitt til að grafa undan lýðræði er að dreifa falsfréttum og ýta undir öfgasjónarmið heima fyrir og erlendis. Með því er reynt að skapa glundroða, óvissu og sundrung og etja saman mismunandi hópum. Norðurlönd þurfa að sameinast um að verjast þessum tilraunum.
Fjölmiðlar eru ein mikilvægasta stoð lýðræðislegs samfélags. Hlutverk þeirra verður enn mikilvægara á tímum átaka og upplýsingaóreiðu. Miklir erfiðleikar hafa steðjað að hefðbundnum fjölmiðlum vegna tæknibreytinga síðustu áratuga og búast má við að örar breytingar verði einnig á næstu árum, til dæmis vegna áhrifa gervigreindar. Öflugir fjölmiðlar í stórborgum Norðurlanda hafa flestir haldið velli á þessu umbyltingartímabili en staðbundnir og minni fjölmiðlar á jaðarsvæðum eiga erfiðar uppdráttar. Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði verður sjónum beint að mismunandi stöðu fjölmiðla og upplýsingamiðlunar á þéttbýlli svæðum annars vegar og jaðarsvæðum hins vegar, og hvernig tryggja megi aðgang allra íbúa Norðurlanda að traustum fréttum og upplýsingum.

Umhverfis- og loftslagsmál

Norðurlönd eru í fremstu röð ríkja heims í starfi að umhverfis- og loftslagsmálum á grundvelli réttlátra umskipta.
Á norðurslóðum gætir áhrifa loftslagsbreytinga fyrr og meira en víðast annars staðar. Náttúra norðurslóða er viðkvæm og getur verið erfitt, meðal annars vegna veðurfars, fábýlis og mikilla fjarlægða, að bregðast við umhverfisslysum og öðrum ógnum.
Allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu hefur valdið aukinni spennu og erfiðleikum í öllum samskiptum Vesturlanda og Rússlands, þar á meðal á norðurslóðum. Norðurskautsráðið verður áfram mikilvægasti vettvangur samstarfs um umhverfismál og önnur málefni tengd norðurslóðum en  samskiptin við Rússland verða enn erfiðari en áður
Rússar hafa aukið mjög hernaðarumsvif sín á norðurslóðum á undanförnum árum og önnur ríki hafa að nokkru leyti fylgt í kjölfarið. Umsvifum Rússa á Barentshafssvæðinu og víðar fylgir mikil mengun.
Til skemmri tíma þurfa Norðurlönd að taka höndum saman við Kanada, Bandaríkin og önnur vinveitt ríki um að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Til lengri tíma litið þarf að móta nýja framtíðarsýn fyrir samvinnu allra ríkja á norðurslóðum og annarra aðila svo að hægt verði að takast á við sameiginlegar áskoranir heimsbyggðarinnar á svæðinu.
Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði verður stuðlað að frekara samtali og samráði milli Norðurlanda og annarra ríkja um fyrrgreind markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Einnig verður kannað hvernig koma megi mikilvægi þessa málaflokks að í tengslum við hugsanlega endurskoðun á Helsingforssamningnum.

Samstarfsaðilar

Mikilvægir samstarfsaðilar Norðurlandaráðs við framkvæmd formennskuáætlunarinnar verða frumbyggjar og aðrir íbúar norðurslóða, samtök þeirra og talsmenn. Einnig verður unnið með samtökum og talsmönnum jaðar- og minnihlutahópa, til dæmis samtökum hinsegin fólks.
Á formennskuárinu verður lögð áhersla á að starfa með nágrönnum Norðurlanda í vestri að þeim áherslumálum sem hér er lýst. Þessi lönd eru Bretland, ekki síst Skotland sem lýst hefur miklum áhuga á nánara samstarfi við Norðurlönd, Kanada og Bandaríkin. Einnig verður unnið náið með öðrum þingmannasamtökum sem vinna að norðurslóðamálum, þar á meðal Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál, Vestnorræna ráðinu, Þingmannaráðstefnu Barentssvæðisins, Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins og Evrópuþinginu.
Náið samstarf og samráð verður haft við Norðurlandaráð æskunnar á formennskuárinu til að tryggja að raddir ungs fólks heyrist og hagsmuna þess sé gætt. Norræna félagið og önnur samtök um norrænt samstarf verða einnig mikilvægir samstarfsaðilar.
Hringborð norðurslóða er mikilvægur vettvangur opinnar umræðu um málefni norðurslóða. Í formennskutíð Íslands verður stefnt að virkri þátttöku Norðurlandaráðs í árlegri ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Reykjavík en jafnframt verða kannaðir möguleikar á að taka þátt í öðrum ráðstefnum og viðburðum sem snerta þennan málaflokk.