logo
menu image

Menu

  • Forsíða
  • Efnisyfirlit
  • Framtíðarsýn okkar 2030
  • Formáli
  • Inngangur
  • Aðgerðir og niðurstaða
  • Græn Norðurlönd
  • 1: Kolefnishlutleysi
  • 2: Líffræðileg fjölbreytni
  • 3: Hringrásar- og lífhagkerfi
  • 4: Sjálfbær neysla
  • 5: Alþjóðlegt samstarf um umhverfis- og loftlagsmál
  • Samkeppnishæf Norðurlönd
  • 6: Þekking og nýsköpun
  • 7: Öflugir vinnumarkaðir
  • 8: Stafvæðing og menntun
  • Samkeppnishæf Norðurlönd
  • 9: Heilsa og velferð
  • 10: Umskipti með þátttöku allra
  • 11: Borgaralegt samfélag og börn og ungt fólk
  • 12: Samstaða
  • Stjórnunaraðferðir og -verkfæri
  • Tillögur
  • Fylgiskjal 1. Markmiðin tólf í framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 á tímabilinu 2021–2024
  • Fylgiskjal 2. Norrænar stofnanir, samstarfsstofnanir og skrifstofur
  • Fylgiskjal 3. Álit Norðurlandaráðs á milliúttektinni.
  • Fylgiskjal 4. Umsögn norræns samstarfsnets borgaralegs samfélags um miðtímamatið.
  • Um ritið

MENU

 
 

Þetta rit er einnig fáanlegt á netinu í vefaðgengilegri útgáfu: pub.norden.org/politiknord2022-723

 
 

Formáli

Forsætisráðherrarnir samþykktu á sumarfundi sínum í Reykjavík 2019 framtíðarsýn fyrir Norðurlöndin árið 2030 – við eigum að verða sjálfbært og samþætt svæði á heimsmælikvarða. Norðurlöndin hafa góðar forsendur til að uppfylla framtíðarsýnina, en við eigum enn langa leið fyrir höndum. Vandinn er hvað stærstur við að ná fram grænum Norðurlöndum vegna ósjálfbærrar neyslu og framleiðslu í núverandi kreppu á sviði loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni.

Leiðarkort Norrænu ráðherranefndarinnar hefur samanstaðið af framkvæmdaáætluninni sem samstarfsráðherrarnir samþykktu í september 2020. Áætlunin setur tólf markmið fyrir starf ráðherranefndarinnar á tímabilinu 2021–2024 þar sem stefnt er að grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Þessi skýrsla er fyrsta úttektin á því hve langt á veg við erum komin með vinnu að framkvæmdaáætluninni á fyrstu tveimur árunum.

Leiðin hefur ekki verið án óvæntra atvika, áskorana eða afturkipps. Að hluta til höfum við brotið nýtt land og fetað nýja stigu. En ánægjulegt er að sjá að við höfum náð áþreifanlegum árangri og áhrifum varðandi markmiðin tólf um framtíðarsýnina. Norræna ráðherranefndin hefur meðal annars skilað af sér:

  • Norrænum pólitískum lausnum; svo sem sameiginlegu kerfi um skýrslugjöf varðandi sjálfbærni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, eða að átta norrænum stjórnsýsluhindrunum hefur verið rutt úr vegi vegna starfs Stjórnsýsluhindranaráðsins.
  • Nýjustu skýrslum og greiningum; svo sem hvernig megi fjölga vindmyllum á hafi án þess að valda álagi á líffræðilega fjölbreytni í hafinu, eða greiningarverkfæri sem á að fylgjast með uppsetningu 5G á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.
  • Vettvangi fyrir norrænt samstarf; svo sem norræna tengslanetinu sem hefur greint hvað gera þarf varðandi norræna innviði fyrir rafknúnar flugvélar, eða Nordjobb sem hefur útvegað yfir 1000 ungmennum tímabundna vinnu í öðru norrænu landi.

Framkvæmdaáætlunin hefur haft áhrif sem samstöðutákn fyrir Norrænu ráðherranefndina. Stofnunin í heild – norrænu fagráðherranefndirnar, embættismannanefndirnar, stofnanirnar, samstarfsstofnanir og skrifstofur – haga starfsemi sinni í átt að sömu lokaniðurstöðu.  Að því er varðar fjárhagsáætlun höfum við hafið endurskoðaða skiptingu fjárframlaga á næstum því einum sjötta hluta fjármagns okkar í aðgerðir í þágu umhverfis- og loftslagsmála í því skyni að hraða grænum umskiptum.

Framtíðarsýnin og markmið hennar um að stuðla að sjálfbæru samfélagi hér og nú og á morgun er jafn viðeigandi og þegar hún var samþykkt, ef ekki meira. Það er von mín að þessi skýrsla sýni ekki bara hvað við höfum gert heldur kveiki einnig hugmyndir um hvað við þurfum að gera í framtíðinni svo að Norðurlönd verði sjálfbært og samþætt svæði á heimsmælikvarða.

Jonas Wendel

settur framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Jonas Wendel 
Foto: Ricky John Molloy/norden.org
 

Inngangur

Norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu í ágúst 2019 framtíðarsýnina um að Norðurlönd verði sjálfbært og samþætt svæði á heimsmælikvarða árið 2030. Stefnt er að því að nýta styrk Norðurlanda í þágu loftslags og samfélags og setja það í forgang. Framtíðarsýnin byggir á að heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun og Parísarsamningurinn vísi veginn en að Norðurlöndin eigi að vinna af meiri metnaði og hraðar en umheimurinn. Þrjú stefnumarkandi áherslusvið voru skilgreind fyrir framkvæmdina á tímabilinu 2021–2024: græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd (Mynd 1).

Með mið af hinum stefnumarkandi áherslusviðum hófst vinna seinni hluta árs 2019 til að skýra frekar innan hvaða sviða ráðherranefndin ætti að skipuleggja aðgerðir sínar. Í þessari vinnu komu við sögu allar fagráðherranefndir og embættismannanefndir, samnorrænu stofnanirnar, Norðurlandaráð, atvinnulífið og borgaralegt samfélag.

Fram fór rannsókn til að fá fram mynd af stöðu Norðurlanda að því er varðaði framtíðarsýnina. Stöðuskýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 sýndi að þrátt fyrir að Norðurlöndin séu komin vel áleiðis í átt að sjálfbæru og samþættu svæði, þá stöndum við frammi fyrir áskorunum og þá einkum í viðleitni okkar til að verða grænt svæði. Það er einnig í samræmi við aðrar landsbundnar og alþjóðlegar skýrslur sem gerðar voru um framvindu norrænu ríkjanna að heimsmarkmiðunum 17 um sjálfbæra þróun – það er einkum varðandi grænu markmiðin að við höfum við mikinn vanda að glíma (þ.e.a.s. sjálfbærnimarkmið 12, 13, 14 og 15).

Í febrúar 2020 tóku norrænu samstarfsráðherrarnir ákvörðun um tólf markmið undir stefnumarkandi áherslusviðunum (fylgiskjal 1) og endurskoðun á fjárhagsáætlun, einkum til að efla vinnuna við græn umskipti. Haustið sama ár samþykktu samstarfsráðherrarnir framkvæmdaáætlun um vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar við Framtíðarsýn okkar fyrir tímabilið 2021–2024, með mið af markmiðunum 12, sem verkfæri til að stjórna, þróa og kynna mikilvægustu starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar undir framtíðarsýninni. Samstarfsráðherrarnir tóku einnig ákvörðun um nýja stefnu um samþættingu þverlægra sjónarmiða sjálfbærrar þróunar, jafnréttis, og réttinda barna og málefna ungs fólks í allri starfsemi sem og viðmiðunarreglur um þátttöku borgaralegs samfélags í vinnunni að Framtíðarsýn okkar 2030.

Tilgangurinn með þessari skýrslu er að gera grein fyrir hve langt á veg ráðherranefndin er komin með vinnuna við framkvæmdaáætlunina á fyrstu tveimur árunum. Skýrslunni er ætlað að vera grundvöllur hugsanlegra lagfæringa á vinnu á núverandi tímabili framkvæmdaáætlunarinnar, og leggja fram tillögur til Norrænu ráðherranefndarinnar um hvernig megi efla vinnu við framtíðarsýnina. Að beiðni norrænu samstarfsráðherranna tók skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar skýrsluna saman á fyrri helmingi ársins 2022 og hún var samþykkt af samstarfsráðherrunum í september 2022. Áhersla er lögð á að lýsa þeim aðgerðum og niðurstöðum sem náðst hafa í vinnu ráðherranefndarinnar og sem stuðla að sjálfbærum og samþættum Norðurlöndum. Auk þess má sjá merki þeirra breytinga – aðferðafræðilegra, fjárhagslegra og skipulagslegra – sem hófust með vinnunni að framtíðarsýninni og hvatningu forsætisráðherranna um skýr markmið og eftirfylgni niðurstaðna.

Tímabilið skarast að mestu við COVID-19-heimsfaraldurinn og stríðið í Úkraínu sem kom í kjölfarið. Mörg þeirra áforma sem uppi voru þegar áætlunin var mótuð hafa af þeim sökum ekki getað orðið að veruleika en lifa áfram sem áherslusvið í nánustu framtíð. Þær miklu áskoranir sem innleiðing nýs fjárhagskerfis hefur haft í för með sér fyrir Norrænu ráðherranefndina hafa valdið því að gangsetningu verkefna hefur í mörgum tilvikum seinkað árið 2021 og að ekki hafi fundist úrræði fyrir umfangsmeiri þróunarvinnu sem einkum tengist markmiða- og árangursstjórnun og kerfi til að styðja við vinnuna að framtíðarsýninni.

Skýrslan skiptist í þrjá hluta:

  1. Aðgerðir og árangur: Kaflinn greinir frá og leggur mat á vinnuna sem varðar markmiðin tólf. Fyrir hvert markmið er gerð grein fyrir mynd af markmiði – hverju á að ná fram, tilgangi - hvers vegna markmiðið er viðeigandi, aðgerðum - hverju hefur verið áorkað, og lærdómi – hvað höfum við lært og hvernig höldum við áfram.
  2. Stjórnunaraðferðir og -verkfæri: Kaflinn greinir frá og leggur mat á þær breytingar sem ráðherranefndin hefur ráðist í á meðal annars fjárhagsáætlun, skipulagi og verklagi til að geta uppfyllt framtíðarsýnina.
  3. Tillögur: Kaflinn greinir frá tillögum framkvæmdastjórans um frekari vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar að framtíðarsýninni.

Kaflinn um aðgerðir og árangur er saminn með mið af innri skýrslu um aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar og þær niðurstöður sem þar hafa fengist og af umræðum í þremur þverfaglegum hópum um framtíðarsýnina með víðtækri þátttöku frá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, norrænum stofnunum og öðrum skrifstofum. Kaflinn um stjórnunaraðferðir og -verkfæri byggir á greiningu á áhrifum og afleiðingum endurskoðaðrar skiptingar fjárframlaga, skoðanakönnun sem send var til skrifstofunnar, norrænu stofnananna og norrænu embættismannanefndanna, og á stöðugri umræðu í þverfaglegu hópunum um framtíðarsýnina. Kaflinn um tillögur greinir frá lokaniðurstöðum framkvæmdastjórans á grundvelli gagna í fyrri köflum.

Skrifstofan hefur verið í stöðugu samráði við norrænu samstarfsnefndina (NSK) og norræna sérfræðingahópinn um sjálfbæra þróun við gerð milliúttektarinnar. Sumarið 2022 voru drög að milliúttektinni send til umsagnar til norrænu embættismannanefndanna auk Norðurlandaráðs og norræns samstarfsnets frjálsra félagasamtaka sem gafst færi á að segja álit sitt á milliúttektinni (fylgiskjöl 3 og 4).

Norræna ráðherranefndin

Norræna ráðherranefndin samanstendur í dag af ellefu fagráðherranefndum auk ráðherranefndar samstarfsráðherranna. Stór hluti norræns samstarfs fer fram hjá stofnunum 12 og samstarfsstofnunum 20 sem eru víðsvegar á Norðurlöndunum og þremur norrænum skrifstofum í Eystrasaltsríkjunum (fylgiskjal 2). Stofnanirnar leysa verkefni á sviði rannsókna, nýsköpunar, byggðaþróunar, menningar og velferðar. Mikið norrænt samstarf fer einnig fram milli stjórnvalda og ráðuneyta á Norðurlöndunum.

Norrænt samstarf byggir á því að það á að stuðla að norrænu notagildi, þ.e.a.s. að virðisauki á að felast í að eiga samstarf landanna á milli og að árangur samstarfsins komi Norðurlöndunum til góða. Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar annast dagleg störf og sér um að hrinda þeim ákvörðunum í framkvæmd sem teknar eru af norrænu ríkjunum. Fyrirmæli um starfsemi skrifstofunnar taka skýrt fram að skrifstofan er verkfæri til að

  • eiga frumkvæði að pólitískum ákvörðunum, hefja þær og framfylgja þeim;
  • skapa þekkingu sem sameiginlegar lausnir byggjast á;
  • koma á fót tengslanetum í því skyni að miðla reynslu og hugmyndum.
 

Aðgerðir og árangur

Í þessum kafla er litið nánar á þær aðgerðir sem unnar eru og þann árangur sem Norræna ráðherranefndin hefur náð á tímabilinu 2021–2024 í tengslum við markmiðin tólf í framkvæmdaáætluninni.

Kaflinn er byggður upp samkvæmt markmiðunum tólf og fyrir hvert markmið er gerð grein fyrir:

  • markmiðinu sem er pólitískt ákveðið af samstarfsráðherrunum sem og rökstuðningi fyrir því hvers vegna norrænt samstarf á sviðinu er mikilvægt.
  • starfi Norrænu ráðherranefndarinnar sem stuðlaði að uppfyllingu markmiðsins. Gerð er grein fyrir þessu með því að fjalla um alls 3–4 aðgerðir og árangur þeirra.

Í stuttu máli sýnir úttektin að starf Norrænu ráðherranefndarinnar stuðli að, efli og bæti starf við framkvæmd markmiðanna og stuðli þannig einnig að framkvæmd Heimsmarkmiðanna. Víða má sjá skýran árangur undir markmiðunum tólf um framtíðarsýnina af verkefnum Norrænu ráðherranefndarinnar þó svo að starfið hafi bara verið í gangi í tæp tvö ár. Aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar veita norrænan virðisauka á sviðum þar sem Norðurlöndin geta náð betri árangri í sameiningu en hvert í sínu horni.

Það þýðir ekki að ekki sé hægt að gera betur til að tryggja að við náum markmiðunum og höfum sem mest áhrif á framtíðarsýnina.

Mikilvægt er að hafa norrænt notagildi að leiðarljósi í öllu starfi með því að sníða aðgerðir á grundvelli virks eftirlits með starfi Norðurlandanna, heima fyrir og á alþjóðavettvangi, í því skyni að greina hvar Norræna ráðherranefndin geti komið að bestum notum.

Græn Norðurlönd eru enn sem komið er stærsta áskorunin og því er mikilvægt að áfram verði unnið harðar að grænum umskiptum, ekki bara á vettvangi grænna Norðurlanda heldur þvert á stefnumarkandi áherslusviðin þrjú. Hér er um að ræða það svið sem hefur verið eflt með vinnu að framtíðarsýninni, en þar sem það getur tekið tíma að byggja upp nýja starfsemi.

Norræna ráðherranefndin skapar mikinn þekkingargrunn sem skiptir máli fyrir umskiptin, en til að ná markmiðunum þarf áþreifanlegar aðgerðir hér og nú. Norræna ráðherranefndin getur gegnt mikilvægu hlutverki við að hvetja, víkka út og miðla sameiginlegum norrænum lausnum.

Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar er enn mjög brotakennd með mikinn fjölda aðskilinna verkefna. Til framtíðar er mikilvægt að þora að forgangsraða til að nýta takmarkaðar fjárveitingar sem best. Þörf er á að gera starfið enn auðveldara og hnitmiðaðra og fækka verkefnum til að ná öflugum árangri og draga úr hættu á sundrun. Áherslan þarf að beinast að þeim breytingum sem við viljum ná fram og þeim leiðum sem við þurfum að beita til að ná fram þessum breytingum. 

 

Græn Norðurlönd

1: Kolefnishlutleysi
2: Líffræðileg fjölbreytni
3: Hringrásar- og lífhagkerfi
4: Sjálfbær neysla
5: Alþjóðlegt samstarf um umhverfis- og loftlagsmál
 

Græn Norðurlönd

Markmið 1: Norræna ráðherranefndin mun efla rannsóknir og þróunarstarf og greiða fyrir lausnum sem stuðla að kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum, til að mynda á sviði samgangna, bygginga, matvæla og orkumála.

Norðurlöndin losa mikið af gróðurhúsalofttegundum á mann og standa öll frammi fyrir sambærilegum áskorunum til að ná kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum. Norrænt samstarf býður upp á innviði til umskipta, meðal annars í mynd rótgróins og einstaks samstarfs á sviði orkumála og rannsókna, auk vettvangs til miðlunar þekkingar og reynslu. Það skapar Norðurlöndunum forsendur til að tryggja hraða rafvæðingu og umskipti í endurnýjanlega orku á öllum sviðum samfélagsins.

Norræna ráðherranefndin hefur

verið vettvangur reynslumiðlunar um græn umskipti á Norðurlöndum

Í gegnum verkefnið Loftslagsumskipti á Norðurlöndum hefur Norræna ráðherranefndin stuðlað að miðlun þekkingar og lausna á því hvernig löndin geta unnið saman á vegferð sinni í átt til kolefnishlutlauss samfélags í takt við markmið Parísarsáttmálans um að ná kolefnishlutleysi í síðasta lagi árið 2050. Þetta er hluti af eftirfylgni við yfirlýsingu forsætisráðherranna um kolefnishlutleysi á Norðurlöndum sem samþykkt var árið 2019.

Norræna ráðherranefndin hefur hafið nánara norrænt samstarf milli atvinnulífsins, borgaralegs samfélags, stjórnmálamanna, embættismanna og háskólasamfélagsins sem eiga að aðstoða Norðurlöndin í aðgerðum sínum og áætlunum við að verða kolefnishlutlaus samfélög. Skýrslan Sýn norrænna framkvæmdastjóra á aukinn metnað í loftslagsmálum á Norðurlöndum kom út í janúar 2022 og sýndi að norrænir leiðtogar atvinnulífsins kalla meðal annars eftir auknum loftslagskröfum við opinber innkaup og að dregið verði í áföngum úr niðurgreiðslum til jarðefnaeldsneytis.

Norrænu fjármálaráðherrarnir og þeim tengdar rannsóknastofnanir hafa miðlað reynslu um efnahagslíkön sem samþætta loftslagsþáttinn í gerð fjárhagsáætlana til lengri tíma litið, til að ná loftslagsmarkmiðum á skilvirkari hátt. Norræn reynsla tengist þeirri vinnu sem fram fer á alþjóðavettvangi á vegum OECD og samstarfi fjármálaráðherra um loftslagsaðgerðir (enska: Coalition of Finance Ministers for Climate Action).

eflt þekkingu og miðlun á lausnum fyrir græn umskipti í orkugeiranum

Norræna ráðherranefndin hefur brugðist við núverandi landfræðipólitískum áskorunum á sviði orkumála, þar sem stöðvun gasflutninga frá Rússlandi hefur leitt til hás orkuverðs í allri Evrópu. Meðal annars hefur verið hafin greiningarvinna á stöðu Norðurlandanna að því er varðar orkuframboð og verð, sem á að kanna hvað löndin geta gert og skoðað möguleikana á auknu samstarfi. Fyrstu niðurstöður munu liggja á borði norrænu orkumálaráðherranna í nóvember 2022. 

Norrænt samstarf á raforkumarkaði hefur verið aukið með því markmiði að auka hraðar hlut endurnýjanlegrar orku í norrænu raforkukerfi. Það krefst svo aftur aðlögunar og nýrrar þekkingar.  Með mið af norrænu málþingi raforkumarkaðsins í ár hefur norræni raforkumarkaðshópurinn verið efldur til að geta aðstoðað atvinnugreinina og löndin með greiningum og uppbyggingu þekkingar. 

greitt fyrir norrænum lausnum í þágu grænna umskipta í samgöngumálum

Norræna ráðherranefndin hefur knúið á um þróun rafknúinna flugvéla á Norðurlöndum. Norræna samstarfsnetið um rafknúnar flugvélar (enska: the Nordic Network for Electric Aviation) hefur boðað lykilaðila saman til að greina í sameiningu hvaða tæknileg og lagaleg vandamál þurfi að leysa til að hrinda í framkvæmd norrænum innviðum fyrir rafknúnar flugvélar. Norrænt samstarf hefur einnig fengið fjárfestingar til tækniþróunar á fagsviðinu.

Norrænar skipaútgerðir beita sér fyrir siglingum án notkunar jarðefnaeldsneytis og njóta pólitísks stuðnings á Norðurlöndum. Norrænu ríkisstjórnirnar hafa gefið loforð um sex opin svæði fyrir siglingaleiðir án kolefnislosunar, það er gert í beinu framhaldi af COP26 í Glasgow 2021. Verkefnið Nordic Green Ammonia Powered Ships greiðir leiðina fyrir fyrsta skip í heimi sem er knúið áfram af ammoníaki. Verkefnið Nordisk vägkarta för införandet av koldioxidneutralt bränsle i sjöfarten stuðlar að því að flýta fyrir innleiðingu grænna eldsneytiskosta á Norðurlöndum, sem hefur áhrif á viðræður á þessu sviði á vettvangi ESB og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Norrænt samstarf hefur greitt fyrir umskiptum flutninga á vegum á Norðurlöndum. Gerðar hafa verið rannsóknir sem geta legið til grundvallar sameiginlegu norrænu greiðslukerfi fyrir hleðslustöðvar. Útbúinn hefur verið verkfærakassi til að fá rými fyrir innviði fyrir fyrstu vetnisknúnu vöruflutningabifreiðarnar á Norðurlöndum, en það er mikilvægt til að fá þungaflutninga, eins og fólksflutningabifreiðar og vöruflutningabifreiðar, yfir í eldsneyti án kolefnislosunar. Fram hafa farið aðgerðir til að ná fram skilvirkari nýtingu á núverandi sjálfbærum samgönguleiðum vöruflutninga á Norðurlöndum á vegum, með járnbrautarlestum og á sjó.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að efla vinnu við að greiða fyrir loftslagsvænum lausnum þvert á fagsvið með mið af þeim umfangsmikla þekkingargrunni sem skapaður hefur verið á Norðurlöndunum. Loftslagsmál hljóta mikla athygli í löndunum og eru eitt þeirra sviða sem Norðurlandabúar óska eftir auknu norrænu samstarfi um. Norræna ráðherranefndin þarf að tryggja að þær lausnir sem hrint er af stað á Norðurlöndum nái til landanna og séu nýttar. 

 

Græn Norðurlönd

Markmið 2: Norræna ráðherranefndin mun eiga þátt í að tryggja líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu lands og sjávar á Norðurlöndum.

Norðurlöndin eiga við verulegar áskoranir að glíma varðandi líffræðilega fjölbreytni, en það má meðal annars sjá á minni stofnum fugla og fiska og ekki nægilega mörgum náttúruverndarsvæðum. Hagnýt vistkerfi vernda uppskeru, frævun plantna, fæðu úr sjó og af landi og stuðla að stöðugu veðurfari. Því er nauðsynlegt fyrir velferð og hagvöxt að við vinnum að verndun og sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og hafsvæða okkar.

Norræna ráðherranefndin hefur

unnið að sjálfbærum og öflugum landbúnaði og skógrækt á Norðurlöndum

Norræna erfðaauðlindastofnunin hefur bætt við norræna forgangsröðunarlistann fyrir villtar plöntur sem eru skyldar ræktuðum plöntum 19 nýjum tegundum, til dæmis villtum skyldum tegundum hveitis, byggs og kartaflna. Þessar tegundir má nota til að aðlaga nytjajurtir í dag að nýjum áskorunum eins og til dæmis loftslagsbreytingum eða umhverfisvænni landbúnaði.

Verkefni á vegum Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar hefur sýnt að hægt er að rækta ertur allt norður til Tromsø. Það gefur vonir um að Norðurlöndin geti orðið sjálfum sér næg um aðra próteingjafa. Niðurstöðunni er meðal annars lýst í rannsóknargrein og í bókinni Nordiska ärter – 50 traditionella sorter (Norrænar ertur – 50 hefðbundnar tegundir).

Verkefnið Networking and knowledge exchange in seed production of medicinal and aromatic plants hefur útbúið handbók um ræktun lækningajurta á Eystrasaltssvæðinu. Handbókin stuðlar að því að varðveita á öruggan hátt lækningajurtir sem eru mikilvæg auðlind fyrir meðal annars lyfjaiðnaðinn, á sama tíma og margar tegundir í þessum hópi eru í útrýmingarhættu.

tekið saman þekkingu á náttúrumiðuðum lausnum og sjálfbæru lífríki sjávar

Norðurlöndin hafa hlotið góða leiðsögn í hvernig náttúrumiðaðar lausnir[1]Náttúrumiðaðar lausnir snúast um lausnir sem sækja innblástur og stuðning í náttúrunni, eru hagkvæmar og stuðla að umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum kostum og til að byggja upp mótstöðuafl gegn áhrifum loftslagsbreytinga. geta unnið gegn loftslagsbreytingum, með kortlagningu á aðferðum til að geyma kolefni á landi og í hafinu svæðisbundið og landsbundið á Norðurlöndum, ásamt stefnumarkandi tillögum um hvernig löndin geti unnið að innleiðingu viðmiðunarreglna í alþjóðlegum samningum SÞ um líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál.

Norræna ráðherranefndin hefur hafið nokkur stór verkefni sem stuðla að sjálfbærara umhverfi hafsins á Norðurlöndum. Verkefnið Stjórnun sjávar og loftslagsmál eykur þekkingu á hvernig megi koma á vistkerfismiðaðri stjórnun norrænna hafsvæða að teknu tilliti til loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar. Verkefnið Norðurlönd sem drifkraftur í baráttu gegn plastmengun á að stuðla að því að draga áþreifanlega úr magni plasts í hafinu, meðal annars með því að skerpa á aðferðum við söfnun örplasts og veita þekkingu til gerðar nýs alþjóðasamnings gegn plastmengun. Verkefnið Nordic Baltic Marine Spatial Management Tool stuðlar að þróun vísa og þekkingargrunns fyrir mat, stuðning og samstarf í tengslum við sjálfbært sjávarumhverfi.

Footnotes

  1. ^ Náttúrumiðaðar lausnir snúast um lausnir sem sækja innblástur og stuðning í náttúrunni, eru hagkvæmar og stuðla að umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum kostum og til að byggja upp mótstöðuafl gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að samræma betur vinnu með líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda þvert á fagsvið. Hér er um að ræða svið þar sem Norðurlönd standa frammi fyrir stórri sameiginlegri áskorun og reiknað er með að aukin áhersla verði á málefnið á alþjóðavettvangi á komandi árum.

 

Græn Norðurlönd

Markmið 3: Norræna ráðherranefndin mun efla hringrásar- og lífhagkerfi, sjálfbæra og samkeppnishæfa framleiðslu, sjálfbær matvælakerfi svo og auðlindanýtnar og óeitraðar hringrásir á Norðurlöndum.

Norræn framleiðsla hefur orðið sífellt sjálfbærari á undanförnum árum, samhliða auknum hluta endurnýjanlegrar orku og bættri orkunýtingu. En ef takast á að koma á virkilega grænum umskiptum þarf hringrásarmiðaðra lífhagkerfi. Á sama tíma verða fleiri græn störf í boði fyrir Norðurlandabúa og aukin samkeppnisfærni með norrænum lausnum. Norræna ráðherranefndin mun stuðla að því að Norðurlöndin stígi afgerandi skref til að loka hringrásum og gera þær eiturefnalausar og auðlindanýtnar.

Norræna ráðherranefndin hefur

stutt vinnu fyrirtækja að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi á Norðurlöndum

Norræna nýsköpunarmiðstöðin hefur útbúið Nordic Circular Economy Playbook, verkfæri sem á að hjálpa fyrirtækjum við umskiptin í viðskiptalíkön með hringrásarlausnum og gera eigin áætlanir þar að lútandi. Nordic Circular Arena er nýr vettvangur sem á að efla miðlun þekkingar og reynslu um hringrásarhagkerfi á Norðurlöndum á alþjóðavettvangi.

Norræn samtök endurskoðenda hafa útbúið sameiginlegt kerfi fyrir skýrslugjöf um sjálfbærni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Norðurlöndum með styrkjum frá norrænu samstarfi. Nordic Sustainability Reporting Standard byggir á alþjóðlegum stöðlum fyrir skýrslugjöf og stuðlar að umhverfisvænni og ábyrgðarfyllri skýrslugjöf fyrirtækja á Norðurlöndum.

Áætlunin Nordic Sustainable Construction vinnur að því að gera byggingarmarkað á Norðurlöndum sjálfbærari og meira í anda hringrásarhagkerfis. Það snýst meðal annars um að samræma reglur og safna góðum starfsvenjum á Norðurlöndum og byggja upp afkastagetu til að auka endurnýtingu byggingarefnis. Stutt hefur verið við atvinnulífið með því að standa fyrir námi um viðskiptalíkön fyrir hringrásarhagkerfi sem miðast að fyrirtækjum í byggingariðnaði, ásamt málþingum um sjálfbært byggingarefni og hlutverk arkítekta í tengslum við sjálfbæran byggingariðnað. Þá hafa norrænir embættismenn fengið stuðning í því að skapaður hefur verið vettvangur fyrir reglubundna miðlun á þekkingu og umræður um sameiginleg rannsóknarefni sem mun auka möguleika á samræmingu væntanlegs regluverks fyrir byggingariðnaðinn.

Nordic Testbed Network styður stafræn umskipti lífhagkerfisins á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Samstarfsnetið starfar sem leiðandi vettvangur þar sem þátttakendurnir 21 skapa í sameiningu stafræna þekkingu og tækni til að efla lífhagkerfið.

tekið saman þekkingu um hvernig má ná fram sjálfbæru hringrásarhagkerfi á Norðurlöndum

Hringrásarhagkerfið getur haft mikil jákvæð áhrif á mörgum sviðum. Skýrslan Low-Carbon Circular Transition in the Nordics veitir innsýn í möguleika hringrásarhagkerfisins fyrir til dæmis efnahag og loftslagskreppuna og vandamál tengd líffræðilegri fjölbreytni.

Opinber innkaup eru í auknum mæli notuð sem verkfæri til að ná fram pólitískum markmiðum um sjálfbæra þróun. Verkefnið Loftslagsvæn innkaup í anda hringrásarhagkerfis hefur staðið fyrir ráðstefnu um hringrásarkerfi fyrir húsgögn og gefið út skýrsluna Climate Accounting in Public Procurement sem gefur mynd af því hvernig Norðurlöndin draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með opinberum innkaupum.

Miðlun gagna um vörur getur hraðað umskiptum í hringrásarhagkerfi á Norðurlöndum. Skýrslan Data Sharing for a Circular Economy in the Nordics sýnir að Norðurlöndin eru nú þegar í fararbroddi þegar kemur að stafrænni þróun, og að með réttum hvata geti norræn fyrirtæki knúið á um hnattræn umskipti í hringrásarhagkerfi, sem eru studd af gögnum.

Rafhlöður í rafknúnar bifreiðar, sólarsellur og farsímar innihalda kóbalt, grafít og sjaldgæfa jarðmálma – jarðefni sem eru nauðsynleg til að ná fram grænum umskiptum. Skýrslan The Nordic Supply Potential of Critical Metals and Minerals for a Green Energy Transition gerir grein fyrir hvernig megi draga úr umhverfis- og loftslagsspori í jarðefnavinnslu á Norðurlöndum.

Skógrækt og landbúnaður eru mikilvægar greinar í norrænu lífhagkerfi ásamt því að vera tvær af þeim atvinnugreinum á Norðurlöndum þar sem kynjaskipting er mest, en stafvæðing og aukin sjálfvirkni erfiðisvinnu ætti að geta gagnast jafnrétti í atvinnugreinunum. Aðferðahandbókin Gender and digitalization in the bioeconomy hefur veitt aukinn skilning á því hvernig megi samþætta jafnréttissjónarmið í atvinnugreinunum.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að efla aðgerðir varðandi sjálfbæra framleiðslu og hringrásarhagkerfið, með auknu samstarfi við atvinnulífið og með samræmingu varðandi metnaðarfulla löggjöf á sviði ESB. Norræna ráðherranefndin getur haft mikil áhrif á þessu sviði fyrir græn umskipti bæði á Norðurlöndum og á grannsvæðum.

 

Græn Norðurlönd

Markmið 4: Norræna ráðherranefndin mun auðvelda norrænum neytendum og gera það eftirsóknarvert að velja hollar, vistvænar og loftslagsvænar vörur í sameiginlegu verkefni um sjálfbæra neyslu.

Við skiljum eftir okkur stórt umhverfis- og loftslagsspor á mann á Norðurlöndum í samanburði við önnur lönd í heiminum. Norðurlandabúar standa frammi fyrir áskorun þegar velja skal sjálfbærar lausnir og vörur í daglegu lífi, og þegar loks tekst að finna sjálfbæra kostinn þá er hann oft dýrari. Norræna ráðherranefndin hefur um meira en 30 ára skeið unnið að því að auðvelda Norðurlandabúum að velja sjálfbærar lausnir í daglegu lífi með norræna umhverfismerkinu Svaninum. Norræna ráðherranefndin mun efla þetta starf og þróa fleiri kosti fyrir Norðurlandabúa við val á sjálfbærum vörum.

Norræna ráðherranefndin hefur

eflt umhverfis-, loftslags- og orkumerkingar á Norðurlöndum og í ESB

Umhverfismerkið Svanurinn var þróað sem leiðarvísir til að auðvelda val á umhverfis- og loftslagsvænum valkostum. Það hefur svo aftur leitt til nýrra viðmiða sem varða loftslagið og fært út merkinguna þannig að hún nái til fleiri vöruflokka eins og til dæmis netverslunar, byggingarefnis og skrifstofuhúsnæðis.

Orkumerking ESB hefur verið þróuð til að hún henti betur sem leiðarvísir að orkunýtnum vörum. Norræni starfshópurinn Nordsyn hefur unnið að metnaðarfyllri viðmiðum og gerð reglugerða fyrir orkumerkinguna. Vinnan átti þátt í að nýju orkuflokkarnir sem kynntir voru til leiks árið 2021 eru skiljanlegri fyrir neytandann, um leið og þeir gera miklar kröfur til framleiðendanna.

Norrænu ráðherrarnir sem fara með málefni matvæla sendu sameiginlegt bréf til ESB um að nýja evrópska matvælamerkingin verði að vera byggð á vísindalegum grunni og að viðskiptalegir hagsmunir megi ekki ráða för. Norrænu ráðherrarnir vonast til þess að norræna merkingarkerfið geti verið innblástur fyrir hið evrópska. 

stuðlað að auðveldari endurvinnslu á Norðurlöndum

Skýrslan Common Waste Sorting Symbols in the Nordic Countries sýndi að miklir möguleikar felast í að þróa hönnun umbúða þannig að þær verði sjálfbærari og auðveldara að endurvinna þær á Norðurlöndum. Samtök sorphirðustöðva í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi hafa tekið höndum saman um að hrinda í framkvæmd kerfi með sameiginlegum úrgangsmerkingum. Verkefnið hefur stuðlað að þróun samræmds kerfis fyrir meðferð úrgangs og hringrásarhagkerfi á Norðurlöndum og á alþjóðavettvangi. Þessi vinna hefur vakið mikinn áhuga frá meðal annars Eystrasaltsríkjunum, ESB, Kína, Suður-Afríku og Brasilíu.

byggt upp á samstilltan hátt þekkingu og færni um sjálfbæran lífsstíl

Áætlunin Sjálfbær lífsstíll á Norðurlöndum hefur byggt upp þekkingu og færni um hvernig við getum greitt fyrir sjálfbæru lífi á Norðurlöndum. Haldin hefur verið ráðstefna um kennarastarfið í framtíðinni í því skyni að efla kennslu um sjálfbæra þróun í grunnskólum. Saminn hefur verið leiðarvísir um græna menningarupplifun í því skyni að auka þekkingu á hvernig halda megi sjálfbæra menningarviðburði. Haldið var málþing um matvælaiðnaðinn og sýklalyfjaónæmi í tengslum við Stockholm +50. Gefin var út skýrsla um jafnréttismál og sjálfbæran lífsstíl í því skyni að auka og miðla þekkingu á kynjamun í neyslu og lífsstíl.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að efla aðgerðir varðandi sjálfbæra neyslu, til dæmis með því að efla núverandi eða hefja nýjar aðgerðir. Markmiðið er orðað á metnaðarfullan hátt, með því að benda á Norrænu ráðherranefndina sem mikilvægan aðila til að auðvelda norrænum neytendum að lifa sjálfbæru lífi. Sameiginleg norræn stefna á þessu sviði getur skapað forsendur fyrir skjót umskipti í sjálfbæra neyslu.

 

Græn Norðurlönd

Markmið 5: Norræna ráðherranefndin mun stuðla að jákvæðri þróun í alþjóðasamstarfi um umhverfis- og loftslagsmál, til dæmis með því að liðka fyrir norrænum grænum lausnum víðar um heim.

Helstu áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum krefjast aðgerða í löndunum og alþjóðlegs samstarfs. Norðurlönd gegna oft mikilvægu hlutverki með því að stuðla að háleitum markmiðum í ýmsum alþjóðlegum viðræðum um umhverfis- og loftslagsmál. Norræna ráðherranefndin á samstarf um og semur sameiginlegar yfirlýsingar í tengslum við marga mikilvæga sáttmála og samninga innan ESB/EES og SÞ.

Norræna ráðherranefndin hefur

sett fram háleit markmið í alþjóðlegu samstarfi um umhverfis- og loftslagsmál

Norrænt samstarf átti þátt í að viðræður um nýjan plastsamning á vegum Umhverfisþings SÞ (UNEA 5.2) heppnuðust einstaklega vel þar sem þingið náði samkomulagi í mars 2022 um sögulega ákvörðun um að hefja viðræður um alþjóðlegan samning gegn plastmengun.

Norrænar skýrslur og greiningar hafa verið þekkingargrunnur fyrir viðræður um marga alþjóðlega samninga á sviði umhverfis- og loftslagsmála, til dæmis alþjóðleg sjálfbærniviðmið fyrir plastvörur. Norðurlönd móta einnig tillögur fyrir Samning SÞ um líffræðilega fjölbreytni, Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og vinnuna við innleiðingu Parísarsamningsins.

Með yfirlýsingunni A Green and Gender-Equal Nordic Region hefur ráðherranefndin einnig eflt norræna forystu um jafnréttismál í loftslagsaðgerðum, á Norðurlöndum en einnig á alþjóðlegum vettvangi svo sem CSW66 og COP27, þ.e.a.s. leiðtogafundum SÞ um jafnréttis- og loftslagsmál.

eflt rödd borgaralegs samfélags í alþjóðlegum umhverfis- og loftslagsviðræðum

Norræni skálinn á loftslagsráðstefnum SÞ er einn öflugasti alþjóðlegi vettvangurinn til að koma sjónarmiðum og lausnum Norðurlanda á framfæri. Þar geta norrænir fræðimenn, stjórnmálamenn, atvinnulífið, fulltrúar ungs fólks og frjáls félagasamtök átt samtal við erlenda ráðamenn og álitsgjafa.

Með styrk frá norrænu samstarfi hefur ungt fólk frá Norðurlöndunum öllum, sem lætur sig umhverfismál varða, tekið höndum saman í tengslaneti ungs fólks um líffræðilega fjölbreytni, Nordic Youth Biodiversity Network. Meira en 2000 ungir Norðurlandabúar hafa sett fram kröfur til viðræðnanna um alþjóðlegan samning um líffræðilega fjölbreytni, í formi Nordic Youth Position Paper on Biodiversity. Margar af kröfum unga fólksins endurspeglast í yfirlýsingu norrænu umhverfis- og loftslagsmálaráðherranna í alþjóðlega samningnum um líffræðilega fjölbreytni frá maí 2022.

Norræna ráðherranefndin hefur verið mikilvægur þátttakandi með bæði efnahagslegum og pólitískum stuðningi við öfluga aðkomu ungs fólks í aðdraganda og á Stockholm +50, m.a. með fundi með fulltrúum ungs fólks á Norðurlöndum og norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrunum þar sem tillögurnar í Nordic-Baltic Policy Paper voru kynntar og ræddar.

samræmt og eflt samstarfið innan ESB og við grannsvæðin

Norðurlöndin hafa talað einum sterkum rómi í vinnu við umhverfis-, loftslags- og orkumál innan ESB/EES. Þar hefur verið um að ræða áhrif á kröfur framkvæmdastjórnar ESB til visthönnunar og orkumerkinga, ESB-tilskipanir sem varða Græna sáttmála ESB (enska: A European Green Deal) og 55 prósenta pakkinn (enska: Fit for 55 package) auk reglugerða ESB um efni og efnavörur (t.d. REACH, CLP, BPR og PPPR). Það skilar mun meiri árangri að hafa áhrif innan ESB en ef árangri er einungis náð á Norðurlöndum, og það gagnast neytendum um alla Evrópu.

Baltic Carbon Forum var haldið í október 2021 og 2022 í því skyni að efla norræn-baltneskt samstarf um kolefnisföngun og -geymslu með því að leiða saman sérfræðinga og ráðamenn frá öllu svæðinu.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að skýra áherslur sínar og stefnu um alþjóðastarf í síbreytilegum umheimi. Norræna ráðherranefndin er vettvangur alþjóðasamstarfs og innan ESB til að stuðla að auknum metnaði og alþjóðlegum áhrifum í umhverfis- og loftslagsvinnu. Í því skyni að efla starfið þarf víðtækari stefnumörkun sem sýnir á hvaða hátt megi stuðla að norrænum grænum lausnum um víða veröld.

 

Samkeppnishæf Norðurlönd

6: Þekking og nýsköpun
7: Öflugir vinnumarkaðir
8: Stafvæðing og menntun
 

Samkeppnishæf Norðurlönd

Markmið 6: Norræna ráðherranefndin mun styðja þekkingu og nýsköpun og auðvelda fyrirtækjum á öllum Norðurlöndum að nýta til fulls þá þróunarmöguleika sem felast í grænum, tæknilegum og stafrænum umskiptum og hinu vaxandi lífhagkerfi.

Norðurlönd eru leiðandi svæði á sviði þekkingar og nýsköpunar, þar sem miklu fjármagni er varið í rannsóknir og þróun og stafvæðing er komin langt á veg. Norrænt samstarf leggur áherslu á að nýta þessa sterku stöðu til að ýta undir græn umskipti og sjá til þess að þau nái til allra samfélagshópa. 

Norræna ráðherranefndin hefur

aflað þekkingar um umskiptin í græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd

NordForsk hefur fjármagnað rannsóknir og innviði rannsókna á mörgum fagsviðum. Lokið hefur verið 136 verkefnum sem skiluðu af sér 2320 ritum og 142 tilvikum þar sem þau höfðu pólitísk áhrif. Heildaráhrifum vinnunnar á tímabilinu er lýst í NordForsk Impact Report 2022.

Nordic-Baltic 5G Monitoring tool er greiningarverkfæri sem á að fylgjast með uppsetningu 5G á svæðinu. Verkfærið tekur á sameiginlegum áskorunum og tækifærum og eflir nýsköpun á þessu sviði. 5G-tæknin er mikilvægur þáttur á næsta stigi stafrænnar þróunar og mun stuðla að nýjum vörum og þjónustu, en einnig þróun nýrra lausna fyrir félagsleg og loftslagstengd viðfangsefni. Þetta er hluti af eftirfylgni við yfirlýsingu forsætisráðherranna um þróun 5G á svæðinu sem samþykkt var árið 2018.

aukið tækifæri fyrirtækja til að skapa nýjar og dreifa núverandi nýjungum.

Nordic Innovation arbetar för att stärka företagens möjligheter att skapa nya och sprida existerande innovationer. Programmet AI & data gör statliga data lättare tillgängliga för nordiska företag som utvecklar digitala tjänster med artificiell intelligens. Verkefnið Nordic Smart Connectivity auðveldar norrænum fyrirtækjum á sviði flutninga að skiptast á gögnum í því skyni að gera reksturinn sem hagkvæmastan og stuðla að hagkvæmari og loftslagsvænni flutningum.

Verkefnið Nordic Smart Government and Business  stuðlar að aukinni stafrænni samþættingu á svæðinu. Markmiðið er að opna aðgang að fjármálagögnum þvert á Norðurlönd til gagns fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Niðurstaðan er sú að mögulegt er fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að nota til dæmis rafræna reikninga og rafrænar pantanir yfir landamæri norrænu ríkjanna.

vakið athygli úti í heimi á Norðurlöndum sem þekkingarríku og nýskapandi svæði

Menningarátakið Nordic Bridges kynnir verk norrænna listamanna og fulltrúa menningarlífsins á 22 hátíðum, leikhúsum, söfnum og öðrum menningarstofnunum í tólf borgum í Kanada, um eins árs skeið. Alls eru ráðgerð um það bil 675 verkefni. Átakið á að stuðla að því að norræn menning, og Norðurlönd sem svæði, verði þekkt sem nýskapandi og skapandi svæði, en það er talið vekja aukinn áhuga á Norðurlöndum á öðrum sviðum samfélagsins og þar með auka samkeppnishæfni Norðurlanda. Átakið stuðlar einnig að norræn-kanadískum pólitískum skiptum á upplýsingum um meðal annars grænar lausnir á sviði skapandi greina og forvarnir gegn upplýsingaóreiðu á Internetinu.

Styrkjaáætlunin fyrir norræn sendiráð veitir styrki til að kynna norrænar lausnir, gildismat og þekkingu um sjálfbæra þróun úti um heim. Áætlunin stuðlar að því að kynna Norðurlöndin sem þekkingarríkt og nýskapandi svæði, að veita hlutaðeigandi löndum innblástur með norrænum fyrirmyndum, auk þess að efla samstarf norrænna sendiskrifstofa í löndum utan Norðurlandanna.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að leggja aukna áherslu á að greiða fyrir grænum lausnum, til dæmis með því að auka frekar þátttöku og samstarf við atvinnulífið í verkefnum sem varða græn umskipti. Norræna ráðherranefndin er þegar með fjölda þýðingarmikilla verkefna í gangi á þessu sviði, en þar sem hægt er að bæta í til að ná fram verulegum áhrifum á Norðurlöndum

 

Samkeppnishæf Norðurlönd

Markmið 7: Norræna ráðherranefndin mun þróa færni og öfluga vinnumarkaði sem standast kröfur grænna umskipta og stafrænnar þróunar og styðja frjálsa för á Norðurlöndum.

Græn umskipti og stafræn þróun breyta vinnumarkaði og leiða til nýrra krafna. Heimsfaraldurinn bitnaði sérstaklega illa á ákveðnum hópum á vinnumarkaði þegar fyrirtæki neyddust til að fækka starfsfólki og ferðalög í og úr vinnu milli Norðurlandanna urðu erfiðleikum háð. Norrænt samstarf mun leggja áherslu á áskoranir á vinnumarkaði bæði til lengri og skemmri tíma litið auk áherslu á að greiða fyrir frjálsri för fólks og fyrirtækja á Norðurlöndunum öllum.

Norræna ráðherranefndin hefur

stuðlað að auknum hreyfanleika og skiptum nemenda, launþega og fyrirtækja innan Norðurlanda 

Info Norden hefur svarað spurningum 5000 Norðurlandabúa um hvernig þeir geti starfað, stundað nám og rekið fyrirtæki í öðru norrænu ríki. Upplýsingaþjónusturnar þrjár á landamærasvæðunum, Grensetjänsten Norge-Sverige, Gränstjänst Finland-Sverige-Norge og Øresunddirekt, sem eru að hluta til fjármagnaðar af Norrænu ráðherranefndinni, hafa svarað spurningum frá 46.770 manns um vinnu, nám eða atvinnurekstur yfir landamæri. 

Nordjobb, norræna hreyfanleikaáætlunin fyrir ungt launafólk, útvegaði 434 ungmennum árstíðabundið starf í öðru norrænu ríki árið 2021 en markmiðið er að ná til allt að 760 ungmenna árið 2022. Áætlunin um hreyfanleika í menningargreinum milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hefur stuðlað að því að greiða fyrir hreyfanleika listamanna og fulltrúa menningarlífsins á svæðinu. Áætlunin eykur samskipti um þekkingu og tengslamyndun, svo og nærveru og áhuga á menningu, listum og tungumálum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Á sama hátt auka menningarstyrkir Samaráðsins hreyfanleika og samstarf yfir landamærin í Sápmi.

Norðurlöndin skulu sjálfkrafa og án óþarfa seinkunar viðurkenna menntun hvers annars, þannig að Norðurlandabúar sem vilja stunda nám í grannríki geti á einfaldan hátt leitað sér æðri menntunar þar. Það er inntakið í hertri Reykjavíkuryfirlýsingu sem tók gildi í maí 2022. Árin 2021–2022 fóru fram sameiginlegar aðgerðir á sviði mennta- og atvinnumála til að leysa tilteknar hindranir á hreyfanleika sem lúta reglum starfsgreina.

Stjórnsýsluhindranaráðið, sem vinnur að því að leysa úr stjórnsýsluhindrunum sem hamla för einstaklinga og skerða tækifæri fyrirtækja til að starfa yfir landamæri og á milli norrænu landanna, hefur stuðlað að því að átta stjórnsýsluhindranir hafa verið leystar og fjórar hafa verið afskrifaðar sem óleysanlegar. Í norrænum gagnagrunni yfir stjórnsýsluhindranir er að finna meira en 100 stjórnsýsluhindranir, þar af 38 sem eru í forgangi hjá Stjórnsýsluhindranaráðinu.

gegnt mikilvægu hlutverki við að vekja athygli á stjórnsýsluhindrunum sem komu upp í tengslum við takmarkanir landanna á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru

Stjórnsýsluhindranaráðið hefur, í nánu samstarfi við Info Norden og upplýsingaþjónusturnar þrjár á landamærasvæðunum, lagt áherslu á þær raskanir sem upp komu í tengslum við landamæratakmarkanir landanna og ákvarðanir sem ætlað var að hefta útbreiðslu COVID-19. Vinnan skilaði 22 samantekt með meira en 121 greindri röskun. Samantektirnar hafa verið nýttar til að upplýsa og gera ráðamenn og stjórnvöld meðvituð um þau sérstöku vandamál sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur skapað fyrir frjálsa för á Norðurlöndum. Sem dæmi má nefna verkefnið Nýr vinnumarkaður í kjölfar kórónuveirufaraldursins með tilliti til norrænna samninga á sviði skattamála þar sem útgangspunkturinn er aukin heimavinna með hliðsjón af norræna tvísköttunarsamningnum.

þróað þekkingu og stefnumótunarverkfæri fyrir atvinnulíf nútíðar og framtíðar á Norðurlöndum.

Þekking hefur verið byggð upp um hvernig við getum tryggt virkt atvinnulíf í framtíðinni á Norðurlöndum. Niðurstöður verkefnisins um atvinnulíf framtíðar hafa haft þýðingu fyrir stefnumörkun í norrænu ríkjunum og í alþjóðastarfi, meðal annars samstarfinu við Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO).

Verkefnið Nordic Resilience, sem hófst í samstarfi við OECD, veitir þekkingu á áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á atvinnulíf á Norðurlöndum, og tillögur að því hvernig við getum eflt neyðarviðbúnað á norrænum vinnumarkaði. Greiningin og tillögurnar verða grundvöllur umræðu á fundi ráðherra í nóvember 2022.

Norrænir ráðherrar byggðamála hafa hafið öflugt samstarf um fjarvinnu og dreift aðsetur til að skoða nánar hvernig það getur aukið aðdráttarafl þéttbýlis, dreifbýlis og svæða á Norðurlöndum. Skýrslan Local and regional experiences of remote work and multilocality veitir aukinn skilning á því hvernig breytt ferðamynstur tengt aukinni fjarvinnu hefur áhrif á norræn sveitarfélög og svæði.

Norræna stofnunin um framhaldsmenntun í vinnuvernd (NIVA) hefur þróað og haldið rafræn námskeið, málþing og vefstofur um samnorræna símenntun á sviði vinnuverndar. Með því að nota rafrænt fyrirkomulag sem þróaðist í kjölfar kórónuveirufaraldursins var hægt að ná til fleiri og því tókst að þrefalda fjölda þátttakenda í þessum viðburðum. Norræna tengslanetið um fullorðinsfræðslu (NVL) hefur skapað möguleika á reynslumiðlun um færniþróun í og fyrir atvinnulífið á meðan á heimsfaraldri kórónuveiru stóð og að því er varðar umskiptin í grænni vinnumarkað.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að auka hreyfanleika Norðurlandabúa yfir landamæri ríkjanna, til dæmis með því að fjölga þátttakendum í mannaskiptaáætlunum á sviði menntamála, menningarmála og vinnumarkaðar. Þetta er vinna þar sem Norræna ráðherranefndin stendur sterkt nú þegar, þrátt fyrir afturkipp á meðan á heimsfaraldri kórónuveiru stóð, og þar sem metnaður stendur til fram á við að auka skiptin.

 

Samkeppnishæf Norðurlönd

Markmið 8: Norræna ráðherranefndin mun nýta stafræn umskipti og menntun til að tengja Norðurlöndin nær saman.

Hægt er að samþætta Norðurlöndin á ýmsan hátt en þar eru menntun og stafræn umskipti mikilvæg tæki. Menntun hefur löngum stuðlað að hreyfanleika á Norðurlöndum og stuðlar enn að auknum skilningi og þekkingu Norðurlandabúa á hverjum öðrum. Stafræn umskipti skapa ný tækifæri til að styrkja tengsl landanna og geta greitt fyrir aukinni frjálsri för á svæðinu. Norræna ráðherranefndin mun greina og leysa hindranir í vegi íbúa og fyrirtækja til að ferðast frjálst yfir landamæri norrænu ríkjanna. 

Norræna ráðherranefndin hefur

hleypt auknu átaki í að gera stafræna þjónustu aðgengilega um öll Norðurlöndin

Langtímamarkmið Norrænu ráðherranefndarinnar er að öll stafræn þjónusta sem þróuð er í löndunum verði einnig aðgengileg yfir landamæri. Innan ramma áætlunarinnar Cross Border Digital Services eru starfrækt verkefni sem miða að því að einfalda samskipti við hið opinbera fyrir íbúa og atvinnurekendur á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Yfirvöld á sviði stafvæðingar í norrænu og baltnesku löndunum vinna saman innan ramma The Nordic-Baltic eID Project (NOBID), meðal annars að því að fá innlendar lausnir sínar varðandi rafræn skilríki viðurkenndar innan ESB, sem myndi gera þær aðgengilegar yfir landamæri.

stutt við nemendaskipti á milli norrænu ríkjanna

Nordplus er sú áætlun sem styður við norrænt samstarf og nemendaskipti á sviði menntamála. Á hverju ári fá um 2000 menntastofnanir og um það bil 9000 skiptiverkefni styrki (fyrir heimsfaraldur kórónuveiru).  Um er að ræða bekkjaheimsóknir og kennaraskipti á milli leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og nemenda- og kennaraskipti á milli verknámsskóla, háskóla og stofnana á sviði fullorðinsfræðslu og alþýðumenntunar. Úttekt sýnir að samstarfið hefur stuðlað að færniþróun þátttakenda og nýsköpun og gæðaþróun fyrir menntastofnanirnar sem tóku þátt. Alls 196 verkefni hafa hlotið styrki frá Nordplus undir þemanu græn umskipti á öllum skólastigum. Sem dæmi má nefna Global Teaching for Sustainable Society (GLOSS) sem er samstarf 13 norrænna háskóla. Á vegum Nordplus Junior voru veittir styrkir, bara á árinu 2022, til 47 verkefna sem höfðu vistfræðilega sjálfbæra framtíð sem sérstakt þema.

Norræna tengslanetið um fullorðinsfræðslu (NVL) vinnur, á vegum undirliggjandi tengslanets um sjálfbæra þróun, á nýskapandi hátt með hvatningu, kennslufræði og þróun aðferða fyrir sjálfbæra framtíð. Tengslanetið þróar, miðlar og hrindir í framkvæmd þekkingu sem styður við nærsamfélögin og íbúana í vinnu þeirra að sjálfbærni. Tengslanetið gaf út hvatningar- og innblástursbók fyrir vinnuna með heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun á ólíkum sviðum fullorðinsfræðslu í lok árs 2021, og heldur áfram að safna saman og miðla góðum dæmum allt árið 2022.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að efla starf á sviði aðlögunarmála, það er að segja tengja Norðurlöndin nánari böndum, til dæmis með því að skapa forsendur stafrænna lausna yfir landamæri og skipti fyrir samþættari Norðurlönd. Norræna ráðherranefndin ætti að skoða orðalag þessa markmiðs þar sem það er óskýrt og fléttast mjög mikið inn í hin markmiðin undir samkeppnishæfum Norðurlöndum.

 

Samkeppnishæf Norðurlönd

9: Heilsa og velferð
10: Umskipti með þátttöku allra
11: Borgaralegt samfélag og börn og ungt fólk
12: Samstaða
 

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Markmið 9: Norræna ráðherranefndin mun stuðla að gæðum, jafnræði og öryggi í heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla.

Á Norðurlöndum er hátt heilbrigðis- og velferðarstig, en það eru grundvallarforsendur þess að fólk geti nýtt tækifæri sín til fulls og lagt sitt af mörkum til þróunar samfélagsins. Norræna velferðarlíkanið, með jafnan aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla, stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum. Sjálfmetin heilsa hefur staðnað þrátt fyrir háan lífaldur, geðheilbrigði hefur hrakað og ójöfnuður milli kynja og félagshagfræðilegra hópa hefur aukist. Norrænt samstarf leggur sitt af mörkum með nýjum aðgerðum um neyðarviðbúnað og berst fyrir rétti hinsegin fólks til heilbrigðisþjónustu á jafnréttisgrundvelli. 

Norræna ráðherranefndin hefur

aukið aðgerðir til að bæta geðheilbrigði

Eitt áherslusvið hefur verið að auka þekkingu á félagslegri einangrun og einmanaleika í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Fjöldi viðburða hefur verið haldinn til að ræða og miðla þekkingu um geðheilbrigðismál. Meðal annars var haldinn leiðtogafundur um geðheilbrigðismál í nóvember 2021 þar sem komu saman stjórnmálamenn, stjórnvöld, fræðimenn og frjáls félagasamtök. 

Útbúinn hefur verið þekkingargrunnur um góðar lausnir varðandi afleiðingar COVID-19, til dæmis með verkefni um tækifæri barna og ungs fólks til þátttöku og þróunar í kjölfar heimsfaraldursins. Norræna rannsóknaráðið (NordForsk) auglýsir eftir umsóknum um styrki sem nema u.þ.b. 80 milljónum norskra króna til rannsóknarverkefna um langtímaafleiðingar COVID-19-heimsfaraldursins á heilsu og velferð barna og ungs fólks. Þessir auglýstu styrkir munu fjármagna nokkur verkefni með þátttöku frá minnst þremur norrænum ríkjum í hverju verkefni.

stuðlað að þróun þekkingar á heilsu á jafnréttisgrundvelli

Vorið 2022 kom út skýrsla um heilsuþekkingu sem hugtak og afleiðingar skorts á heilsuþekkingu bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið, einkum innflytjendur og konur af erlendum uppruna í áhættuhópum. Í tengslum við verkefnið var komið á fót norrænu tengslaneti um heilsukunnáttu. Einnig er stutt við þekkingarmiðlun milli ráðuneyta, meðal annars á vegum Norræna lýðheilsuvettvangsins. Jafnframt hefur verið kortlagt hvaða gerðir vísa má finna fyrir virka og heilsusama öldrun auk þess að greina hve sundurleitur hópur eldri borgarar eru.

Pólitísk stjórnunarfyrirmæli fyrir málefni hinsegin fólks hafa verið samin eftir samráð og samstarf við frjáls félagasamtök. Í því skyni að efla norrænt samstarf um málefni hinsegin fólks var árið 2021 stofnaður norrænn LGBTI-sjóður og á fyrsta ári hans hafa verkefni í tengslum við réttindi og lífsskilyrði hinsegin fólks og um eflingu samísku hinseginhreyfingarinnar verið styrkt.

aukið áherslu á heilbrigðisviðbúnað vegna heilsuvár í framtíðinni

Norðurlöndin hafa náð samstöðu um að efla heilbrigðisviðbúnað á Norðurlöndum til að standa betur að vígi vegna heilsuvár í framtíðinni, meðal annars með samstarfi um viðbúnað við framleiðslu lyfja og afhendingaröryggi. Svalbarðahópurinn, norræni hópurinn um heilbrigðisviðbúnað, hefur komið á fót kerfi í tengslum við brunasár og vinnur nú að þróun kerfis varðandi stöðumat sem ætlað er að tryggja aukna þekkingu og miðlun reynslu í tengslum við farsóttir. Þá hefur verið komið á fót norrænu samstarfsneti um smitvarnir og sótthreinsun auk samstarfs um lyf handa börnum sem mun skila sér í skýrslu með sameiginlegum tillögum. Þetta er í samræmi við yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna um aukið samstarf á sviði afhendingaröryggis frá 2021.

bætt félags- og heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum á grundvelli þekkingar og gagna

Skýrslan Essential rural services in the Nordic Region skoðar nánar aðgang að opinberri og einkarekinni félags- og heilbrigðisþjónustu í dreifbýli á Norðurlöndum. Greiningin skoðaði þýðingu þessarar þjónustu fyrir hversu eftirsóknarvert dreifbýlið væri sem og fyrir öryggi og traust meðal íbúa þessara svæða. Ráðherrar byggðamála ákváðu að kalla til ungt fólk í frekari viðræður um opinbera og einkarekna félags- og heilbrigðisþjónustu í dreifbýli á Norðurlöndum, til að átta sig á hvað þyrfti til svo unga kynslóðin vilji búa, lifa og starfa á þessum svæðum.

Heilbrigðisyfirvöld Norðurlanda eiga samstarf um sameiginlegar áskoranir í vegi fyrir að stjórnvöld landanna, fræðimenn og atvinnulíf fái öruggan aðgang að norrænum heilbrigðisgögnum. Verkefnið Nordic Commons á að prófa og þróa lausnir sem eiga að gera miðlun heilbrigðisgagna mögulega yfir landamærin. Það á að gefa fræðimönnum, atvinnulífinu og stjórnvöldum einstakt tækifæri til að þróa frekar heilbrigðiskerfi Norðurlanda og skapa góða heilbrigðisþjónustu fyrir íbúana.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að skýra frekar hlutverk sitt að því er varðar neyðarviðbúnað og halda áfram þeirri vinnu sem er hafin, eins og til dæmis úttektum um afleiðingar heimsfaraldursins fyrir geðheilsu barna og ungs fólks. Þetta er nýtt svið og þarf Norræna ráðherranefndin tíma til að læra af reynslunni af faraldrinum og horfa fram á veg. 

 

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Markmið 10: Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að allur almenningur á Norðurlöndum taki þátt í grænum umskiptum og stafrænni tækniþróun, nýta sóknarfæri umskiptanna og sporna gegn því að þau auki ójöfnuð í samfélaginu.

Öll Norðurlönd standa frammi fyrir hröðum breytingum sem varða græn umskipti og stafvæðingu Ef umskiptin eiga að takast þurfa allir íbúar að taka þátt. Í dag skortir nægilega þekkingu og lausnir. Þar sem öll Norðurlöndin standa frammi fyrir sömu áskorunum og búa við sambærilega samfélagsskipan, eru kostir því samfara að móta í sameiningu nýja þekkingu og tillögur að lausnum sem geta stutt við stefnumörkun í löndunum, svæðisbundið og heima fyrir. 

Norræna ráðherranefndin hefur

byggt upp sameiginlega þekkingu á réttlátum grænum umskiptum

Verkefnið Not ”Just” a Green Transition gaf út tvær skýrslur þar sem kannað var hugtakið réttlát græn umskipti og hvaða áhrif stefna um græn umskipti hefur á jaðarsetta samfélagshópa – undir þá heyra börn og ungt fólk, fólk með fötlun, aldraðir og einstaklingar sem eiga á hættu að missa vinnuna vegna umskiptanna. Þessu verkefni, ásamt öðrum þekkingargrunni og stórri norrænni könnun, á að ljúka með tillögum að stefnu sem getur dregið úr hugsanlegum neikvæðum afleiðingum grænna umskipta. 

átt samstarf við Eystrasaltsríkin um stafræna aðlögun

Skýrslan Monitoring Digital Inclusion in the Nordic-Baltic region frá janúar 2022 tilgreinir að löndin á svæðinu eru meðal stafvæddustu landa í heimi, að í öllum löndunum megi finna hópa sem eiga á hættu að vera útilokaðir frá stafrænum umskiptum og að í dag sé ekki nein heildstæð mynd af stafrænni aðlögun á norræn-baltneska svæðinu sem er nægilega traust til að byggja ákvörðun á. Vinnan með stafræna aðlögun er forgangsverkefni hjá ráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og mun leiða af sér aukna þekkingu á vandamálum og aðgerðum sem varða hópa sem eiga á hættu að lenda utan gátta í stafvæðingunni.

lagt aukið kapp á að koma á fjarheilbrigðisþjónustu

Verkefnið Samþætt fjarheilbrigðisþjónusta (iVOPD) kynnir til sögunnar aukna þekkingu á hvernig fjarheilbrigðisþjónusta getur gagnast íbúum og stað- og svæðisbundnum velferðarsamtökum, einkum á strjálbýlum svæðum. Innan ramma verkefnisins fara fram aðgerðir til að sýna fram á hvernig megi finna upp lausnir í fjarheilbrigðisþjónustu, hrinda þeim í framkvæmd, þróa þær áfram og sætta sig við þær og stuðla að sjálfbæru samfélagi.  

Lærdómur

Norrænu forsætisráðherrarnir hafa margsinnis lagt áherslu á mikilvægi þess að ná fram félagslega sjálfbærum grænum umskiptum og gert er ráð fyrir fjölda aðgerða í löndunum á þessu sviði á komandi árum. Hér er um að ræða nýtt norrænt samstarfssvið þar sem miklir möguleikar eru á að ná fram norrænu notagildi. Norræna ráðherranefndin ætti að beita sér frekar til að laða alla Norðurlandabúa til þátttöku í grænum umskiptum, til dæmis með því að styrkja frekar aðgerðir sem þegar eru í gangi.

 

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Markmið 11: Norræna ráðherranefndin mun veita borgaralegu samfélagi á Norðurlöndum, einkum börnum og ungu fólki, sterkari rödd, auka aðild þeirra að norrænu samstarfi og þekkingu á tungumálum og menningu grannþjóðanna.

Borgaralegt samfélag hefur sögulega gegnt mikilvægu hlutverki fyrir lýðræðisþróun, alþýðumenntun og byggðasamstarf á Norðurlöndum. Þar sem norrænt samstarf beinist að sjálfbærni á borgaralegt samfélag á Norðurlöndum sitt sæti við borðið. Norrænt samstarf ætti einnig að tryggja að borgaralegt samfélag verði eflt og að samskipti milli landanna verði aukin. Í því skyni að auðvelda samskipti yfir landamærin verður að efla norrænt tungumála- og menningarlæsi. Tungumál og menning skapa skilning, traust og samkennd yfir landamærin, og Norðurlandabúar öðlast oft sín fyrstu kynni af grannríkjunum í bókum, sjónvarpsþáttaröðum, kvikmyndum og tónlist. 

Norræna ráðherranefndin hefur

aukið þátttöku og stuðning við borgaralegt samfélag í norrænu samstarfi

Nordic Civ, norrænt samstarfsnet frjálsra félagasamtaka fyrir Framtíðarsýn okkar 2030, hefur það að markmiði að láta rödd borgaralegs samfélags heyrast betur í norrænu samstarfi. Samstarfsnetinu var komið á fót af norrænu samstarfsráðherrunum í júní 2021 og það samanstendur af 40 fulltrúum landsbundinna og norrænna frjálsra félagasamtaka. Samstarfsnetinu hefur gefist kostur á að gera athugasemdir við ýmis stefnumótunarskjöl; í opinberu samráði, á umræðufundum og einnig í þessari milliúttekt.

Norrænn leiðtogafundur fyrir borgaralegt samfélag um félagslega sjálfbærni var haldinn í nóvember 2021 í því skyni að miðla þekkingu og ræða hlutverk borgaralegs samfélags í framkvæmd félagslega sjálfbærra Norðurlanda. Á leiðtogafundinum tóku þátt 150 fulltrúar frjálsra félagasamtaka og fjöldi norrænna ráðherra, stjórnmálamanna og ráðamanna. Leiðtogafundurinn tók mið af norrænni kortlagningu á málefninu og var fylgt eftir með ýmsum tillögum að frekari vinnu.

Norræn styrkjaáætlun fyrir borgaralegt samfélag stuðlar að auknu samstarfi félagasamtaka á Norðurlöndum. Styrkir eru veittir til allra gerða frjálsra félagasamtaka í styrkjaáætluninni Demos, til barna og ungmennasamtaka fyrir fólk allt að 30 ára aldri í styrkjaáætluninni Norðurlönd 0–30, og til samtaka fatlaðs fólks í norrænu styrkjaáætluninni fyrir málefni fatlaðs fólks.

stuðlað að aukinni þekkingu á og færni í tungumálum og menningu norrænu grannþjóðanna

Í því skyni að efla samíska menningu og samstöðu þvert á landamæri Norðurlanda styður menningarsviðið frjálsu félagasamtökin Samíska menningarráðið og Samaráðið. Meðal annars í gegnum menningarstyrkjaáætlanir þeirra verða að veruleika lista- og menningarverkefni sem stuðla að því að varðveita og hleypa nýju lífi í samísk tungumál, menningararf og sérþekkingu samíska samfélagsins í tengslum við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Haldin hafa verið tvö málþing um varðveislu hefðbundinnar samískar þekkingar og óefnislegra menningarverðmæta, og með því verið stuðlað að öflugri norrænu tengslaneti á þessu sviði á milli samískra fulltrúa menningarlífsins, sérfræðinga og stjórnmálanna. 

Haldin voru 24 námskeið í norrænum tungumálum fyrir háskólanema, kennaranema og kennara árið 2021 og ráðgert er að halda 32 námskeið árið 2022 með u.þ.b. 1100–1400 þátttakendum alls á þessum tveimur árum. Þátttakendur hafa öðlast aukna þekkingu og skilning á tungumálum hinna Norðurlandanna og fengið tæki og áhuga á að miðla þessu áfram til nemenda sinna og annarra.

Skilningur barna og ungs fólks á norrænum tungumálum og menningu eykst með ýmsum ólíkum norrænum verkefnum. Den nordiska bokslukaren är ett läsfrämjande initiativ som vill sänka tröskeln för vuxna att läsa bilderböcker från andra nordiska länder med hjälp av pedagogiskt stödmaterial. Volt er menningar- og tungumálaáætlun sem styrkir verkefni sem vekja áhuga á listum, menningu og tungumálum í öðrum norrænum ríkjum og svæðum fyrir börn og ungt fólk upp að 25 ára aldri. Samband Norrænu félaganna fær fjárveitingar til að reka vefgáttina Norðurlönd í skólanum sem beinist að kennurum og nemendum á Norðurlöndum. Árið 2021 hrintu Norðurlönd í skólanum af stað tveimur nýjum námspökkum fyrir framhaldsskóla sem samanstanda af fjórum þemum og fjórum stuttmyndum.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að byggja frekar upp starf að auknum hlut frjálsra félagasamtaka og þátttöku þeirra í norrænu samstarfi ásamt því að auka skilning á tungumálum og menningu grannþjóðanna. Það skiptir sköpum fyrir norrænt samstarf að hafa frjáls félagasamtök með í ráðum til að tryggja gagnsæi og árangur, auk þess sem mikilvægt er að bæta tungumálakunnáttu því rannsóknir sýna að þar sígur á ógæfuhliðina.

 

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Markmið 12: Norræna ráðherranefndin mun viðhalda trausti og samheldni á Norðurlöndum, sameiginlegum gildum og norrænu samfélagi með áherslu á menningu, lýðræði, jafnrétti, inngildingu, jafnræði og tjáningarfrelsi.

Norðurlöndin eiga sér langa sameiginlega sögu, samfélög okkar og menning eru mótuð af sameiginlegu gildismati og við höfum öflugt málsamfélag með skandinavísku tungumálunum. Hér ríkir mikið félagslegt traust og þátttaka í lýðræðissamfélagi, en það krefst stöðugrar vinnu að viðhalda þessu – ekki síst á tímum þar sem geisar stríð í Evrópu. Einnig þarf að byggja áfram á sameiginlegum norrænum gildum sem hafa orðið illa úti á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Norræna ráðherranefndin vinnur að því að varðveita og efla norræna sjálfsmynd, menningu og samheldni á Norðurlöndum.​

Norræna ráðherranefndin hefur

veitt styrki í sköpun og miðlun norrænnar listar og menningar.

Norræna styrkjaáætlunin fyrir listir og menningu stuðlar að þróun, framleiðslu, miðlun og aðgengi að norrænum, baltneskum og alþjóðlegum menningar- og listaverkefnum í fremstu röð. Menningar- og listaáætlunin hefur veitt fjárstyrki til 100 verkefna af listrænum og/eða menningarlegum toga sem stuðla að fjölþættum og sjálfbærum Norðurlöndum. Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn hefur veitt fjárstyrki til 154 norrænna hljóð- og myndverkefna. Norrænir styrkir til þýðinga hafa stuðlað að því að hægt er að lesa vandaðar norrænar bókmenntir á öðrum norrænum tungumálum en frummálinu. Menningarverðlaun Norðurlandaráðs hafa (þ.e.a.s. bókmenntaverðlaunin, barna- og unglingabókmenntaverðlaunin, tónlistarverðlaunin og kvikmyndaverðlaunin) verið veitt til að greiða götu og koma vandaðri norrænni list og menningu á framfæri. 

tekið saman þekkingu um hvernig megi auka hlut menningar- og fjölmiðlamála á Norðurlöndum.

Gagnamiðstöðin um fjölmiðlarannsóknir (Nordicom) og Kulturanalys Norden eru þekkingarmiðstöðvar rannsókna, greiningar og samanburðartölfræði á sviði menningar- og fjölmiðlamála. Meðal annars hafa verið gefnar út skýrslurnar Áhrif Covid-19-heimsfaraldursins á menningargeirann á Norðurlöndum í apríl 2021 og Frelsi lista og menningar á Norðurlöndum í mars 2022, sem síðan hafa verið grundvöllur stefnumörkunar á landsvísu og á Norðurlöndum. Ennfremur verður gefin út skýrsla haustið 2022 um áhrif tæknirisanna á forsendur Norðurlanda til að stunda fréttablaðamennsku. Þessu til viðbótar hefur Norræna ráðherranefndin sumarið 2022 komið á fót norrænni hugveitu um áhrif tæknirisanna á lýðræðislega umræðu.  

tekið saman nýja þekkingu um hvernig má ná fram aukinni aðlögun flóttafólks og innflytjenda á Norðurlöndum.

Norræna upplýsingamiðstöðin starfar sem þekkingargátt fyrir norræna reynslu og þekkingu á aðlögun og inngildingu. Vefgáttin beinist að stjórnvöldum og frjálsum félagasamtökum og hafði alls 19806 heimsóknir á síðuna árið 2021. Í vefgáttinni hefur meðal annars verið safnað saman fréttum og talnagögnum um móttöku norrænu landanna á flóttamönnum frá Úkraínu.

Nordic Migrant Expert Forum hefur verið komið á fót til að auka þátttöku markhópsins í þróun norrænu aðlögunaráætlunarinnar. Vettvanginn skipa 16 sérfræðingar á sviði jafnréttismála, lýðræðis og inngildingar, og sem eiga það sameiginlegt að hafa flutt til norræns ríkis.

Aðgerðum sem miðast að menntageiranum og ætlað er að efla lýðræði, inngildingu og samstöðu hefur verið hrint í framkvæmd. Unnin hafa verið norræn tilraunaverkefni í skólum með það fyrir augum að þróa lýðræðislega starfsmenningu í skólunum í gegnum samstarf við kennaraskóla, ásamt ráðstefnu um málfrelsi og lýðræðisvitund í tengslum við menntamál. Vinnunni er ætlað að stuðla að því að menntageirinn á Norðurlöndum verði betur í stakk búinn til að takast á við samfélagslegar áskoranir með lýðræðislegum aðferðum.

Lærdómur

Norræna ráðherranefndin ætti að halda áfram að efla samstöðu á Norðurlöndum, til dæmis með því að leggja aukna áherslu á lýðræðisleg tækifæri og réttindi. Málefnið er ofarlega á baugi vegna núverandi landfræðipólitískra aðstæðna og Norðurlöndin hafa mikilvægu hlutverki að gegna til að efla lýðræðisþróun.

 

Stjórnunar|aðferðir og -verkfæri

Þessi kafli gerir grein fyrir og metur þær stjórnunaraðferðir og -verkfæri sem til þessa hafa verið notuð í vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar með framtíðarsýnina, og beinir sjónum að þeim breytingum sem ráðherranefndin þarf að ráðast í til að geta uppfyllt framtíðarsýnina.

Kaflinn er byggður upp eftir þremur sviðum og undir þeim er gerð grein fyrir eftirfarandi:

  1. Markmiða- og árangursstjórnun: framkvæmd markmiða framtíðarsýnarinnar í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar og aukinn árangur og áhrifastjórnun.
  2. Fjárhagsstjórnun: fjárhagsáætlun sem verkfæri til að hrinda Framtíðarsýn okkar 2030 í framkvæmd
  3. Skipulagsstjórnun: skipulagsbreytingar sem fram fara til að styðja við framkvæmd framtíðarsýnarinnar

Í stuttu máli sýnir úttektin að þær stjórnunaraðferðir og -verkfæri sem skrifstofan notast við stjórni starfseminni svo að sem best megi framfylgja framtíðarsýninni og tólf markmiðum framkvæmdaáætlunarinnar, en að rík þörf sé á að skerpa áherslur til að ná fram betri niðurstöðu.

Framkvæmdaáætlunin hefur hlotið sess sem samstöðutákn fyrir starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem hún er almennt stefnumótunarskjal sem beinir allri starfseminni í átt að markmiðunum tólf. Endurskoðuð skipting framlaga í fjárhagsáætlun hefur skapað betra jafnvægi milli stefnumarkandi áherslusviðanna þriggja, með því fyrst og fremst að auka hlut stefnumarkandi áherslusviðsins græn Norðurlönd. Eftir endurskoðun á skipulaginu getur skrifstofan betur stutt við vinnuna að framtíðarsýninni.

Áfram er þörf á að tilgreina nákvæmlega hvers konar stefnumótunarskjal framkvæmdaáætlunin er, fyrst og fremst að því er varðar samstarfsáætlanir fagsviðanna. Þörf er á að þróa stjórnunaraðferðir og -verkfæri. Í næstu framkvæmdaáætlun þurfa markmiðin í auknum mæli að vera greinileg, áþreifanleg og mælanleg. Skipulagið þarf í auknum mæli að styðja við starf þvert á fagsvið og deildir, og einnig í auknum mæli tengja vinnuna framtíðarsýn Norðurlandaráðs, borgaralegs samfélags og annarra aðila.

Markmiða- og árangursstjórnun

Markmið framtíðarsýnarinnar eru stefnumarkandi fyrir alla starfsemi

Frá því að framtíðarsýnin var samþykkt hefur skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar unnið að framkvæmdaáætlun fyrir árin 2021–2024 svo að Framtíðarsýn okkar 2030 marki alla starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Það felur í sér að skoða þarf öll stefnumótunar- og stuðningsskjöl. Skýr stigskipting og nákvæmni stjórntækja er forsenda þess að framtíðarsýnin nái þverfaglegri fótfestu í starfi ráðherranefndarinnar. Framkvæmdaáætlunin er hið almenna stefnumótunarskjal, á eftir henni koma samstarfsáætlanirnar fyrir fagráðherranefndirnar og formennskuáætlanirnar.

Framkvæmdaáætlunin hefur náð fótfestu sem samstöðutákn í ráðherranefndinni, á þann veg að öll stofnunin tekur afstöðu til stefnumarkandi áherslusviðanna þriggja og markmiðanna tólf. Þó er greinilegt að framkvæmdaáætlunin hefur ekki náð jafn mikilli fótfestu á öllum fagsviðum. Því er mikilvægt að áfram verði unnið að fótfestu innan stofnunarinnar.

Samstarfsáætlunin, sem er áætlun fagráðherranefndanna næstu 3–4 ár, á að beinast að því að lýsa hvernig er gert ráð fyrir að fagsviðið vinni að markmiðum framtíðarsýnarinnar. Úttekt á núverandi samstarfsáætlun sýnir að tengingin við framtíðarsýnina fer fram á mjög ólíkan hátt. Sum fagsvið skýra og hrinda í framkvæmd markmiðunum tólf fyrir sitt fagsvið, önnur tengja eigin áherslusvið við stefnumarkandi áherslusviðin þrjú án þess að taka afstöðu til markmiðanna tólf, á meðan sum hafa alls enga tengingu við framtíðarsýnina. Sumar af samstarfsáætlununum voru samdar áður en framtíðarsýnin var samþykkt og hafa því enn ekki átt tök á að aðlagast framtíðarsýninni. Skýrari samræmingu og tengingu þarf til ef tryggja á að allar fagráðherranefndir vinni á markvissan hátt að framtíðarsýninni, auk þess sem veita skal athygli því starfi sem fram fer á öðrum fagsviðum til að tryggja samlegðaráhrif og komast hjá tvíverknaði. Mikilvægt er að hugsa heildstætt um vinnuna varðandi framtíðarsýnina, í því skyni að auðvelda forgangsröðun aðgerða og skoða hvar frekara átaks er þörf.

Formennskuáætlanirnar, sem eru áætlanir formennskulandsins fyrir vinnu ársins, skulu leitast við að lýsa hvernig vinnu að framtíðarsýninni skuli hagað pólitískt og forgangsraðað. Formennskuáætlanirnar hafa árin 2021 og 2022 verið nátengdar þremur stefnumarkandi áherslusviðum framtíðarsýnarinnar, en ekki að sama skapi markmiðunum tólf. Þó eru tækifæri til að setja fram skýrari pólitískar áherslur í formennskuáætlanirnar, til dæmis með því að taka fyrir tvö eða þrjú markmið í framkvæmdaáætluninni sem vilji er fyrir að leggja sérstaka áherslu á þverfaglega í Norrænu ráðherranefndinni í formennskutíð viðkomandi lands og lýsa hvernig áformað er að hrinda þessu í framkvæmd á árinu.

Erindisbréfin til norrænu stofnananna, sem segja til um fjárveitingar og verkefni norrænu stofnananna, hafa verið yfirfarin þannig að þau séu í skýru samræmi við framtíðarsýnina. Í erindisbréfinu eru verkefni skilgreind á grundvelli þarfa framkvæmdaráætlunarinnar og viðmiðunarreglurnar fyrir val á verkefnum miða að því að skapa norrænt notagildi og virðisauka að því er varðar framtíðarsýnina. Þó er þörf á að þróa þetta á grundvelli rökréttrar markmiða- og árangursstjórnunar, þar sem verkefnið verður að ná fram fyrir fram ákveðinni pólitískri niðurstöðu og áhrifum en verktakanum verði falið að móta verkefnið svo það svari þessum kröfum á sem bestan hátt.

Á heildina séð á heildstætt skipulag og stefna í stefnumótunarskjölum að sjá til þess að framtíðarsýnin og framkvæmdaáætlunin séu grundvöllur allrar starfsemi á vegum ráðherranefndarinnar. Enn má bæta um betur til að tryggja að öll stofnunin vinni á markvissan hátt með framtíðarsýnina.

Bætt aðferðafræði í vinnu með markmiða- og árangursstjórnun

Í því skyni að verða við óskum forsætisráðherranna um skýr markmið og eftirfylgni við árangur af vinnunni þarf að þróa frekar getu ráðherranefndarinnar til að lýsa og meta áhrif aðgerða. Norræna ráðherranefndin þarf að byrja að vinna meira með markmiða- og árangursstjórnun með áherslu á þær breytingar sem við viljum ná fram og þær leiðir sem þarf að beita til að ná fram þessum breytingum.

Til þessa hefur þetta ekki verið samþættur hluti af starfseminni, en skrifstofan hefur hrint af stað vinnu til að auka skilning á hvað felst í þessu og hvað þarf til svo að öll stofnunin geti unnið á þennan hátt til framtíðar. Gerð milliúttektarinnar hefur verið lærdómsríkt ferli fyrir stofnunina að því er varðar markmiða og árangursstjórnun, til dæmis var haldið færniþróunarnámskeið í markmiða- og árangursstjórnun á skrifstofunni vorið 2022.

Sem almennt stefnumótunarskjal fyrir Norrænu ráðherranefndina hefur framkvæmdaáætlunin aukið þátt markmiða- og árangursstjórnunar vegna þess að öll starfsemin miðar að sömu tólf markmiðunum. Þó er þörf á að halda áfram að tryggja framtíðarsýninni og framkvæmdaáætluninni fótfestu hjá stofnuninni í heild. Mikilvægt er að framtíðarsýnin móti alla starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar – í stefnumótunarskjölum, afgreiðslu á tillögum, erindisbréfum, verkefnalýsingum, o.s.frv.

Markmiða- og árangursstjórnun ætti að vera samþættur hluti gerðar og innleiðingar næstu framkvæmdaáætlunar. Núverandi framkvæmdaáætlun inniheldur bæði markmið og lýsingar á tilteknum verkefnum, en næsta framkvæmdaáætlun ætti í auknum mæli að byggja á markmiða- og árangursstjórnun með því að skýra betur hvaða niðurstöðu og áhrifum er verið að leitast við að ná. Með öðrum orðum er óskað eftir skýrara umboði fyrir þessari vinnu, með pólitískt orðuðu markmiði um hvaða áhrifum er leitast við að ná með norrænu samstarfi.

Framtíðarsýnin tekur á flóknum málum þar sem Norræna ráðherranefndin er eitt af mörgum púslum í stærri heild. Markmiðin eru því orðuð þannig að Norræna ráðherranefndin stuðli að, efli eða vinni að markmiðunum. Markmiðin eru stór og háð því að Norræna ráðherranefndin vinni með fjölda annarra aðila til að geta náð markmiðunum. Þó má sjá að mörg markmiðanna í núverandi framkvæmdaáætlun eru óskýrt orðuð og sum þeirra fléttast mjög mikið inn í önnur. Til að tryggja að vinnan að framtíðarsýninni megi framvegis skila enn betri niðurstöðum og áhrifum er þörf á skýrari áherslu á markmiðin svo þau geti verið hnitmiðaðra verkfæri fyrir forgangsröðun.

Framkvæmdaáætlunin krefst langtímaskipulags metnaðarfullra verkefna og aðgerða en það dregur ekki úr þörfinni á að Norræna ráðherranefndin í framtíðinni skoði hversu viðeigandi markmiðin eru og á hvern hátt megi sem best leggja af mörkum. Stöðuskýrslan fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 sem var sett fram 2021 tiltók að Norðurlönd standa frammi fyrir stærstum áskorunum og tækifærum varðandi stefnumarkandi áherslusviðið um græn Norðurlönd. Ráðherranefndin hefur með núverandi framkvæmdaáætlun ráðstafað auka fjármagni til vinnu að umhverfis- og loftslagsmálum, en samt þarf stöðugt að endurskoða grundvöllinn svo sjá megi til þess að starfsemin skili sem mestu norrænu notagildi.

Fjárhagsstjórnun

Langtímasjónarmið og endurskoðuð skipting framlaga til að efla vinnu að grænum Norðurlöndum

Í því skyni að skapa fyrirsjáanleika í vinnu við framkvæmdaáætlunina samþykktu samstarfsráðherrarnir í febrúar 2020 lauslegan ramma til fjögurra ára fyrir fjárhagsáætlun fagsviðanna á tímabilinu 2021–2024. Ákvörðunin um rammaskiptingu var tekin á grundvelli tillagna fagsviðanna sjálfra varðandi framtíðarsýnina og að höfðu samráði við Norðurlandaráð.

Rammarnir til fjögurra ára fela í sér endurskoðaða skiptingu næstum því eins sjötta hluta fjárframlaga sem samsvarar 170 milljónum danskra króna sem verða fyrst og fremst teknar frá sviði mennta- og menningarmála til umhverfis- og loftslagsmála. Þetta er gert til að verða við hvatningu forsætisráðherranna um setja umhverfis- og loftslagsmál í algjöran forgang með því að skapa jafnari skiptingu þess fjármagns sem varið er til stefnumarkandi áherslusviðanna þriggja þar sem græni hlutinn varð aðeins útundan. Breytingin verður gerð í skrefum og verður endanlega lokið árið 2024. Yfir 100 milljónir danskra króna fara til að efla vinnuna við græn um skipti á tímabilinu 2021–2024.

Tafla 1: Breytingar Norrænu ráðherranefndarinnar á fjárhagsáætlun sem fóru fram smám saman á tímabilinu 2021–2024.

(MDKK, á verðlagi ársins 2020) 20202021202220232024
MR-SAM 251,625227,445220,320215,195203,070
MR-Digital 15,45815,92617,05118,17619,301
MR-U 224,723211,666204,416197,166189,916
MR-S 42,33140,73740,23739,73739,237
MR-K 180,255161,858154,608147,358140,108
MR-FJLS 43,92644,84146,59147,34149,091
MR-JÄM 11,67111,36911,36911,36911,369
MR-Tillväxt (atvinnulíf) 86,24188,31391,31394,31398,313
MR-Tillväxt (orkumál) 12,83216,00019,00022,00026,000
MR-Tillväxt (byggðamál) 32,84832,49932,99933,49933,999
MR-MK 47,55559,77673,02685,276101,526
MR-A 15,22314,33013,83013,33012,830
MR-Finans 1,6341,5921,5921,5921,592
MR-JUST 1,2251,1931,1931,1931,193
Frátekið fé 40,00040,00040,00040,000
Alls967,547967,547967,547967,547967,547

Áhrif og afleiðingar breytinga á fjárhagsáætlun

Endurskoðuð skipting framlaga felur í sér auknar fjárveitingar til fyrst og fremst ráðherranefnda um loftslags- og umhverfismál, orkumál og atvinnulíf, stafvæðingu og fiskveiðar, landbúnað, skógrækt og matvæli (Tafla 1). Lækkun framlaga er fyrst og fremst til ráðherranefnda samstarfsráðherranna, menningar- og menntamála. Að því er varðar norrænu fjárhagsáætlunina í heild er lítillega endurskoðuð skipting framlaga einnig varðandi ráðherranefndir heilbrigðis- og félagsmála og vinnumarkaðar.

Fjárhagsáætlun ársins 2023, að meðtalinni fjárhagsáætlun fyrir stjórnsýslu, mun skiptast tiltölulega jafnt milli stefnumarkandi áherslusviðanna þriggja með 38 prósent í græn Norðurlönd, 28 prósent í samkeppnishæf Norðurlönd og 34 prósent í félagslega sjálfbær Norðurlönd. (Mynd 1). Þess ber að geta að skiptingin er mat sem hefur farið fram fyrir hvert fagsvið á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar á grundvelli mats á því hvernig hinir ýmsu fjárliðir fagsviðsins stuðla að viðkomandi markmiðum um framtíðarsýn í tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2023. Eingöngu ber að líta á matið sem vísbendingu um raunverulega skiptingu fjárhagsáætlunarinnar á stefnumarkandi áherslusviðin þrjú.

Mynd 2. Skipting milli stefnumarkandi áherslusviðanna þriggja í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2023.

Endurskoðuð skipting fjárframlaga hefur gert aukið átak mögulegt, fyrst og fremst til þess að stuðla að grænum umskiptum. Til dæmis verður vinna efld að því að greiða fyrir lausnum varðandi grænar samgöngur, sjálfbæra orku og byggingarframkvæmdir. Aukin áhersla á græn Norðurlönd hefur leitt til áþreifanlegra aðgerða og farsællar niðurstöðu, til dæmis aðgerða til að draga úr losun frá siglingum á Norðurlöndum. Áherslan á græn umskipti á sér stað í allri starfsemi og ekki bara á vegum ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál. Það sýnir að hvatning forsætisráðherranna um að setja umhverfis- og loftslagsmál í algjöran forgang hefur náð hljómgrunni hjá fagráðherranefndunum. Þessu þarf að einnig viðhalda framvegis þar sem áfram reynist erfiðast að framfylgja stefnumarkandi áherslusviðinu græn Norðurlönd. Eins og áður var getið bendir stöðuskýrslan um Framtíðarsýn okkar 2030 á að við eigum einkum við vanda að stríða varðandi baráttuna gegn loftslagsbreytingum, missi líffræðilegrar fjölbreytni og ósjálfbæra neyslu og framleiðslu.

Endurskoðuð skipting framlaga hefur í för með sér afleiðingar, einkum fyrir ráðherranefndirnar um mennta- og menningarmál þar sem niðurskurður á fjárveitingum er mestur. Þessar nefndir eru þó áfram stærstu fagráðherranefndirnar hvað fjárhagsáætlun varðar, en það gerir þeim kleift að fjármagna stór verkefni og áætlanir á sviði menningar- og menntamála sem leggja fyrst og fremst af mörkum til samkeppnishæfra og félagslega sjálfbærra Norðurlanda[1]Einnig skal tekið fram að stakur rammi fagsviðs endurspeglar ekki allar þær aðgerðir sem unnar eru á tilteknu sviði. Auk eyrnamerkts fjármagns til meðal annars mennta- og menningarmála, þá leggja einnig samnorrænar aðgerðir á öðrum sviðum til meðal annars aukins tungumálaskilnings og gagnkvæmrar þekkingar á norrænu ríkjunum.. Endurskoðuð skipting fjárframlaga hefur skapað þörf á forgangsröðun og þar með á að styrkir til ákveðinnar starfsemi verði lagðir af smám saman á tímabilinu 2021–2024. Hins vegar skal tekið fram að samkomulagið um fjárhagsáætlun við Norðurlandaráð árin 2022 og 2023 felur í sér að fyrst og fremst ráðherranefndir mennta- og menningarmála hafa fengið aukafjárveitingar umfram upphaflega rammaskiptingu.

Endurskoðuð skipting framlaga milli fagráðherranefndanna er bætt upp að vissu marki úr þverfaglegum potti sem heyrir undir fjárveitingar samstarfsráðherranna. Þar höfðu öll fagsvið, í tengslum við samþykkt framkvæmdaáætlunarinnar, tækifæri til að koma með tillögur sem styðja við þverfaglegt starf og efla framkvæmd framtíðarsýnarinnar.

Tekið skal fram að breytingar á fjárhagsáætlun koma til framkvæmdar smám saman. Svo framkvæma megi endurskoðun skiptingar framlaga þarf áfram langtímahugsun, skýr markmið og pólitískan vilja til forgangsröðunar. Sú samantekt sem gerð hefur verið varðandi afleiðingar og áhrif breytinga á fjárhagsáætlun sýnir að ákveðin fagsvið sem hafa þurft að skera niður hafa í ákveðnum mæli notað „ostaskera-aðferðina“ til að framkvæma niðurskurðinn.

Úrlausnarefni tengd fjárhagskerfi

Skrifstofan átti í vandræðum með innleiðingu nýs fjárhagskerfis og samningar voru tímabundið úr gildi 29. apríl – 14. september 2021. Mörg verkefni fengu samninga sína rúmlega átta mánuðum seinna en ráðgert hafði verið, en það leiddi til þess að vinnunni við framkvæmdaáætlunina seinkaði. Önnur afleiðing var að fjármagn skorti fyrir umfangsmeiri þróunarvinnu sem einkum tengdist markmiða- og árangursstjórnun og kerfi til að styðja við vinnuna að framtíðarsýninni.

Það sýndi sig að aukið átak varðandi stefnumarkandi áherslusviðið græn Norðurlönd árin 2021–2022 er hafið en í flestum tilvikum hefur það ekki skilað áþreifanlegri niðurstöðu og áhrifum. Það er að hluta til vegna þess að samningar voru tímabundið úr gildi, en einnig að um er að ræða nýja gerð átaks sem tekur lengri tíma að koma í gang.

Footnotes

  1. ^ Einnig skal tekið fram að stakur rammi fagsviðs endurspeglar ekki allar þær aðgerðir sem unnar eru á tilteknu sviði. Auk eyrnamerkts fjármagns til meðal annars mennta- og menningarmála, þá leggja einnig samnorrænar aðgerðir á öðrum sviðum til meðal annars aukins tungumálaskilnings og gagnkvæmrar þekkingar á norrænu ríkjunum.

Skipulagsstjórnun

Endurskoðuð skipan skipulagsmála til að efla vinnu að framtíðarsýninni

Árið 2022 kom skrifstofan á fót nýju skipulagi stjórnunar þar sem framkvæmdastjórinn fær skrifstofustjóra sér við hlið sem ber ábyrgð á stjórnun framtíðarsýnarinnar og nýtt starf deildarstjóra sem ber ábyrgð á rekstrarstjórnun. Þessi þrenning myndar yfirstjórn skrifstofunnar og á að skapa betri forsendur fyrir skýrari forystu sem samræmir vinnuna að framtíðarsýninni á betri hátt en áður.

Í því skyni að efla samstarf milli fagsviðanna hafa verið stofnaðir þrír þverfaglegir hópar, einn fyrir hvert stefnumarkandi áherslusvið undir framtíðarsýninni, með fulltrúum ýmissa skrifstofa auk norrænu stofnananna og skrifstofa þeirra. Hóparnir hafa vorið 2022 gegnt mikilvægu hlutverki við að útbúa milliúttektina og til framtíðar mun hópurinn gegna mikilvægu hlutverki í vinnu að gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar sem mun gilda frá árinu 2025. Hóparnir hafa verið starfandi vettvangur þekkingarmiðlunar og unnið saman að framtíðarsýninni, en enn má bæta um betur til að ná fram sveigjanlegri þverfaglegri miðlun sem væri samþætt starfseminni.

Almennt þarf skrifstofan að vinna áfram að því að efla hóphugsun innan stofnunarinnar.  Við þurfum að byggja á heildstæðri hugsun í vinnunni og skilgreina betur hlutverk og verkaskiptingu milli skrifstofunnar, norrænu stofnananna og skrifstofa þeirra, auk embættismannanefndanna til að auka skilvirkni og nýta þekkingu hvers fyrir sig á sem bestan hátt.

Aukinn kraftur settur í þverfaglegt samstarf til að uppfylla framtíðarsýnina

Framkvæmdaáætlunin og markmiðin tólf miða ekki við einstök stefnusvið heldur í staðinn við það hverju starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar í heild sinni þarf að ná fram. Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa látið skýrt í ljós að það krefst samvinnu fagsviðanna ef framtíðarsýnin á að nást, þar sem markmiðin tólf varða víðtæk og flókin málefni sem krefjast kerfisbundinnar hugsunar. Það sem hefur verið lýst sem nánast vinnu í sílóum í hinum ýmsu fagráðherranefndum hefur í sumum tilvikum leitt til tvíverknaðar og hætta er á að það bitni á skilvirku starfi við að ná markmiðum framtíðarsýnarinnar.

Á síðastliðnum tveimur árum hefur mátt sjá aukinn fjölda þverfaglegra verkefna innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Það má meðal annars skýra með greinilegri hvatningu samstarfsráðherranna til hinna fagráðherranefndanna um að vinna þverfaglega. Samstarfsráðherrarnir ráðstöfuðu 40 milljónum danskra króna ár hvert á tímabilinu 2021–2024 til að hvetja til þverfaglegrar vinnu – en 18 verkefni af þverfaglegum toga hljóta fjárveitingar úr þessum potti. Jafnframt hefur skrifstofan samþykkt fjölda aðgerða til að efla þverfaglegt starf í Norrænu ráðherranefndinni, til dæmis þverfaglegu hópana um framtíðarsýnina sem áður var getið, en vonast er til að forðast megi tvíverknað á fagsviðunum með þessu og fá fram fleiri tillögur að þverfaglegum aðgerðum eða verkefnum.

Þverfaglegt samstarf þarf til ef uppfylla á framtíðarsýnina, en það þýðir ekki að mörg fagsvið þurfi endilega að koma við sögu í öllu starfi ef það felur ekki í sér að betri niðurstaða náist í sameiningu. En hið minnsta þarf að vera til staðar þekking og skilningur á vinnu sem unnin er á öðrum fagsviðum til að komast hjá tvíverknaði eða jafnvel misræmi í uppfyllingu markmiða. Hér gegnir skrifstofan mikilvægu hlutverki við að stuðla að þverfaglegu starfi og tryggja að ekki komi til tvíverknaðar. Pólitískt getur það einnig krafist aukinnar þverfaglegrar samræmingar af hálfu norrænu samstarfsráðherranna og norrænu samstarfsnefndarinnar gagnvart öðrum fagráðherranefndum til að tryggja að framtíðarsýnin í heild sinni verði viðfangsefni allra fagsviða. Á vegum stjórnsýslunnar er þörf á aukinni samræmingu milli skrifstofunnar og ráðuneyta í löndunum til að tryggja að vinnan skili sér betur í löndunum.

Samskipti og upplýsingamiðlun þarf til ef markmið framtíðarsýnarinnar eiga að nást

Upplýsingamiðlun innan stofnunarinnar í heild er lykillinn að þverfaglegu samstarfi og framfylgd framtíðarsýnarinnar og hinna tólf markmiða hennar. Sem liður í vinnu að framtíðarsýninni er vinna í gangi við að þróa innri samskipti með því að skapa ný tækifæri til samstarfs innan stofnunarinnar. Halda ber þeirri þróun áfram til að tryggja að stofnunin hafi sem bestar forsendur til að vinna þverfaglega og á heildstæðan hátt.

Út á við á það notagildi sem Norræna ráðherranefndin skapar fyrir Norðurlönd sem svæði og fyrir íbúana að lita allt starf að upplýsinga- og samskiptamálum. Allt veigamikið starf og verkefni á sviði upplýsinga- og samskiptamála, sem unnið er innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar, á að stuðla að markvissri forgangsröðun og þar með að því að ná markmiðum samstarfsins og raungera framtíðarsýnina. Upplýsinga- og samskiptastarf á að sýna að samstarfið sé afdráttarlaust og rökrétt, að við fylgjum eigin orðum eftir í verki, þ.e. að hugur og hönd fylgist að. Upplýsinga- og samskiptastarf út á við á að endurspegla Framtíðarsýn 2030 og markmið framtíðarsýnarinnar, og það á bæði að því er varðar innihald og form að vera til marks um sjálfbærni. Auk þess á það að taka tillit til jafnréttis, aðgengis og kynjasjónarmiða, sem og að taka tillit til sjónarmiða barna og ungmenna. Samskiptastefna Norrænu ráðherranefndarinnar út á við var endurskoðuð árið 2021 til að samsvara betur markmiðum og kröfum framtíðarsýnarinnar. Sú endurskoðun nær meðal annars til þróunarverkefnis fyrir heimasíðu norræns samstarfs norden.org. Verkefnið er hafið og mun veita ný tækifæri til að kynna starfið þvert á fagsviðin. 

 

Tillögur 

Skrifstofan hefur á grundvelli úttektar sinnar lagt fram nokkrar tillögur til Norrænu ráðherranefndarinnar um hvernig megi efla vinnu að framtíðarsýninni til að tryggja sem best áhrif hennar.

Framkvæmdastjórinn leggur til að Norræna ráðherranefndin skuli:

  1. standa vörð um samfellu í frekari vinnu. Stefnan í núverandi framkvæmdaáætlun fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 ætti að vera fastmótuð og fá frekari tíma til að virka. Að lokinni núverandi framkvæmdaáætlun ætti áfram að taka mið af stefnumarkandi áherslusviðunum þremur – græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd, auk markmiðanna tólf í framkvæmdaáætluninni.
     
  2. leggja áherslu á pólitískt aðkallandi og viðeigandi aðgerðir. Þörf er á að fylgjast á virkan hátt með umheiminum til að greina hvar Norræna ráðherranefndin getur komið að bestum notum að því er varðar þá vinnu sem löndin inna af hendi landsbundið og á alþjóðavettvangi. Einnig er þörf á í auknum mæli að skapa áþreifanlegar aðgerðir með því að hvetja, víkka út og miðla sameiginlegum norrænum lausnum. Mikilvægt er að hafa sterka pólitíska forystu sem þorir að forgangsraða til að nýta takmarkaðar fjárveitingar sem best. Færri en stærri aðgerðir geta haft meira afgerandi áhrif á þeim sviðum sem valin eru til aðgerða.
     
  3. halda áfram að efla vinnu að grænum umskiptum í allri starfseminni. Græn umskipti verða áfram okkar stærsta áskorun og Norræna ráðherranefndin ætti, í samræmi við yfirlýsingu forsætisráðherranna um Framtíðarsýn okkar 2030, að setja umhverfis- og loftslagsmál í algjöran forgang. Vinna að grænum umskiptum varðar öll stefnumarkandi áherslusvið. Þannig er hægt að efla norræna samkeppnishæfni og skapa fleiri græn störf um leið og við tryggjum að engin verði skilin út undan.
     
  4. efla vinnu að markmiða- og árangursstjórnun enn frekar. Markmiða- og árangursstjórnun ætti að koma við sögu í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Áherslan þarf að beinast að þeim breytingum sem við viljum ná fram og þeim leiðum sem við þurfum að beita til að ná fram þessum breytingum. Gefa þarf skýrt pólitískt umboð til norræns samstarfs með skýrum og mælanlegum pólitískum markmiðum um þau áhrif sem óskað er eftir að ná fram, sem unnt er að framfylgja og fjármagna innan ramma fjárhagsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar.
     
  5. þróa hóphugsun innan stofnunarinnar. Heildstæð hugsun á kerfisbundið að koma við sögu í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Vinnan skilar sér í betri árangri þegar við tökum höndum saman um að ná sameiginlegum markmiðum. Það þýðir ekki að allir eigi að gera allt, þvert á móti er þörf fyrir að skilgreina betur hlutverk og verkaskiptingu milli skrifstofunnar, stofnananna og embættismannanefndanna til að auka skilvirkni og nýta þekkingu hvers fyrir sig á sem bestan hátt. Það þýðir einnig að þeir aðilar sem stjórna hlutunum, taki þátt í eða verkefni ráðherranefndarinnar varði þá, séu hafðir með í ráðum í þróunarferlinu þannig að allir sem koma við sögu vinni að sameiginlegu markmiði.
     
  6. festa vinnuna að framtíðarsýninni í sessi víða á Norðurlöndum. Framtíðarsýnin snýst um ferð breytinga fyrir allt svæðið í átt að aukinni sjálfbærni og aðlögun. Öflug pólitísk þátttaka og áhugi á framtíðarsýninni er grundvallarforsenda þess að markmið náist. En auk þess skiptir höfuðmáli að vinnan hljóti fastan sess í atvinnulífinu, borgaralegu samfélagi og hjá íbúunum. Norðurlandaráð og norrænt samstarfsnet frjálsra félagasamtaka ættu að geta tekið virkan þátt í frekari vinnu að framtíðarsýninni og vegna nýju framkvæmdaáætlunarinnar.
     
  7. efla upplýsingastarf í tengslum við vinnuna að framtíðarsýninni. Upplýsingastarfið á að endurspegla stefnumarkandi áherslusviðin þrjú og markmiðin tólf og vekja athygli á raunverulegum árangri og áhrifum sem nást til að sýna að stefna og aðgerðir fylgist að. Norræna ráðherranefndin á að tryggja að allir aðilar á Norðurlöndum sem eru hluti af norrænu samstarfi, eða sem norrænt samstarf snertir, séu upplýstir og taki þátt í vinnunni að framtíðarsýninni. Það gæti verið kostur að tengja vinnuna með skýrari hætti við 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, þar sem það er sú lagaumgjörð sem þekkt er bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi.
 

Fylgiskjal 1

Markmiðin tólf í framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 á tímabilinu 2021–2024

Græn Norðurlönd

  1. Norræna ráðherranefndin mun efla rannsóknir og þróunarstarf og greiða fyrir lausnum sem stuðla að kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum, til að mynda varðandi samgöngur, byggingar, matvæli og orkumál.
  2. Norræna ráðherranefndin mun eiga þátt í að tryggja líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu lands og sjávar á Norðurlöndum.
  3. Norræna ráðherranefndin mun efla hringrásar- og lífhagkerfi, sjálfbæra og samkeppnishæfa framleiðslu, sjálfbær matvælakerfi svo og auðlindanýtnar og óeitraðar hringrásir á Norðurlöndum.
  4. Norræna ráðherranefndin mun auðvelda norrænum neytendum og gera það eftirsóknarvert að velja hollar, vistvænar og loftslagsvænar vörur í sameiginlegu verkefni um sjálfbæra neyslu.
  5. Norræna ráðherranefndin mun stuðla að jákvæðri þróun í alþjóðasamstarfi um umhverfis- og loftslagsmál, til dæmis með því að liðka fyrir norrænum grænum lausnum víðar um heim.

Samkeppnishæf Norðurlönd

  1. Norræna ráðherranefndin mun styðja þekkingu og nýsköpun og auðvelda fyrirtækjum á öllum Norðurlöndum að nýta til fulls þá þróunarmöguleika sem felast í grænum, tæknilegum og stafrænum umskiptum og hinu vaxandi lífhagkerfi.
  2. Norræna ráðherranefndin mun þróa færni og öfluga vinnumarkaði sem standast kröfur grænna umskipta og stafrænnar þróunar og styðja frjálsa för á Norðurlöndum.
  3. Norræna ráðherranefndin mun nýta stafræn umskipti og menntun til að tengja Norðurlöndin nær saman.

Félagslega sjálfbær Norðurlönd

  1. Norræna ráðherranefndin mun stuðla að gæðum, jafnræði og öryggi í heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla.
  2. Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að allur almenningur á Norðurlöndum taki þátt í grænum umskiptum og stafrænni tækniþróun, nýta sóknarfæri umskiptanna og sporna gegn því að þau auki ójöfnuð í samfélaginu.
  3. Norræna ráðherranefndin mun veita borgaralegu samfélagi á Norðurlöndum, einkum börnum og ungu fólki, sterkari rödd, auka aðild þeirra að norrænu samstarfi og þekkingu á tungumálum og menningu grannþjóðanna.
  4. Norræna ráðherranefndin mun viðhalda trausti og samheldni á Norðurlöndum, sameiginlegum gildum og norrænu samfélagi með áherslu á menningu, lýðræði, jafnrétti, inngildingu, jafnræði og tjáningarfrelsi. 
 

Fylgiskjal 2

Norrænar stofnanir, samstarfsstofnanir og skrifstofur

 

Norrænar stofnanir

  • Norræna nýsköpunarmiðstöðin, á frumkvæði að og fjármagnar aðgerðir sem efla nýsköpun á Norðurlöndum og vinnur að því að auðvelda fyrirtækjum að þróa nýjungar og miðla núverandi nýjungum.
  • Norrænar orkurannsóknir (NEF) eiga samstarf um orkurannsóknir og stefnumörkun innan Norðurlanda og auka þekkingu á sjálfbærri orku og nýjum samkeppnishæfum orkulausnum.
  • Norræna erfðaauðlindastofnunin (NordGen), er sameiginlegur genabanki Norðurlandanna og þekkingarmiðstöð um erfðaauðlindir, og hefur það hlutverk að varðveita og stuðla að sjálfbærri nýtingu þessa margbreytileika. Meðal verkefna NordGen er varðveisla norræns safns u.þ.b. 33.000 fræsýna, dreifing þeirra til notenda, vinna við frægeymsluna á Svalbarða, þróun verndaráætlana fyrir húsdýr í útrýmingarhættu, og tengslamyndun fyrir hagsmunaaðila á sviði skóga.
  • Norræna rannsóknaráðið (NordForsk), sem er samstarfsstofnun norrænu fjármögnunaraðilanna, stuðlar að og fjármagnar norrænt samstarf á sviði rannsókna og rannsóknarinnviða og vinnur að því að koma Norðurlöndum í fremstu röð á heimsvísu á sviði rannsókna og nýsköpunar.
  • Nordregio, norræna rannsóknastofnunin á sviði byggðamála, tekur til dæmis saman þekkingu á hvernig megi hraða grænum umskiptum með því að nýta staðbundnar lausnir og snjalla sérhæfingu.
  • Norræna húsið í Reykjavík er norrænn samkomustaður fyrir listir, tungumál og samfélagsumræðu með dagskrá sem samanstendur af umræðum, málstofum, verkefnum, hátíðum og öðrum norrænum lista- og menningarviðburðum. Stofnunin stuðlar að aðgengi, áhuga og þekkingu á norrænni menningu, tungumálum og samfélagi á Íslandi og öfugt.
  • Norðurlandahúsið í Færeyjum er norræn menningarmiðstöð og skapandi samkomustaður með fjölbreytilega dagskrá sem inniheldur tónlist og sviðslistir, bókmenntir, myndlist og kvikmyndir, samfélagsumræður, málstofur, skólaáætlanir og fleira. Stofnunin stuðlar að aðgengi, áhuga og þekkingu á norrænni menningu, tungumálum og samfélagi á Færeyjum og öfugt ásamt því að styðja við færeyskt menningarlíf. 
  • Norræna stofnunin á Grænlandi (NAPA) styður, örvar og stuðlar að þróun grænlensks og norræns menningarlífs, einkum með áherslu á börn og ungt fólk, meðal annars í gegnum opinbert verkefnastarf, samstarf við aðila á Grænlendi og erlendis og í gegnum úthlutun verkefnastyrkja. NAPA heldur sjónarmiðum norðurslóða á lofti á Norðurlöndum.
  • Norræna stofnunin á Álandseyjum (NIPÅ) styður, örvar og stuðlar að þróun álensks og norræns menningarlífs í gegnum opinbert verkefnastarf og samstarf við aðila á Álandseyjum og erlendis.
  • Norræna menningargáttin (NKK) vinnur að því að styrkja og efla norrænt menningarsamstarf og hreyfanleika innan norræna og norræna-alþjóðlega menningarsviðsins, ásamt því að auka þekkingu á norrænni menningu í Finnlandi. Starfsemin er þrískipt: Umsjón styrkjakerfis á sviði menningarmála og málefna ungmenna, opinberir menningarviðburðir og bókasöfn.
  • Norræna velferðarmiðstöðin (NVC) er samstarfsvettvangur fyrir aðila á sviði félags- og lýðheilsumála innan norrænu landanna auk Færeyja, Grænlands og Álandseyja. NVC er ætlað að leggja af mörkum til innlends þróunarstarfs með því að styðja við miðlun og þróun þekkingar ásamt því að styðja við samstarf á milli yfirvalda og rannsóknarsviða á Norðurlöndum.
  • Norræna stofnunin um framhaldsmenntun í vinnuvernd (NIVA) hefur það hlutverk að starfa sem vettvangur miðlunar þekkingar á sviði vinnuverndar og vinnuumhverfis. NIVA á að skapa umræðu um mikilvæg nýskapandi málefni varðandi vinnuumhverfi sem stuðla að bættu atvinnulífi á Norðurlöndum.

Norrænar samstarfsstofnanir

  • Norræni menningarsjóðurinn á að stuðla að farsælli þróun að því er varðar listir og menningu á Norðurlöndum með því að greiða götu menningarsamstarfs milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Færeyja, Grænlands og Álandseyja. Það gerir sjóðurinn með því að veita fjárstyrki, efla fagleg samstarfsnet og þróa og miðla þekkingu um listir og menningu.
  • Norræna Atlantshafssamstarfið (NORA) er samstarfsstofnun á vegum samstarfsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðastefnu og sinnir milliríkjasamstarfi. Norræna tengingin og verkefnamiðað vinnulag veitir NORA góða undirstöðu undir samstarf sem nær yfir landamæri og byggir á norrænum markmiðum og gildum.
  • Norræna upplýsingamiðstöðin um fjölmiðla- og samskiptarannsóknir (Nordicom) býður upp á samnorrænt sjónarmið gagnvart fjölmiðlum, blaðamennsku og upplýsingamiðlun með því að afla og miðla vísindalegri þekkingu á fjölmiðlum og upplýsingastarfi til ráðamanna, faghópa og almennings.
  • Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn  á að stuðla að norrænni framleiðslu á hljóð- og myndefni með því að fjármagna kvikmyndir, þáttaraðir og heimildamyndir á Norðurlöndum.
  • Norræna upplýsingamiðstöðin um kynjafræði (NIKK) á að stuðla að því að markmið norrænu samstarfsáætlunarinnar í jafnréttismálum, ásamt viðbótinni um málefni hinsegin fólks, náist. Það er fyrst og fremst gert með því að halda til haga og miðla skipulega rannsóknarniðurstöðum, pólitískum ákvörðunum, þekkingu og framkvæmd verkefna út frá norrænu og þverfaglegu sjónarhorni.
  • Norræna kjarneðlisfræðistofnunin (Nordita) er samnorræn kjarneðlisfræðistofnun.
  • Norræna nefndin um heilbrigðisskýrslur og Norræna hagskýrslunefndin (NOMESCO/NOSOSCO) eiga að vinna að því að heilbrigðis- og hagskýrslur á Norðurlöndum séu samanburðarhæfar milli landanna. Á sama tíma eiga nefndirnar að taka saman tölfræði á þessum sviðum, kynna hana og sjá til þess að hún sé aðgengileg almenningi.
  • Norræna eldfjallasetrið (NORDVULK) er norræn rannsóknamiðstöð sem sérhæfir sig í eldfjallafræðum og skyldum sviðum. Stofnunin er fjármögnuð í sameiningu af Norrænu ráðherranefndinni og ríkisstjórn Íslands.

Norrænar skrifstofur

  • Skrifstofur Norrænu ráðherranefndarinnar í Eistlandi, Lettlandi og Litháen vinna meðal annars að því að skrásetja nýja strauma og skoða ný tækifæri til sameiginlegs norræn-baltnesks samstarfs í samráði við norrænu sendiskrifstofurnar sem þær eiga mjög náið samstarf við. Skrifstofurnar vinna einnig á breiðum vettvangi við að koma norrænu gildismati á framfæri og að gera norrænt samstarf í Eystrasaltsríkjunum sýnilegt.
 

Fylgiskjal 3

Álit Norðurlandaráðs á milliúttektinni

Norðurlandaráð fagnar þessu tækifæri til að segja álit sitt á milliúttekt Norrænu ráðherranefndarinnar á framkvæmdaáætlun fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 fyrir árin 2021–2024.

Allar nefndir Norðurlandaráðs hafa fjallað um milliúttektina og því endurspeglar álit þetta skoðun Norðurlandaráðs á milliúttektinni á framkvæmdaáætluninni fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 fyrir árin 2021–2024.

  • Norræna sjálfbærninefndin  lýsir stuðningi við þær aðgerðir og verkefni hefur verið hleypt af stokkunum, m.a. á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála, og fylgist með þeim af mikilli athygli og vill jafnframt taka virkan þátt og styðja áframhaldandi starf á þessum sviðum.
  • Norræna þekkingar- og menningarnefndin bendir á augljós neikvæð áhrif á sviði menningar- og menntamála. Að mati nefndarinnar þarf að fara fram ítarlegri greining á afleiðingum þess að skera niður framlög til þessara málaflokka.
  • Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin telur almennt ekki hægt að líta á þau gögn sem Norræna ráðherranefndin leggur fram í milliúttektinni sem úttekt. Að mati nefndarinnar er frekar um að ræða einhliða upptalningu á yfirstandandi aðgerðum og verkefnum.
  • Norræna velferðarnefndin telur milliúttektina einnig frekar vera í anda skýrslu en raunverulegrar úttektar og álítur að auki óheppilegt að Norræna ráðherranefndin hafi sjálf staðið að úttektinni. Að mati nefndarinnar skortir jafnframt aðgerðir í þágu félagslega sjálfbærra Norðurlanda.

Að öðru leyti vísar Norðurlandaráð til álitsgerðanna í heild sinni sem sendar verða Norrænu ráðherranefndinni ásamt þessu áliti.

Norðurlandaráð vill auk þessa vekja athygli á eftirtöldum atriðum sem fram koma í álitinu og hafa einnig verið snar þáttur í skoðun ráðsins á framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2021–2024:

  • Nægilegt samráð var ekki haft við Norðurlandaráð um framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2021–2024 og fordæmalausar áherslubreytingar í fjárhagsáætlun, með þeim afleiðingum að erfiðleikar hafa komið upp í norrænu samstarfi, ekki síst í tengslum við undirbúning fjárhagsáætlunar og skort á „eignarhaldi“ á norrænu framtíðarsýninni og aðgerðaráætluninni.
  • Jákvætt er að Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafi árið 2022 gert samkomulag um að Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin muni eftir fremsta megni sammælast um væntanlegan nokkurra ára fjárhagsramma Norrænu ráðherranefndarinnar og grunnreglur hans og þar með einnig um fjármagn fyrir væntanlega framkvæmdaáætlun.
  • Óhagganlegur fjögurra ára rammi áætlunarinnar stangast á við þá „hlaupandi“ 4–5 ára fjárhagsramma sem venjulega er unnið með í norrænu þjóðþingunum og endurskoðaðir eru árlega með hliðsjón af aðstæðum í þjóðfélaginu hverju sinni.  Sá ósveigjanlegi rammi kemur meðal annars í veg fyrir að taka megi tillit til breyttra aðstæðna og ástandsins sem uppi er hverju sinni – t.d. þegar heimsfaraldur gengur yfir.  Þegar næsti fjárhagsrammi til nokkurra ára verður samþykktur virðist almennt eðlilegt að hann verði endurskoðaður árlega, endar hentar slík tilhögun betur pólitísku samstarfi og milliríkjasamstarfi á borð við það sem fram fer í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni.
  • Að Norðurlandaráð hafi áfram skýru hlutverki að gegna í vinnunni við úttektina. Tímafrestir verða að taka mið af fundardagskrá bæði Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar svo tryggja megi góðan pólitískan stuðning og afgreiðslu.

Norðurlandaráð hefur áður lýst þeirri skoðun að afar mikilvægt sé að leitað verði tímanlega til Norðurlandaráðs við undirbúning nýrrar framkvæmdaáætlunar sem fylgt verður frá 2025 og að ráðið hafi þar skýrt hlutverk.

Það er því að mati Norðurlandaráðs jákvætt að Norræna ráðherranefndin hafi nú þegar hafið ferli við undirbúning næstu framkvæmdaáætlunar þar sem snemma er gert er ráð fyrir aðkomu Norðurlandaráðs og áhersla er lögð á stöðuga þátttöku bæði Norðurlandaráðs, borgaralegs samfélags á Norðurlöndum og annarra viðkomandi.

Norðurlandaráð væntir því áframhaldandi góðs samstarfs um varðveislu og þróun pólitísks, efnahagslegs og menningarlegs samstarfs á Norðurlöndum með áherslu á sjálfbæra þróun og jafnrétti.

Erkki Tuomioja
Forseti 

Kristina Háfoss
Framkvæmdastjóri

 

Fylgiskjal 4

Umsögn norræns samstarfsnets borgaralegs samfélags um miðtímamatið

Hér á eftir fer umsögn Nordic Civ, samstarfsnets borgaralegs samfélags, um hlutverk og hlutdeild borgara­legs samfélags í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar. Textinn er athugasemd við miðtímamat á framkvæmdaáætlun framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2030 á tímabilinu 2021-2024.

 

Hlutverk borgaralegs samfélags við framkvæmd Framtíðarsýnar okkar fyrir 2030

Virkt, gagnsætt og fjármagnað samstarf við borgaralegt samfélag á Norðurlöndum er skilyrði þess að framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2030 verði að veruleika. Borgaralegt samfélag er málsvari almennings á Norðurlöndum og aflar reynslu sem verður að setja í forgang við framkvæmd þeirrar framtíðarsýnar að Norðurlönd verði sjálfbært og samþætt svæði á heimsmælikvarða fyrir 2030.

Við, félagasamtök í Nordic Civ, bjóðumst til að þróa áfram nýja samstarfshætti þar sem við lærum hvert af öðru og tökum höndum saman um að skapa græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Áherslur í starfinu fram undan:

  • Fjármagn þarf til að borgaralegt samfélag á Norðurlöndum geti tekið þátt í framkvæmd framtíðar­sýnarinnar óháð fjárhag
    Samtök borgaralegs samfélags skortir oft fjárhagslegt öryggi og frelsi til að geta tekið launalaust þátt í þróun og starfi við framkvæmd framtíðarsýnarinnar. Í framhaldi vinnunnar að framkvæmdaáætluninni verður að tryggja samtökum borgaralegs samfélags fé til að þau geti lagt hönd á plóg. Sérstök úrræði þurfa að vera fyrir hendi til að finna samlegðaráhrif milli markmiðanna en einnig einstakra verkefna. Þannig myndi staða borgaralegs samfélags í norrænu starfi styrkjast og fleiri samtökum ættu kost á að fást við áskoranir og taka virkan þátt í framkvæmd framtíðarsýnarinnar.
  • Endurskoðun aðferða til að tryggja áframhaldandi og dýrmæta hlutdeild borgaralegs samfélags
    Ástæða er til að íhuga hvernig hlutdeild borgaralegs samfélags í starfi ráðherranefndarinnar lítur út í reynd þegar miðtímamat og önnur innspil taka ekki mið af forsendum borgaralegs samfélags. Samtök borgaralegs samfélags, einkum hin fámennari, eru oft rekin af sjálfboðaliðum og hugsjónafólki með fátt eða ekkert starfsfólk. Þess vegna er afar erfitt að fá innspil sem eru rótfest í þessum samtökum, til að mynda í sumarleyfum. Í framhaldi vinnunnar að framkvæmdaáætluninni verða samtök borgaralegs samfélags að fá tíma og tækifæri til að koma snemma að samráði og þróunarstarfi til þess að innspil og athugasemdir berist Norrænu ráðherranefndinni í tæka tíð og hafi áhrif á endanlega útkomu.
  • Breiðari rótfesta vinnunnar að framkvæmd framtíðarsýnarinnar á Norðurlöndum myndi auka traust
    Samskiptin í vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar að Framtíðarsýn okkar fyrir 2030 þurfa að verða skýrari og sýnilegri í framtíðinni til þess að rótfesting hennar meðal almennings verði sterk og auki skilning á henni. Með greinilegri skilgreiningu á markmiðum framtíðarsýnarinnar, markhópum, áhrifum og tengingu við sjálfbærnimarkmið SÞ getur framkvæmdin og samfélagslegur ávinningur hennar orðið sýnilegri meðal almennings. Sem málsvari Norðurlandabúa, einkum varnarlausra hópa, er borgaralegt samfélag mikilvæg auðlind til að tengja framtíðarsýnina við grasrótina í norrænum samfélögum. Í framhaldi vinnunnar að framkvæmdaáætluninni þarf að skýra betur áhrif og samfélags­legan ávinning áætlunarinnar og rótfesta hana víðar, í borgaralegu samfélagi en einnig meðal stjórn­málafólks í löndunum og á norrænum vettvangi. Þýðingarmikil hlutdeild borgaralegs samfélags við gerð næstu framkvæmdaáætlunar er lykilatriði til að ná árangri hvað það varðar.

Tillögur:

  • Fulltrúar í Nordic Civ og/eða aðrir fulltrúar borgaralegs samfélags komi strax í byrjun að gerð næstu framkvæmdaáætlun sem mun gilda frá árinu 2025.
  • Fulltrúar Nordic Civ og/eða aðrir fulltrúar borgaralegs samfélags taki þátt í þverlægu starfi innan Norrænu ráðherranefndarinnar og þeim verði boðið samstarf við allar fagráðherranefndir.
  • Úthugsað samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við aðra aðila, þar á meðal borgaralegt samfélag og atvinnulífið um málaflokka sem geta skapað beinan virðisauka fyrir norrænt samstarf og eflt Norður­lönd.
  • Aukin áhrif og úrræði borgaralegs samfélags til að tryggja sjálfbæra þróun til lengri tíma fyrir alla hópa á Norðurlöndum.
  • Sýna betur tenginguna milli markmiða Framtíðarsýnar okkar fyrir 2030 og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

 

Umsögn Nordic Civ um græn Norðurlönd

Náttúra Norðurlanda er einstök og mikilvæg auðlind en þarfnast jafnframt verndar. Vatnasvæði landanna eru mikilvæg út frá vistfræðilegu, félagslegu og efnahagslegu sjónarhorni. Náttúra Norðurlanda er verðmæt í sjálfu sér og þau verðmæti verður að standa vörð um. Á Norðurlöndum er efnisneysla og magn úrgangs það mesta í heiminum. En löndin hafa alla burði til að geta tryggt náttúruna fyrir komandi kynslóðir. Með öflugri tæknigetu, velferðarkerfum og háu menntunarstigi eru við einkar vel í stakk búin fyrir brýn umskipti í átt að sjálfbærum samfélögum þar sem við förum vel með auðlindir okkar og verndum líffræðilega fjölbreytni. Að mati Nordic Civ eru hin rótgrónu borgaraleg samfélög á Norðurlöndum styrkur og mikilvægur samstarfsaðili í þeirri vinnu að efla norrænt samstarf og gera Norðurlönd að viðnámsþolnu svæði.

Áherslur í starfinu fram undan:

  • Hvernig borgaralegt samfélag getur hraðað grænum umskiptum með rótfestingu og fræðslu
    Vinnan að grænum umskiptum krefst samstarfs og breiðrar þátttöku. Borgaralegt samfélag aflar þekkingar og sérfræðikunnáttu í störfum sínum sem þarf að nýta með virkari hætti við mótun stefnu og hvata. Annað mikilvægt hlutverk borgaralegs samfélags er að móta og miðla stefnuáætlunum á ýmsum stigum og ná út til viðkvæmra hópa.
  • Inngildandi umskipti og skýr verkaskipting
    Ábyrgðin á umskiptum í loftslagsmálum er á margra herðum. Einstaklingurinn ber ábyrgð á ákvörðunum og neyslu sem hefur áhrif á samfélagið og loftslagið. Um leið ráðast umskiptin að miklu leyti af því hvort tekst að skipuleggja stór kerfi sem einstaklingurinn hefur lítinn möguleika á að hafa áhrif á. Ábyrgðin á þessum kerfisbreytingum hvílir á herðum stjórnmálafólks og stjórnvalda. Græn og endurnýjanleg Norðurlönd kalla einnig á skýra og inngildandi framkvæmdaáætlun fyrir umskipti frá jarðefnaeldsneyti í græn og endurnýjanleg Norðurlönd, til að varðveita okkar góðu samfélög og náttúruverðmæti.
  • Norðurlöndin eiga að vera í broddi fylkingar í alþjóðlegu starfi að réttlátum umskiptum í loftslags­málum.
    Norrænt samstarf á að bera vott um öfluga framtíðarsýn og lausnir sem vernda í senn náttúruna og lífsaðstæður fólks í réttlátum umskiptum. Þetta á einnig að endurspeglast í samskiptum Norðurlanda við aðrar þjóðir heims. Norðurlönd hafa forsendur til að setja alþjóðlega staðla fyrir réttlát umskipti í loftslagsmálum og eiga að vera í broddi fylkingar í þeim efnum.

Tillögur:

  • Stofnuð verði norræn stefnuáætlana- og samstarfsstofnun til verndar náttúrusvæðum með skýra áherslu á vatnasvæði, með það starfsumboð að vernda líffræðilega fjölbreytni og samfélag og menningu tengda henni.
  • Gerð verði framkvæmdaáætlun fyrir umskipti Norðurlanda frá jarðefnaeldsneyti í græna og endur­nýjanlega valkosti.
  • Efla hvata og þróa áfram verðmætakeðjur sem styðja raunverulega hringrás í lokuðum kerfum, sem lágmarka úrgang og tryggja besta hugsanlegu auðlindanýtni og velsæld.
  • Auka starf til verndar og eflingar á þekkingu frumbyggja og tengsla þeirra við náttúruna.

 

Umsögn Nordic Civ um samkeppnishæf Norðurlönd

Nordic Civ gengur út frá því að þátttakendur í borgaralegu samfélagi gegni lykilhlutverki í að skapa samkeppnishæf, samþætt og sjálfbær Norðurlönd. Hægt er að efla samkeppnishæfni Norðurlanda með samstarfi á sviði menntunar, rannsókna, nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Góður hagvöxtur er lykilatriði hvað þetta varðar. Þörf er á skýrum skilaboðum stjórnmálafólks til stuðnings Framtíðarsýnar okkar fyrir 2030. Vinnan fram undan krefst einnig aðgerða og úrræða frá norrænum stjórnvöldum.

Áherslur í starfinu fram undan:

  • Stafræn þróun er lykilatriði til að styrkja símenntun og samþættingu á Norðurlöndum.
    Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða á sviði menntunar í stafrænni væðingu og grænum umskiptum. Það á að vera auðvelt fyrir einstaklinga að söðla um á vinnumarkaði og þá er símenntun mikilvæg. Norðurlöndin eiga að vera áfram leiðandi í stafrænni þróun og í framtíðinni þurfa stafræn kerfi landanna að ná yfir landamæri og vel samhæf.
  • Fjárfestingar og aukinn hreyfanleiki styrkir stöðu Norðurlanda gagnvart umheiminum.
    Norðurlöndin eiga að halda sterkri stöðu sinni og efla hana enn frekar með því að halda áfram að laða til sín ný fyrirtæki og fjárfestingar. Lykilatriðið er að Norðurlöndin verði leiðandi á sviði þróunar og sjálf­bærni. Auka þarf framboð á vinnuafli og hreyfanleika almennings milli Norðurlanda. Mikilvægt er að norrænt samstarf leysi stjórnsýsluhindranir og að sameiginlegar almannavarnir séu fyrir hendi. Tryggja verður færniframboð til framtíðar með aðgerðum og fjármagni til menntunar. Einnig þarf að kortleggja færni og þarfir til framtíðar og tryggja gott jafnvægi þar á milli, ekki síst í störfum sem tengjast grænum umskiptum.
  • Samhæfðar almannatryggingar og aukinn hreyfanleiki fólks með starfsmenntun stuðlar að samþættingu milli landanna.
    Eigi Norðurlönd að verða samþætt svæði á heimsmælikvarða fyrir 2030 nægir ekki að skapa hreyfan­leika á vinnumarkaði heldur þarf einnig að samhæfa almannatryggingar landanna. Samhæfa þarf undirstöðuatriði í starfsmenntun til þess að fólki sem velur verkmenntun eða framhaldsmenntun til að afla sér starfsréttinda sé frjálst að flytja sig um set og starfa hvar sem er á Norðurlöndum. Hér verða norræn stjórnvöld að leysa stjórnsýsluhindranir og efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og menntastofnanir um hvernig vinna megi áfram að þessum málum.
  • Mikill metnaður á vinnumarkaði
    Í Framtíðarsýn okkar fyrir 2030 þarf að hækka rána og setja sér markmið um jafnréttissamfélag með jöfn laun fyrir alla Norðurlandabúa óháð kyni og að kynferðisleg áreitni á vinnustöðum verði ekki liðin. Þá þarf að vera fyrir hendi samstarfslíkan til að sporna gegn arðráni á erlendu vinnuafli á Norður­löndum.
  • Flýta verður fyrir grænum umskiptum á Norðurlöndum
    Til þess að Norðurlöndin verði sjálfbært svæði á heimsmælikvarða þarf að herða á starfinu að grænum umskiptum. Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld eigi samtal innan ramma norræns samstarfs. Á breiðari vettvangi teljum við að Norræna ráðherranefndin þurfi að skapa umræðu­vettvang þar sem viðeigandi aðilar á Norðurlöndum fái tækifæri til að ræða saman og bregðast við áskorunum sem fylgja til að mynda grænum umskiptum.

Tillögur:

  • Norræna ráðherranefndin efli samstarf á vinnumarkaði á Norðurlöndum með því að skapa norrænt líkan fyrir starfsréttindi til að greiða fyrir hreyfanleika til starfa og búsetu í löndunum og kanni hvort hægt sé að skapa samstarfslíkan til að sporna gegn arðráni á erlendu vinnuafli á Norðurlöndum.
  • Beini fleiri úrræðum að því að auka þekkingu á því hvernig stafræn þróun getur greitt fyrir grænum umskiptum hjá ýmsum þjóðfélagshópum. Efli einnig samstarf við borgaralegt samfélag í þeim efnum.
  • Fjölga fundarvettvöngum í norrænu samstarfi í þeim tilgangi að efla samtalið milli aðila um margslungin málefni.
  • Norræna ráðherranefndin þarf að setja sér virka áætlun til að tryggja samtal og samstarf við samtök innan Nordic Civ eftir 2024.
  • Bæti við markmiði um jafnréttissamfélög með jöfn laun fyrir alla Norðurlandabúa óháð kyni og markmiði um að kynferðisleg áreitni á vinnustöðum verði ekki liðin.

Umsögn Nordic Civ um félagslega sjálfbær Norðurlönd

Norðurlöndin hafa sérstöðu í heiminum með sterk gildi og hefð fyrir lýðræði, hlutdeild og meðákvörðunar­rétti íbúanna. Í meira en hundrað ár hafa þessi gildi skapað samheldni og traust milli fólks en einnig öflugan félagsauð sem hefur byggt upp öflug velferðarsamfélög og einstaka þjóðfélagsgerð á Norðurlöndum.

„Saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir“, segir í almennu markmiði um félagslega sjálfbær Norðurlönd 2030. Lýðræðisleg, opin jafnréttissamfélög Norðurlanda, mikið traust og samheldni meðal íbúanna, velferð allra íbúa og enginn er skilinn út undan í grænum umskiptum.

Áherslur í starfinu fram undan:

  • Íbúar Norðurlanda eiga að geta tekið þátt í lýðræðisstarfi og að hlustað sé á raddir þeirra.
    Félagslega sjálfbær Norðurlönd er ekki bara markmið í sjálfu sér. Öflugur félagsauður, áhugasamir og virkir einstaklingar og lifandi borgaralegt samfélag ræður úrslitum ef framtíðarsýn um sjálfbært, samkeppnishæft og samþætt svæði á heimsmælikvarða á að verða að veruleika fyrir 2030. Eigi framtíðarsýnir að skapa raunverulegar breytingar verður fólki að finnast það eiga hlutdeild í og vera þátttakendur í samfélagsþróuninni.
  • Mikilvægt að fjárhagsleg úrræði verði áfram í forgang fyrir félagslega sjálfbær Norðurlönd
    Stærsta og mikilvægasta auðlind samfélagsins eru áhugasamir og virkir íbúar. Það er áhugi fólksins og athafnir þess eru undirstaða þess að umskipti í samfélaginu geti átt sér stað. Tryggja þarf áfram­haldandi fjármagn í félagsleg verkefni eigi græn umskipti ekki að bitna á félagslega og/eða efnahags­lega varnarlausum hópum, einnig í virkt jafnréttisstarf eða aðgerðir gegn kynjaskiptingu í samfélögum Norðurlanda, en þessir þættir skera úr um hvort takist að láta framtíðarsýnina verða að veruleika.
  • Þegar íbúar Norðurlanda bera saman reynslu sína eykst skilningur milli þjóða og traust til lýðræðislegra stofnana.
    Sá ásetningur að tryggja norrænan ávinning af aðgerðum sem gripið er til á svæðinu er háður því að mikið traust ríki meðal íbúanna. almenningur

Tillögur:

  • Fjárhagsáætlun norræns samstarfs setji áfram félagslega sjálfbær Norðurlönd í forgang.
  • Efla þarf traust milli fólks en einnig milli borgaralegs samfélags og ríkis. Eigi okkur að takast að skapa saman græn umskipti á Norðurlöndum verður að bjóða fólk til leiks og raunverulegrar þátttöku í þróun samfélagsins. Þörf er á nýju skipulagi til þess að þetta verði raunin.
  • Norrænt samstarf einskorðast ekki við samstarf milli ráðuneyta og stjórnvalda. Borgaralegt samfélag, fræðasamfélagið, atvinnulífið, almenningur og opinberi geirinn þurfa að taka höndum saman til að ráða við umskipti samfélagsins.
 

Um ritið

Stefnan tekin á sjálfbær og samþætt Norðurlönd

Milliúttekt á framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Framtíðarsýn okkar 2030 á tímabilinu 2021–2024

PolitikNord 2022:723
ISBN 978-92-893-7381-4 (PDF)
ISBN 978-92-893-7382-1 (ONLINE)
http://doi.org/10.6027/politiknord2022-723

© Norræna ráðherranefndin 2022

1. útgáfa, 31.10.2022

Umbrot: Louise Jeppesen
Myndir: NordGen, Norden.org, Nordic Innovation, Visit Iceland, Lise Josdal, Håkon Sandmo Karlsen

 

Norrænt samstarf

Norræna samstarfið er eitt umfangsmesta svæðissamstarf í heimi. Samstarfið byggist á legu landanna, sameiginlegri sögu þeirra og menningu. Að samstarfinu koma Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Norræna samstarfið er pólitískt, efnahagslegt og menningarlegt og lætur muna um sig í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi. Löndin stuðla sameiginlega að öflugum Norðurlöndum í öflugri Evrópu.

Með norrænu samstarfi er hagsmuna svæðisins gætt og norræn gildi efld í hnattrænu samhengi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda og skipa þeim meðal þeirra svæða í heiminum þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.

Norræna ráðherranefndin
Nordens Hus
Ved Stranden 18
DK-1061 Kaupmannahöfn
www.norden.org

Lesa fleiri norræn rit: www.norden.org/is/utgafur