logo
menu image

  • Forside
  • Innhold
  • Formáli
  • Samantekt
  • Traustur stuðningur við norrænt samstarf
  • Vonbrigði varðandi samstarfið í kringum faraldurinn
  • Á hvaða sviðum eiga norrænu löndin að vinna saman?
  • Inngangur
  • Eldri rannsóknir á afstöðu til norræns samstarfs
  • Aðferð
  • Föst tengsl við annað norrænt land
  • Traustur stuðningur við norrænt samstarf
  • Samstarfið í kringum faraldurinn olli vonbrigðum
  • Á hvaða sviðum eiga norrænu löndin að vinna saman?
  • Niðurstöður í löndunum
  • Danmörk
  • Finnland
  • Ísland
  • Noregur
  • Svíþjóð
  • Færeyjar
  • Grænland
  • Álandseyjar
  • Ályktanir
  • Traustur stuðningur við norrænt samstarf – vonbrigði með samstarf í kringum faraldurinn
  • Öryggismál, félagslegt öryggi og loftslagsmál
  • Munur á milli þjóðfélagshópa
  • Viðauki 1: Svör við spurningum á Norðurlöndum í heild og eftir löndum
  • Viðauki 2: Aðferð
  • Viðauki 3: Heimildir
  • Um ritið

MENU

 
 
 

Formáli

Miklu máli skiptir fyrir Norrænu ráðherranefndina og Norðurlandaráð að vita hvernig almenningur lítur á norrænt samstarf. Því létum við framkvæma spurningakönnun um sýn almennings á samstarfið. Könnunin náði til 3400 þátttakenda á öllum Norðurlöndum: Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum.

Við höfum áður látið vinna viðlíka kannanir og könnunin í ár innihélt að hluta til eldri spurningar en það gerir okkur kleift að fylgjast með þróun yfir tíma. Einnig höfum við bætt við nokkrum spurningum sem lúta að málefnum líðandi stundar og sameiginlegum úrlausnarefnum norrænu landanna.

Könnunin var lögð fyrir í maí til júlí 2021 þegar norrænu löndin voru að komast út úr kórónuveirukrísunni. Faraldurinn hafði mikinn kostnað í för með sér, jafnt fyrir samfélagið í heild sem einstaklinga. Ekki síst reyndi hann á hið norræna samstarf. Könnunin gefur tilefni til íhugunar varðandi þróun norræns samstarfs til þess að ná markmiðum Framtíðarsýnar okkar 2030 um að Norðurlöndin verði græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær.

Niðurstöðurnar sýna að íbúarnir styðja norrænt samstarf. Margt fólk væntir meira af því. Það er af hinu góða og er okkur hvatning til að þróa samstarfið áfram. Þó urðu margir fyrir vonbrigðum með hvernig til tókst í kórónuveirufaraldrinum. Væntingarnar voru miklar en urðu ekki að veruleika. Við getum lært af því.

Almenningur vill fyrst og fremst sjá norrænt samstarf um öryggismál, félagslegt öryggi og loftslagsmál. Áherslur okkar beinast nú þegar að samstarfi um loftslags- og umhverfismál. Við erum einnig að skoða hvernig við getum bætt samstarfið varðandi kreppur sem að okkur steðja.

Þótt flestir Norðurlandabúar hafi stutt þær ferðatakmarkanir sem gripið var til í heimsfaraldrinum sýnir könnunin að margir meta frjálsa för á Norðurlöndum mikils. Það getur virst mótsagnakennt en lýsir um leið hversu mikilvæg frjáls för er fyrir íbúa Norðurlanda.

Skýrsluna skrifaði Truls Stende hjá greiningar- og gagnadeild Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún kemur út í ritröð greiningar- og tölfræðisviðs sem fjallar um málefni líðandi stundar sem eru mikilvæg út frá í norrænu sjónarhorni. Analyse Danmark framkvæmdi könnunina í samstarfi við Lauritzen Consulting.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
Mynd: Kristian Septimus Krogh

 

Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs
Mynd: Charlotte de la Fuente

Október 2021

Paula Lehtomäki
framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Kristina Háfoss
framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs

 

Samantekt

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa unnið spurningakönnun um afstöðu til norræns samstarfs. Könnunin náði til 3400 manns í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Í heildarniðurstöðum fyrir Norðurlönd eru löndin vegin í samræmi við íbúafjölda. Könnunin var lögð fyrir í maí–júlí 2021.

Einhverjar spurningarnar hafa verið lagðar fyrir áður (flestar árið 2017) svo hægt er að sjá þróun yfir tíma. Aðrar spurningar eru nýjar í ár.

Traustur stuðningur við norrænt samstarf

Norrænt samstarf nýtur víðtæks stuðnings meðal almennings.

  • Í könnun þessa árs kemur fram að 86 prósent telja að gott samstarf milli Norðurlandanna sé mikilvægt eða mjög mikilvægt. Það eru lítillega færri en árið 2017 þegar 92 prósent voru þessarar skoðunar.
  • Þá óska 60 prósent eftir auknu samstarfi milli norrænu landanna, 32 prósentum þykir staðan góð eins og hún er nú og aðeins 1 prósent vill að samstarfið sé minna en nú. Árið 2017 voru það 8 prósent fleiri (68 prósent) sem vildu sjá meira samstarf.
  • Þeim hefur fækkað sem telja að alþjóðleg þróun síðustu ára hafi aukið mikilvægi norræns samstarfs – árið 2017 voru 68 prósent þeirrar skoðunar en færri árið 2021 eða 55 prósent.
Mynd: Rob Curran/Unsplash

Vonbrigði varðandi samstarfið í kringum faraldurinn

Rannsóknin innihélt margar spurningar um norrænt samstarf í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru og þær ferðatakmarkanir sem innleiddar voru á Norðurlöndum.

  • Aðeins rúmlega einum af hverjum tíu þykir norrænu löndin hafa unnið vel eða mjög vel saman í kórónuveirufaraldrinum. Næstum því helmingnum þykir samstarfið hafa gengið illa eða mjög illa.
  • Þeir sem þótti samstarfið hafa gengið illa eða mjög illa voru spurðir að því að hverju löndin hefðu getað unnið betur að saman. Flestir (65 prósent) nefndu samræmingu smitvarnaraðgerða. 32 prósent nefndu að norrænu löndin hefðu átt að einfalda hlutina fyrir þá sem búa og/eða vinna á landamærasvæðum. Álíka mörgum þótti að löndin hefðu átt að taka meira tillit hvert til annars við ákvarðanatöku innanlands.
  • 60 prósent töldu þær ferðatakmarkanir sem innleiddar voru á Norðurlöndum viðeigandi. Um það bil jafn margir töldu að halda hefði átt landamærunum meira opnum (18 prósent) og töldu að halda hefði átt þeim meira lokuðum (16 prósent).
  • Erfiðara varð að ferðast yfir landamæri norrænu landanna í faraldrinum. Tæplega tveir af hverjum tíu sögðu að þetta hefði gert líf þeirra aðeins eða töluvert erfiðara. Rúmlega sjö af hverjum tíu sögðu að þetta hefði ekki haft nein áhrif.
  • Spurningunni um hvernig þróunin í kórónuveirufaraldrinum hefði haft áhrif á afstöðu fólks til að flytja til, ferðast reglulega á milli eða reka fyrirtæki í öðru norrænu landi í framtíðinni svöruðu rúmlega átta af hverjum tíu að þetta hefði ekki haft áhrif eða að þau hefðu enga afstöðu til þess. Einn af hverjum tíu er neikvæðari í þeirri afstöðu.
  • Tæplega helmingur telur að eftir fimm ár verði fleiri norrænir borgarar sem búa, vinna eða stunda nám í öðru norrænu landi. Tæplega einn af hverjum tíu telur að það verði færri. Til lengri tíma litið virðast ferðatakmarkanirnar því ekki hafa dregið úr trúnni á norræna samþættingu.

Á hvaða sviðum eiga norrænu löndin að vinna saman?

Þátttakendur fengu einnig nokkrar spurningar um það um hvað norrænt samstarf ætti að snúast. Margar spurningarnar hafa verið lagðar fyrir áður í eldri könnunum.

  • Spurt var hvað skipti mestu máli fyrir nánari tengsl milli norrænu landanna og svaraði rúmlega þriðjungur því til að pólitískt samstarf væri mikilvægast. Tveir af hverjum tíu svöruðu aukin viðskipti milli landanna og lítillega færri að auka ætti tilfinningu fyrir því að vera norræn. Sá valmöguleiki sem fæstir völdu var að fleiri ynnu og stunduðu nám í öðrum norrænum löndum.
  • Þegar spurt var hvert væri mikilvægasta pólitíska samstarfsmálefnið á Norðurlöndum töldu flestir að það væri barátta gegn glæpum þvert á landamæri. Þar á eftir komu umhverfis- og loftslagsmál, varnar- og öryggismál og hættustjórnun (til dæmis í COVID-19 faraldrinum). Það síðastnefnda var nýtt í könnun þessa árs. Hin samstarfssviðin þrjú voru einnig í efstu sætunum í fyrri könnunum.
  • Það sem talið var til helstu kosta við norræna samvinnu var að Norðurlönd eignist sterkari rödd á alþjóðavettvangi (47 prósent nefndu þetta) og að auðveldara verði fyrir íbúa að nýta sér öll Norðurlöndin sem vinnu-, náms- og búsetusvæði (42 prósent). Þetta er breyting frá árinu 2017 þegar þessir tveir valmöguleikar voru einnig oftast valdir, en í öfugri röð.
  • Þegar þátttakendur voru beðnir um að leiða hugann að daglegu lífi sínu voru þessi samstarfssvið álitin mikilvægust:
    1. Að geta ferðast óhindrað yfir landamæri án landamæraeftirlits (27 prósent).
    2. Hvernig skatta-, heilbrigðis- og eftirlaunamál eru leyst, og önnur opinber þjónusta, ef flutt er innan Norðurlandanna eða unnið í öðru norrænu landi (17 prósent).
    3. Að geta búið og unnið hvar sem er á Norðurlöndunum (16 prósent). Ef borið er saman við niðurstöðurnar 2017 voru það fleiri sem völdu kostinn að geta ferðast óhindrað yfir landamæri án landamæraeftirlits.
  • Í tilefni af því að á árinu 2021 eru 30 ár liðin frá því Norræna ráðherranefndin opnaði skrifstofur í Eystrasaltsríkjunum var einnig spurt um mikilvægi þess að eiga í góðu samstarfi við Eistland, Lettland og Litháen. Næstum því helmingur taldi það mikilvægt eða mjög mikilvægt.
 

Inngangur

Miklu máli skiptir fyrir Norrænu ráðherranefndina og Norðurlandaráð að vita hvað almenningi finnst um norrænt samstarf enda vinna þau þegar öllu er á botninn hvolft fyrir íbúa á svæðinu. Því unnu ráðið og ráðherranefndin spurningakönnun fyrir allan almenning á Norðurlöndum um afstöðu til norrænnar samvinnu. Niðurstöðurnar eru kynntar í þessari skýrslu, bæði fyrir Norðurlönd í heild og einnig sérstaklega fyrir hvert land fyrir sig; Danmörku, Finnland, Ísland, Noreg, Svíþjóð, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar.

Könnunin innihélt nokkrar spurningar sem áður hafa verið lagðar fyrir en það gerir það kleift að fylgjast með þróuninni yfir tíma. Þessa spurningar lúta aðallega að því hvort almenningur styðji samstarfið og um hvað samstarfið eigi að snúast. Þá höfum við bætt við nokkrum nýjum spurningum, m.a. varðandi norræna samvinnu í kórónuveirukrísunni og þær ferðatakmarkanir sem settar hafa verið á Norðurlöndum.

Eldri rannsóknir á afstöðu til norræns samstarfs

Rannsóknir á afstöðu almennings á Norðurlöndum til norrænnar samvinnu hafa verið gerðar með óreglulegu millibili. Síðasta rannsókn var unnin á árunum 2019/2020 af Norrænu ráðherranefndinni: Lýðræði og þátttaka í loftslagsmálum á Norðurlöndum: Sömu markmið, ólíkar lausnir. Auk þátttöku í loftslags- og lýðræðismálum laut rannsóknin einnig að því hvað almenningur vill sjá samvinnu um. Nokkrum árum áður stóðu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin að rannsókn á afstöðu til norræns samstarfs, hver grundvöllur samstarfsins væri og á hvaða sviðum samstarfið væri mikilvægast. Niðurstöður voru kynntar í skýrslunni Dýrmætt samstarf árið 2017.
Nokkrar spurningar úr þeirri könnun voru endurteknar að þessu sinni.

Fyrir árið 2017 þurfum við að fara alveg aftur til ársins 2008 til að finna álíka rannsókn: Hvad er vigtigt i Norden? – Nordboerne om det nordiske samarbejde (Hvað skiptir máli á Norðurlöndum? – Viðhorf Norðurlandabúa til norræns samstarfs). Henni var ætlað að varpa ljósi á þekkingu Norðurlandabúa á norrænu samstarfi og á það hvaða svið samstarfsins þeir teldu mikilvæg. Árið 2006 vann Norðurlandaráð rannsókn í sama tilgangi: Nordisk samarbejde – Nordiske borgere om nordisk samarbejde. En opinionsundersøgelse i Finland, Danmark, Island, Norge og Sverige (Norrænt samstarf – Almenningur á Norðurlöndum um norrænt samstarf. Viðhorfskönnun í Finnlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi). Þessi rannsókn fylgdi eftir svipaðri rannsókn sem unnin var árið 1993: Nordens folk om nordiskt samarbete – en attitydundersökning i Sverige, Norge Danmark, Finland och Island våren 1993 (Norrænar þjóðir um norrænt samstarf – könnun á viðhorfum í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Íslandi vorið 1993). Árið 2009 var gerð önnur og afmarkaðri rannsókn sem byggð var á útvöldum hagsmunaaðilum. Þá hefur Norræna félagið framkvæmt svipaðar rannsóknir.

Auk þess að innihalda nokkrar spurningar úr rannsóknunum 2017 og 2019/2020 innihélt þessi rannsókn nokkrar af sömu spurningum og árin 1993, 2006 og 2008 sem gerir það kleift að fylgjast með þróuninni mörg ár aftur í tímann.

Mynd: Simon Paulin/imagebank.sweden.se

Aðferð

Analyse Danmark hafði yfirumsjón með framkvæmd könnunarinnar í samstarfi við Lauritzen Consulting að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Analyse Danmark tók viðtölin í Danmörku og á Grænlandi og PFM Research tók viðtölin í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og á Álandseyjum. Á Íslandi tók MMR viðtölin og í Færeyjum Analysa.fo.

Alls voru tekin viðtöl við 3400 íbúa, 16 ára eða eldri, um viðhorf þeirra til norræns samstarfs. Þátttakendur voru flokkaðir í fjóra hópa á grundvelli aldurs.
Vísað er til þátttakenda í hópnum 16–34 ár sem „ungs fólks“. Viðtöl voru tekin við 600 íbúa í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, 400 íbúa á Íslandi og 200 íbúa í Færeyjum og á Grænlandi og Álandseyjum. Viðtölin voru tekin símleiðis í maí til júlí 2021.

Þegar við greinum frá áliti almennings á Norðurlöndum í heild um tiltekin mál vega niðurstöður sumra landanna meira en annarra. Það er vegna þess að niðurstöður landanna eru vegnar í samræmi við íbúafjölda. Þannig hefur Svíþjóð mest áhrif á heildarniðurstöðuna á meðan Ísland hefur lítil áhrif (og hið sama á við um Færeyjar, Grænland og Álandseyjar). Þetta er gert til að geta kannað viðhorf almennings á Norðurlöndum í heild og þá er eðlilegt að atkvæði allra íbúa vegi jafnt. Niðurstöðurnar eru einnig vegnar á grundvelli kyns og aldurs. Í viðaukanum um aðferð má lesa nánar um það hvernig löndin eru vegin og um skekkjumörk rannsóknarinnar. Varðandi nánari spurningar um aldur og kyn er hægt að hafa samband við skrifstofu framkvæmdastjóra á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Föst tengsl við annað norrænt land

Við vildum athuga hvort þeir sem hafa föst tengsl við annað norrænt land hefðu aðra afstöðu til norræns samstarfs. Rétt innan við fjórir af hverjum tíu sögðust hafa slík tengsl og af þeim voru það flestir sem sögðust oft ferðast til annars norræns lands:

Ég ferðast oft til annars norræns lands 32%
Ég er flutt(ur) eða ráðgeri að flytja til annars norræns lands 4%
Ég bý í einu Norðurlandanna og vinn í öðru norrænu landi 3%
Ég bý í einu Norðurlandanna og rek fyrirtæki í öðru norrænu landi 1%
Ekkert af ofangreindu63%

Tafla 1: Á eitthvað af eftirtöldum staðhæfingum við um þig? Þú skalt hugsa um eðlilegar aðstæður án kórónuveirutakmarkana.

Fjallað er um hóp þeirra sem hafa föst tengsl við annað norrænt land þegar það á við.

 

Traustur stuðningur við norrænt samstarf

Rannsóknin innihélt þrjár spurningar sem snerust um stuðning almennings við norrænt samstarf. Heildarniðurstöður sýna að samstarfið nýtur trausts stuðnings. Hann er ögn minni en árið 2017.

Næstum því níu af hverjum tíu telja mikilvægt eða mjög mikilvægt að góð samvinna sé á milli Norðurlandanna. Sjá mynd 1.

Mynd 1: Hversu mikilvægt finnst þér að það sé góð samvinna á milli Norðurlandanna? Svaraðu með tölu á bilinu 1 til 5 þar sem 1 þýðir „alls ekki mikilvægt“ og 5 þýðir „mjög mikilvægt“.

Mynd: Christiaan Dirksen/norden.org

Eins og sjá má eru það aðeins færri árið 2021 en 2017 sem telja samstarfið mikilvægt eða mjög mikilvægt. Í ár eru 86 prósent þeirrar skoðunar en fyrir fjórum árum voru það 92 prósent.

Þegar litið er á niðurstöður hvers lands fyrir sig má sjá að í flestum þeirra telja á milli 85 og 95 prósent samstarfið vera mikilvægt eða mjög mikilvægt. Grænland sker sig mjög úr. Þar eru aðeins 37 prósent á þessari skoðun. Stuðningurinn er einnig minni í Finnlandi. Þar er 41 prósent þeirrar skoðunar að samstarfið sé mjög mikilvægt, samanborið við um 60 prósent eða meira í flestum hinna landanna. Þó telja 80% í Finnlandi að gott samstarf sé mikilvægt eða mjög mikilvægt en það er litlu minna en norræna meðaltalið sem er 86 prósent.

Ungt fólk (16–34 ára) styður einnig norrænt samstarf en er ekki eins áhugasamt og þau sem eldri eru. Meðal ungs fólks eru 81 prósent sammála því að gott norrænt samstarf sé mikilvægt eða mjög mikilvægt, samanborið við 86% meðal almennings alls. Ef aðeins er litið til þeirra sem svara „Mjög mikilvægt“ verður munurinn meiri:

Samtals16–34 ára35–49 ára50–64 ára65 ára og eldri
57%45%56%63%68%

Tafla 2: Hlutfall mismunandi aldurshópa sem telur góða samvinnu á milli Norðurlandanna mjög mikilvæga.

Aðeins 45 prósent ungs fólks telja norræna samvinnu „mjög mikilvæga“, samanborið við 57 prósent meðal almennings í heild. Því eldra sem fólk er, þeim mun líklegra er að það telji samstarfið mjög mikilvægt. Þetta er ekki nýtt, sama mynstur sást í rannsókninni 2017.

Stuðningur við norrænt samstarf er ögn meiri hjá þeim sem hafa föst tengsl við annað norrænt land (sjá kaflann um aðferð í innganginum) en hjá öðrum. Í þessum hópi eru 6–7 prósentum fleiri þeirrar skoðunar að norrænt samstarf sé mjög mikilvægt og vilja sjá aukið samstarf.

Margt fólk á meðal almennings á Norðurlöndum vill meira norrænt samstarf. Sex af hverjum tíu Norðurlandabúum segjast vilja sjá meira samstarf á milli norrænu landanna, rúmlega þrír af hverjum tíu telja það hæfilegt eins og það er og aðeins eitt prósent telur að löndin ættu að vinna minna saman. Svipuð spurning hefur þrisvar áður verið lögð fyrir, allt aftur til 1993, svo hægt er að fylgjast með þróuninni næstum því 30 ár aftur í tímann:

Mynd 2: Myndir þú vilja meiri eða minni samvinnu á milli Norðurlandanna eða er hún hæfileg eins og hún er?

Athugasemd: Spurningarnar sem lagðar voru fyrir 2017 og 2021 voru að efninu til eins og 1993 og 2006 en orðalagið var öðruvísi. Kannanirnar voru að sama skapi öðruvísi upp settar árin 1993 og 2006.

Hlutfall þeirra sem vilja meiri samvinnu náði hámarki í 74 prósentum árið 1993 og féll svo niður í 62 prósent 2006 áður en það hækkaði upp í 68 prósent 2017. Árið 2021 er það komið niður í 60 prósent sem er lægsta hlutfallið hingað til.

Svíþjóð og Álandseyjar skera sig úr sem þau lönd þar sem flestir vilja sjá aukið samstarf en 73 prósent í Svíþjóð eru þeirrar skoðunar og 77 prósent á Álandseyjum.

Aðeins fleiri karlar en konur telja að meira samstarf eigi að vera á milli norrænu landanna (65 prósent karla og 56 prósent kvenna). Hér á það einnig við að hinir eldri eru áhugasamari en ungt fólk og næstum því 70 prósent þeirra sem eru 65 ára eða eldri vilja sjá aukið samstarf, samanborið við rúmlega 50 prósent þeirra sem eru á aldrinum 16–34 ára.

Liðlega helmingur Norðurlandabúa (55 prósent) telur að þróun mála á alþjóðavettvangi síðasta árið hafi gert það að verkum að norræn samvinna virðist mikilvægari:

Mynd 3: Hefur þróun mála á alþjóðavettvangi síðustu ár gert það að verkum að norræn samvinna virðist...

Hér er um greinilega lækkun frá rannsókninni 2017 að ræða en þá voru 68 prósent á þessari skoðun. Margt getur skýrt þessa lækkun. Þegar rannsóknin var gerð árið 2017 virtust alþjóðamál í meira uppnámi: Bretland hafði tekið ákvörðun um að ganga úr ESB og Bandaríkin beindu athygli sinni að bandarískum hagsmunum. Minna jafnvægi var á alþjóðavettvangi. Því kann að vera að fleiri hafi þótt þróun mála á alþjóðavettvangi auka mikilvægi norrænnar samvinnu þá en árið 2021.

Einkum eru það íbúar Svíþjóðar, Færeyja og Álandseyja sem telja þróun mála á alþjóðavettvangi hafa gert það að verkum að norræn samvinna virðist mikilvægari, og flestir eru það á Álandseyjum þar sem næstum því sjö af hverjum tíu völdu þennan valmöguleika.

 

Samstarfið í kringum faraldurinn olli vonbrigðum

Norrænt samstarf í tengslum við kórónuveirukrísuna var nýtt þema í könnun ársins. Viðtölin fóru fram í maí til júlí 2021 þegar bólusetningar voru hafnar samkvæmt áætlunum í norrænu löndunum og á meðan ýmsar ferðatakmarkanir voru enn í gildi.

Flestir Norðurlandabúar eru á þeirri skoðun að samstarf norrænu landanna í tengslum við kórónuveirufaraldurinn hafi ekki verið gott. Sjá mynd 4:

Mynd 4: Hversu vel eða illa finnst þér Norðurlöndin hafa unnið saman með tilliti til kórónuveirufaraldursins? Svaraðu með tölu á bilinu 1 til 5 þar sem 1 þýðir „mjög illa“ og 5 þýðir „mjög vel“.

Mynd: Ricky Molloy/norden.org

Aðeins 13 prósent svöruðu því til að norrænu löndin hefðu unnið vel eða mjög vel saman og næstum því helmingur taldi þau hafa unnið illa eða mjög illa saman.

Nokkuð mikill munur var á milli landa á því hversu vel þótti hafa tekist til við samstarfið. Mest voru vonbrigðin í Svíþjóð og á Álandseyjum þar sem 55 og 66 prósent töldu samstarfið hafa verið lélegt eða mjög lélegt, samanborið við 46 prósent á Norðurlöndum í heild. Jákvæðastir voru íbúar á Grænlandi þar sem 60 prósent töldu samstarfið hafa verið gott eða mjög gott.

Hjá íbúum með föst tengsl við annað norrænt land voru það aðeins fleiri sem töldu að samstarfið hefði verið lélegt eða mjög lélegt, eða 50 prósent, en hjá almenningi í heild þar sem 44 prósent voru á þeirri skoðun.

Þeir sem svöruðu því til að samstarfið hefði gengið illa eða mjög illa fengu í kjölfarið spurningu um það að hverju Norðurlönd hefðu getað unnið betur saman. Sjá mynd 5:

Mynd 5: Hverju finnst þér að Norðurlöndin hefðu getað unnið betur saman að með tilliti til kórónuveirufaraldursins? (Hægt var að velja fleiri en eitt svar.)

Að flestra mati hefðu norrænu löndin átt að samræma smitvarnaraðgerðir betur.

Næsta spurning fjallaði um það hvað fólki fannst um hömlur á komur inn í land sem innleiddar voru á Norðurlöndum í kórónuveirufaraldrinum. Flestir studdu þær. Sjá mynd 6:

Mynd 6: Í kórónuveirufaraldrinum voru settar fleiri hömlur á komur inn í land á milli Norðurlandanna sem hefur gert það að verkum að erfiðara er að ferðast á milli þeirra. Hvað finnst þér um það?

Sex af hverjum tíu töldu það hæfilegar aðgerðir að setja hömlur á komur inn í land. Næstum því jafn margir töldu að átt hefði að halda landamærunum meira opnum (18 prósent) og töldu að halda hefði átt þeim meira lokuðum (16 prósent). Í Svíþjóð og á Álandseyjum var að finna hæst hlutfall þeirra sem töldu að halda hefði átt landamærunum opnari (rétt innan við þrír af hverjum tíu voru þeirrar skoðunar í þessum löndum) en á Íslandi var hæst hlutfall þeirra sem töldu að halda hefði átt þeim meira lokuðum (34 prósent).

Margir þeirra sem hafa föst tengsl við annað norrænt land töldu að halda hefði átt landamærunum opnari. Tæplega 25 prósent í þessum hópi voru á þessari skoðun, samanborið við 14 prósent hjá öðrum.

Eins og sjá má á mynd 7 hafði það litla þýðingu fyrir langflesta Norðurlandabúa að erfiðara var að fara yfir landamæri á milli Norðurlanda.

Mynd 7: Hversu mikil áhrif hefur það haft á þig að það var erfitt að fara yfir landamærin á milli Norðurlandanna?

Rúmlega sjö af hverjum tíu sögðu að það hefði ekki haft nein áhrif að erfiðara reyndist að fara yfir landamæri. Mikilvægt er að hafa í huga að 15 prósent nefna að það hafi gert líf þeirra aðeins erfiðara og 3 prósent að það hafi gert líf þeirra töluvert erfiðara.

Aftur skera Álandseyjar sig úr því þar voru það flestir sem upplifðu að lífið hefði orðið aðeins eða töluvert erfiðara, eða 55 prósent.

Á meðal þeirra sem hafa föst tengsl við annað norrænt land töldu fleiri að ferðatakmarkanirnar hefðu gert lífið erfiðara eða töluvert erfiðara, eða 33 prósent, samanborið við 9 prósent hjá öðrum.

Stjórnsýsluhindranaráð Norrænu ráðherranefndarinnar hefur lagt nokkrar spurningakannanir fyrir íbúa á landamærasvæðum á Norðurlöndum á meðan faraldurinn hefur geisað. Þær sýna að ferðatakmarkanirnar hafa komið illa niður á þessum svæðum. Meðal annars upplifðu fjórir af hverjum fimm þeirra sem búa og vinna á landamærasvæðum á Norðurlöndum að möguleikar þeirra til að ferðast yfir landamæri hefðu skerst mjög mikið í faraldrinum.[1]Norden.org: Mismunandi takmarkanir vegna kórónuveirunnar valda áhyggjum landamærasvæðum. Birt 14. september 2021.  

Rannsókn okkar bendir til þess að fyrir flesta Norðurlandabúa hafi faraldurinn ekki áhrif á vilja þeirra til að færa sig um set innan Norðurlanda. Spurningunni um það hvernig þróunin í kórónuveirufaraldrinum hefði haft áhrif á afstöðu fólks til að flytja til, ferðast reglulega á milli eða reka fyrirtæki í öðru norrænu landi í framtíðinni svöruðu nefnilega rúmlega átta af hverjum tíu að þetta hefði ekki haft áhrif eða að þau hefðu enga afstöðu til þess. Einn af hverjum tíu er orðinn neikvæðari gagnvart því að flytja innan Norðurlanda. Sjá má að samanborið við aðra aldurshópa eru aðeins fleiri í aldurshópnum 16–34 ára orðnir neikvæðari gagnvart þessu.

Flestir virðast ekki telja að ferðatakmarkanirnar muni hafa neikvæð áhrif á frjálsa för innan Norðurlanda til lengri tíma litið. Aðeins sjö prósent telja að eftir fimm ár muni færri norrænir borgarar búa, vinna eða stunda nám í öðru norrænu landi en sínu heimalandi. Rétt innan við helmingur telur að það verði fleiri.

Rannsókn á vegum lénsstjórnarinnar á Skáni sýnir þó að landamæraeftirlit hefur neikvæð áhrif á vinnumarkað sem teygir sig yfir landamæri. Á árunum 2015/2016 tóku Svíar upp landamæraeftirlit gagnvart Danmörku. Það hafði í för með sér að störfum í Danmörku sem hægt var að ná til á klukkustund eða minna frá Malmö fækkaði um 322 þúsund. Störfum í Danmörku sem hægt var að ná til frá Lundi fækkaði um 193 þúsund. Með öðrum orðum hafði landamæraeftirlitið þau áhrif að dansk-sænski vinnumarkaðurinn, sem háður er almenningssamgöngum, minnkaði.[2]Lénsstjórnin á Skáni, Utvärdering av effekter av tillämpningen av förordning om vissa identitetskontroller (2016)

Footnotes

  1. ^ Norden.org: Mismunandi takmarkanir vegna kórónuveirunnar valda áhyggjum landamærasvæðum. Birt 14. september 2021.
  2. ^ Lénsstjórnin á Skáni, Utvärdering av effekter av tillämpningen av förordning om vissa identitetskontroller (2016)
 

Á hvaða sviðum eiga norrænu löndin að vinna saman?

Margar spurningar í rannsókninni snerust um það á hvaða sviðum norrænu löndin ættu að vinna saman, allt frá því að hverju hið pólitíska samstarf ætti að snúa til þess hvað það væri sem skipti fólk mestu máli í daglegu lífi.

Almennt má sjá að fólk vill pólitískt samstarf um öryggismál, félagslegt öryggi og umhverfismál.

Norræna ráðherranefndin á sér framtíðarsýn um að Norðurlönd verði samþættasta svæði heims og það hefur lengi verið þungamiðja í norrænu samstarfi að skapa sterka, norræna samstöðu. Því spurðum við að því hvað fólk teldi mikilvægast til að ná þessu:

Mynd 8: Hvað er mikilvægast til að binda Norðurlöndin nánari böndum?

Mynd: Johannes Jansson/norden.org

Að mati þriðjungs þátttakenda er aukin pólitísk samvinna það mikilvægasta til að binda Norðurlöndin nánari böndum. Um 20 prósent nefna aukna verslun á milli landa og að styrkja þá tilfinningu að vera norræn(n). Sá valmöguleiki sem fæstir völdu var að fleiri ynnu og stunduðu nám í öðrum norrænum löndum.

Þegar spurt var hvert væri mikilvægasta pólitíska samstarfsmálefnið fengu þátttakendur að svara frjálslega og gátu valið eins marga möguleika og þeir vildu. Sá eða sú sem tók viðtalið raðaði svörunum í fyrir fram ákveðna flokka. Mikill munur var á milli landa varðandi þetta svar. Margt getur skýrt það. Ein skýringin kann að vera munur á viðtölum á milli landa. Það þýðir að túlka ber niðurstöðurnar með fyrirvara. Sjá töflu í viðauka þar sem svörum er skipt eftir löndum.

Almennt var talið mikilvægast að berjast gegn glæpum þvert á landamæri Norðurlanda:

Mynd 9: Hugsaðu um öll þau ólíku svið sem hægt er að vinna pólitískt saman að á Norðurlöndunum. Hverju finnst þér mikilvægast að vinna saman að? Þú getur gefið eins mörg svör og þú vilt.

Á eftir baráttu gegn glæpum voru það umhverfis-, varnar- og öryggismál og krísustjórnun (t.d. vegna COVID-19) sem oftast voru nefnd.

Svo til samhljóða spurning var lögð fyrir 2017 og 2019/2020.[1]Árin 2017 og 2019/2020 máttu þátttakendur svara frjálst og svörunum var raðað í fyrir fram ákveðna flokka. 2021 bættum við stjórnsýsluhindrunum og krísustjórnun við sem nýjum flokkum. Við bættum einnig við orðinu „pólitískt“ í spurninguna til að leggja áherslu á að við ættum við hið pólitíska samstarf. Að öðru leyti er um sömu spurningu að ræða og 2017 og 2019/2020. Til þess að sýna hvaða samstarfssvið oftast eru efst á lista tókum við saman þau fimm samstarfssvið sem oftast voru nefnd í rannsóknunum þremur í töflu 3:

Footnotes

  1. ^ Árin 2017 og 2019/2020 máttu þátttakendur svara frjálst og svörunum var raðað í fyrir fram ákveðna flokka. 2021 bættum við stjórnsýsluhindrunum og krísustjórnun við sem nýjum flokkum. Við bættum einnig við orðinu „pólitískt“ í spurninguna til að leggja áherslu á að við ættum við hið pólitíska samstarf. Að öðru leyti er um sömu spurningu að ræða og 2017 og 2019/2020.
20172019/20202021
Varnar- og öryggismál (1)Umhverfis- og loftslagsmál (1)Barátta gegn glæpum (1)
Menntamál (2)Varnar- og öryggismál (2)Umhverfis- og loftslagsmál (2)
Heilbrigðis- og félagsmál (3)Efnahags- og fjármál (3)Varnar- og öryggismál (3)
Efnahags- og fjármál (4)Menntamál (4)Krísustjórnun (3)
Umhverfis- og loftslagsmál (4)Aðlögun og málefni flóttamanna (4)Aðlögun og málefni flóttamanna (5)

Tafla 3: Fimm helstu samstarfssvið árin 2017, 2019/2020 og 2021

Athugasemd: Lýsingar á sumum samstarfssviðanna eru einfaldaðar. Tölur innan sviga sýna stöðu á lista yfir mikilvægustu samstarfssvið það árið.

Eins og sjá má voru loftslags- og umhverfismál í fjórða sæti árið 2017, í efsta sæti 2019/2020 og eru nú í öðru sæti. Varnar- og öryggismál hafa verið á meðal þriggja efstu í öllum rannsóknunum. Krísustjórnun var nýr valkostur 2021 og var sá þriðji mikilvægasti. Barátta gegn glæpum var um miðbik listans 2017 og 2019/2020 en efst á honum 2021. Sá valmöguleiki var einnig efstur á listanum þegar svipuð spurning var lögð fyrir árið 2008.[1]Árið 2008 var spurningin orðuð með örlítið öðrum hætti. Það voru færri valmöguleikar og þátttakendur gátu valið einn þeirra. Efnahags- og fjármál, menntamál, aðlögun og málefni flóttamanna voru einnig ítrekað ofarlega á lista.

Í ár svöruðu flestir á meðal ungs fólks og kvenna að mikilvægast væri að vinna saman um loftslags- og umhverfismál. Fleiri karlar en konur svöruðu því til að mikilvægt væri að vinna saman að varnar- og öryggismálum (en það er ekki efst á lista hjá körlum).

Næsta spurning laut að því hvað fólk teldi stærsta kostinn við norræna samvinnu. Sama spurning var lögð fyrir árið 2017. Hér mátti velja allt að þrjá möguleika. Sjá mynd 10:

Footnotes

  1. ^ Árið 2008 var spurningin orðuð með örlítið öðrum hætti. Það voru færri valmöguleikar og þátttakendur gátu valið einn þeirra.

Mynd 10: Hvað af eftirtöldu telur þú stærsta kostinn við norræna samvinnu? Þú mátt velja þrjá svarmöguleika að hámarki.

Að mati þátttakenda er stærsti kosturinn fólginn í því að Norðurlönd eignist sterkari rödd á alþjóðavettvangi. Það er svolítil breyting frá 2017 þegar flestir töldu stærsta kostinn vera að auðveldara væri fyrir íbúana að nýta sér öll Norðurlöndin sem vinnu-, náms- og búsetusvæði.

Skoða má það að svo margir leggi áherslu á að Norðurlönd eignist sterkari rödd á alþjóðavettvangi í samhengi við ósk um samstarf bæði á sviði varnar- og öryggismála og loftslags- og umhverfismála, sem eru alþjóðleg málefni.

Ísland, Færeyjar og Álandseyjar skera sig úr varðandi áherslu á að nýta innviði á borð við sjúkrahús og að íbúar geti nýtt sér Norðurlönd öll sem vinnu-, náms- og búsetusvæði.

Önnur spurning fjallaði um það á hvaða sviðum þátttakendum þætti mikilvægast að vinna saman með tilliti til eigin daglegs lífs. Hér völdu flestir þann valmöguleika að geta ferðast óhindrað yfir landamæri án landamæraeftirlits. Tæplega þriðjungur nefndi þetta:

Mynd 11: Ef þú hugsar um þitt eigið daglega líf, á hverju af eftirtöldum sviðum telur þú mikilvægast að unnið sé saman að á Norðurlöndunum? (Aðeins eitt svar) 

Athugasemd: Orðalag spurningarinnar hefur breyst örlítið frá 2017: „Að geta notað rafræn skilríki á öllum Norðurlöndunum“ er komið í stað „Að hafa sameiginlegt kennitölukerfi á öllum Norðurlöndunum“. Þá hefur setningunni „eða unnið í öðru norrænu landi“ verið bætt við valmöguleikann „Hvernig skatta-, heilbrigðis- og eftirlaunamál eru leyst, ásamt annarri opinberri þjónustu, ef flutt er innan Norðurlandanna eða unnið í öðru norrænu landi.“

Samanborið við árið 2017 voru það fleiri árið 2021 sem völdu þann valmöguleika að geta ferðast óhindrað yfir landamæri án landamæraeftirlits en þeim fjölgaði úr 19 í 27 prósent. Vera kann að íbúar meti þetta meira eftir að hafa upplifað þær ferðatakmarkanir sem settar voru á Norðurlöndum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Um leið völdu færri þann möguleika að geta stundað nám og fengið próf samþykkt á öllum Norðurlöndunum. Ekki kom á óvart að á meðal ungs fólks voru fleiri á þessari skoðun en á meðal hinna eldri en 15 prósent ungs fólks nefndu þetta sem mikilvægasta svið samstarfsins.

Viðmælendur voru einnig beðnir um að leggja mat á hversu mikilvægt það er fyrir Norðurlöndin að vinna saman að nokkrum sviðum í framtíðinni með því að gefa upp tölu á bilinu 1–5 þar sem 1 þýddi „Alls ekki mikilvægt“ og 5 þýddi „Mjög mikilvægt“. Í töflu 4 má sjá meðaltal svara frá öllum Norðurlöndum.

Að vinna saman að því að leysa vandamál í hinum norrænu löndum4,4
Að stuðla að hreyfingu og verslun á milli landa4,3
Að standa saman á alþjóðavettvangi4,1
Að Norðurlöndin verði sjálfbærari4,1
Að styrkja norræna sjálfsvitund og böndin á milli Norðurlandanna4
Að mynda norrænt sambandsríki2,6

Tafla 4: Hversu mikilvægt er fyrir Norðurlöndin að vinna saman að eftirtöldum sviðum í framtíðinni? Svaraðu með tölu á bilinu 1 til 5 þar sem 1 þýðir „alls ekki mikilvægt“ og 5 þýðir „mjög mikilvægt“. Meðaltal svara á Norðurlöndum. Valmöguleikinn „Veit ekki“ er undanskilinn.

Niðurstöðurnar sýna að almenningur styður samstarfið á flestum sviðum. Að mynda norrænt sambandsríki nýtur minni stuðnings en þó ekki minni en svo að fjórðungur taldi það mikilvægt eða mjög mikilvægt.

Á flestum sviðum taldi lægra hlutfall ungs fólks (16–34 ára) en eldra samstarfið mjög mikilvægt. Það rennir stoðum undir þá kenningu að ungt fólk sé ekki eins áhugasamt um samstarfið. Öllum kynslóðum bar saman um að Norðurlönd ættu að verða sjálfbærari.

Í tilefni af því að á árinu 2021 eru 30 ár liðin frá því Norræna ráðherranefndin opnaði skrifstofur í Eystrasaltsríkjunum innihélt könnunin einnig spurningu um mikilvægi þess að eiga í góðu samstarfi við Eystrasaltsríkin; Eistland, Lettland og Litháen. Næstum því helmingur taldi það mikilvægt eða mjög mikilvægt.

 

Niðurstöður í löndunum

Í næstu köflum verður fjallað stuttlega um áhugaverðar niðurstöður í löndunum. Að mestu verður fjallað um niðurstöður sem skera sig úr.

Þegar niðurstöður landanna eru bornar saman við Norðurlönd í heild er mikilvægt að hafa í huga að niðurstöður stærstu landanna hafa mest áhrif á heildarniðurstöður. Það þýðir m.a. að niðurstöðum í Svíþjóð svipar til heildarniðurstaðnanna. Hins vegar hefur það lítil áhrif á heildarniðurstöðurnar ef niðurstöður frá Íslandi, Álandseyjum, Færeyjum eða Grænlandi skera sig úr.

Danmörk

Í Danmörku voru það jafn margir og á Norðurlöndum í heild (86 prósent) sem töldu gott norrænt samstarf mikilvægt eða mjög mikilvægt en þrátt fyrir það er Danmörk með lægsta hlutfall þeirra sem vilja sjá aukið samstarf. 48 prósent segjast vilja aukið samstarf í Danmörku, samanborið við 60 prósent á Norðurlöndum í heild.

Í Danmörku er að finna hæst hlutfall þeirra sem telja aukið pólitískt samstarf mikilvægast við að tengja Norðurlönd betur saman (46 prósent í Danmörku og 33 prósent á Norðurlöndum). Í Danmörku eru einnig flestir sem telja að í framtíðinni verði mjög mikilvægt að vinna saman að því að leysa vandamál í norrænu löndunum (65 prósent í Danmörku og 56 prósent á Norðurlöndum).

Danir eru á svipuðu máli og aðrir á Norðurlöndum þegar kemur að norrænu samstarfi í kórónuveirufaraldrinum. Sjö af tíu telja ferðatakmarkanir sem settar voru á Norðurlöndum hafa verið hæfilegar, en það er hæsta hlutfallið á Norðurlöndum.

Mynd: Johannes Jansson/norden.org

Finnland

Þrátt fyrir að átta af hverjum tíu Finnum telji gott samstarf á milli Norðurlandanna mikilvægt eða mjög mikilvægt eru Finnar ekki eins áhugasamir og aðrir á Norðurlöndum. 41 prósent Finna er þeirrar skoðunar að samstarfið sé mjög mikilvægt, samanborið við um 57 prósent á Norðurlöndum í heild. Sama mynstur má sjá í öðrum svörum. Hlutfall þeirra sem vilja sjá aukið norrænt samstarf, 58 prósent, er þó svipað meðaltalinu á Norðurlöndum.

Finnar eru ekki eins óánægðir með samstarf norrænu landanna í kórónuveirufaraldrinum og íbúar hinna Norðurlandanna (aðeins á Grænlandi gætir minni óánægju). Einungis 10 prósent telja samstarfið hafa gengið mjög illa, samanborið við 17 prósent á Norðurlöndum í heild.

Þegar viðmælendur voru spurðir að því hverju væri mikilvægast að vinna saman að á Norðurlöndum ef þeir hugsuðu um sitt eigið daglega líf var Finnland með hæst hlutfall þeirra sem nefndu það að geta ferðast óhindrað yfir landamæri án landamæraeftirlits (37 prósent voru á þessari skoðun). Á sama tíma skera Finnar sig úr varðandi litla andstöðu við ferðatakmarkanir. Til að mynda telja aðeins 6 prósent að halda hefði átt landamærum á Norðurlöndum opnari, samanborið við 18 prósent á Norðurlöndum í heild.

Ísland

Norrænt samstarf nýtur stuðnings Íslendinga. Sjö af hverjum tíu telja gott norrænt samstarf mjög mikilvægt. Það er næsthæsta hlutfallið á Norðurlöndum á eftir Álandseyjum.

Það skiptir marga Íslendinga miklu máli að eiga tækifæri á að stunda nám eða vinna í öðrum norrænum löndum. 64 prósent telja það stærsta kostinn við samstarfið að íbúar geti nýtt sér Norðurlöndin öll sem vinnu-, náms- og búsetusvæði, samanborið við 42 prósent á Norðurlöndum í heild.

Íslendingar eru einna neikvæðastir gagnvart norrænu samstarfi í tengslum við kórónuveiruna. Næstum því fjórðungur telur það hafa gengið illa. Hins vegar eru Íslendingar ekki andsnúnir ferðatakmörkunum. Aðeins 5 prósent Íslendinga voru þeirrar skoðunar að halda hefði átt landamærum á Norðurlöndum meira opnum og þriðjungur taldi að halda hefði átt þeim meira lokuðum.

Noregur

Hlutfall Norðmanna sem telja gott norrænt samstarf mikilvægt er áþekkt því sem gerist á Norðurlöndum í heild. Aðeins færri vilja sjá aukið samstarf: 52 prósent í Noregi samanborið við 60 prósent á Norðurlöndum.

Hlutfall þeirra sem telja mjög mikilvægt að Norðurlönd standi saman á alþjóðavettvangi er hærra í Noregi, eða 53 prósent, en á Norðurlöndum í heild þar sem það er 45 prósent. Í Noregi er einnig hærra hlutfall þeirra sem telja einn stærsta kostinn við norræna samvinnu að norrænu löndin geti lært hvert af öðru.

Norðmenn eru yfir meðallagi jákvæðir gagnvart norrænu samstarfi í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. 22 prósent Norðmanna telja samstarfið hafa gengið vel eða mjög vel samanborið við 13 prósent á Norðurlöndum.

Svíþjóð

Í Svíþjóð telja 66 prósent samstarfið mjög mikilvægt, samanborið við 57 prósent á Norðurlöndum. Rúmlega sjö af hverjum tíu vilja sjá aukið samstarf en það er hæsta hlutfallið á Norðurlöndum.

Um leið eru Svíar á meðal þeirra sem urðu fyrir mestum vonbrigðum með norrænt samstarf í kringum faraldurinn en 55 prósent telja það hafa gengið mjög illa eða illa. Á meðal þeirra síðastnefndu telja 75 prósent að norrænu löndin hefðu átt að samræma smitvarnaraðgerðir betur. Að Álandseyjum undanskildum er það hæsta hlutfallið á Norðurlöndum.

Þótt margir Svíar styðji ferðatakmarkanir á Norðurlöndum telja 27 prósent að halda hefði átt landamærum opnari. Aðeins á Álandseyjum er hlutfall þeirra sem eru á þeirri skoðun hærra.

Færeyjar

Í Færeyjum er hlutfall þeirra sem telja samstarfið mikilvægt og vilja sjá það aukið álíka hátt og á Norðurlöndum í heild. Aðeins fleiri telja að þróun mála á alþjóðavettvangi undanfarin ár hafi aukið mikilvægi samstarfsins, 65 prósent samanborið við 55 prósent á Norðurlöndum.

Í Færeyjum er að finna hæst hlutfall þeirra sem telja það einn mikilvægasta kost norræns samstarfs að geta samnýtt innviði (til dæmis sjúkrahús). Átta af hverjum tíu eru þeirrar skoðunar. Það er tvöfalt hærra hlutfall en á Norðurlöndum í heild. Færeyingar telja einnig mikilvægt að geta unnið, stundað nám og búið hvar sem er á Norðurlöndum. Tæplega sjö af hverjum tíu telja þetta helsta kostinn við norrænt samstarf en það er hæsta hlutfallið á Norðurlöndum.

Grænland

Á Grænlandi telja tæplega fjórir af hverjum tíu gott norrænt samstarf mikilvægt eða mjög mikilvægt. Það er lágt hlutfall í samanburði við Norðurlönd í heild þar sem hlutfallið er tæplega níu af hverjum tíu.
Önnur svör benda einnig til þess að Grænlendingum sé samstarfið ekki eins hugleikið og öðrum. Á hinn bóginn er hlutfall Grænlendinga sem vilja sjá aukið samstarf álíka hátt (56 prósent) og á Norðurlöndum í heild.

Á Grænlandi er hæst hlutfall þeirra sem telja helsta kostinn við samstarfið að íbúar geti unnið, stundað nám og búið hvar sem er á Norðurlöndum.

Grænlendingar skera sig einnig úr að því leyti að sex af hverjum tíu telja samstarf norrænu landanna í kringum kórónuveirufaraldurinn hafa gengið vel eða mjög vel. Á Norðurlöndum í heild eru einn af hverjum tíu þeirrar skoðunar.

Álandseyjar

Norrænt samstarf er Álandseyingum mikilvægt. Þar er að finna hæst hlutfall þeirra sem telja gott samstarf mjög mikilvægt (74 prósent) og vilja sjá aukið samstarf (77 prósent).

Að mati Álandseyinga felast stærstu kostir norrænnar samvinnu í því að geta nýtt innviði hvers annars (t.d. sjúkrahús) og að geta unnið, stundað nám og búið hvar sem er á Norðurlöndum.

Hæst hlutfall þeirra sem telja samstarfið í kringum faraldurinn hafa gengið illa er einnig að finna á Álandseyjum en 66 prósent eru þeirrar skoðunar. Spurningunni um það að hvaða leyti hefði mátt vinna betur saman svöruðu 80 prósent á þann veg að samræma hefði átt smitvarnaraðgerðir betur. Á Álandseyjum er einnig að finna hæst hlutfall þeirra sem telja að halda hefði átt landamærum á Norðurlöndum opnari í faraldrinum en næstum því þriðjungur er á þeirri skoðun.

 

Ályktanir

Könnunin náði til 3400 þátttakenda á öllum Norðurlöndum. Nokkrar spurninganna hafa áður verið lagðar fyrir en þannig getum við fylgst með þróun yfir tíma.

Traustur stuðningur við norrænt samstarf – vonbrigði með samstarf í kringum faraldurinn

Norrænt samstarf nýtur trausts stuðnings íbúa. Langflestir Norðurlandabúar telja gott norrænt samstarf mikilvægt eða mjög mikilvægt og ríflega helmingur vill sjá aukið samstarf. Nánast enginn vill að dregið verði úr samstarfinu.

Á sama tíma virðist stuðningur við samstarfið hafa minnkað svolítið frá árinu 2017. Aðeins færri telja nú norrænt samstarf mikilvægt eða mjög mikilvægt. Árið 2017 vildu 68 prósent sjá aukið samstarf og 2021 hafði hlutfallið lækkað niður 60 prósent.

Margir urðu fyrir vonbrigðum með norrænt samstarf í faraldrinum. Næstum því helmingnum þykir samstarfið hafa gengið illa eða mjög illa. Af þeim telja 65 prósent að löndin hefðu átt að vinna betur að því að samræma smitvarnaraðgerðir.

Flestir Norðurlandabúar styðja þær ferðatakmarkanir sem settar hafa verið á svæðinu. Sex af hverjum tíu töldu þar um hæfilegar aðgerðir að ræða. Næstum því jafn margir töldu að halda hefði átt landamærunum meira opnum (18 prósent) og töldu að halda hefði átt þeim meira lokuðum (16 prósent). Um leið sýnir rannsóknin að margir meta það mikils að geta fært sig um set og flutt innan Norðurlanda. Því virðast margir hafa sætt sig við skerðingu á frjálsri för yfir landamæri Norðurlanda.

Flestir segja það ekki hafa haft áhrif á sig að erfiðara varð að ferðast yfir landamæri á Norðurlöndum í faraldrinum. Á sama tíma segja 15 prósent að það hafi gert líf þeirra aðeins erfiðara og 3 prósent að það hafi gert líf þeirra töluvert erfiðara.

Mynd: Simon Paulin/imagebank.sweden.se

Öryggismál, félagslegt öryggi og loftslagsmál

Að mati almennings lúta mikilvægustu þættir samstarfsins að baráttu gegn glæpum, loftslags- og umhverfismálum, varnar- og öryggismálum og krísustjórnun. (Af aðferðafræðilegum ástæðum þarf að taka niðurstöðum könnunarinnar í ár með svolitlum fyrirvara). Spurningin hefur verið lögð fyrir þrisvar sinnum á undanförnum fimm árum og sjá má að ákveðin þemu koma ítrekað fyrir sem þau vinsælustu. Loftslags- og umhverfismál og varnar- og öryggismál voru einnig ofarlega á lista 2017 og 2019/2020 og barátta gegn glæpum var efst árið 2008 þegar svipuð spurning var lögð fyrir.
Krísustjórnun var nýr valkostur í könnuninni í ár.

Skoða má þann vilja Norðurlandabúa að norrænt samstarf snúist um öryggismál, félagslegt öryggi og loftslagsmál í samhengi við loftslagsvanda undanfarinna ára, kórónuveirufaraldurinn og óróleika í alþjóðlegu samstarfi (þótt aðeins færri séu þeirrar skoðunar að þróun mála á alþjóðavettvangi undanfarin ár hafi gert samstarfið mikilvægara).

Með tilliti til að Norðurlönd eiga sér framtíðarsýn um að verða samþættasta svæði heims er athyglisvert að pólitísk samvinna sé nefnd sem það mikilvægasta til að tengja löndin saman.
Almenningur telur þetta mikilvægara en að styrkja þá tilfinningu að vera norræn(n), aukin viðskipti eða að fleiri stundi nám eða vinnu í öðru norrænu landi.

Munur á milli þjóðfélagshópa

Sé litið til munar á milli aldurshópa og kynja má sjá að þótt ungt fólk styðji við norrænt samstarf er það ekki eins áhugasamt og þau sem eldri eru. Þetta er í samræmi við eldri rannsóknir. Þá telja fleiri á meðal ungs fólks og kvenna að samstarf um loftslags- og umhverfismál sé á meðal mikilvægustu sviða samstarfsins.

Aðeins innan við 40 prósent íbúa hafa föst tengsl við annað norrænt land, flestir með þeim hætti að þeir ferðast oft til annarra norrænna landa. Norrænt samstarf naut aðeins meiri stuðnings hjá þessum hópi og að sama skapi gætti meiri andstöðu við ferðatakmarkanir.

 

Viðauki 1: Svör við spurningum á Norðurlöndum í heild og eftir löndum

1. Þessi könnun snýst um sýn á Norðurlöndin og norræna samvinnu. Hversu mikilvægt finnst þér að það sé góð samvinna á milli Norðurlandanna? Svaraðu með tölu á bilinu 1 til 5 þar sem 1 þýðir „alls ekki mikilvægt“ og 5 þýðir „mjög mikilvægt“.
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt1%1%1%0%1%1%0%13%0%
21%1%2%1%2%0%2%4%1%
39%10%13%4%9%6%11%28%3%
429%30%39%24%28%24%27%15%21%
5 Mjög mikilvægt57%57%41%70%58%66%60%22%74%
Hef enga skoðun3%2%5%0%3%4%0%18%1%
2. Hefur þróun mála á alþjóðavettvangi síðustu árin gert það að verkum að norræn samvinna virðist...
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Mikilvægari 55%51%54%55%51%61%65%43%69%
Enginn munur á því 31%37%36%31%34%23%24%35%23%
Ekki eins mikilvæg 5%5%3%5%8%5%6%6%3%
Hef enga skoðun9%8%7%8%8%11%5%17%5%
3. Myndir þú vilja meiri eða minni samvinnu á milli Norðurlandanna eða er hún hæfileg eins og hún er?
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Meiri samvinnu 60%48%58%54%52%73%56%56%77%
Er góð eins og hún er 32%46%35%40%39%18%40%18%20%
Minni samvinnu 1%0%1%1%3%1%1%2%0%
Hef enga skoðun7%6%6%4%6%8%3%24%3%
4. Hvað er mikilvægast til að binda Norðurlöndin nánari böndum?
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Að auka pólitíska samvinnu33%46%20%23%26%36%29%18%34%
Að verslun á milli landa aukist20%14%24%11%27%17%17%18%21%
Að styrkja tilfinninguna að vera norræn(n)19%12%20%4%21%22%11%6%11%
Að fleiri vinni og sinni námi í öðrum Norðurlöndum16%13%23%31%14%15%36%25%21%
Veit ekki9%9%10%6%10%7%4%29%3%
Annað3%6%3%26%2%2%4%4%10%
5. Hversu mikilvægt er fyrir Norðurlöndin að vinna saman að eftirtöldum sviðum í framtíðinni?
Að stuðla að hreyfingu og verslun á milli landa
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt1%1%1%1%3%0%1%13%0%
22%2%2%3%3%1%2%2%1%
313%13%13%13%18%9%12%8%12%
433%34%37%38%30%32%36%16%24%
5 Mjög mikilvægt48%48%43%44%42%54%48%48%62%
Veit ekki3%2%3%0%4%4%1%13%1%
Að standa saman á alþjóðavettvangi
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt2%1%3%1%1%3%1%2%1%
24%3%8%1%3%4%2%12%3%
316%12%26%4%11%16%12%11%16%
429%22%38%23%28%29%26%15%34%
5 Mjög mikilvægt45%60%22%69%53%44%59%46%46%
Veit ekki3%1%4%1%4%3%0%13%1%
Að vinna saman að því að leysa vandamál í hinum norrænu löndum
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt1%1%1%1%1%1%0%2%0%
22%0%3%4%3%1%3%3%1%
38%7%12%10%8%7%13%17%6%
430%25%39%24%27%30%27%23%28%
5 Mjög mikilvægt 56%65%42%60%57%59%57%41%63%
Veit ekki3%2%3%0%4%2%0%14%1%
Að styrkja norræna sjálfsvitund og böndin á milli Norðurlandanna
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt2%4%1%2%1%3%1%3%1%
25%7%4%6%4%6%7%1%4%
320%21%22%14%16%20%15%8%16%
430%28%38%30%29%28%23%27%30%
5 Mjög mikilvægt39%39%31%47%46%39%53%48%49%
Veit ekki4%2%4%1%5%4%1%13%1%
Að mynda norrænt sambandsríki
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt28%40%27%35%21%27%26%22%25%
218%19%20%11%15%20%18%4%18%
320%20%21%18%20%21%21%13%25%
413%8%15%15%18%12%13%13%12%
5 Mjög mikilvægt11%7%9%17%16%11%17%33%12%
Veit ekki9%6%8%4%10%11%6%14%8%
Að Norðurlöndin verði sjálfbærari
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt3%3%1%3%4%2%1%3%3%
24%3%3%6%5%5%2%1%3%
316%15%17%14%14%18%14%8%11%
429%24%39%33%28%25%19%13%27%
5 Mjög mikilvægt44%52%34%43%43%45%60%59%56%
Veit ekki5%2%5%2%6%5%2%15%1%
6. Hvilke av disse mener du er de største fordelene ved et nordisk samarbeid? Du kan velge opptil tre alternativer.
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Við eignumst sterkari rödd á alþjóðavettvangi47%43%44%46%49%49%39%20%34%
Það verður auðveldara fyrir íbúana að nýta sér öll Norðurlöndin sem vinnu-, náms- og búsetusvæði42%40%40%64%33%49%67%30%53%
Við getum aukið verslun og samkeppnishæfni40%36%47%28%34%43%30%28%31%
Við getum nýtt innviði hvers annars, eins og sjúkrahús o.þ.h.39%43%35%57%33%42%79%23%58%
Það verður auðveldara að leysa vandamál á milli landa39%31%33%26%41%45%22%14%30%
Við getum lært hvert af öðru31%30%29%31%37%29%32%25%20%
Við getum sparað peninga á samvinnu20%13%28%14%22%20%11%22%17%
Sé enga kosti2%2%3%1%3%1%1%25%0%
7. Hugsaðu um öll þau ólíku svið sem hægt er að vinna pólitískt saman að á Norðurlöndunum. Hverju finnst þér mikilvægast að vinna saman að? Þú getur gefið eins mörg svör og þú vilt
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Barátta gegn glæpum þvert á landamæri Norðurlandanna 45%5%53%3%53%62%16%11%72%
Loftslag og umhverfi 42%34%39%12%38%51%31%13%69%
Varnar- og öryggismál 39%9%51%6%40%50%24%11%63%
Krísustjórnun (t.d. COVID-19) 39%7%45%2%43%52%23%23%65%
Aðlögun og málefni flóttamanna 30%11%28%4%30%43%14%7%51%
Rannsóknir/nýsköpun 29%7%32%11%38%37%27%31%62%
Sjálfbær notkun náttúruauðlinda 29%7%37%9%33%36%26%14%63%
Orka/betri nýting orku 27%5%31%5%29%39%18%12%57%
Heilbrigðis- og félagsleg málefni 27%15%29%29%37%28%34%11%68%
Tengsl við Evrópusambandið 26%4%35%1%30%34%19%7%59%
Menntun 25%16%28%39%30%26%54%42%76%
Við ættum að vinna saman að öllu í eins víðu samhengi og mögulegt er 24%9%26%18%23%33%26%15%61%
Matvæla- og landbúnaðartengd málefni 23%2%27%2%32%30%16%8%56%
Málefni á vinnumarkaði 23%7%23%10%28%29%25%8%63%
Efnahags- og fjármál 22%15%23%5%31%22%16%11%55%
Utanríkismál 21%7%20%10%33%24%19%2%53%
Málefni sem tengjast atvinnulífi eða atvinnurekendum 21%6%26%9%23%26%44%13%59%
Stjórnsýsluhindranir 19%5%26%2%26%20%21%9%47%
Jafnrétti 17%5%24%5%19%20%21%17%59%
Samstarf varðandi lagasetningu 16%4%18%2%21%20%11%11%45%
Málefni einstakra svæða / svæðaþróun 14%1%17%1%19%18%13%5%34%
Menning 13%5%21%7%17%12%22%22%44%
Tungumál 8%2%9%3%14%7%11%31%47%
Annað 5%17%1%37%1%1%30%9%3%
Ekkert svið4%7%3%12%3%2%3%17%0%
Athugasemd: Mikill munur var á milli landa varðandi þetta svar. Margt getur skýrt það. Ein skýringin kann að vera munur á viðtölum á milli landa. Það þýðir að túlka ber niðurstöðurnar með fyrirvara.
8. Ef þú hugsar um þitt eigið daglega líf, á hverju af eftirtöldum sviðum telur þú mikilvægast að unnið sé saman að á Norðurlöndunum? (Aðeins eitt svar)
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Að geta ferðast óhindrað yfir landamæri án landamæraeftirlits 27%23%37%12%23%26%12%5%21%
Hvernig skatta-, heilbrigðis- og eftirlaunamál eru leyst, ásamt annarri opinberri þjónustu, ef flutt er innan Norðurlandanna eða unnið í öðru norrænu landi17%13%12%11%20%21%21%5%23%
Að geta búið og unnið hvar sem er á Norðurlöndunum 16%17%16%33%13%16%18%10%14%
Að geta verið í námi og fá próf samþykkt á öllum Norðurlöndunum 9%17%6%24%8%5%26%18%25%
Að geta, sem atvinnurekandi, fengið betri skilyrði til að reka fyrirtæki í öðrum Norðurlöndum 8%13%5%3%10%7%7%8%3%
Að geta tekið þátt í menningu frá öðrum svæðum á Norðurlöndum 8%6%10%4%7%7%1%17%1%
Ekkert af ofantöldu 7%5%8%2%8%9%2%7%2%
Að geta notað rafræn skilríki á öllum Norðurlöndunum 6%4%5%7%10%7%8%1%8%
Annað2%3%2%4%1%2%4%30%2%
9. Hversu vel eða illa finnst þér Norðurlöndin hafa unnið saman með tilliti til kórónuveirufaraldursins? Svaraðu með tölu á bilinu 1 til 5 þar sem 1 þýðir „mjög illa“ og 5 þýðir „mjög vel“.
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Mjög illa17%19%10%24%11%22%17%4%29%
229%31%26%24%25%32%26%7%37%
328%32%33%31%32%21%30%15%24%
410%7%16%10%16%5%13%17%5%
5 Mjög vel3%3%3%6%6%2%8%43%1%
Veit ekki13%8%12%4%10%17%6%14%4%
10. Ef viðmælandi svaraði spurningu 9 með 1 eða 2: Hverju finnst þér að Norðurlöndin hefðu getað unnið betur saman að með tilliti til kórónuveirufaraldursins? (Hægt var að velja fleiri en eitt svar.)
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Samræmt smitvarnaraðgerðir 65%54%66%43%57%75%71%35%80%
Einfaldað hlutina fyrir þá sem búa og/eða vinna á landamærasvæðunum 32%11%21%4%38%46%26%5%51%
Tekið meira tillit til hinna landanna þegar ákvarðanir innan hvers lands fyrir sig eru teknar 30%16%22%2%33%41%31%17%60%
Innkaup á bóluefni 24%12%27%15%31%27%26%15%30%
Haft innri landamæri Norðurlandanna meira lokuð 19%6%43%9%28%16%29%27%15%
Haft innri landamæri Norðurlandanna opnari 12%6%4%0%16%17%5%8%27%
Annað 6%18%0%35%2%1%17%2%6%
Veit ekki5%16%3%12%2%1%7%22%2%
11. Ef viðmælandi svaraði spurningu 9 með 4 eða 5: Hverju finnst þér að Norðurlöndin hafi unnið vel saman að með tilliti til kórónuveitufaraldursins? (Hægt var að velja fleiri en eitt svar.)
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Haft innri landamæri Norðurlandanna eins lokuð og mögulegt er 28%12%49%5%29%40%28%17%29%
Samræmt smitvarnaraðgerðir 26%16%33%4%30%39%38%30%40%
Tekið tillit til hinna landanna þegar ákvarðanir innan hvers lands eru teknar 22%15%19%4%30%33%32%12%31%
Einfaldað hlutina, eins og hægt er fyrir þá sem búa og/eða vinna á landamærasvæðunum 20%9%29%1%28%30%6%7%11%
Innkaup á bóluefni 19%7%34%32%30%12%29%18%56%
Haft innri landamæri Norðurlandanna eins opin og mögulegt er 11%7%15%2%16%11%7%11%11%
Annað 11%25%1%47%1%2%17%6%0%
Veit ekki18%34%4%13%5%19%12%26%0%
12. Í kórónuveirufaraldrinum voru settar fleiri hömlur á komur inn í land á milli Norðurlandanna sem hefur gert það að verkum að erfiðara er að ferðast á milli þeirra. Hvað finnst þér um það?
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Það hefði átt að hafa landamæri Norðurlandanna opnari 18%17%6%5%15%27%9%5%28%
Þetta voru hæfilegar aðgerðir 60%70%64%58%52%56%61%48%55%
Það hefði átt að hafa landamæri Norðurlandanna lokaðri 16%7%24%34%26%10%23%18%14%
Veit ekki7%6%7%4%7%7%7%29%4%
13. Hversu mikil áhrif hefur það haft á þig að það var erfitt að fara yfir landamærin á milli Norðurlandanna?
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Það hefur gert líf mitt töluvert auðveldara 1%0%1%1%3%1%1%20%1%
Það hefur gert líf mitt aðeins auðveldara 3%1%5%2%6%1%1%8%0%
Það hefur ekki haft nein áhrif 74%76%82%77%66%75%58%45%43%
Það hefur gert líf mitt aðeins erfiðara 15%18%8%12%16%16%35%10%36%
Það hefur gert líf mitt töluvert erfiðara 3%5%2%7%4%2%5%3%19%
Veit ekki4%2%3%1%5%6%1%15%1%
14. Hvernig hefur þróunin í kórónuveirufaraldrinum haft áhrif á afstöðu þína til að flytja til, ferðast reglulega á milli eða reka fyrirtæki í öðru norrænu landi í framtíðinni?
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Ég er jákvæðari í þeirri afstöðu 4%3%6%9%6%3%8%22%1%
Ég er neikvæðari í þeirri afstöðu 11%6%16%6%13%9%9%4%11%
Það hefur ekki haft áhrif á mig 67%70%68%66%60%68%58%44%65%
Ég hef enga afstöðu til þess 15%19%7%18%14%17%23%9%21%
Veit ekki4%3%3%1%6%4%2%20%3%
15. Hvort heldur þú að eftir fimm ár verði fleiri eða færri norrænir borgarar sem búa, vinna eða stunda nám í öðru norrænu landi en sínu heimalandi?
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Fleiri 44%58%24%63%30%53%58%53%71%
Engar breytingar 32%25%46%27%38%25%22%17%20%
Færri 7%6%7%5%10%6%9%6%2%
Veit ekki17%11%23%4%22%16%10%24%8%
16. Hversu mikilvægt finnst þér að eiga í góðu samstarfi við baltnesku löndin (Eistland, Lettland og Litháen)? Svaraðu með tölu á bilinu 1 til 5 þar sem 1 þýðir „alls ekki mikilvægt“ og 5 þýðir „mjög mikilvægt“.
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
1 Alls ekki mikilvægt6%7%2%15%7%6%9%5%7%
29%12%5%11%11%8%14%5%9%
327%31%23%24%28%28%29%13%33%
428%21%40%25%25%27%16%24%29%
5 Mjög mikilvægt20%18%25%23%15%20%12%31%20%
Veit ekki11%11%5%3%14%12%19%22%2%
17. Á eitthvað af eftirtöldum staðhæfingum við um þig? Þú skalt hugsa um eðlilegar aðstæður án kórónuveirutakmarkana
NorðurlöndDanmörkFinnlandÍslandNoregurSvíþjóðFæreyjarGrænlandÁlandseyjar
Ég ferðast oft til annars norræns lands 32%31%28%49%40%29%46%25%72%
Ég er flutt(ur) eða ráðgeri að flytja til annars norræns lands 4%4%4%11%6%2%14%18%20%
Ég bý í einu Norðurlandanna og vinn í öðru norrænu landi 3%2%2%2%6%1%6%2%8%
Ég bý í einu Norðurlandanna og rek fyrirtæki í öðru norrænu landi 1%2%2%2%3%0%3%0%3%
Ekkert af ofantöldu63%65%66%44%48%69%43%56%23%
 

Viðauki 2: Aðferð

Samanlagðar niðurstöður Norðurlanda í heild eru vegnar út frá íbúafjölda hvers lands og innan hvers lands eru niðurstöður vegnar út frá aldri og kyni.

LandHlutfall
Finnland20,1%
Svíþjóð37,4%
Noregur19,5%
Danmörk21,1%
Ísland1,3%
Grænland0,3%
Færeyjar0,2%
Álandseyjar0,1%

Skekkjumörk:

200 viðtöl400 viðtöl600 viðtöl3400 viðtöl
Ef útkoman var 20/80: +/- 5,5 %Ef útkoman var 20/80: +/- 3,9 %Ef útkoman var 20/80: +/- 3,2 %Ef útkoman var 20/80: +/- 1,3 %
Ef útkoman var 50/50: +/- 6,9 %Ef útkoman var 50/50: +/- 4,9 %Ef útkoman var 50/50: +/- 4,0 %Ef útkoman var 50/50: +/- 1,7 %

Fjöldi viðmælenda:

LandFjöldi
Samtals3400
Finnland600
Svíþjóð600
Noregur600
Danmörk600
Ísland400
Grænland200
Færeyjar200
Álandseyjar200
 

Viðauki 3: Heimildir

Eldri rannsóknir á afstöðu til norræns samstarfs

  • 2020, Norræna ráðherranefndin Lýðræði og þátttaka í loftslagsmálum á Norðurlöndum: Sömu markmið, ólíkar lausnir.
  • 2017, Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð: Dýrmætt samstarf
  • 2008, Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð: Hvad er vigtigt i Norden? Nordboerne om det nordiske samarbejde.
  • 2006, Norðurlandaráð: Nordisk samarbejde – Nordiske borgere om nordisk samarbejde. En opinionsundersøgelse i Finland, Danmark, Island, Norge og Sverige.
  • 1993, Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð: Nordens folk om nordiskt samarbete – en attitydundersökning i Sverige, Norge Danmark, Finland och Island våren 1993.

Aðrar heimildir

  • Norden.org: Mismunandi takmarkanir vegna kórónuveirunnar valda áhyggjum landamærasvæðum. Birt 14. september 2021. (https://www.norden.org/is/news/mismunandi-takmarkanir-vegna-koronuveirunnar-valda-ahyggjum-landamaerasvaedum )
  • Lénsstjórnin á Skáni, Utvärdering av effekter av tillämpningen av förordning om vissa identitetskontroller (2016) (https://www.oresundsinstituttet.org/wp-content/uploads/2016/09/20160923-Utvardering-av-effekter-av-tillampningen-av-forordning-om-vissa-identitetskontroller.pdf)
 

Um ritið

 

Stuðningur og vonbrigði - viðhorf til norræns samstarfs

 

Nord 2021:064
ISBN  978-92-893-7205-3 (PDF)
ISBN  978-92-893-7206-0 (ONLINE)
http://dx.doi.org/10.6027/nord2021-064

© Norræna ráðherranefndin 2021

 

Umbrot: Ida-Lina Nyholm

Útgefið 14.12.2021

 

Norrænt samstarf

Norræna samstarfið er eitt umfangsmesta svæðissamstarf í heimi. Samstarfið byggist á legu landanna, sameiginlegri sögu þeirra og menningu. Að samstarfinu koma Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Norræna samstarfið er pólitískt, efnahagslegt og menningarlegt og lætur muna um sig í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi. Löndin stuðla sameiginlega að öflugum Norðurlöndum í öflugri Evrópu.

Með norrænu samstarfi er hagsmuna svæðisins gætt og norræn gildi efld í hnattrænu samhengi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda og skipa þeim meðal þeirra svæða í heiminum þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.

Norræna ráðherranefndin
Nordens Hus
Ved Stranden 18
DK-1061 Kaupmannahöfn
www.norden.org

Lesa fleiri norræn rit: www.norden.org/is/utgafur

 

Þessi skýrsla fjallar um viðhorf Norðurlandabúa til norræns samstarf og er byggð á spurningakönnun sem lögð var fyrir 3400 manns á öllum Norðurlöndum.