logo
menu image

  • Full page image w/ text
  • Table of contents
  • CAGE
  • KYNNING
  • MENNTUN
  • VINNUMARKAÐUR
  • HEILBRIGÐISMÁL
  • FYLGDARLAUS BÖRN
  • NIÐURSTÖÐUR
  • Um ritið

MENU

 
 

 

Innihald

 

Þetta rit er einnig fáanlegt á netinu í vefaðgengilegri útgáfu: https://pub.norden.org/nord2021-056

 

CAGE er rannsóknarverkefni um heilsufar ungs flóttafólks í norrænu velferðarríkjunum og félagslegan og efnahagslegan ójöfnuð sem það sætir.

CAGE var unnið undir stjórn Forskningscenter for Migration, Etnicitet og Sundhed, sem er rannsóknarsetur innan lýðheilsudeildar Kaupmannahafnarháskóla. Rannsóknirnar voru unnar í samvinnu við fræðimenn frá:

  • Migrationsinstitutet í Åbo, Finnlandi
  • Nasjonalt kunnskapssenter om vold og traumatisk stress (NKVTS) í Osló, Noregi
  • Háskólanum í Suð-austur Noregi
  • Háskólanum í Bergen, Noregi
  • Háskólanum í Gautaborg, Svíþjóð
  • CHESS – Institutionen för folkhälsovetenskap í Stokkhólmi, Svíþjóð

CAGE var fjármagnað af Norræna rannsóknarráðinu, NordForsk, á tímabilinu 2015–2020.

 

KYNNING

Aðlögun ungs flóttafólks á Norðurlöndum

Síðustu fimmtíu ár hefur fjöldi þeirra sem flytja til Norðurlanda aukist og frá árinu 1970 hefur sífellt hærra hlutfall innflytjenda frá löndum utan Norðurlandanna verið flóttafólk og fjölskyldur þess. Um 25–30 prósent flóttafólksins eru börn yngri en 18 ára, en þegar börn sem fæðst hafa í nýju landi eru talin með nær tvöfaldast þessi tala.

Ljósmynd: Mostphotos

Mynd 1. Fjöldi einstaklinga sem veitt var hæli í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, 2006–2018.

Stefna Norðurlandanna í velferðarmálum er að mörgu leyti svipuð. Þó er talsverður munur á stefnu ríkjanna í málefnum innflytjenda og efnahagslegum aðstæðum flóttafólks.

Danmörk skoraði mun lægra en hin Norðurlöndin á Migration Integration Policy Index mælikvarðanum (MIPEX) árið 2015 sökum strangari skilyrða fyrir fjárhagslegri aðstoð, fjölskyldusameiningu og veitingu ríkisborgararéttar. Að auki er munur á mikilvægum efnahagslegum forsendum innan ríkjanna. Sem dæmi hefur atvinnuleysi ungs fólks í Svíþjóð og Finnlandi um áratuga skeið verið hærra en á hinum Norðurlöndunum.

Mynd 2. Heildarútkoma á Migration Integration Policy Index mælikvarðanum, sem metur ólíka þætti varðandi aðlögun innflytjenda, lagaumhverfi og stefnu í málefnum þeirra á Norðurlöndum, 2010–2014. Sú stefna sem best stuðlar að aðlögun jafngildir tölunni 100.

Ítarleg gögn greiða fyrir samanburði milli landa

Öll norrænu ríkin safna ítarlegum gögnum um stöðu barna og unglinga í hópi flóttafólks. Gögnin gera það að verkum að hægt er að bera saman stöðuna milli landa og auka skilning á þeim áhrifum sem félags- og efnahagslegar aðstæður hafa á aðlögun ungra innflytjenda.

CAGE verkefnið rannsakaði ójöfnuð varðandi menntun, atvinnuþátttöku og heilsufar ungs flóttafólks á uppvaxtarárum þess. Jafnframt varpaði verkefnið ljósi á áhrif innflytjendastefnu landanna og annarra þjóðfélagsþátta á ójöfnuðinn.

Nánar tiltekið rannsakaði CAGE stöðu flóttafólks sem fékk landvistarleyfi sem börn á aldrinum 0-17 ára á árunum 1986–2005 í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Gögnin sem rannsökuð voru náðu til ársins 2015.

Rannsóknin byggir á niðurstöðum úr samanburðarhæfum tölulegum rannsóknum frá löndunum fjórum. Því til viðbótar greindu aðilar verkefnisins stefnu stjórnvalda og rannsökuðu ráðandi áhrifaþætti í þróun ójöfnuðarins með eigindlegum aðferðum.

Mynd 3. Greiningarmódel CAGE verkefnisins

 

MENNTUN

Jafn réttur til náms – en þó ekki í Danmörku

Hvað varðar stefnu í menntamálum hafa Finnland, Noregur og Svíþjóð tryggt jafnan rétt allra barna til náms. Í Danmörku hafa hælisleitendur hins vegar ekki átt rétt á framhaldsskólanámi.

Öllum innflytjendum sem nýkomnir eru til landanna fjögurra er boðið upp á tungumálanám og annan stuðning við aðlögun. Námið getur annað hvort farið fram með þátttöku nýbúa í venjulegri bekkjakennslu eða í sérstökum bekkjum fyrir innflytjendur. Svíþjóð og Finnland hafa lagt áherslu á að innflytjendur taki þátt í náminu til jafns við aðra.

Skólakerfi Norðurlandanna eru ekki miðstýrð. Ákvörðunin um hvort kennsla innflytjenda skuli vera inngildandi í venjulegum bekkjum eða aðgreind í sérstökum aðlögunarbekkjum er því oftast nær tekin af sveitarfélögunum. Þetta hefur valdið miklum svæðisbundnum mun á fyrstu kynnum flóttabarna af menntakerfinu.

Ljósmynd: Johnér

Munur á námsárangri

Þegar námsárangur er skoðaður kemur í ljós að flóttabörn í löndunum fjórum náðu lakari árangri en innfædd börn, en einnig er mikill munur á námsárangri innan flóttabarnahópsins.

Það er ljóst að uppruni flóttafólks og aldur við komu hefur áhrif á námsárangur (Mynd 4). Flóttafólk frá millitekjulöndum nær oftast betri námsárangri en flóttafólk frá lágtekjulöndum. Flóttabörn sem komu til Norðurlandanna fyrir skólaaldur náðu þar að auki betri árangri í skóla en þau sem komu síðar á ævinni.

Í öllum löndunum fjórum er meiri munur á hlutfalli flóttafólks og innfæddra sem lokið hafa framhaldsskólamenntun en á hlutfalli þeirra sem lokið hafa æðri menntun (Mynd 5). Samanburður milli landanna sýnir að flóttabörn í Danmörku og Finnlandi voru almennt með lægsta menntunarstigið. Flóttabörn í Svíþjóð voru yfirleitt með hæsta menntunarstigið, en þar var einnig mestur munur eftir því hvenær börnin komu til landsins.

Mynd 4. Meðaltal einkunna flóttabarna eftir kyni og aldri við komu. Meðaleinkunn fyrir þorra þjóðarinnar í þessum þremur löndum var fyrir stúlkur 55,3-57,5 og fyrir drengi 46,3-47,5.

Þörf á betri þekkingu til að styðja ungt flóttafólk

Norsk viðtalsrannsókn um félagslegar aðstæður ungs flóttafólks og aðlögun þess að menntakerfinu sýndi að forsendur kennara og skóla til þess að styðja ungt flóttafólk í námi eru mjög mismunandi. Í viðtölunum var kallað eftir meiri þekkingu til að geta komið á móts við margvíslegar þarfir þessa fjölbreytta hóps varðandi nám og félagslegan stuðning.

Rannsóknin benti á þrjár megináskoranir starfsfólks skólanna þegar kemur að faglegum og félagslegum stuðningi við nýkomið flóttafólk í námi.

  1. Að mæta námsþörfum flóttafólks og veita því jafnframt nægan félagslegan stuðning
  2. Að taka tillit til einstaklingsins en sinna jafnframt þörfum heildarinnar
  3. Að vekja námsáhuga en stuðla jafnframt að réttum undirbúningi fyrir vinnumarkað

Svör kennaranna gáfu til kynna að oft væri vandasamt að aðstoða nemendur sem hefðu mun meiri væntingar til námsárangurs síns en námsgeta þeirra gæfi tilefni til.

Viðtöl við starfsfólk skólanna um aðstæður flóttafólks í námi bentu til þess að starfsfólkið veiti þörfum flóttafólks varðandi námið meiri athygli en þörfinni fyrir félagslegan stuðning. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að annað fagfólk en kennarar, til að mynda heilbrigðisstarfsmenn og félagsráðgjafar skólanna, gegni einnig mikilvægu hlutverki í félagslegum stuðningi við flóttafólk.

Í annarri viðtalsrannsókn innan CAGE sem rannsakaði samhengið milli menntunar og ójöfnuðar í heilsufari kölluðu kennarar eftir samhæfðri geðheilbrigðisþjónustu í skólum, með sérþekkingu á heilsufari og vellíðan flóttafólks. Þannig mætti mögulega vinna gegn neikvæðum áhrifum geðheilbrigðisvanda flóttafólks á námsárangur og stuðla að bættri heilsu og vellíðan þess í skólanum.

Mynd 5. Hlutfall flóttabarna og innfæddra sem lokið höfðu framhaldsskólamenntun við 25 ára aldur.

 

VINNU|MARKAÐUR

Áhersla lögð á atvinnuþátttöku

Norrænu ríkin hafa beitt mismunandi aðgerðum til þess að greiða leið flóttafólks og innflytjenda inn á vinnumarkað. Þó hefur stefna allra norrænu ríkjanna í málefnum innflytjenda og hælisleitenda atvinnuþátttöku sem markmið.

Síðustu ár hafa réttindi flóttafólks og innflytjenda í auknum mæli verið háð atvinnuþátttöku og atvinnuþjálfun. Litið er á atvinnuþátttöku sem eina helstu forsendu aðlögunar að samfélaginu og eitt mikilvægasta skilyrðið fyrir langtíma búsetu í löndunum.

Atvinnuþátttaka ungs flóttafólks var lægri við 25 ára og 30 ára aldur en atvinnuþátttaka innfæddra á sama aldri (Mynd 6). 18–31% flóttafólks var hvorki í námi, vinnu né starfsþjálfun (NEET – not in education, employment or training), sem verður að teljast nokkuð hátt hlutfall. Einnig var talsverður munur á milli kynja; á meðan 39–51% karlkyns flóttamanna voru á vinnumarkaði við 30 ára aldur átti það einungis við um 27–40% flóttakvenna. Rannsóknin sýndi einnig að munur er á atvinnuþátttöku flóttafólks eftir uppruna.

Samanburður milli ríkjanna fjögurra sýndi að flóttafólk í Danmörku átti erfiðast uppdráttar á vinnumarkaði samanborið við innfædda á sama aldri. Rannsóknin sýndi einnig að munurinn á atvinnuþátttöku var talsvert minni meðal þeirra sem lokið höfðu framhaldsskólanámi en meðal þeirra sem ekki höfðu lokið slíku námi (Mynd 7).

Ljósmynd: Ritsau Scanpix

Mynd 6. Hlutfall flóttafólks með stöðuga atvinnu eftir kyni, aldri og móttökulandi.

Tvöföld áskorun varðandi atvinnu

Viðtalsrannsókn um atvinnumál sem gerð var í Finnlandi sýndi að ungt flóttafólk stendur frammi fyrir tvöföldum vanda á vinnumarkaði, annar vegar sökum ungs aldurs og hins vegar þar sem það er flóttafólk. Bent var á að gott tengslanet væri mikilvæg forsenda þess að komast inn á finnskan vinnumarkað, sem gerir stöðu flóttafólks erfiðari en ella.

Þrátt fyrir að ábyrgðin á því að finna vinnu og fóta sig á vinnumarkaði hvíli að mestu á herðum flóttafólksins sjálfs má einnig greina jákvæðar breytingar á viðhorfi vinnuveitenda. Vinnuveitendur óskuðu eftir auknum stuðningi við tungumálakennslu og námskeið um finnska vinnumenningu fyrir flóttamenn. Einnig lögðu finnskir vinnuveitendur áherslu á að skrifræði við ráðningu flóttafólks yrði minnkað.

Mynd 7. Hlutfall flóttafólks og innfæddra með stöðuga atvinnu við 30 ára aldur eftir því hvort þau höfðu lokið framhaldsskólamenntun við 25 ára aldur eða ekki.

 

HEILBRIGÐIS|MÁL

Aukin áhersla á andlega heilsu

Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar var mörkuð stefna um móttöku og heilbrigðisþjónustu við flóttafólk í löndunum fjórum, með sérstaka áherslu á smitsjúkdóma og bráðaumönnun. Síðustu ár hefur stefna ríkjanna um heilbrigði flóttafólks og hælisleitenda orðið heildstæðari og er nú lögð meiri áhersla á andlega líðan þeirra.

Danmörk er það land sem leggur mesta áherslu á að sinna andlegri heilsu flóttafólks við komu. Danmörk er hins vegar eina landið á Norðurlöndum sem ekki tryggir með lögum að börn meðal hælisleitenda fái sömu heilbrigðisþjónustu og innfædd börn.

Ljósmynd: Unsplash.com

Mynd 8. Dánartíðni flóttafólks sem fæddist á árunum 1972–1997 á tímabilinu 2006–2015, samanborið við innfædda yfir 18 ára aldri.

Áhættuhlutfall (e. Hazard ratio - HR) (mælikvarði á hlutfallslega áhættu á hverjum tíma á athugunartímabilinu) með 95% öryggisbili (e. Confidence interval - CI).

Slæmt heilsufarsástand karlkyns flóttamanna algengara

Gerð var rannsókn á tölulegum upplýsingum um heilsufar flóttafólks sem kom til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar sem börn á árunum 2006–2015. Rannsóknin beindist að heilsufarsástandi þeirra á aldrinum 18–43 ára.

Karlkyns flóttamenn í Danmörku voru almennt í meiri hættu á að deyja vegna ytri orsaka. Þar að auki höfðu þeir meiri þörf fyrir veikindabætur og örorkulífeyri og fyrir umönnun vegna geðsjúkdóma (Mynd 8). Loks voru meiri líkur á lyfjamisnotkun og vímuefnaneyslu í þeirra hópi en meðal flóttakvenna og innfæddra karla í Danmörku.

Líkurnar á geðrænum vanda karlkyns flóttamanna í Svíþjóð og Noregi voru einnig hærri en meðal innfæddra karla í löndunum, og sama átti við um veikindabætur og örorkulífeyri í Svíþjóð (Mynd 9). Þá bentu niðurstöður til þess að bæta þyrfti aðgang karlkyns flóttamanna að geðheilbrigðisþjónustu, sérstaklega í Svíþjóð.

Almennt má segja að heilsufarsástand flóttakvenna sé líkara heilsufari innfæddra kvenna en þegar heilsufar karla í löndunum þremur er borið saman. Minna var um vímuefnaneyslu meðal flóttakvenna en innfæddra kvenna.

Mynd 9. Innlagnir á sjúkrahús vegna geðsjúkdóma eftir 18 ára aldur á tímabilinu 2006–2015 meðal flóttafólks sem fætt er 1972–1997 eftir kyni, samanborið við innfædda. Áhættuhlutfall, 95% öryggisbil.

Stuðningur við fjölskyldur í hælismiðstöðvum

Í Danmörku var gerð eigindleg rannsókn á því hvernig heilbrigðisþjónusta við móttöku flóttafólks fer fram í hælismiðstöðvum og hvernig flóttafólk upplifir hana.

Rannsóknin sýndi meðal annars fram á jákvæð áhrif af störfum barnahjúkrunarfræðinga í danska hæliskerfinu. Hjúkrunarfræðingarnir hafa náð vel til fjölskyldnanna og myndað við þær sterk og valdeflandi tengsl með því að koma móts við þarfir hverrar fjölskyldu fyrir sig. Rannsóknin bendir hins vegar einnig til þess að sökum þrengsla og takmarkaðrar aðstöðu til náinnar fjölskyldusamveru í hælismiðstöðvunum hafi fjölskyldunum reynst erfitt að viðhalda þeim jákvæðu uppeldisaðferðum sem hjúkrunarfræðingarnir leggja til.

 

FYLGDARLAUS BÖRN

Fylgdarlaus börn þarfnast sérstakrar athygli

Rannsókn á aðstæðum fylgdarlausra flóttabarna í Noregi og Svíþjóð bendir til þess að aðstæður þeirra séu erfiðari á allri lífsleiðinni en aðstæður flóttabarna sem koma í fylgd annarra. Þetta á við um allt frá alvarlegum geðheilsuvanda til árangurs í skóla (Mynd 10) og einnig er hlutfall þeirra sem hvorki eru í vinnu, námi eða starfsnámi við 25 ára og 30 ára aldur hærra (Mynd 11). Eini félagslegi þátturinn þar sem fylgdarlausum flóttabörnum gekk jafn vel eða betur en þeim sem komu í fylgd annarra var atvinnuþátttaka við 25 ára aldur. Sú staða hafði hins vegar snúist við aftur við 30 ára aldur.

Ljósmynd: Mads Schmidt Rasmussen

Mynd 10. Innlagnir á sjúkrahús vegna lyfjamisnotkunar meðal flóttafólks yfir 18 ára aldri eftir kyni í Svíþjóð og Noregi á tímabilinu 1991–2015, samanborið við innfædda. Áhættuhlutfall eftir aldri, 95% öryggisbil.

Mynd 11. Hlutfall þess flóttafólks sem kom til landanna sem fylgdarlaus flóttabörn sem hvorki var í vinnu né námi (NEET) við 30 ára aldur, samanborið við flóttafólk sem kom til landanna í fylgd og innfæddan meirihluta íbúa. Svíþjóð og Noregur, karlar og konur.

 

Niðurstöður CAGE – Viðbragða þörf við ójöfnuði gagnvart flóttafólki á Norðurlöndum

Rannsóknarniðurstöður CAGE sýndu fram á ójöfnuð hvað varðar menntun, atvinnuþátttöku og heilsufarsástand ungs flóttafólks í samanburði við innfædda í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

Niðurstöðurnar benda til þess að framhaldsskólamenntun geri fólki auðveldara að komast inn á vinnumarkaðinn. Þessir tveir þættir eru því nátengdir þegar litið er á lífshlaup fólks. Meiri munur er á hlutfalli flóttafólks og innfæddra sem lokið hafa framhaldsskólanámi en á hlutfalli þeirra sem lokið hafa æðri menntun.

  • Mælt er með því að löndin fjögur leggi áherslu á stefnubreytingar sem miði að því að auðvelda fólki að ljúka framhaldsskólanámi.

Stefnumótun í þá veru ætti einnig að taka mið af þeim ábendingum sem fram komu í viðtalsrannsóknum CAGE. Kennarar óskuðu eftir meiri sveigjanleika í kennslu og vöktu þar að auki athygli á þörfinni fyrir betri menntun í því að styðja við flóttafólk í námi.

Hlutfall ungs flóttafólks sem hvorki er í vinnu, námi né starfsþjálfun (NEET) er hærra en hlutfall innfæddra. Þetta hefur í för með sér neikvæð áhrif á heilsufar og vellíðan þessara einstaklinga og kostnað fyrir samfélagið.

  • Leggja ber áherslu á stefnumótun og aðgerðir til að lækka hlutfall ungs flóttafólks sem hvorki er í vinnu, námi né starfsnámi.

CAGE sýndi fram á sérstaka erfiðleika lítið menntaðs flóttafólks við að fóta sig á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndum, þar sem stór hluti starfa krefst menntunar og sérhæfingar. Rannsóknin bendir til þess að menntun og starfsferill ungs flóttafólks séu sjaldnast samfelld en einkennist þess í stað af af sveiflum milli vinnu og atvinnuleysis, starfsþjálfunar, sjálfboðavinnu og náms.

Rannsóknin vekur athygli á hlutfallslega þyngri byrði flóttafólks vegna alvarlegra geðkvilla og vímuefnaneyslu. Þetta má meðal annars lesa úr fjölda innlagna karlkyns flóttamanna vegna geðrænna vandamála og tíðni geðrofssjúkdóma meðal flóttakvenna.

Margt bendir til þess að bæta þurfi aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, sérstaklega í Svíþjóð.

  • Því ber að leggja áherslu á stefnumótun sem veitir andlegri líðan flóttafólks við móttöku meiri athygli og má þar taka Danmörku til fyrirmyndar.

Einnig þarf að taka tillit til þarfa flóttafólks í almennri geðheilbrigðisþjónustu.

Fylgdarlaus flóttabörn búa við meiri ójöfnuð varðandi menntunarstig, atvinnuþátttöku og heilsufar en flóttabörn sem koma í fylgd annarra. Þetta staðfestir veika stöðu þeirra sökum þess að þau vantar stuðning fjölskyldunnar og að auki koma þau í mörgum tilvikum með þungar andlegar byrðar í farteskinu.

  • Taka ber mið af viðkvæmri stöðu og sérþörfum fylgdarlausra flóttabarna í stefnumótun.

CAGE sýndi fram á greinilegan kynjamun í ríkjunum fjórum varðandi heilsufarsástand og atvinnuþátttöku í samanburði við innfædda. Heilsufar flóttakvenna líkist heilsufari innfæddra kvenna í löndunum meira en heilsufar karla í sams konar samanburði. Atvinnuþátttaka kvennanna var hins vegar minni.

  • Nýta ber vitneskju um kynjamun í atvinnuþátttöku og heilsufari í stefnumótun.

Samanburður milli landanna sýndi að flóttafólk í Danmörku, sem er með ströngustu innflytjenda- og aðlögunarstefnu Norðurlandanna samkvæmt MIPEX mælikvarðanum frá 2015 og einnig síðari samanburði, var í lakari stöðu á nær öllum sviðum menntunar, vinnumarkaðar og heilsufars. Þetta á við bæði í samanburði við innfæddan meirihluta íbúa í ríkjunum og sambærilega hópa flóttafólks í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

  • Þetta bendir til þess að innflytjendastefna sem hefur að markmiði að senda skilaboð til hælisleitenda utan landsins hafi neikvæð áhrif á það flóttafólk sem þegar hefur fengið dvalar- eða búsetuleyfi á Norðurlöndum. 

Hugsanlegt er að ójöfnuður geti verið bein afleiðing af stefnumótun – eða vöntun á stefnumótun – í veigamiklum málaflokkum. Einnig gæti skýringuna verið að finna í almennu viðhorfi til innflytjenda sem leitt hafi til strangari stefnu í málefnum þeirra. Ítarlegri rannsókna er þörf til að skýra betur ástæðurnar að baki ójöfnuðinum.

Ljósmynd: Mads Schmidt Rasmussen

Mikilvæg uppspretta upplýsinga á Norðurlöndum

Þau viðamiklu gagnasöfn sem til eru á Norðurlöndum gefa einstaka möguleika á því að meta áhrifin af stefnu landanna í mikilvægum málaflokkum. Til viðbótar við samanburð gagna lagði CAGE verkefnið mat á skilvirkni gagnainnviða í hverju landi fyrir sig. Samanburðurinn benti til þess að gagnainnviðir væru skilvirkastir í Danmörku en flóknastir og óhagkvæmastir í Noregi.

  • Mikilvægt er að stuðla að frekari samræmingu gagnainnviða til að hægt sé nýta vönduð og ítarleg gagnasöfn landanna eins og best verður á kosið í norrænum samanburði.

 

 

Um ritið

 

Hvernig farnast ungu flóttafólki á Norðurlöndum?
Coming of Age in Exile – CAGE

Henry Ascher, Amina Barghadouch, Lisa Berg, Olof Bäckman, Anne Sofie Børsch, Andrea Dunlavy, Ketil Eide, Karl Gauffin, Elli Heikkilä, Maria Hernandez Carretero, Anders Hjern, Christopher Jamil de Montgomery, Signe Smith Jervelund, Allan Krasnik, Thomas Lorentzen, Brit Lynnebakke, Eveliina Lyytinen, Maili Malin, Camilla Michaëlis, Claire Mock-Muñoz de Luna, Marie Nørredam, Anne-Katrine Rosenkrantz de Lasson, Morten Skovdal, Ryan Tamayo Europa, Marja Tiilikainen, Nita Toom, Mette Kirstine Tørslev, Lutine de Wal Pastoor og Kathrine Vitus


Nord 2021:056
ISBN 978-92-893-7111-7 (PDF)
ISBN 978-92-893-7112-4 (ONLINE)
http://dx.doi.org/10.6027/nord2021-056

Útgefið 8.9.2021
Uppfært 29.9.2021
 

© Norræna ráðherranefndin 2021


Umbrot: Mette Agger Tang
Kápumynd: Mads Schmidt Rasmussen, Scanpix og Unsplash

 

Þessi samantekt er unnin af Nordic Welfare Centre og verkefninu norrænt samstarf um aðlögun flóttafólks og innflytjenda. Nánari upplýsingar er að finna á: www.integrationnorden.org.

Þessi skýrsla kynnir helstu niðurstöður CAGE verkefnisins á íslensku. Farið er ítarlega yfir niðurstöður verkefnisins á ensku í skýrslunni: Coming of Age in Exile – Health and Socio-Economic inequalities in Young Refugees in the Nordic Welfare Societies. Copenhagen: University of Copenhagen, 2020. 

 

 

Norrænt samstarf

Norræna samstarfið er eitt umfangsmesta svæðissamstarf í heimi. Samstarfið byggist á legu landanna, sameiginlegri sögu þeirra og menningu. Að samstarfinu koma Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Norræna samstarfið er pólitískt, efnahagslegt og menningarlegt og lætur muna um sig í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi. Löndin stuðla sameiginlega að öflugum Norðurlöndum í öflugri Evrópu.

Með norrænu samstarfi er hagsmuna svæðisins gætt og norræn gildi efld í hnattrænu samhengi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda og skipa þeim meðal þeirra svæða í heiminum þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.

Norræna ráðherranefndin
Nordens Hus
Ved Stranden 18
DK-1061 Kaupmannahöfn

www.norden.org

Lesa fleiri norræn rit: www.norden.org/is/utgafur