MENU
Margt hefur bundið Norðurlöndin böndum. Sameiginleg gildi og svipuð samfélagsgerð hafa skipt miklu. Á sama tíma hefur verið bent á sameiginleg tungumál og menningu sem kjarna norræns samstarfs. Talið hefur verið að flestir íbúar Norðurlanda geti á tiltölulega einfaldan hátt lært að eiga samskipti sín á milli á náskyldu tungumálunum dönsku, norsku og sænsku. Og að þessi skyldleiki tungumála stuðli að samskiptum yfir landamæri.
Tungumál geta einnig verið skiljanleg innbyrðis á öðrum stöðum í heiminum. Það sem er einstakt við norrænt samstarf er pólitísk áhersla á tungumál til að efla samkennd á tilteknu svæði.
Málumhverfi Norðurlanda er einnig annað í dag en fyrir 60 árum síðan. Unga fólkið hefur alist upp í hnattvæddum heimi þar sem enska er alls staðar nálæg og norrænu tungumálin virðast kannski vera aðeins fjær. Á þeim grundvelli spurði Norræna ráðherranefndin meira en 2000 ungmenni á Norðurlöndunum öllum hvaða augum þau litu tungumál og menningu, og hve vel þau teldu að þau skildu hvert annað á skandinavísku tungumálunum.
Norræna ráðherranefndin vinnur að því að hrinda í framkvæmd framtíðarsýninni um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi. Eitt markmiðanna er að auka þekkingu barna og ungmenna á tungumálum og menningu grannríkjanna. Við þurfum að vera minnug þess að tungumál eru lærð og notuð af einstaklingum. Það þýðir að lengi má bæta skilning á tungumálum og menningu á Norðurlöndunum. Niðurstöður þessarar könnunar – munurinn milli landanna, áhugi á ólíkum tungumálum og menningu og samhengið milli tungumálakunnáttu og afstöðu til tungumála – geta gefið okkur vísbendingar um hvert við eigum að beina kröftum okkar, þegar könnunin sýnir okkur fyrst og fremst að skilningi ungs fólks á skandinavísku tungumálunum hafi hrakað.
Höfundar skýrslunnar eru Andrea Skjold Frøshaug og Truls Stende sem starfa í greiningar- og gagnadeild skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Spurningakönnunin er unnin af Novus að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Norstat sá um að taka viðtöl við íbúa í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og á Álandseyjum. Á Íslandi var það Gallup, í Færeyjum DMA og á Grænlandi HS Analysis sem sáu um að taka viðtölin, sem undirverktakar fyrir Novus/Norstat.
Kaupmannahöfn, desember 2020
Paula Lehtomäki
framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
Gagnkvæmur skilningur fólks á Norðurlöndum á dönsku, norsku og sænsku er meðal þess sem hefur bundið Norðurlöndin böndum. Á hinn bóginn tekur málumhverfið stöðugum breytingum. Unga fólkið hefur alist upp á hnattvæddum Norðurlöndum þar sem enska er hluti daglegs lífs. Á þeim grundvelli lagði Norræna ráðherranefndin spurningar fyrir fleiri en 2000 ungmenni á aldrinum 16–25 ára á öllum Norðurlöndunum um tungumálakunnáttu þeirra og afstöðu til tungumála og menningar.
Í stuttu máli sagt sýnir könnunin að mjög er á reiki milli Norðurlanda og tungumálanna hvernig unga fólkið metur skilning sinn á skandinavísku tungumálunum. Í mörgum landanna er hátt hlutfall ósammála því að auðvelt sé að skilja eitt eða fleiri skandinavísku tungumálanna. Niðurstöðurnar vekja upp nokkrar flóknar spurningar um Norðurlöndin og tungumál:
Við spurðum unga fólkið um skilning og vald á ólíkum tungumálum – með áherslu á skandinavísku tungumálin.
Lifandi málsamfélag ungmenna á Norðurlöndum veltur á því að þau noti skandinavísk tungumál sín á milli. Því spurðum við hvaða tungumál þau velja við ólíkar aðstæður og hvers vegna.
Norrænt mál- og menningarsamfélag er oft nefnt í sömu andrá og við vildum því kanna hvaða tungumál mætir unga fólkinu á menningarviðburðum og hvað þau telja að geti reynst þeim gagnlegt við að læra tungumál.
Hefð hefur verið fyrir því á Norðurlöndunum að líta svo á að sameiginlegur málskilningur auki samkennd meðal íbúa svæðisins. Gagnkvæmur skilningur á norsku, sænsku og dönsku hefur miðað að samskiptum, frjálsri för yfir landamærin og trausti manna á milli. Það hefur ráðið úrslitum um að Norðurlöndin eru orðin samþætt svæði og að ráðist hefur verið í umfangsmikið norrænt samstarf.
Þeir sem skilja eitt hinna skandinavísku tungumálanna eiga auðveldara með að stunda nám á Norðurlöndum og eiga greiðari aðgang að sameiginlegum vinnumarkaði. Fyrri rannsóknir hafa einnig sýnt að íbúarnir líta á tækifærið til að geta stundað vinnu, nám eða taka sér búsetu á Norðurlöndunum öllum sem einn helsta kost norrænnar samvinnu.[1]Andreasson, U. og T. Stende. (2017). Dýrmætt samstarf. NMR Analyse 2017:3
Gagnkvæmur málskilningur hefur einnig verið stór hluti norrænnar sjálfsmyndar – þess að líta á sig sem Norðurlandabúa og sem hluta Norðurlanda. Að auki njóta skandinavísku tungumálin sérstöðu í opinberu norrænu samstarfi, þar sem vinnumálið er oftast nær skandinavíska og forðast er að nota ensku.
Opinbert norrænt tungumálasamstarf hefur um langa hríð beinst að börnum og ungmennum og skilningi þeirra á dönsku, norsku og sænsku. Skilningur ungs fólks á skandinavísku tungumálunum er sérlega mikilvægur, meðal annars vegna þess að það er unga fólkið sem á að leiða norrænt samstarf inn í framtíðina.
Á síðastliðnum 20 árum hefur málumhverfið hins vegar tekið breytingum. Rannsóknir frá því eftir árið 2000 sýna að unga fólkið skilur skandinavísku verr en áður og hefur mun betra vald á ensku en fyrri kynslóðir (sjá næsta kafla). Áhrif úr ensku, ný tækni og samfélagsmiðlar hafa breytt samskiptum ungs fólks, málnotkun og iðkun menningar.
Norræna ráðherranefndin lagði fram spurningakönnun fyrir ungt fólk á Norðurlöndum um málskilning og afstöðu til tungumála og menningar. Við spurðum unga fólkið hversu vel það skildi ólík tungumál, hvernig það notaði tungumálið og hvaða tungumál yrðu á vegi þess á ýmsum menningarviðburðum. Skýrslan varpar einnig ljósi á málefni á döfinni sem hafa áhrif á málnotkun ungs fólks: áhrif úr ensku, nýja tækni og samfélagsmiðla. Hún tekur einnig á afstöðu ungs fólks til tungumála á Norðurlöndum – meðal annars á því hvort unga fólkinu finnist norrænt málsamfélag varða miklu. Spurningakönnunin inniheldur meira en 2000 símaviðtöl við ungt fólk á aldrinum 16–25 ára í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
Skýrslan er byggð upp sem hér segir: Fyrst er horft stuttlega til fyrri rannsókna á þessu sviði. Að því loknu er í fyrsta hluta farið yfir niðurstöðurnar almennt, áður en við skrifum aðeins um hvernig hvert landanna er ólíkt hinum Norðurlöndunum. Í niðurlaginu leggjum við áherslu á hvernig málskilningur geti haft áhrif á norræna samstöðu til framtíðar.
Á Norðurlöndum eru öll tungumál jafn rétthá þrátt fyrir að þau gegni ekki öll sama hlutverki. Í þessari skýrslu notum við hugtakið þjóðtunga um dönsku í Danmörku, finnsku í Finnlandi, norsku í Noregi, íslensku á Íslandi og sænsku í Svíþjóð. Í Færeyjum er það færeyska, á Grænlandi grænlenska og á Álandseyjum er það sænska.
Danska, norska og sænska eru náskyldar tungur sem skiljast innbyrðis og mynda málsamfélag Norðurlanda. Ýmis landsbundin minnihlutamál og táknmál á Norðurlöndum hafa sérstöðu. Rík tungumálaflóra Norðurlanda samanstendur einnig af tungumálum sem eru ekki norræn að uppruna en hafa borist til Norðurlanda á löngum tíma.
Áðurgreindar þjóðtungur tilheyra þremur ólíkum málafjölskyldum. Danska, norska, sænska, íslenska og færeyska tilheyra öll norðurgermanskri málaætt indóevrópskra mála. Danska, norska og sænska (að meðtalinni finnlandssænsku) eru svo náskyld að þau eru skiljanleg innbyrðis. Margt er einnig líkt með íslensku og færeysku, bæði innbyrðis og með skandinavísku tungumálunum þremur, en eru ekki jafn skiljanleg innbyrðis og þau skandinavísku. Finnska (og tungumál Sama) eru finnsk-úgrísk tungumál sem tilheyra úrölskum tungumálum. Þessi tungumál eru í fljótu bragði ekki skiljanleg innbyrðis. Grænlenska, sem er tungumál Inúíta, tilheyrir þriðju tungumálaættinni.
Verulegur munur er á hinum ýmsu tungumálaættum þegar kemur að málfræðiuppbyggingu, hljóðkerfi og orðaforða. Það þýðir að Norðurlandabúar standa mjög misjafnlega að vígi þegar kemur að því hve auðvelt eða erfitt er að skilja skandinavísk tungumál grannríkjanna. Sumir eiga að geta skilið tungumálin þrjú með hliðsjón af náskyldu móðurmáli, á meðan aðrir þurfa að taka þátt í málsamfélaginu með hliðsjón af kunnáttu sinni í erlendum málum. Saga tungumálanna gefur þeim einnig ólíkar forsendur sem samskiptamáta á Norðurlöndunum sem svæði.[2]Sletten, I.S. (ritstj.). (2004). Nordens språk med rötter och fötter. Nord 2004:9.
Novus gerði spurningakönnunina að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Norstat tók símaviðtölin í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Álandseyjum. Gallup tók viðtölin á Íslandi, á meðan DMA sá um Færeyjar og HS Analysis um Grænland (sem undirverktakar fyrir Novus/Norstat).
Spurningakönnunin fór fram í formi símaviðtala á tímabilinu desember 2019 til febrúar 2020. Hún nær til alls 2092 ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára. Í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð voru tekin u.þ.b. 400 viðtöl í hverju landanna, á Íslandi u.þ.b. 200 viðtöl og í Færeyjum og á Grænlandi voru tekin u.þ.b. 100 viðtöl. Á Álandseyjum, þar sem eru tæplega 3000 ungmenni milli 16 og 25 ára voru bara tekin 78 viðtöl. Það er lítið í samanburði við hin löndin en ekki tókst að taka fleiri viðtöl. Samt eru svörin til marks um afstöðu hlutfalls íbúanna sem hægt er að alhæfa út frá.
Þegar við greinum frá áliti ungs fólks á Norðurlöndunum öllum, þá skipta niðurstöður sumra landanna meira máli en annarra. Það er vegna þess að niðurstöður landanna eru vegnar á grundvelli hlutfalls ungs fólks á aldrinum 16–25 ára í hverju landanna. Svíþjóð hefur þannig mest áhrif á niðurstöðuna, á meðan Ísland, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar hafa minnst áhrif. Við völdum þessa aðferð til að kanna álit allra íbúa Norðurlandanna og þá var sanngjarnt að álit allra ungmenna vegi jafnt. Niðurstöðurnar eru einnig vegnar á grundvelli kyns og aldurs. Sjá nánari upplýsingar í fylgiskjali um aðferðafræði.
Håller språket ihop Norden? frá 2005 er viðamesta og þekktasta tungumálarannsókn á Norðurlöndum. Rannsóknarskýrslan, sem var unnin af Lars-Olof Delsing og Katarina Lundin Åkesson, lýsir raunverulegum skilningi á grannmálunum dönsku, norsku og sænsku ásamt skilningi á ensku meðal framhaldsskólanema á aldrinum 16–19 ára á Norðurlöndunum öllum. Um það bil 850 nemendur voru prófaðir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, á meðan 450 nemendur voru prófaðir á hinum Norðurlöndunum. Fáeinir foreldrar nemendanna komu einnig við sögu í rannsókninni til að fá samanburð við málskilning eldri kynslóðarinnar. Rannsóknin bar saman prófniðurstöður unga fólksins og foreldranna og rannsókn sem gerð var meðal ungra hermanna árið 1972 (Maurud-rannsóknin). Niðurstaðan varð sú að málskilningi milli dönsku, norsku og sænsku á Norðurlöndum hefði hrakað meðal ungs fólks á þessum 30 árum. Áhugaverð niðurstaða var að Norðmenn skildu grannmálin best meðal dönsku-, norsku- og sænskumælandi, á meðan Færeyingar voru áberandi bestir í dönsku og norsku og næstbestir í sænsku á Norðurlöndunum öllum.[1]Delsing, L.-O. og K.L. Åkesson. (2005). Håller språket ihop Norden? En forskningsrapport om ungdomars förståelse av danska, svenska och norska. TemaNord 2005:573.
Rannsóknin sýndi enn fremur að skilningur á ensku var almennt góður á Norðurlöndunum öllum. Þessi góða enskukunnátta hefur verið notuð til að setja spurningamerki við bæði nauðsyn og framtíð norræns málsamfélags. Delsing og Åkesson bentu einnig á að skilningnum milli dönsku- og sænskumælandi ungmenna hefði hrakað verulega á einni kynslóð. Spurningakönnunin Dansk og svensk – Fra nabosprog til fremmedsprog? sem var gerð af Robert Zola Christensen og Mari Bacuin árin 2012–2013 styður þessa niðurstöðu þó svo að þessi rannsókn mæli ekki raunskilning, heldur hvernig unga fólkið meti gagnkvæman málskilning á töluðu máli. Niðurstöðurnar byggja á spurningakönnun með alls næstum því 450 dönskum og sænskum nemendum á aldrinum 16 til 18 ára á Eyrarsundssvæðinu.[2]Christensen, R. og M. Bacuin. (2013). Dansk og svensk – fra nabosprog til fremmedsprog? Språk i Norden 2013: 67-82
Du skal bare kaste deg ut i det frá 2016 var forkönnun sem byggði á viðtölum við 31 ungmenni frá Norðurlöndunum öllum. Öll ungmennin höfðu stundað vinnu eða nám í grannríki þar sem skandinavíska er töluð. Í sama streng tekur höfundurinn Eva Theilgaard Brink þegar hún ályktar, líkt og Delsing og Åkesson árið 2005, að Færeyingar og Norðmenn skilji best grannmálin og að auðveldast sé að skilja Norðmenn. Brink komst einnig að því að enska er mest notuð við aðstæður þar sem fólk vill halda andlitinu – eins og til dæmis varðandi vinnu þar sem fólk vill ekki verða misskilið eða misskilja aðra. Enska er talin vera skilvirkari fyrir þær sakir að hún er tungumál sem allir hafa svipað vald á, en ungir Norðurlandabúar tala ekki endilega ensku sín á milli öllum stundum. Við óformlegar félagslegar aðstæður er líklegra að þeir tali skandinavísku vegna þess að þá gefst meiri tími og næði til að leiðrétta hugsanlegan misskilning. Margir svarenda í rannsókninni halda því fram að enska geri samtölin formlegri og stífari og leiði þar með til ákveðinnar fjarlægðar frá viðmælendum. Mörg ungmenni héldu því fram að þau ættu á hættu að vera útilokuð frá félagslífi ef þau gætu ekki átt samskipti á grannmálunum. Margir kjósa því oft að tala skandinavísku, annað hvort með því að læra málið á staðnum eða með því að tala það skandinavíska tungumál sem þeir kunna best – með hugsanlegri málfarslegri aðlögun. Tungumálið er notað á þennan hátt til að mynda félagsleg tengsl, eða sem félagslegt lím.[3]Brink, E.T. (2016). Man skal bare kaste sig ud i det – En interviewundersøgelse af unge i Nordens nabosprogsforståelse i praksis.
Í stuttu máli sagt sýna þessar rannsóknir að málskilningi milli dönsku, norsku og sænsku hefur hrakað meðal ungs fólks á Norðurlöndunum, einkum milli dönsku og sænsku og að skilningur á ensku er góður.
Líkt og þessar rannsóknir fjallar þessi skýrsla um hve vel ungir Norðurlandabúar skilja skandinavísku tungumálin og ensku. Skýrslan gefur nýjustu mynd af aðstæðum og kemur sem viðbót við niðurstöður fyrri rannsókna.
Síðan skoðum við niðurstöður spurningakönnunarinnar.
Í því skyni að öðlast yfirlit um tungumálakunnáttu ungmenna á Norðurlöndum spurðum við hvaða tungumál þau töluðu og/eða skrifuðu auk þjóðtungunnar.[1]Í þessari rannsókn eru þjóðtungurnar á Norðurlöndunum: danska í Danmörku, finnska í Finnlandi, norska í Noregi, íslenska á Íslandi og sænska í Svíþjóð. Í Færeyjum er það færeyska, á Grænlandi grænlenska og á Álandseyjum er það sænska. Við vitum ekki hve gott vald svarendur hafa á tungumálunum, að því undanskildu að þau upplýsa sjálf að þau tali og/eða skrifi tungumálin. Með öðrum orðum þýðir það að hafa tungumálakunnáttu ekki í þessu samhengi að fullkomið vald sé á tungumálinu. Mynd 1 sýnir valdar niðurstöður.
Mynd 1: „Hvaða tungumál auk þjóðtungu þinnar talar þú og/eða skrifar?“
Líkt og í fyrri rannsóknarskýrslum sjáum við að meirihluti ungmenna á Norðurlöndunum (93 prósent) telur enskukunnáttu sína vera góða. Þetta á við um nánast öll Norðurlöndin. Ef við skoðum nánar tölurnar fyrir hvert land, sjáum við að aðeins fleiri ungir svarendur á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum segjast tala og/eða skrifa ensku (98 prósent), á meðan Grænland er með lægsta hlutfallið (78 prósent).
Ef við skoðum mynd 1 sjáum við að helmingur (49 prósent) ungra svarenda á Norðurlöndum svara að þau tali eitt tungumál auk ensku sem er ekki norrænt. Flestir svara á þennan hátt í Danmörku (57 prósent) og næstflestir í Svíþjóð (54 prósent).
Einn af hverjum fjórum ungum Norðurlandabúum talar eða skrifar eitt skandinavískt tungumál auk þjóðtungunnar. Ef tölurnar eru skoðaðar fyrir hvert land fyrir sig sjáum við að þetta á við einkum þau lönd þar sem þjóðtungan er ekki skandinavísk og tungumálið er kennt í skólanum. Í Finnlandi svara 72 prósent að þau hafi vald á sænsku, á meðan 97 prósent ungra Færeyinga, 71 prósent ungra Grænlendinga og 55 prósent Íslendinganna svara að þau tali eða skrifi dönsku.[1]Um það bil fimm prósent íbúa Finnlands hafa sænsku sem móðurmál. Rannsóknin greinir ekki á milli þeirra og þeirra sem hafa finnsku sem móðurmál. Í Færeyjum svarar tiltölulega stór hluti að þau skrifi eða tali einnig norsku (43 prósent).
Enn fremur sjáum við að sjö prósent ungmenna á Norðurlöndum svara að þau tali „þjóðtungu minnihluta í löndunum˝.
Það eru einungis 2 prósent ungs fólks á Norðurlöndum sem eingöngu tala þjóðtunguna. Alls talar eða skrifar rúmlega helmingur ungs fólks á Norðurlöndum þrjú tungumál eða fleiri (62 prósent), á meðan 36 prósent tala eða skrifa þjóðtunguna og eitt tungumál til viðbótar.
Af þeim sem eru fæddir erlendis eða hafa minnst annað foreldrið fætt utan Norðurlanda, gefa 75 prósent upp að þau tali eitt tungumál auk ensku sem er ekki norrænt. Það sem spilar inn í að jafn margir og raun ber vitni tali eitt tungumál auk ensku sem er ekki norrænt, er að þeir læra eitt af þessum tungumálum í skóla.
Fjöldi rannsókna hefur leitt í ljós að skilningi ungs fólks á Norðurlöndum á norsku, sænsku og dönsku hefur hrakað og það er útbreidd skoðun að margt ungt fólk á Norðurlöndum skipti yfir í ensku þegar það hittir aðra Norðurlandabúa.[1]Rannsóknir styðja þetta einnig að því er varðar Norðmenn og dönsku, sjá grein norsku málnefndarinnar Unge snakkar engelsk med danskar: https://www.sprakradet.no/Vi-og-vart/hva-skjer/Aktuelt/2019/unge-snakkar-engelsk-med-danskar/. Hver er staðan árið 2020?
Settar voru fram ólíkar fullyrðingar í könnuninni sem svarendur áttu að vera fylgjandi eða á móti. Ein spurninganna var hvort unga fólkinu fyndist auðvelt að skilja hvert skandinavísku tungumálanna. Danskir, norskir, sænskir og álenskir svarendur voru ekki spurðir hve auðvelt væri að skilja þjóðtungu viðkomandi lands. Málið snýst því um hvort unga fólkinu sjálfu finnist auðvelt að skilja tungumálin og ekki um raunverulegan málskilning. Vel getur verið að unga fólkið skilji í raun tungumálin betur eða verr en þau láta í ljós. Til dæmis sýndi rannsóknin Man skal bare kaste sig ud i det að í fyrsta skipti sem fólk kynnist tungumáli grannþjóðarinnar getur það komið mjög á óvart því unga fólkið hélt að munurinn á tungumálunum væri minni í raun. Þetta átti við um unga Norðurlandabúa sem fluttust búferlum til eins grannríkjanna til að stunda nám eða vinnu.[2]Brink, E.T., 2016. Rannsókn Christensen og Bacuin benti einnig til þess að þeir sem höfðu kynnst tungumálum grannríkja af eigin raun höfðu minni væntingar um að skilja tungumálin.[3]Christensen, R. og M. Bacuin, 2013.
Á Norðurlöndunum öllum telja 62 prósent unga fólksins að auðvelt sé að skilja norsku og sænsku, á meðan mun færri (26 prósent) telja dönsku auðskilda. Að baki meðaltalinu leynist mikill munur milli landanna. Munurinn er til kominn vegna þess að unga fólkið í hverju landanna fyrir sig hefur mjög ólíkar forsendur til að skilja skandinavísku tungumálin. Því er nauðsynlegt að skoða niðurstöðurnar eftir löndum og tungumálum, sjá mynd 2.
Mynd 2: Hlutfall ungs fólks sem er sammála því að auðvelt sé að skilja dönsku, norsku eða sænsku.
Ath.: Danskir, norskir, sænskir og álenskir svarendur voru ekki spurðir hve auðvelt væri að skilja þjóðtungu viðkomandi lands. Því er ekki hægt að finna dálka um það á myndinni.
62 prósent ungs fólks á Norðurlöndum töldu auðvelt að skilja norsku. Hæsta hlutfallið sem telur svo vera má finna á Álandseyjum (85 prósent), með Svíþjóð strax á eftir (80 prósent) og Færeyjar (78 prósent). Í Danmörku svara 67 prósent unga fólksins að norska sé auðveld. Meirihluti ungs fólks á Grænlandi og í Finnlandi telur norsku vera erfiða.
Líkt og með norsku töldu 62 prósent norrænna ungmenna að auðvelt væri að skilja sænsku. Nánast allir svarendur frá Noregi voru sammála þessari fullyrðingu (90 prósent), það er hæsta hlutfallið á Norðurlöndum. Danir, hins vegar, telja sænsku mun erfiðari. Einungis 40 prósent eru sammála því að tungumálið sé auðvelt, samanborið við 62 prósent í Finnlandi og 51 prósent í Færeyjum. Meirihluti ungs fólks á Íslandi (63 prósent) og Grænlandi (83 prósent) eru ekki sammála því að auðvelt sé að skilja sænsku.
Danska lítur út fyrir að vera það skandinavísku tungumálanna sem erfiðast er að skilja. Einungis 26 prósent á heildina á Norðurlöndum töldu auðvelt að skilja hana. Að undanskildum Færeyjum og Grænlandi, er meirihlutinn í hinum löndunum ósammála því að danska sé auðvelt tungumál. Eins og sjá má á mynd 2, svara 47 prósent ungra Norðmanna, 37 prósent Íslendinganna, 23 prósent Svíanna og 7 prósent Finnanna í rannsókninni að auðvelt sé að skilja dönsku.
Fyrri rannsóknir benda til þess að sérstök hljóðuppbygging í dönsku, með meðal annars óvenjulega marga sérhljóða og veika samhljóða, valdi því að erfitt sé að greina hvar orð byrjar og endar, og hvaða beygingarmynd er notuð. Það er þannig framburður orðanna sem veldur því að erfitt er að skilja dönsku.[1]Bleses et al. (2008). Early vocabulary development in Danish and other languages; A CDI-based comparison. Journal of child language 35:3.
Rannsóknin sýnir enn fremur að Norðmenn og Færeyingar skilja skandinavísku tungumálin best. Það styður við niðurstöður Delsing og Åkesson í rannsókn þeirra á raunverulegum málskilningi árið 2005.[2]Delsing, L.-O. og K.L. Åkesson, 2005. Djúpviðtölin úr rannsókn Brink árið 2016 styðja einnig að Norðmenn séu líklegri til að skilja grannmálin. Rannsókn Brinks sýndi að þeim norrænu svarendum sem ekki eru norskir og sem bjuggu í Noregi fannst þeir skilja betur en svarendur sem fluttu til Danmerkur og Svíþjóðar.[3]Brink, E.T., 2016.
Á meðan margt er líkt með orðaforða norsku og dönsku, þá eiga norska og sænska margt sameiginlegt í hljóðkerfinu. Það þýðir að Norðmenn hafa betri forsendur en Svíar til að skilja danskan orðaforða og betri forsendur en Danir til að skilja sænskan framburð. Danir og Svíar þurfa í auknum mæli að leggja hart að sér þegar þeir reyna að skilja tungumál hvors annars.[4]Delsing, L.-O. og K.L. Åkesson, 2005.
Vel getur verið að Norðmenn hafi góðan skandinavískan málskilning vegna þess að þeir eru vanir miklum mun á mállýskum frá heimalandinu.[5]Brink, E.T, 2016. Ein skýring á tiltölulega góðum skilningi Norðmanna á sænsku getur verið sú að margir Svíar búa í stærri borgum Noregs og að margir eru því vanir að heyra sænsku. Noregur og Svíþjóð eiga líka löng sameiginleg landamæri og margir Norðmenn ferðast til Svíþjóðar í fríum.
Færeyingar standa einnig vel að vígi varðandi skandinavískan málskilning. Það getur meðal annars verið vegna þess að færeyska á stóran hluta orðaforða síns sameiginlegan með skandinavísku tungumálunum, danska er kennd frá unga aldri og þeir eru opnir fyrir að taka upp erlend orð – þá mest úr dönsku.[6]Delsing, L.-O. og K.L. Åkesson, 2005.
Á meðan Grænlendingar skilja dönsku vel þá eiga þeir í miklum erfiðleikum með að skilja sænsku og norsku. Öfugt við Færeyingana hafa þeir tungumál sem móðurmál sem er ekki norrænt og geta því ekki stuðst við eigin orðaforða til að giska á skandinavísk orð sem eru ekki til í dönsku. Á Íslandi voru það milli 35 og 45 prósent sem fannst auðvelt að skilja norsku, sænsku og dönsku. Líkt og Færeyingar hafa Íslendingar norrænt tungumál sem móðurmál, en þeir hafa harða afstöðu gagnvart tökuorðum og læra ekki dönsku sem kennslutungumál, heldur sem erlent tungumál.[7]S.st.
Unga fólkið frá Finnlandi sem tilheyrir ekki minnihlutanum með sænsku sem móðurmál hefur verstu forsendurnar til að skilja skandinavísku tungumálin. Það talar móðurmál sem er ekki norrænt, hefur engin skandinavísk tungumál sem kennslutungumál og lærir sænsku sem erlent tungumál. Finnska er nægilega stórt tungumál til að vera sjálfu sér nægt um bókmenntir og menningu á eigin tungumáli.[8]S.st. Rannsóknin endurspeglar þetta: Af ungum Finnum töldu einungis 7 prósent að auðvelt væri að skilja dönsku og 22 prósent norsku (62 prósent töldu að auðvelt væri að skilja sænsku).
Við spurðum ungmennin hvort þau teldu að skilningur á dönsku, norsku eða sænsku væri mikilvægur hluti norræns samfélags.[9]Breytilegt var frá einu landi til annars hvaða tungumál voru tekin með í spurninguna. Á Norðurlöndunum öllum voru 66 prósent sammála því. Rannsóknin sýndi samhengi milli þessarar fullyrðingar og skilnings á skandinavísku tungumálunum. Flestir voru sammála fullyrðingunni í Noregi og Færeyjum, annars vegar 83 og hins vegar 90 prósent, og það er líka hér sem við finnum unga fólkið sem skilur skandinavísku tungumálin best.
Við spurðum unga fólkið hvaða tungumál það notaði þegar þau hittu einhvern sem talar annað skandinavískt tungumál.[10]Svarendur frá Finnlandi, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi voru spurðir hvaða tungumál þeir veldu ef þeir hittu einhvern sem talaði skandinavískt tungumál. Rétt rúmlega 60 prósent svara skandinavískt tungumál, á meðan 59 prósent segjast velja ensku. Hér var hægt að velja á milli margra svarmöguleika og það er því ákveðinn hluti sem gefur upp að þau myndu nota bæði ensku og skandinavísk tungumál. Sjá mynd 3. Rétt tæplega tveir af hverjum tíu bættu við að tungumálið sem þau veldu færi eftir aðstæðum hverju sinni (ekki gefið upp á myndinni, sjá fylgiskjal).
Mynd 3: „Hvaða tungumál notar þú aðallega þegar þú hittir einhvern sem talar annað* skandinavískt tungumál?“ Hlutfall þeirra sem svöruðu enska eða skandinavískt tungumál (hægt var að velja báða svarmöguleikana)
* „Annað“ var einungis með í spurningunni í þeim löndum þar sem þjóðtungan er skandinavískt tungumál.
Eins og myndin sýnir, hefði mun hærra hlutfall norskra ungmenna (86 prósent) en meðaltalið á Norðurlöndum hafa notað skandinavískt tungumál (oftast norsku). Þau eru einnig ólíklegust til að tala ensku. Aftur eru líkindi milli norskra og færeyskra ungmenna. Af unga fólkinu frá Færeyjum hefðu 85 prósent kosið að nota skandinavískt tungumál (einkum dönsku). Íslendingar og Finnar, en einnig ungir Danir, svara í meira mæli að þeir noti ensku.
Unga fólkið gat upplýst að þau notuðu blöndu skandinavískra tungumála. Sex prósent gerðu það á heildina og flestir í Færeyjum (35 prósent), í Danmörku (16 prósent) og á Íslandi (10 prósent). Það getur verið vegna þess að þau aðlaga tungumálið meðal annars vegna þess að þau gera ráð fyrir að erfitt sé fyrir aðra Norðurlandabúa að skilja danskan framburð.
Það lítur út fyrir að vera samhengi milli skilnings á skandinavísku tungumálunum og þess hvort unga fólkið kýs að tala ensku eða skandinavísku. Í Finnlandi og á Íslandi má finna hæsta hlutfallið sem velur ensku. Þar eru einnig tiltölulega margir sem segjast eiga í erfiðleikum með að skilja skandinavísk tungumál. Á hinn bóginn velja fæstir ensku í Noregi og Færeyjum þar sem skilningurinn á skandinavískum tungumálum er einnig bestur. Ástæða þess að tiltölulega margir ungir Danir velja ensku kann að vera vegna þess að mörgum á Norðurlöndum finnst erfitt að skilja dönsku. Það má sjá á því að einnig flestir Danir bæta við að val tungumáls fari eftir aðstæðum (38 prósent) og að tiltölulega stór hluti kýs blöndu skandinavískra tungumála (16 prósent) (sjá töflu í fylgiskjali).
Eins og nefnt var hér á undan hafa aðstæður einnig áhrif á val tungumáls. Fyrri rannsóknir sýna að enska er aðallega notuð þegar unga fólkið vill forðast misskilning eða halda andlitinu við aðstæður þar sem mikilvægt er að allir skilji boðskapinn. Skandinavíska, á hinn bóginn, er notuð þegar óskað er eftir að skapa nánari félagsleg tengsl.[1]Brink, E.T., 2016.
Við spurðum einnig hvað réði úrslitum um hvaða tungumál unga fólkið notaði hversdagslega. Mynd 4 sýnir niðurstöðuna fyrir Norðurlöndin öll (mörg svör voru möguleg).
Mynd 4: „Hvað ræður úrslitum um hvaða tungumál þú notar hversdagslega?“
Rökin sem flestir gáfu upp voru þau að tungumálið væri talað í sambandi við starf eða menntun (61 prósent) og að tungumálið væri notað af fjölskyldu og vinum (61 prósent). Svolítið minni hluti svarar að það ráðist af hve góð tök þau hafi á tungumálinu (32 prósent).
Fjölmiðlavenjur ungs fólks hafa breyst verulega á undanförnum tíu árum. Samfélagsmiðlar hafa fengið mikið rými í daglegu lífi. Við spurningunni um hvaða tungumál séu notuð á samfélagsmiðlum svara níu af hverjum tíu ungmennum að þau skrifi á þjóðtungunni, á meðan hvorki meira né minna en 63 prósent segjast skrifa á ensku (hægt var að velja báða valkostina). Niðurstöðurnar eru mjög breytilegar frá einu landi til annars. Sjá mynd 5.
Mynd 5: Hlutfall ungs fólks sem skrifar á þjóðtungu viðkomandi lands og á ensku á samfélagsmiðlum
Enska er notuð minnst af ungu fólki á Grænlandi (30 prósent) og í Noregi (45 prósent). Í Finnlandi, hins vegar, nota þrír af hverjum fjórum ensku á samfélagsmiðlum – hæsta hlutfallið á Norðurlöndum.
Fæst ungt fólk skrifar á þjóðtungunni á Grænlandi. Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar enn nánar (kemur ekki fram á myndinni), sjáum við að stór hluti kýs að skrifa á dönsku (37 prósent). Einnig í Færeyjum skrifa margir á dönsku (33 prósent). Ísland og Finnland hafa einnig ungmenni sem öðru hverju skrifa á skandinavísku tungumáli, um það bil 10 prósent. Í Finnlandi er skrifað á sænsku (þar sem um það bil fimm prósent hafa hana sem móðurmál), á meðan á Íslandi skiptist hluturinn á dönsku (6 prósent), norsku (2 prósent) og sænsku (2 prósent). Á hinum Norðurlöndunum skrifar unga fólkið aðallega á þjóðtungunni eða ensku.
Að ná til annarra og vera skilinn hefur mikil áhrif á val unga fólksins á tungumáli. Við spurningunni um hvað ræður úrslitum um hvaða tungumál eru notuð á samfélagsmiðlum og þar sem unga fólkið gat valið á milli margra svarmöguleika, svara flestir (58 prósent) að mestu skipti að eins margir og mögulegt er skilji. Tungumálið sem vinir beita skiptir einnig verulegu máli (54 prósent). Aðeins færri svara að val á tungumáli ráðist af hversu góð tök þeir hafi á tungumálinu (27 prósent), hvort tungumálið sé hluti af persónu þeirra (25 prósent) og að tungumálið sé hluti af menningu þeirra (24 prósent).
Ungir Finnar eru þeir sem í mestum mæli svara að tungumálið sem þeir nota á samfélagsmiðlum ráðist af að eins margir og mögulegt er skilji það sem skrifað er. Það stemmir vel við að meirihluti þeirra notar ensku.
Umræðan um áhrif ensku á norrænu tungumálin hefur staðið yfir lengi. Þessi rannsókn lagði fram fjórar fullyrðingar um ensku sem unga fólkið gat verið fylgjandi eða á móti. Sjá töflu 1.
Tafla 1: Hlutfall ungs fólks sem er sammála eftirfarandi fullyrðingum: | |||||||||
Fullyrðing | Norðurlönd í heild | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar |
Það er auðvelt að skilja ensku | 95% | 96% | 93% | 95% | 95% | 95% | 93% | 78% | 99% |
Stundum er einfaldara að tjá sig á ensku en á mínu eigin tungumáli | 65% | 70% | 58% | 49% | 67% | 64% | 40% | 71% | 61% |
Enska hefur mikil áhrif á móðurmál mitt | 62% | 72% | 46% | 55% | 64% | 62% | 60% | 69% | 75% |
Það er nægilegt að skilja ensku sem eina erlenda tungumálið | 57% | 49% | 54% | 38% | 58% | 64% | 28% | 46% | 53% |
Ekki þarf að koma á óvart að nánast allir svöruðu að auðvelt væri að skilja ensku. Ein skýring á góðri enskukunnáttu ungs fólks á Norðurlöndum er að tungumálið kemur snemma á skólagöngu inn í stundatöflu, að þau hlusta á ensku á netinu og í fjölmiðlum og að norrænu tungumálin taka í auknum mæli upp ensk orð og orðatiltæki.[1]Frøshaug, A.S., og U. Andreasson. (2020). Lýðræði og þátttaka í loftslagsmálum: Sömu markmið, ólíkar lausnir. NMR Analyse 2020:2 Eins og við höfum séð nota einnig mörg ungmenni ensku á samfélagsmiðlum, en það getur stuðlað að eðlilegri notkun ensku og þar með lækkað þröskuldinn fyrir notkun ensku í öðru samhengi.
Rétt rúmur helmingur ungra Norðurlandabúa er sammála því að enska hafi mikil áhrif á móðurmál þeirra og að stundum sé einfaldara að tjá sig á ensku en á eigin tungumáli. Það segir aðeins til um hversu umfangsmikil áhrifin eru og hve vel unga fólkinu gengur að tala og skilja ensku.
Um leið og unga fólkið verður fyrir miklum áhrifum af ensku, telja 84 prósent norrænna ungmenna að nauðsynlegt sé að hafa góða þekkingu á þjóðtungu lands síns til að standa sig í samfélaginu, í námi og vinnu (kemur ekki fram í töflunni). Þessu eru ungu norrænu svarendurnir almennt sammála á svæðinu öllu.
Á Norðurlöndunum öllum voru 57 prósent unga fólksins sammála því að enska nægði sem eina erlenda tungumálið, en hér er mikil munur milli landanna. Svíar eru mest sammála fullyrðingunni en Færeyingar eru minnst sammála.
Við spurðum unga fólkið um hvað væri mikilvægast að eiga samstarf um á Norðurlöndum og þau gátu nefnt eins mörg samstarfssvið og þeim sýndist. Sex prósent nefndu menningu og einungis þrjú prósent tungumál.[2]Niðurstöðurnar koma ekki fram í meðfylgjandi töflum. Sjá Frøshaug, A. og U. Andreasson, Demokrati og klimaengasjement i Norden: Felles retning, ulike løsninger (2020), sem meðal annars fjallar um hvað íbúar Norðurlanda telja mikilvægast að eiga samstarf um. Tungumál enduðu þannig í síðasta sæti af 21 samstarfssviði. Flestir nefndu loftslags- og umhverfismál sem mikilvægasta samstarfssviðið. Á sama tíma sjáum við merki þess að unga fólkið telji norrænan málskilning samt vera mikilvægan. Tveir af hverjum þremur voru nefnilega sammála um að mikilvægur liður í norrænu samfélagi væri skilningur á skandinavískum tungumálum. Það bendir til þess að málskilningur sé enn mælikvarði á sjálfsmynd í norrænu samfélagi.
Önnur norræn spurningakönnun sem var gerð 2017 sýndi að ungt fólk á Norðurlöndum telur að annað en málsamfélagið bindi Norðurlöndin böndum. Ein spurninganna var hvað svarandinn teldi vera mikilvægustu ástæðuna fyrir norrænu samstarfi. Meðal fólks á aldrinum 16 til 30 ára gáfu 38 prósent upp að það væri sameiginlegt gildismat, 28 prósent svipuð samfélagsgerð, 18 prósent svipuð menning og einungis 6 prósent að menn skildu tungumál hvers annars í miklum mæli.[3]Andreasson, U. & T. Stende, 2017. Um leið lætur margt ungt fólk í ljós í sömu rannsókn að möguleikinn á frjálsri för milli staða á Norðurlöndum sé mesti kostur norræns samstarfs.
Margar skýringar kunna að vera á því að ungt fólk leggi ekki áherslu á tungumál og menningu í norrænu samstarfi. Vel kann að vera að þau telji það skipta litlu máli að skilja hvert annað á skandinavísku tungumáli þegar jafn margir og raun ber vitni skilja ensku. Einnig kann að vera að margt ungt fólk telji að það skilji grannmálin betur en það í raun gerir og telji því enga nauðsyn bera á samstarfi um eitthvað sem gengur vandræðalaust fyrir sig. Tungumál og menning eru heldur ekki á dagskrá á sama hátt dags daglega og til dæmis umhverfis- og loftslagsmál og heilbrigðismál. Einnig kann að vera að fólk telji að tungumál missi mikilvægi sitt í norrænu samstarfi samhliða þverrandi skilningi á skandinavískum tungumálum.
Áhugavert er hvað leiðir til þess að ungt fólk lærir nýtt tungumál. Við lögðum fram fjórar fullyrðingar fyrir svarendur sem vörðuðu tungumálanám og mynd 6 sýnir hve margir voru sammála þeim.
Hvorki meira né minna en 90 prósent ungs fólks á Norðurlöndum segist vera sammála því að sjónvarp, kvikmyndir, leiklist, tónlist og bækur á öðrum tungumálum auki áhugann á að læra tungumálið. Aðeins lægra hlutfall (82 prósent) er sammála því að fjölskylda og vinir sem tala önnur tungumál veki áhuga þeirra á að læra fleiri tungumál. Unga fólkinu er mikið í mun að foreldrar ættu að kenna börnum sínum þau tungumál sem eru töluð innan fjölskyldunnar og 85 prósent voru sammála þeirri fullyrðingu.
Næstum því níu af hverjum tíu eru sammála því að einfaldasta leiðin til að læra nýtt tungumál sé að hitta fólk sem talar annað tungumál en þau sjálf. Flestir sem hafa rannsakað skilning á tungumálum grannríkja á Norðurlöndum hafa lagt áherslu á hve mikilvægt er að hitta annað fólk til að auka skilning og gjarnan á löngum tíma. Fyrrgreind rannsókn Brink frá árinu 2016 sýndi að skilningur á tungumáli grannþjóðarinnar jókst verulega á fyrstu tveimur mánuðunum sem dvalist var í grannríkinu. Finnskumælandi Finnar og Íslendingar eyddu aðeins lengri tíma í að ná skilningi (þremur til sex mánuðum).[1]Brink, E.T., 2016.
Mynd 6: Hlutfall þeirra sem voru sammála fullyrðingunum:
Eins og nefnt var í kaflanum á undan eru níu af hverjum tíu ungmennum sammála því að sjónvarp, kvikmyndir, leiklist, tónlist og bækur á öðrum tungumálum geti aukið áhugann á að læra tungumál. Því er áhugavert að vita meira um hvaða tungumál ungt fólk rekst á í menningarafurðum. Viðmælendur voru spurðir um þetta og mynd 7 sýnir hlutfallið sem gaf upp nokkra valda svarmöguleika.
Ekki þarf að koma á óvart að 96 prósent ungs fólks á Norðurlöndum hefur notið menningar á ensku á síðustu tveimur mánuðum. Helmingurinn hefur notið menningar á tungumáli auk ensku sem er ekki norrænt.
Að meðaltali hafa 46 prósent norrænna ungmenna notið menningar á öðru norrænu tungumáli en þjóðtungunni. Frekari greining sýnir að þetta er algengast í Færeyjum, Finnlandi og á Íslandi, þar sem 9 af hverjum 10 í Færeyjum, 8 af hverjum 10 í Finnlandi og 6 af hverjum 10 á Íslandi svara að þau hafi notið menningar á öðru norrænu tungumáli. Finnar rekast að mestu á sænsku (76 prósent), á meðan flestir ungir Færeyingar og Íslendingar rekast á dönsku. Hlutfallið sem hefur notið menningar á öðru norrænu tungumáli er lægst í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þar sem 41 prósent, 34 prósent og 39 prósent hafa gert það.
Skýrt samhengi er milli neyslu menningar og málskilnings. Meðal þeirra sem tala minnst eitt skandinavískt tungumál auk þjóðtungunnar eru það hvorki meira né minna en 78 prósent sem hafa notið menningar á minnst einu öðru norrænu tungumáli en þjóðtungu viðkomandi lands á síðustu tveimur mánuðum. Hvort það er neysla menningar sem leiðir til góðrar tungumálakunnáttu, eða góð tungumálakunnátta sem leiðir til neyslu menningar, því svarar rannsóknin ekki.
Unga fólkið var að því loknu spurt hvers vegna það veldi menningu á öðru norrænu tungumáli. Sex af hverjum tíu svöruðu að það væri vegna áhuga á innihaldinu, fjórir af hverjum tíu vegna skemmtanagildis og tveir af hverjum tíu vegna þess að þeir vildu læra tungumálið. Einnig voru 18 prósent sem leituðust eftir nýjum menningarlegum áhrifum.
Mynd 7. „Hvaða tungumál hefurðu rekist á í kvikmyndum, sjónvarpi, streymisþjónustu með hreyfimyndum, tölvuleikjum, leikhúsi, bókmenntum eða dagblöðum síðustu 2 mánuði?“
Í þessum kafla kynnum við fáeinar valdar niðurstöður í hverju landi, með áherslu á skilning unga fólksins á skandinavísku tungumálunum.
Rétt tæpum helmingi ungs fólks í Danmörku, 40 prósentum, finnst auðvelt að skilja sænsku. Norska er auðveldari, 67 prósentum finnst auðvelt að skilja hana. Í samanburði við hin skandinavísku löndin sjáum við að færri Dönum en Svíum finnst auðvelt að skilja norsku og mun færri Dönum en Norðmönnum finnst auðvelt að skilja sænsku. Um leið telja Danir skilning sinn á norsku og sænsku vera betri en Norðmenn og Svíar telja skilning sinn vera á dönsku.
Það að talsverður hluti Dana upplifir vandamál tengd eigin málskilningi og annarra getur útskýrt að hvorki meira né minna en 65 prósent tala ensku þegar þeir hitta einhvern sem talar annað skandinavískt tungumál, og 56 prósent dönsku (við þessari spurningu voru eins og áður gat fleiri svarmöguleikar). Hér er Danmörk frábrugðin Svíþjóð og Noregi þar sem meirihlutinn hefði valið eigið tungumál. Á sama tíma haga Danir tjáskiptaleiðum sínum eftir aðstæðum hverju sinni. Rétt tæplega 40 prósent segjast velja tungumál eftir aðstæðum og tiltölulega stór hluti, 16 prósent, hefðu valið blöndu skandinavískra tungumála.
Rannsóknin bendir til þess að enska hafi sterka stöðu í Danmörku. Hér sjáum við næst hæsta hlutfallið (70 prósent) sem svara að stundum sé auðveldara að tjá sig á ensku en á móðurmálinu. Álíka margir segja að enska hafi mikil áhrif á móðurmálið, en það er einnig tiltölulega hátt hlutfall.
Rétt tæplega tveir af hverjum tíu ungum Dönum segja að þeir tali minnihlutatungumál í landi sínu. Hér getur sterk staða þýsku í Danmörku haft sitt að segja. Helmingurinn svarar að ekki dugi til að hafa ensku sem eina erlenda tungumálið, en það er um það bil 10 prósentustigum meira en meðaltalið á Norðurlöndum. Danmörk er einnig með hæsta hlutfallið sem talar tungumál auk ensku sem er ekki norrænt (57 prósent) og tiltölulega hátt hlutfall (69 prósent) sem talar þrjú tungumál eða fleiri.
Í rannsókn okkar svara sjö af hverjum tíu ungmennum frá Finnlandi að þau hafi vald á sænsku. Hluti þeirra hefur sænsku sem móðurmál en meðal allra íbúa Finnlands á það við um nálega fimm prósent. Flestir Finnar læra sænsku sem erlent tungumál í skóla. Rannsókn okkar greinir ekki á milli þeirra sem hafa finnsku og sænsku sem móðurmál. Þó svo að margir Finnar segist tala eða skrifa sænsku, þá svara einungis 7 prósent að auðvelt sé að skilja dönsku og 22 prósent norsku. Það gæti bent til þess að vald margra ungra Finna á sænsku sé ekki nægjanlegt til að skilja dönsku og norsku. Skýr meirihluti (79 prósent) velja ensku ef þeir hitta einhvern sem talar annað skandinavískt tungumál.
Um það bil helmingur ungmenna í Finnlandi er sammála um að enska hafi mikil áhrif á móðurmál þeirra. Í samanburði við hin Norðurlöndin er þetta lágt hlutfall og skýringin gæti verið sú að Finnland fer hægar í sakirnar með að taka upp tökuorð utan frá.[1]Delsing L.-O. og K.L. Åkesson, 2005. Um leið og tiltölulega mikill munur er milli ensku og finnsku, skrifa 75 prósent ungra Finna stundum á ensku á samfélagsmiðlum, en það er talsvert yfir norræna meðaltalinu sem er 63 prósent.
Þrír af hverjum fjórum ungum Finnum hafa notið menningar á sænsku á síðustu tveimur mánuðum. Það eru flestir á Norðurlöndum á eftir Svíþjóð.
Færeyjar eru í ríkjasambandi með Danmörku og Grænlandi. Ungir Færeyingar hafa mjög góðan málskilning á skandinavísku borið saman við hin Norðurlöndin. Nánast allir tala dönsku. Átta af hverjum tíu finnst auðvelt að skilja norsku og tæpur helmingur segist hafa vald á tungumálinu. Að því er varðar sænsku finnst rétt rúmum helmingi auðvelt að skilja hana.
Góður norrænn málskilningur endurspeglast í því að 90 prósent telja að skilningur á dönsku sé mikilvægur liður í norrænu samfélagi. Til samanburðar telja 66 prósent á Norðurlöndunum öllum að mikilvægur liður í norrænu samfélagi sé skilningur á skandinavískum tungumálum. Stór hluti hefði valið skandinavískt tungumál (85 prósent) ef þeir ættu að hitta einhvern sem talar dönsku, norsku eða sænsku, en það er einnig langt yfir meðaltalinu.
Níu af hverjum tíu ungum Færeyingum hafa notið menningar á skandinavísku tungumáli á síðustu tveimur mánuðum. Algengara er að njóta menningar á dönsku, líkt og 88 prósent hafa gert, heldur en færeysku, sem 80 prósent hafa gert. Ungir Færeyingar velja fyrst og fremst menningu á öðrum norrænum tungumálum vegna skemmtanagildis (78 prósent gefa upp þessa ástæðu).
Skýr meirihluti ungra svarenda á Grænlandi gefur upp að dönsku, sem notuð er samhliða grænlensku, sé auðvelt að skilja (89 prósent). Hið gagnstæða á við um norsku og sænsku – einungis 21 prósent telur auðvelt að skilja norsku og 17 prósent sænsku.
Hlutfall ungs fólks sem einungis talar þjóðtunguna (12 prósent), er mun hærra en á Norðurlöndunum í heild sinni, þar sem það á bara við um 2 prósent. Einnig eru það margir sem nota einungis þjóðtungu landsins daglega (19 prósent borið saman við 6 prósent á Norðurlöndunum á heildina). Fleiri skrifa eða tala ensku (78 prósent) en dönsku (71 prósent).
Dönsk og fyrst og fremst ensk menning er allsráðandi meðal grænlenskra ungmenna, annars vegar 48 og hins vegar 95 prósent hafa notið hennar síðustu tvo mánuði. Lítill hluti (27 prósent) hafa notið menningar á grænlensku, en það getur verið tengt magni menningar í boði.
Grænland er það landanna með hæst hlutfall sem notar annað norrænt tungumál á samfélagsmiðlum, alls 37 prósent unga fólksins skrifar á dönsku. Danska er næst mest notaða tungumálið á samfélagsmiðlum á eftir grænlensku.
Á Íslandi telur minna en helmingur ungs fólks auðvelt að skilja skandinavísk tungumál. 45 prósent telja það eiga við um norsku, 37 prósent telja það um dönsku og 35 prósent telja það um sænsku.
Á sama tíma svara sex af hverjum tíu að þeir tali og/eða skrifi á skandinavísku tungumáli. Íslendingar læra dönsku sem erlent tungumál í skóla og 55 prósent gefa upp að þeir skrifi eða tali dönsku. Um leið telja 63 prósent ekki auðvelt að skilja dönsku. Bara rétt rúmur þriðjungur vill nota skandinavískt tungumál þegar þeir hitta einhvern sem talar dönsku, norsku eða sænsku.
Af ungum Íslendingum telja einungis 45 prósent að skilningur á dönsku sé mikilvægur liður í norrænu samfélagi. Á sama tíma eru það einungis Færeyingar sem eru meira ósammála fullyrðingunni um að enska dugi til sem eina erlenda tungumálið. Sjö af hverjum tíu ungum Íslendingum nota ensku á samfélagsmiðlum, en það er eilítið meira en meðaltal Norðurlanda.
Tiltölulega margt ungt fólk, rúmlega tveir af hverjum þremur, hefur notið menningar á öðru norrænu tungumáli en sínu eigin. Helmingurinn gefur upp að þeir hafi notið menningar á dönsku, á meðan 32 prósent hafa notið menningar á norsku og 25 prósent á sænsku. Þau hafa fyrst og fremst valið menningu á öðru norrænu tungumáli vegna skemmtanagildis og/eða áhugaverðs innihalds, en líkt og Finnar eru einnig margir Íslendingar sem segjast hafa gert það til að læra að skilja tungumálið betur (36 prósent). Borið saman við Norðurlöndin í heild sinni eru einnig mun fleiri á Íslandi sem svara að þeir njóti menningar á öðru norrænu tungumáli vegna þess að þeir hafi tengingu við hlutaðeigandi land (25 prósent).
Borið saman við hin Norðurlöndin lítur út fyrir að mörg norsk ungmenni skilji sænsku og dönsku vel. Hvorki meira né minna en níu af hverjum tíu finnst auðvelt að skilja sænsku. Rétt tæpum helmingi finnst auðvelt að skilja dönsku. Í Noregi finnum við einnig hæsta hlutfallið á Norðurlöndum sem gefur upp að þau myndu tala eigið tungumál í samskiptum við einstaklinga sem tala dönsku eða sænsku, hvorki meira né minna en átta af hverjum tíu. Einungis 36 prósent kysu ensku, borið saman við 59 prósent á Norðurlöndunum öllum. Í Noregi finnum við einnig næst lægsta hlutfallið (á eftir Grænlandi) sem skrifar á ensku á samfélagsmiðlum, 45 prósent svara þannig.
Tiltölulega hátt hlutfall (83 prósent) telur skilning á dönsku og sænsku vera mikilvægan lið í norrænu samfélagi. Á sama tíma hefur einungis einn af hverjum þremur ungum Norðmönnum svarað að þeir hafi notið menningar á öðru norrænu tungumáli á síðustu tveimur mánuðum. Það er lægsta hlutfallið á Norðurlöndum. Hér er því ekkert samhengi milli þess að telja málsamfélagið vera mikilvægt og þess að leita eftir menningu á öðrum norrænum tungumálum.
Einungis rétt rúmlega tveir af hverjum tíu ungum Svíum telja auðvelt að skilja dönsku. Það er næst lægsta hlutfallið á Norðurlöndum, á eftir Finnlandi. Á sama tíma finnst átta af hverjum tíu auðvelt að skilja norsku. Sex af hverjum tíu velja sænsku, og örlítið færri ensku, þegar þeir eiga samskipti við fólk sem talar dönsku eða norsku. Það er nálægt norræna meðaltalinu.
Sænsk ungmenni telja í meira mæli en ungmenni á hinum Norðurlöndunum að enska dugi til sem eina erlenda tungumálið. Í Svíþjóð eru 64 prósent þeirrar skoðunar.
Rétt rúmur helmingur svarar að þau tali eða skrifi eitt tungumál auk ensku sem er ekki norrænt, en það er næst hæsta hlutfallið á Norðurlöndum. Það getur verið ástæðan fyrir því að Svíþjóð hefur hæst hlutfall ungs fólks sem skrifar á einu tungumáli auk ensku sem er ekki norrænt á samfélagsmiðlum (12 prósent). Flestir Svíar skrifa sænsku á samfélagsmiðlum, en stór hluti notar einnig ensku. Opnu svörin frá ungum Svíum sýna að þeir velja tungumál sem skrifað er eftir markhópnum.
Álandseyjar eru sjálfstjórnarsvæði í Finnlandi. Opinbert tungumál Álendinga er sænska. Meirihluti telur auðvelt að skilja norsku (85 prósent), en ekki dönsku (29 prósent), og verulegur hluti talar finnsku (41 prósent). Um það bil sex af hverjum tíu tala sænsku þegar þeir hitta einstaklinga frá Noregi eða Danmörku. Rúmlega helmingur segist einnig nota ensku.
Ungmenni frá Álandseyjum eru mest sammála því að enska hafi mikil áhrif á móðurmál þeirra (75 prósent).
Á samfélagsmiðlum skrifa nánast allir á sænsku og nánast enginn á finnsku (eða einhverju öðru norrænu tungumáli). Meirihluti notar einnig ensku öðru hverju á samfélagsmiðlum (64 prósent).
Tungumálalegt og menningarlegt samfélag hefur átt sinn þátt í að binda Norðurlöndin böndum. En málumhverfið tekur stöðugum breytingum. Unga fólkið hefur alist upp í hnattvæddum heimi þar sem enska er eðlilegur hluti daglegs lífs flestra. Við spurðum rúmlega 2000 ungmenni á Norðurlöndum um tungumálakunnáttu og afstöðu þeirra til tungumála og menningarviðburða. Í þessum kafla koma ályktanir úr rannsókninni og nokkrar vangaveltur um niðurstöðurnar.
Rannsóknir á þessari öld hafa sýnt að skilningi á skandinavískum tungumálum hefur hrakað á Norðurlöndum.[1]Delsing, L.-O. og K.L. Åkesson, 2005. Niðurstöðurnar úr rannsókn okkar staðfesta að mörgu ungu fólki á Norðurlöndunum finnst tungumálin vera torskilin. Þar sem ekki eru til neinar samanburðarhæfar rannsóknir frá fyrri tíð er erfitt að segja til um hvort málskilningi hafi hrakað á undanförnum árum. En margt bendir til þess að honum hafi ekki farið fram. Rétt tæplega fjórum af hverjum tíu ungmennum á Norðurlöndum finnst erfitt að skilja norsku og sænsku, og hvorki meira né minna en sjö af hverjum tíu finnst erfitt að skilja dönsku. Að baki norræna meðaltalinu leynist mikill munur milli landanna. Einkum í Finnlandi, á Íslandi og Grænlandi segjast mörg ungmenni eiga í erfiðleikum með að skilja skandinavísku tungumálin. Sé einungis horft til skandinavísku landanna, þá er skilningi grannmálanna dönsku og sænsku sérlega ábótavant, en það hafa fyrri rannsóknir einnig leitt í ljós. Í Noregi og Færeyjum er málskilningurinn betri.
Á sama tíma og margt ungt fólk á Norðurlöndum telur skandinavísk tungumál vera torskilin, þá finnst nánast öllum vera auðvelt að skilja ensku, en það kemur heldur ekki verulega á óvart í ljósi fyrri rannsókna og útbreiðslu enskunnar. Rannsóknin sýnir að áhrif ensku eru almennt mikil. Margir telja að enska hafi mikil áhrif á móðurmál þeirra og að stundum sé auðveldara að tjá sig á ensku en á eigin tungumáli. Enska er með öðrum orðum orðinn hluti daglegs máls unga fólksins.
Í samskiptum við einstaklinga sem tala annað skandinavískt tungumál kjósa um það bil sextíu prósent að tjá sig á ensku. Það er há tala ef gert er ráð fyrir að lifandi og raunverulegt málsamfélag meðal ungs fólks byggist á að það tali skandinavísk tungumál í samskiptum sín á milli. Rannsóknin sýnir einnig að samhengi er milli málskilnings og vals á tungumáli. Í löndum þar sem hátt hlutfall telur skandinavísk tungumál vera torskilin kjósa fleiri ensku.
Þó svo að margir grípi til ensku í samskiptum við einstaklinga sem tala annað skandinavískt tungumál, þá eru það raunar aðeins fleiri sem kjósa skandinavískt tungumál (svarendur gátu valið marga svarmöguleika við þessari spurningu). Það bendir til vilja til tjáningar á skandinavískum tungumálum.
Unga fólkið virðist beita hagnýtri nálgun við val tungumáls á samfélagsmiðlum. Næstum því tveir af hverjum þremur skrifa á ensku á samfélagsmiðlum, á sama tíma og nánast allir skrifa einnig á þjóðtungu landsins. Margir upplýsa að meira máli skipti að eins margir og mögulegt er skilji það sem þau skrifa en að tungumálið sé hluti persónu og menningar þeirra. Slíka hagnýta nálgun mátti einnig sjá í rannsókn Brinks, en hún sýndi að ungt fólk kýs að nota skandinavísku þegar það vill mynda náin félagsleg tengsl, og ensku þegar mikilvægt er að skiljast, til dæmis í starfssamhengi.[2]Brink, E.T., 2016. Skandinavísk tungumál og enska geta þannig bætt hvort annað upp á þann hátt að tungumál er valið eftir aðstæðum og þörfum hverju sinni. Slík samhliða málnotkun í reynd milli ensku og skandinavísku er hugsanlega traustasta leiðin fyrir málsamfélagið til lengri tíma litið.
Menningarviðburðir á öðrum Norðurlandamálum geta stuðlað að málskilningi og bundið Norðurlöndin böndum. Því er gott að sjá að tiltölulega margir (rétt tæpur helmingur) hafði notið menningar á öðru Norðurlandamáli á síðustu tveimur mánuðum. Nánast allt unga fólkið var einnig sammála um að upplifun menningar á öðrum tungumálum jyki áhugann á að læra viðkomandi tungumál. Hins vegar voru það mjög fáir sem völdu menningu á öðrum tungumálum til þess að læra tungumálin, þeir völdu það fremur vegna þess að innihaldið var áhugavert og skemmtilegt.
Margt ungt fólk taldi einnig að kynni af tungumáli gætu aukið áhugann og þekkinguna á málinu. Flestir töldu að læra bæri það tungumál sem talað væri innan fjölskyldunnar og að einfaldasta leiðin til að læra tungumál væri að eiga samskipti við þá sem tala tungumálið. Þetta segir okkur aðeins um hvaða hvatar örva tungumálaáhuga.
Rannsóknin staðfestir ákveðna tilhneigingu sem við höfum séð um langan tíma. Skilningur ungs fólks á skandinavísku tungumálunum er mjög breytilegur milli Norðurlandanna og í sumum landanna er það hátt hlutfall sem finnst skandinavísku tungumálin vera torskilin – á meðan nánast allir skilja ensku. Niðurstöðurnar vekja upp nokkrar erfiðar spurningar. Fram til þessa hafa það nánast verið viðtekin sannindi í norrænu samstarfi að sameiginlegi málskilningurinn með gagnkvæmum skilningi milli dönsku, norsku og sænsku væri mikilvægur, og að stór hluti Norðurlanda væri bundinn böndum þessa samfélags. Hversu vel á þetta við í dag?
Ein spurning sem vaknar er hvað þessi tiltölulega slaki skilningur á grannmálunum muni þýða fyrir tengingu íbúa landanna – það sem oft nefnist norræn samþætting. Til dæmis er erfitt að sjá fyrir sér að þetta muni ekki hafa áhrif á sveigjanleikann á sameiginlegum norrænum vinnumarkaði. Þeir sem skilja eitt hinna skandinavísku tungumálanna eiga einnig auðveldara með að stunda nám á Norðurlöndum. Spurningakönnun frá 2017 sýndi að íbúar Norðurlanda töldu að einmitt möguleikinn til að geta nýtt allt svæðið til starfa, náms eða búsetu væri einn af helstu kostum norræns samstarfs.[3]Andreasson, U. og T. Stende, 2017. Hrakandi skilningur á skandinavísku tungumálunum getur dregið úr möguleikum íbúanna á ferðum innan svæðisins – og bremsað eða snúið við norrænni samþættingu.
Og hvað mun þessi skerti málskilningur þýða fyrir norræna sjálfsmynd – að fólk líti á sig sjálft sem hluta Norðurlanda? Sögulega séð hefur sameiginlegi málskilningurinn skipt miklu í þessu samhengi – það að geta skilið tungumál hvers annars, einkum á meðan enska var minna útbreidd, bundið fólk böndum yfir landamæri Norðurlanda og hvatt til norræns samstarfs á mörgum sviðum. En það gæti einnig verið að breytast. Spurningakönnunin frá 2017 sýndi að norrænt samstarf nýtur mikils stuðnings meðal íbúa Norðurlandanna. Á sama tíma töldu flestir að tungumál væru ekki helsta ástæða þess að Norðurlöndin ættu að vinna saman. Fremur var það svipuð samfélagsgerð og sameiginleg gildi sem íbúarnir töldu að tengdu okkur böndum.[4]S.st. Það lítur því ekki út fyrir að Norðurlandabúar telji að sameiginlegi málskilningurinn ráði úrslitum um norrænt samstarf – í það minnsta ekki til skemmri tíma litið. Það átti einnig við um unga fólkið. Jafnframt telja tvö af hverjum þremur ungmennum í þessari rannsókn að mikilvægur liður í norrænu samfélagi sé skilningur á skandinavískum tungumálum.
Í dag eru danska, norska og sænska vinnutungumálin í opinberu norrænu samstarfi. Flestir pólitískir fundir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs fara venjulega fram á skandinavísku með túlkun á íslensku og finnsku. Frá 2020 hafa finnska og íslenska öðlast sterkari stöðu sem vinnutungumál í Norðurlandaráði (samþykkt árið 2018).[5]Norden.org. (2018). Staða finnsku og íslensku styrkt í Norðurlandaráði. https://www.norden.org/is/news/stada-finnsku-og-islensku-styrkt-i-nordurlandaradi. Í fáeinum sérstökum tilvikum er töluð enska, til dæmis ef ekki er heppilegt að bjóða upp á túlkun. Umræðan um hvort tími sé kominn til að skipta yfir í ensku er ekki ný af nálinni. Þó svo að þessi rannsókn beinist að ungu fólki, sem er annar markhópur en flestir þeir sem taka þátt og vinna í opinberu norrænu samstarfi, þá er það unga fólkið sem smám saman á að taka við samstarfinu – og því skiptir málskilningur þess máli. Við verðum að spyrja okkur sjálf hvort norrænt samstarf ætti ekki að endurspegla ungt fólk, og hvort margt ungt fólk gæti misst áhugann á samstarfinu þegar það fer fram á tungumálum sem það skilur ekki. Smám saman eigum við á hættu að til verði A- og B-lið í norrænu samstarfi – þeir sem hafa vald á skandinavískum tungumálum, og þeir sem ekki hafa það – með þeim afleiðingum að sumir eigi erfitt með að taka þátt í formlegu samstarfi. Á sama tíma er augljóst að hluti hins sérstaka við norrænt samstarf mun hverfa ef enska verður vinnutungumálið.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa einnig ástæðu til að velta fyrir sér hvort – og þá hvernig – Norræna ráðherranefndin skuli eiga samstarf um tungumál í framtíðinni. Unga fólkið leggur ekki mikla áherslu á tungumál og menningu þegar kemur að málefnum sem á að leggja áherslu á í norrænu samstarfi. Það vill fyrst og fremst að Norðurlöndin leggi áherslu á loftslags- og umhverfismál.[6]Frøshaug, A. og U. Andreasson, 2020. Það lítur út fyrir að unga fólkið leggi mesta áherslu á samstarf um mikilvæg málefni, og að tungumálin sem notuð eru á Norðurlöndum í samskiptum við aðra Norðurlandabúa skipti minna máli.
Í þessu samhengi má nefna að erfiðleikum er bundið að biðja fólk um að forgangsraða hversu mikilvægt tungumálasamstarfið er í samanburði við beinni samstarfssvið eins og umhverfis-, loftslags- og heilbrigðismál. Í því samhengi getur sameiginlegi málskilningurinn við fyrstu sýn virst skipta minna máli að eiga samstarf um. Á sama tíma má líta á sameiginlega málskilninginn sem hvata norræns samstarfs, einnig umhverfis-, loftslags- og heilbrigðismálasamstarfs. Og eins og áður var getið telja mörg ungmenni að skilningur á skandinavískum tungumálum sé mikilvægur fyrir norrænt samfélag, en það gæti bent til þess að þau telji það vera mikilvægt, en hugsanlega ekki mikilvægt til að eiga samstarf um.
Með öðrum orðum má spyrja sig hvort sameiginlegur norrænn málskilningur hafi fyrst og fremst sitt eigið gildi sem tákn og mælikvarði á sjálfsmyndina, eða hvort gagnkvæmur málskilningur sé hvati fyrir norrænt samstarf og norræna samþættingu.
Tvær spurningar sem vakna í kjölfar niðurstaðna þessarar rannsóknar eru, í fyrsta lagi hvað það er sem getur hafa leitt til hrakandi skilnings á skandinavísku tungumálunum, og í öðru lagi hvað Norræna ráðherranefndin getur gert til að bæta skilninginn. Hér koma fáeinar tillögur að svörum:
Tilhneigingin til aukinnar útbreiðslu ensku og minni kynna Norðurlandabúa af skandinavísku málsamfélagi og tungumálum Norðurlanda, er öflug og að miklu leyti utan valdsviðs Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðherranefndin hefur hins vegar, eins og kom fram hér á undan, ýmis tæki til að auka skilning á skandinavísku tungumálunum. Spurning sem er utan ramma þessarar skýrslu, er hvaða áhrif þessar aðgerðir hafi á skilning íbúanna á skandinavískum tungumálum – og hve mikil áhrifin væru ef aðgerðirnar yrðu auknar.
Hvaða stefnu norrænt samstarf á að taka varðandi þessar spurningar er, þegar allt kemur til alls, pólitísk spurning. Næsta víst er að íbúar Norðurlanda telja að norrænt samstarf sé mikilvægt í sífellt ófriðlegri og viðsjárverðari heimi.
1. „Ég ætla að lesa upp nokkrar fullyrðingar. Vinsamlega taktu fram við hverja fullyrðingu hvort þú ert fylgjandi eða ekki.“ Taflan sýnir hlutfall þeirra sem eru sammála fullyrðingunum. | |||||||||
Fullyrðing | Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar |
Það er auðvelt að skilja dönsku | 26% | - | 7% | 37% | 47% | 23% | 98% | 89% | 29% |
Það er auðvelt að skilja norsku | 62% | 67% | 22% | 45% | - | 80% | 78% | 21% | 85% |
Það er auðvelt að skilja sænsku | 62% | 40% | 62% | 35% | 90% | - | 51% | 17% | - |
Það er auðvelt að skilja ensku | 95% | 96% | 93% | 95% | 95% | 95% | 93% | 78% | 99% |
Stundum er einfaldara að tjá sig á ensku en á mínu eigin tungumáli | 65% | 70% | 58% | 49% | 67% | 64% | 40% | 71% | 61% |
Enska hefur mikil áhrif á móðurmál mitt | 62% | 72% | 46% | 55% | 64% | 62% | 60% | 69% | 75% |
Það er nægilegt að skilja ensku sem eina erlenda tungumálið | 57% | 49% | 54% | 38% | 58% | 64% | 28% | 46% | 53% |
Þú þarft að kunna vel meirihlutatungumál í þínu landi til að geta þrifist í samfélaginu, í námi og atvinnulífi | 84% | 83% | 84% | 83% | 84% | 85% | 87% | 89% | 79% |
Sjónvarp, kvikmyndir, leikhús, tónlist og bækur á öðrum tungumálum auka áhuga á að læra mismunandi tungumál | 90% | 91% | 91% | 95% | 88% | 90% | 92% | 98% | 88% |
Einfaldast er að læra ný tungumál með því að hitta fólk sem talar tungumálið | 87% | 89% | 81% | 83% | 89% | 89% | 93% | 96% | 89% |
Foreldrum er skylt að kenna börnum sínum mismunandi tungumál sem eru hugsanlega töluð í fjölskyldunni | 85% | 79% | 89% | 68% | 88% | 85% | 90% | 95% | 89% |
Þar sem vinir og fjölskylda nota mismunandi tungumál vekur það löngun mína til að læra önnur tungumál | 82% | 86% | 68% | 84% | 84% | 85% | 90% | 93% | 93% |
Það er mikilvægt fyrir norræna samkennd að skilja dönsku/norsku/sænsku* | 66% | 59% | 66% | 45% | 83% | 61% | 90% | 66% | 66% |
* Breytilegt var frá einu landi til annars hvaða tungumál voru tekin með í spurninguna: Það voru sænska í Finnlandi, danska í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi, danska og norska í Svíþjóð, sænska og norska í Danmörku og danska og sænska í Noregi. |
2. „Hvaða tungumál auk þjóðtungu þinnar talar þú og/eða skrifar?“ | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Dönsku | 4% | - | 2% | 55% | 6% | 2% | 97% | 71% | 1% |
Finnsku | 0% | 1% | - | 1% | 0% | 0% | 0% | 0% | 41% |
Íslensku | 1% | 1% | 0% | - | 0% | 0% | 11% | 0% | 2% |
Norsku | 6% | 14% | 2% | 12% | - | 7% | 43% | 2% | 2% |
Sænsku | 19% | 11% | 72% | 10% | 12% | - | 17% | 1% | - |
Færeysku | 0% | 1% | 0% | 4% | 0% | 0% | - | 0% | 0% |
Grænlensku | 1% | 2% | 0% | 0% | 0% | 0% | 1% | - | 0% |
Ensku | 93% | 94% | 92% | 98% | 93% | 94% | 96% | 78% | 97% |
Þjóðtungu minnihluta svo sem kvensku, þýsku, meänkieli, samísku, jiddísku, rússnesku eða rómaní | 7% | 18% | 10% | 1% | 2% | 2% | 1% | 0% | 2% |
Eitt tungumál auk ensku sem er ekki norrænt | 49% | 57% | 36% | 40% | 46% | 54% | 18% | 3% | 33% |
Tala eingöngu þjóðtungu landsins | 2% | 1% | 2% | 1% | 2% | 2% | 0% | 12% | 1% |
Nettó: Tala minnst eitt skandinavískt tungumál (DK, NO, SE) | 94% | 100% | 72% | 61% | 100% | 100% | 97% | 72% | 100% |
Nettó: Tala minnst eitt skandinavískt tungumál auk síns eigin (DK, NO, SE) | 25% | 18% | 72% | 61% | 13% | 8% | 97% | 72% | 2% |
Nettó: Tala engin skandinavísk tungumál | 6% | 0% | 28% | 39% | 0% | 0% | 3% | 28% | 0% |
3. Fjöldi tungumála sem svarendur tala og/eða skrifa | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Eingöngu þjóðtungu | 2% | 1% | 2% | 1% | 2% | 2% | 0% | 12% | 1% |
Þjóðtungu og eitt tungumál að auki | 36% | 29% | 21% | 27% | 48% | 43% | 5% | 25% | 38% |
Þrjú tungumál eða fleiri | 62% | 69% | 77% | 72% | 50% | 55% | 95% | 63% | 61% |
4. „Hvað ræður úrslitum um hvaða tungumál þú notar hversdagslega?“ Mörg svör voru möguleg. | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Fjöldi viðtala | 2048 | 397 | 393 | 203 | 398 | 391 | 101 | 88 | 77 |
Hvort nota þarf tungumálið í sambandi við starf eða menntun | 61% | 78% | 60% | 60% | 52% | 57% | 56% | 41% | 54% |
Hvort fjölskylda mín og vinir nota tungumálið | 61% | 65% | 61% | 64% | 55% | 63% | 58% | 32% | 61% |
Hve góð tök ég hef á tungumálinu | 32% | 44% | 30% | 49% | 30% | 25% | 36% | 25% | 31% |
Önnur ástæða | 12% | 12% | 5% | 9% | 16% | 14% | 9% | 2% | 9% |
Nota ekkert annað tungumál en mitt eigið | 6% | 4% | 7% | 9% | 7% | 5% | 11% | 19% | 2% |
Veit ekki | 2% | 1% | 1% | 0% | 2% | 2% | 0% | 1% | 3% |
5. „Hvaða tungumál notar þú aðallega þegar þú hittir einhvern sem talar annað skandinavískt tungumál, dönsku, norsku eða sænsku*?“ Mörg svör voru möguleg. | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Dönsku | 15% | 56% | 0% | 25% | 3% | 3% | 76% | 46% | 1% |
Norsku | 21% | 6% | 0% | 5% | 83% | 7% | 19% | 0% | 4% |
Sænsku | 30% | 6% | 28% | 5% | 6% | 61% | 9% | 0% | 61% |
Blöndu af skandinavískum tungumálum | 6% | 16% | 1% | 10% | 2% | 5% | 35% | 0% | 5% |
Ensku | 59% | 65% | 79% | 82% | 36% | 57% | 54% | 58% | 54% |
Annað tungumál sem báðir tala | 4% | 10% | 0% | 8% | 0% | 4% | 1% | 0% | 2% |
Það er breytilegt/fer eftir aðstæðum | 18% | 38% | 7% | 23% | 3% | 18% | 1% | 6% | 5% |
Veit ekki | 1% | 0% | 0% | 0% | 1% | 1% | 1% | 5% | 2% |
Nettó: Nota minnst eitt skandinavískt tungumál (DK, NO, SE) | 62% | 64% | 28% | 37% | 86% | 65% | 85% | 46% | 66% |
* Danska og norska í Svíþjóð og á Álandseyjum, sænska og norska í Danmörku, sænska og danska í Noregi og danska, norska, og sænska í hinum löndunum. „Annað“ var einnig sleppt úr spurningunni í löndum þar sem þjóðtungan er ekki skandinavískt tungumál. |
6. „Hvaða tungumál hefurðu rekist á í kvikmyndum, sjónvarpi, streymisþjónustu með hreyfimyndum, tölvuleikjum, leikhúsi, bókmenntum eða dagblöðum síðustu 2 mánuði?“ Mörg svör voru möguleg. | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Dönsku | 33% | 80% | 15% | 52% | 21% | 20% | 88% | 48% | 19% |
Finnsku | 20% | 4% | 85% | 7% | 2% | 6% | 5% | 1% | 35% |
Íslensku | 5% | 2% | 4% | 85% | 3% | 4% | 12% | 0% | 5% |
Norsku | 37% | 28% | 24% | 32% | 67% | 32% | 41% | 6% | 26% |
Sænsku | 58% | 27% | 76% | 25% | 30% | 85% | 26% | 3% | 71% |
Færeysku | 1% | 2% | 0% | 3% | 0% | 0% | 80% | 0% | 0% |
Grænlensku | 1% | 3% | 1% | 0% | 0% | 0% | 0% | 27% | 0% |
Ensku | 96% | 96% | 98% | 98% | 93% | 96% | 95% | 95% | 96% |
Þjóðtungu minnihluta svo sem kvensku, þýsku, meänkieli, samísku, jiddísku, rússnesku eða rómaní | 11% | 14% | 28% | 1% | 3% | 3% | 3% | 0% | 5% |
Eitt tungumál sem er ekki norrænt að ensku undanskilinni | 50% | 57% | 55% | 47% | 35% | 53% | 20% | 2% | 48% |
Ekkert af ofannefndum | 0% | 0% | 0% | 0% | 1% | 0% | 0% | 0% | 0% |
Nettó: Minnst eitt skandinavískt tungumál (DK, NO, SE) | 82% | 85% | 77% | 63% | 72% | 88% | 90% | 48% | 75% |
Nettó: Minnst eitt norrænt tungumál | 85% | 85% | 96% | 92% | 72% | 88% | 92% | 51% | 78% |
7. Neytir menningar á minnst einu öðru norrænu tungumáli (spurning 6) | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Já | 46% | 41% | 77% | 64% | 34% | 39% | 90% | 48% | 52% |
Nei | 54% | 59% | 23% | 36% | 66% | 61% | 10% | 52% | 48% |
8. „Hvað veldur því að þú hefur valið kvikmynd, sjónvarp, streymiþjónustu með hreyfanlegar myndir, tölvuleik, leikhús, bókmenntir eða dagblöð á öðrum norrænum tungumálum?“ Fleiri svör voru möguleg. | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Af því að ég hef áhuga á efninu | 63% | 59% | 69% | 61% | 53% | 65% | 51% | 35% | 51% |
Af því að það er skemmtilegt | 42% | 56% | 40% | 68% | 38% | 35% | 78% | 44% | 34% |
Til að læra að skilja þessi tungumál | 23% | 25% | 34% | 36% | 20% | 10% | 18% | 23% | 33% |
Af því að það veitir ný menningarhrif | 18% | 30% | 16% | 34% | 16% | 14% | 18% | 4% | 18% |
Af því að ég hef tengingar við landið | 9% | 12% | 10% | 25% | 8% | 6% | 12% | 4% | 14% |
Önnur ástæða | 15% | 15% | 6% | 6% | 27% | 19% | 12% | 2% | 12% |
Tek bara hluta af kvikmynd, sjónvarpi, streymisþjónustu með hreyfimyndum, tölvuleik, leikhúsi, bókmenntum eða dagblaði á tungumáli sem ég skil | 3% | 4% | 3% | 1% | 4% | 1% | 3% | 10% | 2% |
Veit ekki | 2% | 2% | 1% | 1% | 4% | 3% | 1% | 0% | 2% |
9. „Hvaða tungumáli beitir þú þegar þú skrifar á samfélagsmiðlum? Gefðu mörg svör ef þú notar mismunandi tungumál í mismunandi samhengi.“ | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Dönsku | 22% | 93% | 0% | 6% | 0% | 0% | 33% | 37% | 0% |
Finnsku | 18% | 0% | 93% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 6% |
Íslensku | 2% | 1% | 0% | 97% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
Norsku | 19% | 2% | 0% | 2% | 91% | 1% | 3% | 0% | 0% |
Sænsku | 36% | 1% | 11% | 2% | 0% | 93% | 1% | 0% | 96% |
Færeysku | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 86% | 0% | 0% |
Grænlensku | 0% | 1% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 69% | 1% |
Ensku | 63% | 69% | 75% | 71% | 45% | 62% | 55% | 30% | 64% |
Þjóðtungu minnihluta svo sem kvensku, þýsku, meänkieli, samísku, jiddísku, rússnesku eða rómaní | 1% | 1% | 2% | 1% | 0% | 1% | 0% | 0% | 0% |
Einu tungumáli auk ensku sem er ekki norrænt | 9% | 10% | 5% | 7% | 7% | 12% | 0% | 0% | 4% |
Nota ekki samfélagsmiðla | 2% | 2% | 1% | 1% | 1% | 3% | 1% | 2% | 2 % |
Nettó: Nota minnst eitt skandinavískt tungumál (DK, NO, SE) | 76% | 93% | 11% | 9% | 91% | 93% | 33% | 37% | 96% |
Nettó: Skrifa á þjóðtungunni | 93% | 93% | 93% | 97% | 91% | 93% | 86% | 69% | 96% |
10. Skrifar á minnst einu öðru norrænu tungumáli á samfélagsmiðlum | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Já | 4% | 3% | 11% | 10% | 1% | 1% | 33% | 37% | 7% |
Nei | 96% | 97% | 89% | 90% | 99% | 99% | 67% | 63% | 93% |
11. „Hvað ræður úrslitum um hvaða tungumál þú notar á samfélagsmiðlum?“ Mörg svör voru möguleg. | |||||||||
Norðurlönd | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | Færeyjar | Grænland | Álandseyjar | |
Að eins margir og mögulegt er skilji það sem ég skrifa | 58% | 61% | 66% | 60% | 50% | 53% | 59% | 57% | 67% |
Að vinir mínir beita því | 54% | 62% | 59% | 62% | 47% | 48% | 71% | 30% | 43% |
Hve góð tök ég hef á tungumálinu | 27% | 39% | 25% | 44% | 24% | 20% | 24% | 10% | 11% |
Hvort tungumálið er hluti af persónu minni | 25% | 38% | 27% | 31% | 22% | 15% | 30% | 10% | 11% |
Hvort tungumálið er hluti af menningu minni | 24% | 39% | 21% | 36% | 21% | 17% | 35% | 17% | 9% |
Hvort það er tæknilega mögulegt | 21% | 32% | 20% | 34% | 18% | 14% | 17% | 7% | 7% |
Önnur ástæða | 14% | 15% | 6% | 13% | 18% | 17% | 5% | 3% | 10% |
Nota ekkert annað tungumál en mitt eigið | 2% | 1% | 1% | 3% | 2% | 2% | 7% | 0% | 1% |
Veit ekki | 2% | 0% | 1% | 1% | 5% | 2% | 2% | 0% | 0% |
Samanlögð niðurstaða Norðurlandanna er vegin á grundvelli íbúafjölda hvers landanna | |
Land | Hlutfall |
Svíþjóð | 35,8% |
Noregur | 20,4% |
Danmörk | 22,7% |
Finnland | 19,1% |
Ísland | 1,5% |
Álandseyjar | 0,1% |
Færeyjar | 0,2% |
Grænland | 0,2% |
Vikmörkin á heildina séð eru reiknuð á grundvelli tveggja niðurstaðna. Að hluta til með niðurstöðunni 20/80, þar sem vikmörkin reiknast 1,8 prósent, og að hluta til með niðurstöðunni 50/50, þar sem vikmörkin reiknast 2,2 prósent. Í löndunum þar sem voru tekin 400 viðtöl eru vikmörkin við niðurstöðuna 20/80 3,9 prósent, og við niðurstöðuna 50/50 eru vikmörkin 4,9 prósent. Vikmörk: | |
2092 viðtöl | 400 viðtöl |
Ef útkoman var 20/80: 1,8 prósent | Ef útkoman var 20/80: 3,9 |
Ef útkoman var 50/50: 2,2 prósent | Ef útkoman var 50/50: 4,9 |
Fjöldi viðmælenda: | |
Land | Fjöldi viðtala |
Svíþjóð | 400 |
Noregur | 405 |
Danmörk | 403 |
Finnland | 400 |
Ísland | 205 |
Álandseyjar | 78 |
Færeyjar | 101 |
Grænland | 100 |
Norræna ráðherranefndin vill leggja sitt af mörkum til þess að allir íbúar Norðurlanda séu eins vel í stakk búnir og kostur er til að mæta flókinni framtíð. Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir vinnur að þróun hæfni til framtíðar. Tungumál eru mikilvægt áherslusvið og vinnan á að auka gagnkvæman skilning milli grannríkjanna og stuðla að þekkingu á tungumálum Norðurlanda, táknmálum og tungumálum minnihlutahópa í löndunum. Börn og ungmenni gegna lykilhlutverki.
Annað mikilvægt áherslusvið er frjáls för fólks. Til grundvallar starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar varðandi frjálsa för er væntingin um að mál- og menningarskilningur auki áhugann og hvatann til að stunda nám eða vinnu í grannríki, og að þannig sé um að ræða gagnkvæmt samspil aðgerða varðandi frjálsa för og aðgerða á sviði tungumála. Unga fólkið telur einnig svo vera. Fáeinir einstaklingar úr hópi ungs fólks frá Norðurlöndunum öllum hittust á Íslandi í desember 2019 til að ræða tungumál. Að loknum þriggja daga umræðum voru skilaboðin til stjórnmálamanna skýr. Unga fólkið lýsti eftir nýrri hugsun í tungumálakennslu og fleiri tækifærum til að hittast. Þau létu mjög skýrt í ljós að tækifærið til að hitta norræna jafnaldra gæti brotið niður tungumálamúrinn. Þau lögðu til fleiri tækifæri til nemendaskipta og starfsþjálfunar í grannríkjunum sem góðan möguleika á auknum gagnkvæmum skilningi.
Styrkjaáætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar, Nordplus og Volt eiga einmitt að stuðla að aukinni frjálsri för yfir landamæri á sviði menntamála, bæði fyrir norræna nemendur í framhalds- og háskólanámi og fyrir kennara. Málefni frjálsrar farar fólks hafa verið ofarlega á dagskrá á Norðurlöndunum og eru hluti framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar um að verða samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi fyrir árið 2030.
Framtíðin kemur ekki af sjálfu sér heldur verður að skapa hana. Í ófyrirsjáanlegri veröld er norrænt samstarf kannski mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr. Miklu máli skiptir því að huga vel að þeim þáttum sem efla samkenndina.
Margir norrænu samninganna fjalla um tungumál, bæði sem tæki til að auka frjálsa för, samskipti og samþættingu á Norðurlöndum, og sem liður í að skapa samkennd, samfélag og norræna sjálfsmynd.
Helsingforssamningurinn lagði árið 1962 formlegan grundvöll norræns samstarfs. Strax á þeim tíma var litið á tungumál, mennta- og menningarmál sem þýðingamikinn hluta samstarfsins. Í 8. grein stendur að:
„Fræðsla og menntun í skólum í sérhverju Norðurlandanna skal í hæfilegum mæli taka til fræðslu í tungumálum og um menningu og almennt þjóðfélagsástand á hinum Norðurlöndunum, þar á meðal Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum.“
Þegar Norðurlöndin árið 1971 gerðu samninginn um menningarsamstarf, voru tungumál og menntamál staðfest sem lykilhluti samstarfsins í 3. grein. Þar sömdu aðilar meðal annars um að leggja áherslu á kennslu í tungumálum, menningu og þjóðfélagsháttum hinna Norðurlandanna.
Tungumálasáttmálinn frá 1987 fjallar um réttinn til að nota eitt fimm ríkismálanna í samskiptum við stjórnvöld eftir því sem þörf krefur á meðan á dvöl stendur í öðru norrænu ríki.
Tungumálayfirlýsingin (yfirlýsing um málstefnu Norðurlanda) frá 2006 orðar þau markmið sem norræn málstefna á að leitast eftir, þar á meðal að allir Norðurlandabúar geti átt samskipti sín á milli, aðallega á skandinavísku tungumáli. Ábyrgð á eftirfylgni tungumálayfirlýsingarinnar er í höndum landanna sjálfra og yfirlýsingin er ekki lagalega bindandi. Það þýðir að löggjöf og opinberar skuldbindingar ásamt forgangsröðun og fjármögnun aðgerða geta verið mismunandi í norrænu löndunum fimm, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.
Andreasson, U. og T. Stende. (2017). Dýrmætt samstarf. NMR Analyse 2017:3.
Bleses et al. (2008). Early vocabulary development in Danish and other languages; A CDI-based comparison. Journal of child language 35:3.
Brink, E.T. (2016). Man skal bare kaste sig ud i det – En interviewundersøgelse af unge i Nordens nabosprogsforståelse i praksis.
Christensen, R. og M. Bacuin. (2013). Dansk og svensk – fra nabosprog til fremmedsprog? Språk i Norden 2013: 67–82.
Delsing, L.-O. og K.L. Åkesson. (2005). Håller språket ihop Norden? En forskningsrapport om ungdomars förståelse av danska, svenska och norska. TemaNord 2005:573.
Frøshaug, A.S., og U. Andreasson. (2020). Lýðræði og þátttaka í loftslagsmálum: Sömu markmið, ólíkar lausnir. NMR Analyse 2020:2
Lärarnas Riksförbund. (2012). Nordiska språk i svenskundervisningen – en promemoria från Lärarnas Riksförbund.
Norden.org. (2018). Staða finnsku og íslensku styrkt í Norðurlandaráði. https://www.norden.org/is/news/stada-finnsku-og-islensku-styrkt-i-nordurlandaradi. Birt 31.10.18.
Sletten, I.S. (ritstj.). (2004). Nordens språk med rötter och fötter. Nord 2004:9.
Språkrådet. (2019). Unge snakkar engelsk med danskar. https://www.sprakradet.no/Vi-og-vart/hva-skjer/Aktuelt/2019/unge-snakkar-engelsk-med-danskar/. Birt 28.3.19.
Andrea Skjold Frøshaug, Truls Stende
Nord 2021:003
ISBN 978-92-893-6854-4 (PDF)
ISBN 978-92-893-6855-1 (ONLINE)
http://doi.org/10.6027/nord2021-003
© Norræna ráðherranefndin 2021
Umbrot: Mette Agger Tang
Norræna samstarfið er eitt umfangsmesta svæðissamstarf í heimi. Samstarfið byggist á legu landanna, sameiginlegri sögu þeirra og menningu. Að samstarfinu koma Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
Norræna samstarfið er pólitískt, efnahagslegt og menningarlegt og lætur muna um sig í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi. Löndin stuðla sameiginlega að öflugum Norðurlöndum í öflugri Evrópu.
Með norrænu samstarfi er hagsmuna svæðisins gætt og norræn gildi efld í hnattrænu samhengi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda og skipa þeim meðal þeirra svæða í heiminum þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.
Norræna ráðherranefndin
Nordens Hus
Ved Stranden 18
DK-1061 Kaupmannahöfn
www.norden.org
Lesa fleiri norræn rit: www.norden.org/is/utgafur
Þessi skýrsla fjallar um afstöðu ungs fólks til tungumálsins og menningar á Norðurlöndum. Hún hefur greinilega skírskotun til framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2030 þar sem eitt markmiðanna er að auka þekkingu barna og ungmenna á tungumálum og menningu nágrannalandanna.